09.02.1956
Neðri deild: 65. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í B-deild Alþingistíðinda. (1234)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Bergur Sigurbjörnsson [frh.]:

Herra forseti. Ég get ekki komizt hjá því að vekja athygli á því enn á ný, að þegar þetta mál kemur nú hér til umr., enn þá einu sinni, þá er hæstv. landbrh. fjarverandi eins og oftast nær áður. (Fjmrh.: Hann liggur á spítala.) Nú, það er gott að vita það. Ég þakka fyrir þær upplýsingar. Það var ekki tilkynnt hér í fundarbyrjun, svo að ég heyrði, og er þá fjarvera hans skiljanleg í þetta skipti. Hins vegar hefur mér ekki enn þá verið tilkynnt, að hann hafi legið á spítala þau önnur skipti, sem þetta mál hefur verið hér á dagskrá.

Ég skal þá taka það einnig fram, að það gleður mig að sjá, að hv. þm. Dal. er nú viðstaddur þessa umr., og vænti ég þess, að fleirum en mér getist nú kostur á því að ræða þetta mál við hann, þar sem hann virðist vera hér einn til andsvara fyrir þá, sem tekið hafa þetta mál á sína arma og borið það hér fram og ýtt svo á eftir því, að það hefur nú um langt skeið verið á dagskrá á hverjum einasta fundi í þessari d. svo að segja, ein eða tvær undantekningar, og alltaf rætt meira eða minna.

Ég hafði um daginn, rétt áður en fundi var slitið, rætt nokkuð um, að það kæmi mér einkennilega fyrir sjónir, að þeir einu þm., sem virðast hafa áhuga fyrir þessu máli í þessari hv. deild, eru frá Framsfl. Frá öðrum þm. hafa ekki heyrzt nein meðmæli fyrir þessu frv. Ég sagði, að þetta vekti furðu mína, að Framsfl. skyldi berjast fyrir skipulagsbreytingu á sölu kartaflna og grænmetis, þar sem Framsfl. hefði, eins og allir vita, átt drýgstan þátt í því að koma á því skipulagi, sem nú gildir og hefur verið hér í tvo áratugi um þessi mál. Og ég tók það fram, að ekki sízt vekti þetta furðu mína vegna þess, að þeir kaupfélagsstjórar, sem mesta þekkingu hafa á þessum málum, kaupfélagsstjórar, sem verzla á þeim svæðum, þar sem kartöflur eru mest framleiddar, hafa eindregið mælt gegn þessari skipulagsbreytingu, Ég hafði alltaf staðið í þeirri meiningu, að Framsfl. vildi taka nokkurt tillit til þess og gera nokkuð með það, sem kaupfélagsstjórar segðu um verzlunarmál og hag almennings í sambandi við verzlunarmál, og þá hafði ég allra helzt búizt við því, að Framsfl. vildi taka nokkurt tillit til umsagna kaupfélagsstjóra í þessum málum, þegar það væri vitað, að þeir kaupfélagsstjórar, sem álit sitt létu í ljós um þau, hefðu alveg sérstaklega mikla þekkingu á málunum.

Það var nú hvort tveggja, að ég bjóst við, að Framsfl. mundi af pólitískum ástæðum líta þannig á málið, og svo að hinu leytinu bjóst ég við því og hef til þessa gert fastlega ráð fyrir því, að Framsfl. meinti eitthvað með því, sem hann hefur sagt, þegar hann hefur marglýst því yfir, að hann vildi efla heilbrigða samvinnuverzlun í þessu landi og teldi þá stefnu og það, sem forvígismenn sann~innustefnunnar segja um verzlunarmál almennings, rök og rétt mál.

Mér er því óskiljanlegt nú, hvernig á því getur staðið, að Framsfl. eða nokkrir af hv. þm. Framsfl. skuli berjast fyrir því að fá þessum málum breytt þvert ofan í umsagnir þeirra kaupfélagsstjóra, sem hér hefur oft verið vitnað í og prentaðar eru í nál. minni hl. landbn. á þskj. 255.

En það er líka ýmislegt annað en þetta, sem kemur manni á óvart í sambandi við þetta mál. Hæstv. landbrh. sagði í ræðu þeirri, sem hann flutti hér um þetta mál og mun verða hv. þm. mjög minnisstæð um langan tíma af ýmsum sökum, að það væri erfitt verk að taka að sér sölu og skipulag á sölu kartafina og annars grænmetis og Stéttarsamband bænda, sem lagt er til að fái þetta í sínar hendur, væri alls ekki of sælt af þessu erfiða verki og mundi verða fyrir ýmsu misjöfnu í sambandi við það að fá þessi mál í sínar hendur. Ég lít svo á, að þessi ummæli hæstv. landbrh. séu fyllilega réttmæt, en þá finnst mér þau líka vera mjög þung og mikilvæg rök gegn því að afhenda Stéttarsambandinu þessi mál.

Það er vitað og ljóst, að það er rétt, sem hæstv. landbrh. sagði. Stéttarsambandið verður ekki of sælt af þessu verkefni. Það er nú einu sinni svo, að um þá hluti, sem snerta nauðsynjar almennings, er fólk viðkvæmt fyrir, og það er full ástæða til að ætla, að ef t.d. hér yrði einhvern tíma skortur á kartöflum og grænmeti, sem hægt væri með réttu eða röngu að kenna þeim aðila, sem hefði með innflutning og skipulag á þessum málum að gera, og þá Stéttarsambandi bænda, eftir að það hefði fengið þessi mál í sínar hendur, þá mundi þessi óánægja bitna á Stéttarsambandinu. Og hún mundi raunverulega gera meira en að bitna á Stéttarsambandinu. Það mundi vafalaust af ýmsum aðilum verða ýtt undir þessa óánægju og henni haldið á lofti, og hún mundi fasrast frá Stéttarsambandinu og yfir á bændastéttina í heild. Henni mundi verða kennt um. Hún mundi verða sökuð um það, að vegna þess að Stéttarsambandið hefði fyrst og fremst í huga hagsmuni framleiðenda í þessu sambandi, þá hefði það ekki séð um að tryggja nægilegan innflutning á kartöflum, og þannig mundi það tjón hljótast af þessu, að það yrði espað til óvildar og tortryggni og misklíðar milli neytenda í bæjunum og bændastéttarinnar í heild, og held ég, að það væri mjög illa farið að gera nokkuð, sem stuðlaði að því. Við vitum það ósköp vel, að það er fátt eins nauðsynlegt í þessu landi og að bændur og verkamenn í bæjunum læri að skilja sjónarmið hvorir annars og skilji það, að hagur þeirra og afkoma er samtvinnuð og þeim ber að standa saman, og þeir geta aldrei tryggt velgengni sína og hag, nema því aðeins að þeir standi saman. Þess vegna ber öllum mönnum, sem bera skyn á pólitíska nauðsyn þessa þjóðfélags, að vinna að því af öllu afli, að þessar tvær stéttir taki höndum saman og eyði sundrung og misklið sín á milli og breiði yfir það, sem miður hefur farið að undanförnu í þeim málum, en leggja ekki út á þá braut að stofna til hluta, sem gætu aukið á þessa misklið og tortryggni, sérstaklega ef óhlutvandir menn hefðu möguleika á því að ýta undir þessa tortryggni og misklið með ýmsu móti.

Það er í annan stað rétt hjá hæstv. landbrh., að þessi ráðstöfun mundi verða óþægileg og erfið fyrir Stéttarsambandið, ef það hefði með skipulag, dreifingu og innflutning á grænmeti að gera, vegna þess að ef svo skyldi hittast á, að einhvern tíma yrði flutt inn dálítið meira en þörf væri á, en það er ákaflega erfitt að meta og gera upp hverju sinni, hversu mikið skal flytja inn af þessum vörum, — en ef nú svo skyldi til takast, að meira yrði flutt inn en nauðsyn krefði, þannig að framleiðendur innanlands ættu erfitt með að koma út sínum vörum, þá mundi skapast óánægja í garð Stéttarsambandsins af hálfu framleiðenda. Þeir mundu telja, að Stéttarsambandið bæri ekki nægilegt skyn á þessi mál og hefði ekki nægilega árvekni í starfi sínu, og frá þeirra hálfu mundi þá koma fram óánægja og tortryggni. Þannig gæti svo farið, að Stéttarsambandið yrði fyrir óánægju, ásökunum, tortryggni og alls konar aðkasti úr tveimur áttum, þ.e.a.s. bæði frá neytendum og framleiðendum. Ég álít, að þetta eitt sé eiginlega nægilegt til þess að vera ekki að fela Stéttarsambandi bænda þessi mál, sérstaklega þar sem ekki hefur enn verið sýnt fram á það, að nokkur knýjandi nauðsyn sé til þess.

Hæstv. landbrh. mælti hér nokkur orð um einmitt þetta atriði. Það var ljóst af ræðu hans, að þetta atriði hafði sérstaklega stungið í augu. Hann hafði orðið var við þetta og veitt þessu athygli. Hann sagði um þetta nokkuð svipað og ég hef sagt hér, en hans niðurstaða var þessi: Ja, þeir um það. Stéttarsambandið um það. Fulltrúarnir í Stéttarsambandi bænda um það, hvort þeir vilja taka þessa óánægju og allt, sem henni fylgir, á sínar herðar eða ekki. — En þannig má Alþingi ekki hugsa, á slíkar röksemdir má Alþingi ekki fallast, því að þetta eru engar röksemdir. Þetta er það, sem kallað er falsröksemdir.

Að sjálfsögðu er engin ástæða til að stofna til þess, að Stéttarsamband bænda verði fyrir óþarfri og ástæðulausri tortryggni og óánægju. Ég segi: Það er engin ástæða til þess fyrir Alþingi að stofna til þess, þvert á móti. Það hefur ekki komið neitt það fram í sambandi við núverandi fyrirkomulag á sölu og dreifingu á kartöflum og grænmeti, sem gerir það óumflýjanlega nauðsyn að gera skipulagsbreytingu á þessum málum. Það hafa engin rök verið flutt hér á Alþingi fyrir því, að þetta sé algerlega óumflýjanleg nauðsyn, þvert á móti. Þeir, sem hafa reynt að rökstyðja þá breytingu, sem hér er lagt til að gerð verði, hafa borið fram rök gegn máli sínu, en ekki með því. En ef svo væri, sem ekki er, að hér væru uppi einhverjar þær raddir og einhver þau rök, sem gætu sannfært menn um, að það væri óhjákvæmilegt að gera skipulagsbreytingu í þessum efnum, að leggja niður grænmetisverzlun ríkisins, sem hefur ein haft þessi mál til meðferðar, þá ætti að sjálfsögðu að vega og meta það, hvers konar breytingar kæmu þá til greina. Það er ljóst, og það hljóta allir að skilja, að það gætu að sjálfsögðu komið fleiri möguleikar til greina í þeim efnum en hér er um að ræða.

Lítum fyrst á þann möguleika, sem margir mundu vafalaust koma fyrst auga á, en það er að gefa þessa verzlun algerlega frjálsa, hætta að skipta sér af henni, láta hana lönd og leið, láta það ráðast, hverjir flyttu inn kartöflur og hvað mikið, hvort of mikið eða of lítið væri flutt inn af þeim á hverjum tíma, segjum bara sem svo: Ja, markaðurinn hlýtur að afmarka það með þessa vöru og hann hlýtur að geta stjórnað henni eins og hveiti, rúgmjöli og öðrum matvörum. — Ég efast ekki um, að innan Sjálfstfl. væri hljómgrunnur fyrir þessari leið. Ekki ætla ég að mæla með henni.

Næst hlyti svo að koma til umtals sú leið að fela þeim, sem mestra hagsmuna hafa að gæta í þessu sambandi, þessa verzlun, skipulag þessarar verzlunar um sölu og dreifingu og innflutning á kartöflum. En þeir, sem mestra hagsmuna hafa hér að gæta, stærsti hópurinn, eru neytendur í landinu. Og ég er raunar hissa á því, að framsóknarmenn, sem berjast fyrir þessu máli, skyldu ekki fara inn á þá leið og leggja til, að hún yrði farin í gegnum kaupfélögin. Það hefði mér fundizt eðillegast. Við vitum, að hér er um tvo hópa að ræða, sem hafa hagsmuna að gæta.

Annar hópurinn er neytendur. Það er stærsti hópurinn, og hagsmunir neytenda í þessu sambandi eru langsamlega yfirgripsmestir og mikilvægastir. Það var því eðlilegast, ef átti að fara að gera skipulagsbreytingu á þessum málum, að þessum hóp væru fengin þessi mál í hendur í gegnum samtök sín, kaupfélög og pöntunarfélög. Hvers vegna leggur Framsfl., sem alltaf þykist hafa barizt fyrir kaupfélögunum og treyst þeim og trúað og alltaf hefur haldið því fram, að kaupfélögin mundu tryggja bezt hag neytenda, — hvers vegna leggur hann ekki til, að kaupfélögunum verði fengin þessi mál í hendur, skipulag þeirra og eftirlit með þeim? Hvers vegna berst hann ekki fyrir því, að kaupfélögin fái að tryggja það og sjá til þess, að hagur neytenda sé ekki fyrir borð borinn, þegar það er jafnframt vitað, að kaupfélögin líta á það sem aðra æðstu skyldu sína að tryggja hag framleiðenda engu síður en neytenda? Var þessum málum þá ekki bezt borgið í höndum kaupfélaganna, ef átti á annað borð að fara að gera skipulagsbreytingu á þeim?

En svo er hinn hópurinn, sem auðvitað verður að viðurkenna og sjálfsagt er að viðurkenna að hefur hagsmuna að gæta í þessu sambandi, og það eru framleiðendur. En sá hópur er bara klofinn í tvo allóskylda aðila. Og ef menn nú komast að þeirri niðurstöðu, að það þyrfti að gera skipulagsbreytingu á þessum málum, en þó væri ekki unnt að gefa verzlun með þessa vöru frjálsa og ekki heldur mögulegt að afhenda kaupfélögunum eftirlit með þessu og umsjón, þá hlytu þó leiðir enn að greinast um tvo möguleika, vegna þess að framleiðendur eru skiptir í tvo hópa. Ef menn vildu láta sanngirni ráða og réttsýni, þá hlytu menn að leggja til, að stærri hópnum af þessum tveimur yrðu fengin þessi mál í hendur. En hver er stærri hópurinn? Leggja þeir menn, sem nú berjast fyrir þessu máli, það til, að stærri hópnum verði falin þessi mál? Eru þeir þeim megin, sem réttlæti og sanngirni er? Nei, ekki aldeilis. Stærri hópurinn er hópur framleiðenda í kaupstöðum og kauptúnum. Það er sannað mál og hefur verið margsannað hér í þessum umr. En þessir herrar, sem berjast nú fyrir skipulagsbreytingu á þessum málum, leggja ekki til, að þessu fólki eða samtökum þess verði falið að sjá um þessi mál. Þeir munu svara því til, að þetta fólk sé samtakalaust og skipulagslaust. Það má vel vera. En það var a.m.k. innan handar að gefa þessu fólki kost á að mynda sín samtök um þetta mesta hagsmunamál sitt, en það hefur ekki verið gert.

Nei, þeir framsóknarmenn, sem fyrir þessu máli berjast, velja síðustu leiðina, þá leið, sem engin rök mæla með að sé farin, þá leið, sem ég vil segja að a.m.k. fremur lítil sanngirni og fremur lítið réttlæti mæli með að sé farin, þá leið að afhenda minnsta hagsmunahópnum, sem um er að ræða í þessu sambandi, algert einræði yfir þessu, yfir meðferð um sölu og dreifingu þessara vara. Þannig stendur Framsfl. uppi. Þannig berst hann, þannig er hans réttlæti, þannig er hans sanngirni. Það má ekki afhenda neytendum, sem eru stærsti hópurinn og hefur mestra hagsmuna að gæta, þessi mál í gegnum kaupfélögin, þó að vitað sé, að kaupfélögin telja sér jafnskylt að tryggja hag framleiðenda og neytenda í þessu sambandi. Maður skyldi þó ætla, að Framsfl. hefði einhvern tíma talið sér standa það næst að koma með slíka till. Hefur það allt verið hræsni og beinn uppspuni, sem Framsfl. hefur sagt um afstöðu sína til samvinnustefnu og samvinnufélaga að undanförnu? Maður hlýtur að fara að spyrja slíkra spurninga.

En þegar maður hugleiðir þessi mál og sér, hve Framsfl. hefur slæman málstað í þessu efni, hve algerlega rök hans eru í andstöðu við heilbrigða skynsemi, réttlæti og sanngirni, þá hlýtur maður að fara að velta því fyrir sér, hvort það geti aðeins verið í þessu eina máli, sem þannig er ástatt. Er það eiginlega hugsanlegt? Er ekki miklu sennilegra, að þannig gæti ástandið verið hjá Framsfl. í miklu fleiri málum en þessu og þá alveg sérstaklega í skyldum málum þessu? Það stendur nefnilega svo á, að hér inn á þing hafa verið flutt mál, sem eru alger hliðstæða þessa máls, sem hér liggur fyrir. Hér hafa verið fluttar till. um að leggja niður ríkisfyrirtæki, ríkisstofnanir, sem við höfum hingað til talið að hefðu verið settar á stofn í þágu almennings og með heill almennings fyrir augum, ríkisfyrirtæki, sem Framsfl. barðist fyrir að koma á fót, alveg á sama hátt og grænmetisverzluninni og í sama tilgangi, að því er þá var sagt.

Framsfl. hefur talið okkur trú um og rökstutt það hér á undanförnum þingum, að þessar stofnanir, sem eru alveg hliðstæðar grænmetisverzluninni, eins og skipaútgerðin og ferðaskrifstofan, væru góðar stofnanir og það væri illt verk að leggja þessar stofnanir niður. En þegar við sjáum rök framsóknarmanna og hvernig þeir berjast fyrir því að leggja niður grænmetisverzlunina, þá hljótum við að fara að hugsa sem svo: Ja, fyrst Framsfl. getur borið á borð fyrir okkur svona rangt mál snertandi grænmetisverzlunina, er hann þá ekki með jafnröng rök í vörn sinni fyrir skipaútgerð og ferðaskrifstofu? Er það nú ekki alveg ljóst orðið, að það, sem tryggir bezt hag almennings, sé að halda grænmetisverzluninni, en leggja niður skipaútgerð og ferðaskrifstofuna? Þannig hlýtur maður að álykta „analógískt“ a.m.k., og ég held, að það sé kominn tími til þess, sé full ástæða fyrir stjórnarandstöðuna að taka þessi mál til alvarlegrar og rækilegrar athugunar. Ég held, að stjórnarandstaðan verði að fara að gera það upp við sig í eitt skipti fyrir öll, ef það á að fara að ganga hér til verks og skera niður fyrirtæki, sem stofnuð hafa verið með almenningsheill fyrir augum í þessu landi, að láta þá allt draslið „rúlla“, taka það allt á einu bretti, hætta að veita Framsókn aðstoð gegn íhaldinu í því að vernda skipaútgerðina og ferðaskrifstofuna. Og það væri hægt að ganga lengra. Sjálfstfl. væri vafalaust til með að afnema áfengisverzlun ríkisins og selja áfengi í hvaða verzlun sem er um allan bæ og láta kaupmenn og einstaklinga hirða gróðann. Það er vei til athugunar líka. Ef á annað borð á að fara að gera þetta þjóðfélag vitlaust, þá er bezt að það sé gert rækilega. Það þýðir ekkert að vera að gera þetta í smápörtum. Ég held, að Framsfl. ætti að gera sér fulla grein fyrir því, að menn hljóta að fara að beita hér öðrum aðferðum en þeir hafa gert að undanförnu, ef hann ætlar að haga sér eins og þetta mál ber vitni um.

En það er nú ekki aðeins það, að öll rök þessara tveggja framsóknarmanna, sem hér hafa talað fyrir þessu máli, séu jafnendemisleg og ég hef hér rakið stuttlega, heldur er allur málflutningur þeirra í þessu sambandi á einn veg.

Það var bent á það hér af öðrum en mér í upphafi þessarar umræðu, að hér væri verið að gefa hættulegt fordæmi með því að afhenda þeim hluta framleiðenda, sem framleiðir minni hlutann af kartöflum landsmanna, alger yfirráð yfir allri kartöfluframleiðslunni, einnig meiri hlutans, sem þeir framleiða ekki, og það var bent á það með mjög skýrum rökum, að þetta gæti dregið dilk á eftir sér og haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, þetta væri sem sagt mjög hættulegt fordæmi. Þá kom hæstv. landbrh. hér upp í ræðustólinn og sagðist ekki skilja, að þetta gæti verið neitt hættulegt fordæmi. Hann sagði þau spaklegu orð, að sér væri ekki kunnugt um, að þessi háttur væri neins staður hafður á í þjóðfélaginu um nokkurn hlut og þess vegna gæti þetta ekki verið hættulegt fordæmi. Nú skildi að sjálfsögðu enginn hið rökræna samhengi í þessum orðum ráðherrans, en það hefur síðar komið í ljós, að það var ekki við betra að búast. Skynsemin var ekki meiri, það var ekki af meiru að taka. Svona hlaut málflutningurinn að vera eftir málefninu. Þegar verið er að skapa fordæmi, þá skilja þessir menn ekki, að það sé fordæmi, sem þeir eru að skapa, og halda, að það sé ekki fordæmi, af því að ekkert annað hliðstætt sé til.

Margt fleira þessu líkt mætti að sjálfsögðu tilfæra hér. Ég nenni ekki að elta ólar við það. En fyrir utan málflutninginn er líka handbragðið á þessu öllu saman, frv. sjálft og frágangur þess, alveg nákvæmlega í sama dúr, nákvæmlega sama endileysan. Þetta hefur nú verið rakið hér allýtarlega og sérstaklega af hv. 3. landsk. þm., og skal ég ekki fara neitt út í það. Hann hefur sýnt fram á það, hvernig frv. er, hvernig orðalagið er á því, hvernig gengið er frá því, t.d. þar sem talað er um að selja hér stórar eignir, sem grænmetisverzlun ríkisins á. Það er ekki talað um, hverjum á að selja né fyrir hvað. Það má alveg eins selja þetta fyrir eina krónu eins og tvær krónur eða þrjár milljónir. Það er alls ekki gert ráð fyrir því, að Stéttarsamband bænda, sem hefur ekkert rúman fjárhag, þar sem því er ekki lagt neitt fé nema það, sem það hefur af afurðum bænda ofur lítið til starfsemi sinnar, - það er alls ekki gert ráð fyrir því, að það geti keypt þessar eignir, sem grænmetisverzlunin á, á því verði, sem þær yrðu metnar í dag. Þess vegna mætti raunverulega hugsa sér, að það ætti bara að afhenda þessar eignir fyrir einhvern smápening.

En þá hlytu menn nú að fara a.m.k. að fá ástæðu til að líta ýmsum augum á þá ráðstöfun. Þessar eignir grænmetisverzlunar ríkisins eru byggðar upp fyrir almannafé, og það virðist nokkuð einkennilegt, ef það á að fara að afhenda samtökum, þó að það séu samtök nokkurra manna, þessar eignir fyrir sama og ekki neitt, gefa þeim þær kannske. Og allt er frv. á þessa bók lært og eiginlega sýnilegt, að nefndarmenn, sem hafa dregizt út í að flytja þetta fyrir tilmæli hæstv. landbrh., hafa haft einhverja óbeit á málinu. Það hlýtur að vera. Annars hefðu þeir ekki getað gengið svona frá því.

Ég hef nú rakið það í örfáum orðum, hvernig öll rök mæla gegn samþykkt þessa frv., líka það, sem þeir hafa sagt, sem hafa verið að berjast fyrir því, það hefur allt mælt gegn því einnig. Og þá hljóta menn að spyrja: Hvernig stendur þá á því, að verið er að ýta þessu máli hér fram og það með slíku ofurkappi, að maður hefur ekki stundlegan frið fyrir því? Það er tek;ið fyrir á hverjum fundi, og það eru tveggja og þriggja tíma umr. um málið af hálfu stjórnarandstöðunnar, en flm. láta ekki sjá sig, þeir fást ekki til að rökræða málið. Hvernig stendur nú á öllu þessu ofurkappi? Ég skal játa, að um það veit ég ekkert. Ég get að sjálfsögðu eins og allir aðrir reynt að mynda mér einhverjar skoðanir á því. Það hljóta að liggja einhverjar ástæður til þess arna. Það hefur enginn fundið upp á þessu aðeins að gamni sínu. Varla held ég, að mönnum hafi dottið þetta í hug af þeirri ástæðu einni, að það hefur verið skrifuð heilmikil biblía, anzi skemmtileg, um þessi mál, af manni með ákaflega finan embættistitil, M.B.A. eða eitthvað svoleiðis, gott ef það eru ekki fleiri stafir í titlinum. Ég held, að það geti varla verið ástæða til þess, að menn fari að þuma þessu máli hér áleiðis þing eftir þing og fund eftir fund. Það hljóta að vera einhverjar veigameiri ástæður fyrir hendi. Það er alveg áreiðanlegt, að ef tekið er tillit til þess, hve málið er veikt frá rökrænu sjónarmiði og frá sjónarmiði heilbrigðrar skynsemi, þá getur ekki annað verið en að eitthvað búi á bak við og það eitthvað meira en lítið.

Mér verður það á að hugsa sem svo, hvort það geti nú ekki verið, að aldarandinn sé hér að verki. Ég skal játa, að mér er vel kunnugt um það, að þeir menn, sem nú ráða málefnum Stéttarsambands bænda, eru miklir ágætismenn, grandvarir og réttsýnir menn. En illur aldarandi getur spillt hinum beztu mönnum, og við vitum, hvernig umhorfs er hér í viðskiptalífi Reykjavíkur. Menn, sem eru hér langdvölum í Rvík, eins og þeir, sem ráða í Stéttarsambandi bænda, eiga það á hættu, hvort sem þeir vilja eða vilja ekki, að sýkjast af þessum anda, að sýkjast af þeirri spillingu, sem hér ræður ríkjum í dag. Það er enginn efi á því, að þeir eru svo skarpskyggnir, þeir menn, sem ráða málefnum í Stéttarsambandi bænda, að þeir hafa komið auga á það, hvernig þeir menn í ýmsum öðrum atvinnugreinum, t.d. fiskeinokuninni, hafa komið ár sinni fyrir borð, sem hafa smeygt puttunum inn í hringrás þeirrar framleiðslu og hafa valdhafana að baki sér. Þeir hafa séð, að þar velta stórar fúlgur, og þar er ekki mikið eftirlit með, hvort allt er heiðarlega fengið eða ekki, og þetta hefur áhrif. Það er ekkert eins smitandi eins og svona hlutir. Það er enginn sjúkdómur jafnhættulegur einu þjóðfélagi eins og þetta. Þarna liggur hættan, sem getur tortímt heilum þjóðum, en ekki í einhverjum pestum. Við erum alveg öruggir fyrir þeim, en hér er mikil og geigvænleg hætta, og hún er þeim mun meiri sem fleiri heiðarlegir og grandvarir menn sýkjast, því að það verður til þess, að almenningur fer að líta svo á, að hið spillta viðskiptasiðferði sé hið eðlilega og sjálfsagða, alveg sérstaklega þegar heiðarlegir menn, sem allir vissu að voru svo, eru komnir út í það. Ég óttast, að þannig sé þessum málum háttað. Ég játa, að ég veit það ekki, en ég óttast það. Og eitthvað er það áreiðanlega, þegar jafnmikið er þrýst á um þessi mál og raun ber vitni. En ef svo væri, ef ótti minn hefði við rök að styðjast, þá hefði Alþingi sannarlega ástæðu til að koma í veg fyrir, að þetta mál næði fram að ganga. Menn munu segja: Ekki er nú þetta líkt fiskeinokunarhringunum, heldur er nú þetta umfangsminna en þeir. — Vissulega. En menn taka ekki alla höndina í einu, einn og einn fingur; þannig er byrjað. Smátt fyrst, færa sig svo upp á skaftið, það er aðferðin. Og ef Alþingi ætlar að vera á verði í þessum efnum, eins og því ber skylda til, þá ber því líka að hindra fyrst það smáa, til þess að það stóra fylgi ekki í kjölfarið.

Mér er kunnugt um það, að Stéttarsamband bænda hefur um nokkur ár haft jarðhúsin hér í Reykjavík og leigt þau út og haft af þessu laglegar tekjur. Það skyldi þó ekki vera, að þetta hafi orðið til þess, að þeir komu auga á frekari aðgerðir með kartöflur en aðeins að leigja almenningi hólf til að geyma þær í. Ég veit það ekki, en ég óttast það. Og alveg sérstaklega óttast ég það, þegar þeir menn, sem hafa barizt hér fyrir þessu máli, flytja mál sitt á þann hátt, sem þeir hafa gert.

Hv. 2. þm. Reykv. og hv. 3. landsk. þm. hafa talað hér tvisvar í þessari umr., og mér er ekki ljóst, hvort þeim gefst nú tækifæri í þessari umr. til þess að flytja hv. þm. DaI. þau orð, sem þeir hafa til hans talað að honum fjarverandi. En það vil ég láta hv. þm. Dal. vita, að það voru ófögur orð og það ekki að ástæðulausu. Og ég vil flytja honum þau skilaboð, ef þessir tveir hv. þm. skyldu ekki fá tækifæri til að gera það sjálfir, að þeir hafa vítt mjög ummæli þau, sem hann viðhafði hér við umr. þessa máls um það, að það væri nú ekki mikið mark takandi á því, sem þeir menn, sem hafa staðið fyrir grænmetisverzlun ríkisins og stjórnað þessum málum um 20 ára skeið, segðu um þá breytingu, sem hér er á borð borin, vegna þess að þessir menn væru aðeins að verja starf sitt. Þeir hafa ekki að ástæðulausu, hv. 2. þm. Reykv. og hv. 3. landsk., vítt þessi orð, jafnframt því sem þeir hafa hent á, hvílík fjarstæða þau eru. Þeir hafa bent á það, að Sjálfstfl. hefði meira að segja aldrei dottið í hug að halda svona nokkru fram í umræðum hér á þingi um skipaútgerð ríkisins og ferðaskrifstofuna, enda þótt í báðum þeim málum hafi legið hér fyrir umsagnir frá þeim mönnum, sem þar höfðu mest að segja, höfðu stjórnað þeim fyrirtækjum um langan aldur, ummæli, sem lögðu gegn þeim till., sem hér höfðu verið bornar fram um að leggja þessi fyrirtæki niður. Það var tekið sem framlag í málið og rök gegn því að leggja fyrirtækið niður. En nú ætlar Framsfl. að snúa þessu við og segja: Þetta eru meðmæli með því að leggja fyrirtækið niður. Þessir menn eru bara að verja atvinnu sína og tekjur sínar og lífsafkomu. Það er ekkert mark takandi á því, sem þeir segja. Og ég vil, jafnframt því sem ég flyt hv. þm. Dal. þessi ummæli, taka undir þau ásamt hv. 2. þm. Reykv. og hv. 3. landsk. þm. Ef svona á að fara að tala hér á þingi, þá skulum við minnast þess næst, þegar borin verður fram till. um að leggja skipaútgerðina niður. (Gripið fram í: Hún liggur fyrir.) Jæja, hún liggur fyrir. Það grípur einhver fram í og segir, að hún liggi fyrir. Já, þá skulum við minnast þess nú þegar. Nei, ég held, að framsóknarmönnunum, sem hafa verið að berjast fyrir þessu máli, væri nú sæmst að fara til forseta og biðja hann að taka það aldrei á dagskrá framar og hreyfa því aldrei hér á þingi. Þeir hafa þegar hlotið nógan vansa af því. Mér er ekki svo illa við Framsfl., að ég vilji, að hann eyðileggi sig á máli eins og þessu. Og þó vil ég umfram allt, að hér á þingi sé tekið eitthvert skynsamlegt tillit til þess, sem landsmönnum er fyrir beztu, eða a.m.k. til þess, sem flestum landsmönnum er fyrir beztu, en ekki að Alþingi sé beitt fyrir æki fárra manna.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta mál að sinni, enda hef ég möguleika til að tala aftur við þessa umr. og mun vissulega gera það, ef tilefni gefst til. Þess vegna held ég, að ég láti máli mínu nú lokið.