03.02.1956
Neðri deild: 62. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1153 í B-deild Alþingistíðinda. (1227)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér þykir mjög miður, að hæstv. landbrh. (StgrSt) hefur ekki enn þá séð ástæðu til þess að koma hér til okkar í deildina til þess að gefa okkur kost á að ræða við hann eftir þá síðustu ræðu, sem hann hélt.

Það var vitanlegt, að hæstv. ráðh. gáði ekki betur að, hvað hann sagði í þeirri ræðu, en að meira að segja aðalstjórnarblaðið, sjálft Morgunblaðið, hafði eftir honum hluti um þetta mál, sem ég varð að reka ofan í hann með yfirlýsingu hér og hans eigið flokksblað, Tíminn, síðan varð að segja að hefði verið rangt haft eftir í Morgunblaðinu. Hins vegar hefur hæstv. ráðh. ekki enn þá fengizt til þess að ræða þetta mál við okkur, þannig að við gætum fengið að vita, hvað hann álítur í þessum málum, því að það virtist vera nokkuð óljóst hjá hæstv. landbrh. síðast.

Það er enn fremur mjög óþægilegt, svo að ekki sé sterkara að orði kveðið, að hv. frsm. landbn., hv. þm. Dal. (ÁB), skuli ekki heldur vera hér viðstaddur, og hefði hans brottför af landinu raunverulega ein saman verið næg ástæða til þess að bíða til þess að gefa honum tækifæri til að standa hér fyrir sínu máli, því að ég deildi mjög skarplega á hann í ræðu, sem ég hélt hér fyrir nokkrum dögum við þessa umr. þessa máls. Mér þykir það satt að segja leitt, að hann skuli ekki eiga kost á því bæði að vita, hvað ég sagði, og að bera hönd fyrir höfuð sér.

Ég sagði, að hann hefði haft í frammi ósvífnar aðdróttanir í garð starfsmanna ríkisins, og bar það saman við, hvernig við þm. annars tækjum skýrslum og áliti frá starfsmönnum ríkisins í svipuðum málum og þessu. Mér þykir það þess vegna mjög leitt, að hann skuli ekki vera kominn hér enn þá, því að það þýðir náttúrlega, að það, sem maður segir, án þess að einn þingmaður sé viðstaddur, neyðist maður venjulega til að segja aftur, þegar hann er kominn, til þess að viðkomandi þingmanni, ekki sízt þegar það er frsm. þeirrar n., sem um málið fjallar, meiri hl. hennar, gefist tækifæri til þess að bera hönd fyrir höfuð sér og vita, hvað um hann hefur verið sagt. Það er þess vegna mjög leitt, að þessir tveir hv. þm., sem áður hafa talað í þessu máli, tveir af þm. Framsfl., skuli ekki vera viðstaddir nú við áframhald umræðu málsins, því frekar sem mann hlýtur raunverulega að undra, hvort þessi stefna, sem hér kemur allt í einu fram hjá Framsfl., sé hin raunverulega stefna hans eða hvort hér sé bara um einhvern alvarlegan misskilning að ræða hjá tveim þm. Mér þykir það satt að segja ákaflega undarlegt, ef þessi stefna Framsóknar, sem fram kemur í þessu máli, að fara að leggja niður fyrirtæki ríkisins, fara að leggja niður ríkiseinkasölur til þess að afhenda einstökum aðilum, einstökum hagsmunahópum einkasölu gagnvart almenningi í staðinn, — mér þykir það ákaflega einkennilegt, ef þetta er sú vinstri stefna, sem Framsfl. núna hefur við orð að fara inn á, og ef t.d. þessi stefna að fara að leggja niður grænmetisverzlun ríkisins er árangur af margra vikna eða margra mánaða viðræðum milli miðstjórnar Alþfl. og miðstjórnar Framsfl. um að finna út nýja stefnu, sem öll vinstri öfl í landinu ættu að geta sætt sig við. Það er þess vegna ekki undarlegt, þó að okkur langi ýmsa til að fá upplýsingar um, hvort þetta sé sú vinstri stefna, sem Framsfl. þarna hefur komið sér niður á. Ég hef aðeins í einu atriði áður rekið mig á svipaðar tilhneigingar þessum hjá Framsfl., og það er í sambandi við áburðarverksmiðjumálið.

Í sambandi við áburðarverksmiðju ríkisins kom sem sé upp þessi undarlega tilhneiging hjá ráðherrum Framsfl. að vilja allt í einu svipta ríkið eignarrétti á ákaflega mikilvægu fyrirtæki, sem það hafði.

Framsfl. hafði alltaf frá upphafi lagt til, að áburðarverksmiðjan væri eign ríkisins, og það stendur meira að segja enn þá í lögunum. Hins vegar gerðist það, þegar það mál, flutt af ráðherrum Framsfl. sem stjórnarfrv., var til síðustu umr. í Ed., eftir að það hafði verið samþykkt í Nd., að einmitt einn af helztu forvígismönnum heildsalanna í Sjálfstfl. fékk fram breytingu á þessu máli á síðustu dögum þingsins í Ed., og frv. þannig breytt, samt þannig, að það var fullt af mótsögnum, var samþykkt og þá gegn mótmælum bæði Sósfl. og Alþfl., sem þá meira að segja átti forsrh., og Alþfl. hefur alltaf síðan í því máli staðið við hlið Sósfl. um að berjast fyrir því, að það væri skýrt og skorinort ákveðið, að áburðarverksmiðjan skyldi vera eign ríkisins, eins og 3. gr. laganna um hana heimilar. Hins vegar virðist Framsfl. enn sem komið er halda nokkuð fast í að reyna að gera áburðarverksmiðjuna að eign eins hlutafélags. Og mér sýnist, að sú stefna, sem hérna liggur fyrir viðvíkjandi grænmetisverzluninni, sé raunverulega af sama toga spunnin, meiningin sé að taka úr höndum ríkisins fyrirtæki, sem ríkið á og hefur mikla þýðingu almennt fyrir fólk, og reyna að setja slíkt fyrirtæki í hendurnar á ákveðnum, takmörkuðum hagsmunahóp, sem hefur aðeins sérstakra hagsmuna að gæta. Mér finnst þetta því undarlegra sem það hefur greinilega komið í ljós á ýmsum öðrum sviðum, að þar er Framsfl. ekki þessarar skoðunar. Við höfum hér í þinginu bæði nú í ár og eins í fyrra rætt um skipaútgerð ríkisins, og hvað snertir skipaútgerðina virðist Framsfl. vera á þeirri skoðun, að hún eigi að vera rekin af ríkinu, og meira að segja á þeirri skoðun, að skipaútgerðina eigi að reka fyrir neytendur, þ.e. fyrir þá, sem njóta þeirra ferðalaga, fyrir þá, sem þurfa á ferðum þeirra skipa, sem skipaútgerðin hefur, að halda, þannig að við að halda skipaútgerð ríkisins í eigu ríkisins eigi að taka tillit til landsfólksins, þeirra, sem eigi að hafa not af þessari útgerð. Hins vegar hafa komið fram tilhneigingar frá Sjálfstfl. til þess að breyta þarna um. M.ö.o.: Af því að það eru einstakir menn hér á landi, sem reka skip og jafnvel þykja græða á því, þá hafa þessir hagsmunahópar, sem eiga skip sem einkaeign, sýnt áhuga fyrir því að ná úr eigu ríkisins þeim skipum, sem skipaútgerðin rekur, og þessir hagsmunahópar hafa átt fulltrúa hér á Alþingi, sem hafa lagt til, að skipaútgerðin væri lögð niður. Framsfl. hefur hins vegar staðið á móti þessu. En hvernig samrýmist nú þessi afstaða því að vilja leggja grænmetisverzlun ríkisins niður, verzlun, sem ríkið á og er sett á stofn til þess að vinna fyrir neytendur og fyrir framleiðendur? Hvernig samrýmist það að vilja nú leggja þá stofnun niður, sem á að vera rekin með hag þjóðfélagsins í heild fyrir augum, og afhenda hana í hendur eins hluta af þeim mönnum, sem framleiða kartöflur og annað grænmeti á Íslandi? Það er nákvæmlega sama stefnan, sem kemur fram í slíku og í till. um að leggja niður skipaútgerð ríkisins og skipta t.d. skipastólnum upp á milli Eimskipafélags Íslands og annarra skipafélaga í landinu, m.ö.o. að taka bara tillit til þeirra hagsmunahópa, sem eiga skip, en ekki taka tillit til þeirra manna, sem þurfa á skipaferðum að halda. [Frh.]