06.02.1956
Neðri deild: 63. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1173 í B-deild Alþingistíðinda. (1231)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Ég verð að segja það eins og er, að mér er litt skiljanlegt það mikla kapp, sem lagt er á þetta mál og umr. um það hér í þessari hv. d. Það hefur nú verið svo að undanförnu, að þegar fundur hefur verið boðaður hér í d., hefur þetta mál að jafnaði verið á dagskrá og tekið til umr. og það meira að segja gengið svo langt, að ástæða hefur verið talin til að halda um það fund eftir venjulegan fundartíma þingsins.

Nú er mér ekki fyllilega ljóst, af hverju þessi mikli áhugi stafar, sérstaklega ekki þegar tillit er tekið til þess, að þeir, sem hafa barizt helzt fyrir þessu frv. hér, þ.e.a.s. hv. þm. Dal. og hæstv. landbrh., hafa ekki séð ástæðu til að mæta á þessum fundum, flestum þeirra, og rökræða þetta mál við þingheim, og hefur það þó ekki farið fram hjá neinum, að það er áhugi fyrir þessu máli hér hjá stjórnarandstöðunni og vilji til að rökræða það. Og ég verð eins og aðrir hv. þm. stjórnarandstöðunnar, sem hér hafa talað í þessu máli, að lýsa mikillí óánægju minni yfir því, að hæstv. landbrh. skuli ekki hafa haft tækifæri eða ástæðu til að mæta á þessum fundum. Hitt er að sjálfsögðu ljóst og skiljanlegt, að hv. þm. Dal. hefur ekki haft tilefni til að mæta hér um hríð, þar sem hann hefur verið erlendis. En engu að síður verð ég að taka undir þau ummæli, sem ýmsir hv. þm. hafa hér haft, að það sé allóviðkunnanlegt að taka þetta mál jafnoft til meðferðar og ætla því jafnmikinn tíma af fundartíma þessarar hv. d. og gert hefur verið, þar sem það var vitað, að frsm. meiri hl. landbn. gat ekki verið hér til að rökræða málið eins og vera ber og svara þeim athugasemdum, sem hv. þm. stjórnarandstöðunnar hafa hér borið fram og rökstutt, og þeim ádeilum, sem þessi hv. þm. hefur orðið fyrir vegna þeirra ummæla, sem hann hafði hér um hönd, þegar hann flutti sína stuttu framsöguræðu fyrir þessu máli.

Enda þótt málið horfi nú þannig við, að hvorugur þeirra, sem fyrir því hafa talað, sé viðstaddur, þá get ég ekki látið hjá líða að gera nokkrar athugasemdir við það, sem kom fram í ræðu hæstv. landbrh., þegar hann talaði hér fyrir þessu máli. Ég hef ekki til þessa kvatt mér hljóðs í þessu máli, fyrst og fremst vegna þess, að ég þóttist þurfa að ræða nokkur atriði við hæstv. landbrh., en hann hefur ekki verið við á fundum, og það hefur ekki verið tækifæri til þess að ræða málið við hann, og verður það eiginlega að teljast furðulegt, þar sem meiri hl. hv. landbn. flytur þetta mál að hans beiðni.

Hæstv. landbrh. sagði hér í ræðu sinni um þetta mál, m.a., að frv. þetta hefði hann beðið hv. landbn. að flytja vegna þess, að óskir um það hefðu borizt frá Stéttarsambandi bænda. Nú er að sjálfsögðu ekkert nema gott um það að segja, þegar ráðh. taka sig fram um það að fá mál flutt hér ú þingi, sem áhugi er fyrir að nái fram að ganga meðal landsmanna. En svo sérstaklega stóð á um þetta mál, að þó að hæstv. landbrh. yrði var við áhuga og þrálátar óskir frá Stéttarsambandi bænda um að flytja málið, þá var honum jafnframt ljóst, að óskirnar voru ekki jafnmiklar né háværar úr ýmsum öðrum áttum. Þar á meðal var hæstv. ráðh. það að sjálfsögðu ljóst, sem hefur verið margbent á í þessum umr., að ýmsir kaupfélagsstjórar, sem hafa mjög mikið með þessi mál að gera og hafa mikla þekkingu á þeim, þar sem þeir fást við verzlun á aðalkartöfluframleiðslusvæðum landsins, voru þessu máli síður en svo hlynntir eða meðmæltir. Þetta var hæstv. landbrh. að sjálfsögðu ljóst, þegar málið var lagt fyrir þing að þessu sinni. Honum var það sömuleiðis ljóst, að þessir sömu kaupfélagsstjórar höfðu látið í það skína eða beinlínis tekið það fram, að þeir þekktu ekki til þess í sínu nágrenni og sínu umhverfi, að neinn áhugi væri fyrir því að gera skipulagsbreytingu á sölu með kartöflur.

Það verður því ekki hjá því komizt að spyrja hæstv. landbrh., hvort það sé svo, að Framsfl. taki ekkert tillit til þess, sem kaupfélagsstjórar segja, sérstaklega ekki ef þéir hafa allmikla þekkingu á því, sem þeir eru að ræða um. Það hlyti sjálfsagt mörgum að bregða einkennilega í brún, ef það kæmi nú allt í einu upp á teningnum, að Framsfl. teldi það engu varða um viðskipti og verzlun almennings og teldi, að ekki bæri að hafa að neinu eða fara eftir því, sem kaupfélagsstjórar landsins segja í þeim efnum.

Hingað til hafa menn litið svo á, að Framsfl. gerði nokkuð með álit kaupfélagsstjóranna á þessum málum og teldi nokkru máli skipta, hvað þeir legðu til málanna í þessu sambandi. Menn hafa haft þá skoðun, að Framsfl. hefði mjög ríka tilhneigingu meira að segja til þess að telja kaupfélagsstjórana öðrum mönnum betur til þess fallna að gefa leiðbeiningar í þeim málum, er snerta verzlun almennings í landinu, og maður hefur haft tilhneigingu til þess að álíta, að Framsfl. teldi, að honum sem flokki bæri og væri hagkvæmt að beita einmitt því fyrir sig í málflutningi góðum málum til stuðnings, sem kaupfélagsstjórar segðu í því sambandi. Og ég skal játa, að ég hef verið Framsfl. að miklu leyti sammála um þessi mál að mjög verulegu leyti. Ég hef litið svo á, að góðum kaupfélagsstjórum, sem ræktu verk sitt af trúmennsku og skyldurækni og í anda samvinnustefnunnar, kaupfélagsstjórum, sem hefðu það áhugamál efst á sinni stefnuskrá að gera verzlun fólksins í landinu sem hagkvæmasta fyrir það, mætti nokkuð treysta, þeirra orðum um það, á hvern hátt og með hverju móti þetta mætti takast. Því verð ég að lýsa því yfir hér, að ég stórfurða mig á því, ef ástandið í Framsfl. er nú orðið á þann veg, að þeir vilji ekki neitt með það gera, sem kaupfélagsstjórarnir segja um verzlunarmál almennings í þessu landi, og ég verð að lýsa því einnig yfir, að mér þykir það miklu verr farið, og ég verð þá að líta svo á eða ég kemst ekki hjá því persónulega að lita svo á, að Framsfl. sé þá miklu verr staddur, miklu verr kominn, miklu lengra leiddur í íhaldsherleiðingunni en ég hafði búizt við, ef hann er nú algerlega hættur að taka nokkurt mark á orðum kaupfélagsstjóranna og treysta þeim nokkuð í sambandi við verzlunarmál almennings. Og ef þetta er svo, sem maður neyðist til að álíta með tilliti til þess, hvernig Framsfl. tekur ráðleggingum kaupfélagsstjóranna í þessum málum, þá held ég, að það sé tími til kominn að gera þessa hluti rækilega upp og leiða landsfólkinu það fyrir sjónir, á hvaða braut Framsfl. sé eiginlega og hve langt hann sé kominn á þessari braut, þegar svo sé nú komið, að hann taki meira mark á því, sem menn, ágætir menn að vísu, sem ráða yfir einu stéttarsambandi, segja um verzlunarmál almennings, menn, sem ekkert hafa þó fengizt við verzlun. Ef Framsfl. tekur meira mark á þeim en ummælum sjálfra kaupfélagsstjóranna, því, sem þeir segja um málið, þá held ég, að það sé fullkomin ástæða til þess að taka þessi mál miklu fastari tökum og gera landsmönnum grein fyrir þessu, því að það getur naumast verið, ef maður les ummæli Tímans um kaupfélögin og kaupfélagsstjóra hér á undanförnum árum og ber saman við þetta álit nú, að kaupfélagsstjórunum hafi hrakað svona mikið á þessum stutta tíma og þeir hafi orðið svo miklir fjandmenn eða andstæðingar almennings og svo umsnúnir í verzlunarmálum alþýðustéttanna, að þetta sé rétt mat hjá Framsfl. Ég get ekki búizt við því, og ég held, að það geti ekki verið. Ég held, að kaupfélagsstjórar séu þvert á móti jafnáhugasamir í dag og þeir hafa verið að undanförnu um hag almennings. Og ég held, að þeim sé jafnannt um það nú og áður fyrr að reka heilbrigða samvinnuverzlun og hugsa um kjör fólksins. Að vísu skal játað, að það hefur núna á þessum síðustu og verstu tímum margt slæðzt inn í þessa hreyfingu, sem alls ekki hefði átt að komast þangað. Og það er nú alltaf þannig, að þegar hálfgert upplausnar- og öngþveitisástand er í þjóðfélaginu, þá kemur það að sjálfsögðu víða við og viðar en æskilegt er og menn höfðu búizt við. En jafnvel þó að tillit sé nú tekið til þess, að innan samvinnuhreyfingarinnar hafi gerzt ýmsir hlutir miður æskilegir, þá held ég, að það megi þó engan veginn leggja það út á þann veg, að samvinnufélögin hafi snúizt alveg öndverð gegn hag almennings í landinu. Ég held, að það sé engan veginn rétt mat né sanngjarnt.

En ef komizt er að þeirri niðurstöðu, að kaupfélagsstjórarnir séu enn þá sömu áhugamennirnir um hag og hagkvæm viðskipti almennings og verið hefur í verzlunarmálum, þá hlýtur maður óhjákvæmilega að draga þá ályktun af ummælum þeirra í sambandi við þetta mál, sem hér liggur fyrir, að því sé bezt komið á þann veg, sem þess skipan er nú, og að öll skipulagsbreyting, þ.e.a.s. breyting, sem gerbreytti því skipulagi, sem nú ríkir, sé almenningi óhagkvæm og til tjóns. Þá hlýtur maður líka að velta því fyrir sér, hvernig á því skuli standa, að einn af ráðherrum Framsfl. berst hér um á hæl og hnakka til þess að fá fram þá breytingu á þessari verzlun, sem mönnum hlýtur að vera nokkurn veginn ljóst að yrði almenningi til óhagræðis og mundi, eins og kaupfélagsstjórarnir segja, sízt bæta það ástand, sem nú er og nú ríkir og að undanförnu hefur ríkt um þessi mál. Og það hlýtur þá að verða mönnum mikil ráðgáta, hvernig á því geti staðið, að einn af ráðh. Framsfl. skuli leggja sig fram í baráttu fyrir slíku máli. Menn hljóta að velta fyrir sér þeirri gátu, hvaða orsakir geti til þessa legið.

Hér við bætist svo það, að hæstv. landbrh. sagði í ræðu sinni um þetta mál hér um daginn, að hann væri sjálfur ekki alls kostar öruggur um, að það yrði mikil ánægja í landinu hjá almenningi, þó að málunum yrði skipað á þann veg, sem hann berst nú fyrir. Hann beinlínis sagði í ræðu sinni, að það mundi verða erfitt verk hjá framleiðsluráði landbúnaðarins að taka þessa starfsgrein að sér, og ráðherrann sagði enn fremur, að framleiðsluráðið væri ekki of sælt af því að eiga að hafa þetta hlutverk með höndum. Samt sem áður berst hann hér um með þvílíkum endemum, að hann hefur skapað sér algera sérstöðu hér í þinginu einmitt út af þessu máli. Að vísu hefur nokkuð svipað komið fram í öðru hlíðstæðu máli, þ.e.a.s. Kópavogsmálinu á þinginu í fyrra, en í þessum tveimur málum, þessum tveimur óþarfamálum, hefur þessum hæstv. ráðh. tekizt að skapa sér algera sérstöðu. Slíkt offors og ofurkapp hefur hann lagt á þessi mál, að hann hefur ekki haft taumhald á skapi sínu hér í umr. Og manni hlýtur að verða það umhugsunarefni, hvernig getur á þessu staðið, þegar það er í sambandi við þetta mál í fyrsta lagi viðurkennt og hlýtur að vera augljóst, að þetta er almenningi til óhagræðis, og í öðru lagi segir ráðherrann sjálfur: Ja, þeir, sem eiga að taka þetta að sér, verða sannarlega ekki of sælir af því. Það verður erfitt verk fyrir þá, það verður óánægja með störf þeirra. — Hvað getur þá legið til grundvallar því, að ráðh. berst svona um á hæl og hnakka til að koma þessu áfram? Vill hann framleiðsluráðinu svo illt að leggja á það mál, sem hann veit að verður óvinsælt og það verður ekki of sælt af að hafa? Er hann með þessu að fá framleiðsluráðinu í hendur eitthvert það verk, sem gæti bakað því slíkar óvinsældir, að það yrði neytt til að gefast upp og hætta starfsemi sinni? [Frh.]