16.02.1956
Neðri deild: 71. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í B-deild Alþingistíðinda. (1249)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Einar Olgeirsson:

Þar kom loks að því, að hv. þm. Dal. (ÁB) tók til máls, og það var nú mjög ánægjulegt. Batnandi manni er bezt að lifa, og hann er nú búinn að þrauka svo lengi við að þegja, að það var mjög ánægjulegt, að hann skyldi loks taka til máls. Hv. þm. Dal. vildi þó ekki ganga svo hreinskilnislega til verks að taka aftur þau ummæli, sem hann hafði hér við 2. umr. málsins um starfsmenn grænmetisverzlunar ríkisins, heldur vildi hann segja, að ég hefði snúið út úr þeim. Ég hef hér handritið af hans ræðu, og ég skal lofa honum að heyra. Hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég get tekið það fram nú, eins og ég tók fram þegar við 1. umr. þessa máls, að það er út af fyrir sig ekki nema eðlilegt, að þeir starfsmenn, sem eru við stofnun sem grænmetisverzlunina, séu undir þessum kringumstæðum mótfallnir því, að stofnunin sé lögð niður. Slíkt mundu allir gert hafa, svo að út af fyrir sig sé ég ekki, að það sé nein brýn ástæða til að taka tillit til þess, þar sem það væri hins vegar óeðlilegt, ef starfsmenn við stofnunina æsktu þess, að hún væri lögð niður.“

Sér ekki hv. þm. Dal., að hann afgr. þarna alla röksemdafærslu, mjög ýtarlega röksemdafærslu frá stjórn grænmetisverzlunar ríkisins, með því að slá því fram, að þessir menn, sem þarna starfi, séu bara á móti því, að stofnunin sé lögð niður, vegna þess, að þeir starfi sjálfir við hana? M.ö.o.: Það á að eyðileggja öll skynsamleg rök þessara manna á þeirri einu forsendu, að þeir séu slíkir eiginhagsmunamenn, að þeir vilji viðhalda stofnun, sem sé orðin skaðleg eða á eftir tímanum, vegna þess að þeir hafi eiginhagsmuni af því.

Ég held, að hv. þm. eigi að vera það alveg ljóst, að ef hann heldur, að hann geti afgr. rökstutt álit eins manns, sem er forstöðumaður eins ríkisfyrirtækis, á þennan hátt, þá í fyrsta lagi veður hann í villu og svíma um innræti þeirra manna, sem stjórna yfirleitt stofnunum ríkisins, og í öðru lagi væri hann með þessu alveg að eyðileggja allar aðrar svipaðar röksemdaleiðslur frá öðrum stjórnendum annarra ríkisfyrirtækja, sem hann þó áður hefur viljað taka tillit til. Við skulum segja, þegar slíkt álit hefur komið frá stjórn skipaútgerðar ríkisins eða hennar forstjóra eða ferðaskrifstofu ríkisins, þá hefur hv. þm. viljað taka tillit til þess, að það, sem þessir menn, sem stjórnuðu þessu ríkisfyrirtæki, segðu, væri mjög mikið að marka, vegna þess að þeir þekktu þetta vel, þeir væru búnir að stjórna þessu í áratugi, svo að þeir væru þess vegna menn til þess að dæma um það.

Hv. þm. Dal. hefði þess vegna aðeins átt að biðjast afsökunar á því að hafa haft þessi ummæli og segja, að þetta hafi verið órétt af sér og að hann sjái eftir því. Það var það elna, sem hann gat gert, en ekki að vera að reyna að neinn leyti að náa okkur því um nasir, sem höfum mælt gegn þessu frv., að við værum að snúa út úr hjá honum.

Þá kom hv. þm. með það, að það væri nú ekki verið að ganga á rétt framleiðenda að kartöflum í bæjunum, þeir gætu jafnvel verið meðlimir í búnaðarfélagi. Þó þyrftu þeir til þess, skildist mér, að hafa helzt það mikil jarðarafnot, að það væri einn hektari. Ég vil nú spyrja: Mundi hv. þm. vera með því, að allir kartöfluframleiðendur í öllum kaupstöðum landsins ættu að fara inn í Búnaðarfélagið, jafnvel þó að einhverjir þeirra hefðu ekki svo stórar kartöfluekrur, að það væri heill hektari? Ég held, að það ætti bara alls ekki að vera meiningin. Ég held, að það væri alls ekki rétt, að menn, sem þó fyrst og fremst lifa af öðru en því að framleiða þetta og framleiða þetta sem eins konar aukavinnu hjá sér, færu að flykkjast inn í samtök bænda og meira eða minna að reyna að fara kannske að stjórna þar í krafti þess, að þeir væru fjölmennari, þó að þeir hefðu alls ekki þeirra hagsmuna að gæta, sem bændurnir hafa í sínum samtökum. Ég held þess vegna, að hvorugur okkar mundi óska eftir því, að kartöfluframleiðendur í kaupstöðum færu að flykkjast inn í búnaðarfélögin, jafnvel þó að búnaðarfélagslögin yrðu rýmkuð þannig, að allir kartöfluframleiðendur gætu farið inn í þau.

Ég held, að þetta sanni, að kartöfluframleiðslan sjálf sé verkefni, sé starf, sem á að vera utan við þá löggjöf, sem annars gildir viðvíkjandi búnaðarfélögunum. Ég vil minna hv. þm. á, að hér í Reykjavík, — ég skal ekki fullyrða það, ef það verður leiðrétt hjá mér, þá tek ég því mjög gjarnan, — en ég hef heyrt fullyrt, að upp undir 30% af kartöflunum, sem framleiddar eru, séu framleiddar hér í þessu umdæmi. Það kann að vera eitthvað minna, en þó að það væri minna, þá er það ekkert smáræði, og það er þess vegna ekkert að undra, þó að við t.d. þm. Reykv. álítum alveg óeðlilegt að fara að taka það vald og þann rétt af þeim, sem hér búa, að geta haft, ef þeir vilja, þau afskipti af hlutunum, sem þeim nú er gefið, eða geta gegnum ríkið notið þess réttar, sem aðrir borgarar ríkisins hafa. Hv. þm. segir, að auðvitað geti neytendur borið fram sínar óskir, geti borið fram sínar óskir viðvíkjandi því, ef eitthvað mætti betur fara. En það er nú svo undarlegt í þjóðfélaginu, að síðustu 100 árin hefur þróunin verið sú hérna hjá okkur Íslendingum, að við höfum verið að reyna að komast burt frá því að þurfa bara að bera fram óskir við valdhafana, óskir við þá, sem ráða, og í staðinn höfum við viljað fá að ráða þessu nokkuð sjálfir. Það var hér áður fyrr, að við t.d. eða þeir, sem áttu sæti hér á Alþ., urðu að láta sér nægja að bera fram óskir við Danakonung og landsmenn að láta sér nægja að samþykkja bænaskrár. Það, sem menn voru að berjast fyrir, var að fá vald, var að fá að ráða, fá að ákveða. Og það er ekki að vita, að meiri hluti kartöfluframleiðenda í landinn sætti sig við það að vera aftur settur á það stig, að einn hluti af kartöfluframleiðendunum, ein ákveðin samtök þar, fái ákveðin réttindi og ákveðið vald, hinir fái aðeins réttinn til þess að bera fram óskir. Það er ekki meiningin. Það, sem nú er, að báðir eru jafnréttháir gagnvart grænmetisverzlun ríkisins, neytendur og framleiðendur, er hlutfall, sem við viljum ekki að breytist. Við viljum ekki, að það breytist þannig, að tæpur helmingur framleiðendanna og þeirra samtök, hversu góð sem þau annars eru á sínum sviðum, fái ein valdið í þessum efnum og að hinir megi bara bera fram óskir. Þetta er það, sem er nú inntakíð í því, sem heitir lýðræði og hefur verið barizt fyrir hér síðustu hundrað árin og hv. þm. jafnvel segist nú vera fylgjandi, held ég, stundum.

Hv. þm. Dal. segir svo, að við þurfum ekkert að bera kvíðboga fyrir því, að það verði ekki hugsað um hag neytenda. Ég býst við, að einvaldskonungarnir hafi kannske stundum svarað Íslendingum eitthvað svipað hér áður fyrr, þegar þeir voru að fara fram á ýmis réttindi: Þið þurfið ekkert að vera að heimta þessi réttindi, ég mun hugsa um hag ykkar. — En það er bara þetta, sem fólkið krefst, að geta fengið að ráða því sjálft, hvað gert er á þessum sviðum, en ekki að þurfa að biðja einhverja aðra og sækja undir þá.

Hv. þm. Dal. segir það undarlegt, að við skulum ekki vilja virða frjálsan vilja fólksins, sem hafi sameinazt í búnaðarfélögunum. Við virðum frjálsan vilja fólksins, sem hefur sameinazt í búnaðarfélögunum, en við viljum, að vilji fólksins, sem hefur sameinazt í ýmsum félögum í kaupstöðum, sé líka virtur. Og grænmetisverzlun ríkisins og lagaákvæði um, að hún skuli jafnt vinna neytendum sem framleiðendum í hag, byggist á því, að það eigi að virða vilja beggja þessara aðila.

Það er þess vegna ekki til neins að koma hérna til okkar og segja: Ja, þið eruð nú félagshyggjumenn, þið standið að verkalýðsfélagsskap og ýmsu slíku, og þess vegna eigið þið að skilja, að bændur vilji líka hafa félagsskap. — Það skiljum við. Við skiljum það, að bændur vilji hafa félagsskap. En við viljum ekki veita þeim félagsskap einkaréttindi á kostnað annarra manna, á kostnað annarra framleiðenda í þessu tilfelli, alveg eins og ég veit, að hv. þm. er undir niðri á móti því að gefa t.d. Kveldúlfi og Alliance, sem einu sinni voru stórir saltfisksútflytjendur, einkaréttindi gagnvart öllum öðrum saltfisksútflytjendum. Eins erum við á móti því að gefa helmingnum af núverandi kartöfluframleiðendum landsins einkaréttindi á móti öllum öðrum kartöfluframleiðendum og móti öllum neytendum.

Hv. þm. Dal. má ekki fara alveg svona almennt út í hlutina og tala um, að við förum inn á það svið að virða ekki rétt bænda, þegar við tölum hér á mótí þessari till., sem einhvern tíma hefur verið gerð samþykkt um á stéttarsambandsþingi bænda. Ég efast um, að hag bænda og valdi þeirra til að taka ákvarðanir á sinum sviðum væri eins langt komið og nú er, ef ekki einmitt verkalýðsfélagsskapurinn í landinu hefði virt þann rétt og viljað hjálpa bændum til þess að virða þann rétt, eins og hann hefur gert.

Ég get sagt hv. þm. Dal., að löngu áður en hann kom hér á þing, átti ég ásamt einum flokksbróður hans, sem enn situr hér á þingi, þátt í því að samþ. þau lagaákvæði, sem síðan urðu um haustið grundvöllurinn að sexmannanefndarálitinu, sem var gert með samkomulagi milli fulltrúa verkalýðssamtakanna og launþeganna annars vegar og bændanna hins vegar, og verkalýðssamtökin og þeirra fulltrúar sýndu það, að þeir kunnu þar að meta rétt bænda og þeirra vald. En alveg eins og við viljum meta rétt bænda og þeirra samtaka og stuðla að því, að bændum sem öðrum vinnandi mönnum sé tryggt sannvirði fyrir þeirra vöru og sannvirði fyrir þeirra vinnu, eins viljum við auðvitað og það í fullri hreinskilni segja við ákveðin bændasamtök, ef okkur finnst þau seilast of langt: Þetta megið þið ekki gera. Þetta er fyrir utan ykkar verksvið. Ef þið gerið þetta, þá eruð þið að misnota vald.

Hv. þm. Dal. má treysta því, að við ekki aðeins skiljum félagshyggju bænda og fögnum henni og viljum vinna með þeim og viljum tryggja þeirra rétt, heldur viljum við gera það sama viðvíkjandi fólkinu í kaupstöðunum, og þegar þetta tvennt rekst á, þegar helmingur allra kartaflna í landinu er framleiddur í sveitum og þegar helmingurinn er framleiddur í kaupstöðum, þá segjum við: Þeir, sem í sveitum búa, eiga ekki að fá einkaréttindi til þess að ráða um verzlun þessa máls, við höfum heldur ríkið sjálft með þess grænmetisverzlun ríkisins, sem sé þá fyrirskipað að taka jafnt tillit ekki aðeins til allra framleiðenda, heldur og til neytenda.

Það hefur verið alveg sérstaklega af hálfu okkar sósialista unnið að því að hindra, að bilið væri breikkað á milli bænda og neytenda í bæjunum, en þetta, sem hérna er lagt til, er einmitt til þess að reyna að breikka það bil.

Hv. þm. spurði okkur, hvort við treystum ekki frjálsum félagsskap. Jú, einmitt, við treystum frjálsum félagsskap. Þess vegna erum við á móti því að veita einum hluta af framleiðendum, t.d. í þessu tilfelli á kartöflum, einkaréttindi, og það, sem ég bauð honum hér upp á, ef hann vildi endilega gera frjálsan félagsskap um þetta allt saman, var að gera þessa framleiðslu algerlega frjálsa. Og ef hann treystir frjálsum félagsskap, þá væri eðlilegast fyrir hann að fallast á, ef hann vill ómögulega hafa grænmetisverzlun ríkisins, að hafa þá enga ríkiseinokun á þessu á neinn hátt og að ríkið gefi ekki heldur einstökum samtökum einokun, en það er þarna um annað að ræða. Hann treystir ekki þeim almenna, frjálsa félagsskap, hvorkí bænda né neytenda. Hann vill fá einokun í hendur ákveðins hluta af framleiðendunum, og það er það, sem við erum á móti. Hann reyndi að færa þau rök fyrir því, að hann sagði, að það væri ekki nokkur efi á því, að framleiðsluráð landbúnaðarins eða samtök bænda mundu fara vel með þetta vald. Þetta er nú náttúrlega alltaf ákaflega þægilegt að segja. Það mundu líklega vera margir aðilar hérna í landinu, sem mundu segja það við okkur, ef þeir færu fram á einkasölu, við skulum segja t.d., að við notum dæmið, sem ég tók hér, ef klæðaverksmiðjurnar í landinu færu fram á að fá einkainnflutning á öllum klæðnaði til landsins, þær einar réðu því, hverjir flyttu inn föt til landsins, og þær mundu segja við okkur hér í þinginu: Ykkur er alveg óhætt að gefa okkur þetta vald; við förum vei með þetta. — Og það mundi kannske enginn okkar efast um, að þessir menn, sem framleiddu föt, væru allra beztu menn, og við treystum þeim í hvívetna mjög vei. En mundum við nú samt sem áður gefa þeim þessi einkaréttindi? Ég býst við, að hv. þm. mundi ekki vera með því. Sannleikurinn er, að meira að segja það að gefa einkavald gagnvart öðrum og jafnvel gegn öðrum getur beinlínis orðið til þess að spilla manni og spilla samtökum, sem voru góð fyrir. Og mér fannst það nú meira að segja koma fram hjá hæstv. landbrh., að hann væri meira að segja hræddur við slíkt, hann sagði, að það væri alls ekki gaman að því fyrir bændasamtökin að fá þetta vald í hendur, það væri raunverulega ekki eftirsóknarvert, vegna þess að það kynni að verða gagnrýnt nokkuð harðlega. Af hverju var hann hræddur um, að það yrði kannske gagnrýnt? M.a. vegna þess, að því yrði annaðhvort dróttað að mönnum, að þeir væru að misnota svona einkavald, þegar þeir hefðu það, eða þá hins vegar, að menn freistuðust máske til þess, þegar menn hefðu svona vald, að misnota það. Og ég vil bara skjóta því fram til hv. þm. Dal., að hann setji sig í þá aðstöðu, eftir að bændasamtökin, eins og hann segir, eða vissir trúnaðarmenn þeirra hefðu fengið einkaréttindi á að flytja inn kartöflur til landsins og svo kæmi það ástand hér í Reykjavík, að það vantaði kartöflur, og þess væri krafizt af almenningi; að það væru fluttar inn kartöflur, og það væri ekki gert, — ég er hræddur um, að viðkomandi bændasamtök fengju kannske einmitt mörg óþægileg orð að heyra. Ég er hræddur um einmitt, að það sé miklu hentugra, ef um svona á að deila, að það sé hlutlaus stofnun, sem þarna á að vinna og tekur þá á móti gagnrýninni, stofnun, sem samkvæmt lögum sé ætlað að vinna bæði fyrir neytendur og framleiðendur, og stofnun, sem er skipuð af ríkinu sjálfu og meira að segja samkvæmt hennar lögum bæði Alþýðusambandið og Samband íslenzkra samvinnufélaga eiga að geta haft áhrif á. — [Fundarhlé].

Herra forseti. Ég hafði þar komið máli mínu í viðræðu minni við hv. þm. Dal., að ég hafði reynt að sýna honum fram á, að það væri ekki nóg, að þeir, sem bæðu um eitthvert vald, segðu: Ég skal fara vel með það. — Það er enn fremur nauðsynlegt að gera sér það ljóst, að þegar um það að veita einhverjum vald er að ræða, þá ræða menn það mál mjög raunsætt, treysta ekki bara fögrum orðum og loforðum, heldur vilja hafa tryggingu fyrir, að því valdi sé beitt á þann hátt, sem lofað er.

Þó að framleiðsluráð landbúnaðarins segi nú, að það skuli fara vel með þetta vald, sem það fer fram á, þá eru þau orð, jafnvel þótt við metum mennina mikils, ekki nægileg til þess að fá okkur til þess að vera með því að veita þeim slíkt vald, vegna þess að með því væri verið að veita þeim vald yfir öðrum einstaklingum, í fyrsta lagi yfir öllum neytendum landsins, í öðru lagi yfir þeim meiri hluta framleiðenda, sem er í kaupstöðunum. Þetta vald viljum við ekki gefa þeim, vegna þess að við álítum, að þeir eigi ekki meiri rétt á slíku valdi en þeir, sem framleiða t.d. kartöflur í kaupstöðunum. Þess vegna viljum við halda því formi, sem nú er, að grænmetisverzlun ríkisins, þ.e. ríkið sjálft, annist þessa verzlun og sé fyrirlagt, eins og nú er, að hugsa jafnt um framleiðendur sem neytendur og jafnt um alla framleiðendur.

Því bregður stundum fyrir, að hv. þm., sem fylgja fast fram máli eins og þessu hér, hættir við að slá fram hinum og þessum slagorðum til þess að reyna að rökstyðja sitt mál og sérstaklega gruna aðra eða segjast gruna aðra um illkvittni eða eitthvað þess háttar. T.d. sagði hv. þm. Dal. hér áðan, að við værum að reyna að læða inn tortryggni til framleiðsluráðs landbúnaðarins og til samtaka bænda með því að vilja ekki gefa þeim þetta vald. Það mætti segja slíkt í hvert skipti. Ég veit ekki, hvort t.d. bændasamtökin hefðu nokkra ástæðu til þess að vera að tortryggja t.d. Alþýðusamband Íslands, bændasamtökin hafi ekkert nema gott af því að segja. Það hefur stuðlað að því að tryggja bændasamtökunum réttlátt verð fyrir þeirra afurðir. En skyldu nú bændasamtökin þar fyrir vilja afhenda stjórn Alþýðusambands Íslands einkavald, ekki aðeins til þess að ákveða verð á mjólk og kjöti, heldur líka til þess að hafa alla sölu á hendi, eða fela þeim, sem það vill, að hafa alla sölu á hendi á mjólk og kjöti í landinu, svo að ég tali ekki um kartöflur? Ég er hræddur um, að það þættu frekar lítilmótleg rök hjá okkur, ef við segðum þá: Ja, þið megið alveg treysta stjórn Alþýðusambands Íslands, hún fer vel með svona vald. Þið skuluð bara gefa henni það. — Og við segðum, þegar t.d. þm. Framsóknarflokksins væru að mótmæla slíku: Eruð þið að reyna að læða inn tortryggni til verkamannasamtakanna?

Nei, við förum ekki fram á neitt slíkt, að t.d. Alþýðusambandi Íslands sé gefinn einkaréttur til að ráða öllu verði á mjólk og kjöti, vegna þess að við álítum eðlilegt, að bændur og þeirra samtök yrðu dálítið tortryggnir, jafnvel þó að þeir hefðu ekki reynt slík samtök að neinu nema góðu. Það er nú einu sinni svo, að það vill hver búa að sínu, það vill hver sjálfur hafa valdið yfir sinni afurð, og eins og bændur vilja gjarnan hafa valdið yfir mjólk og kjöti, eins vill verkalýðurinn ráða sölu síns vinnuafls, og þannig er eðlilegt, að þetta sé. Það, sem svo þarf að reyna að stuðla að, er, að það fari vel á með þessum samtökum, sem hvert á sinu sviði reyna að framfylgja hagsmunum sinna umbjóðenda, og sjá til þess, að þau seilist ekki of langt inn á svið annarra og séu afmörkuð á sínum sviðum. Þess vegna var það einmitt í samráði við verkalýðssamtökin, sem bændur upphaflega fengu í gegn bæði það söluskipulag, sem nú ríkir á þeirra afurðum, og þá ákvörðun um verðlagningu þeirra afurða, sem núna ríkir. Hins vegar er það alveg augljóst mál, að með því að fara inn á þetta svið, sem hér er lagt til, er verið að seilast lengra en góðu hófi gegnir. Og fyrst hv. þm. Dal., góður framsóknarmaður eins og hann er, er að saka okkur um vissa tortryggni, sem erum á móti frv., má ég þá spyrja hann eða hans stól, ef hann ætlar ekki að koma aftur: Hvað segir hann þá, ef mætir framsóknarmenn, ef miðstjórnarmeðlimir úr Framsfl. væru eitthvað svipaðs sinnis og við sósialistar og fleiri stjórnarandstæðingar, sem hér hafa talað?

Við höfum áður vitnað í þá umsögn, sem núverandi forstjóri grænmetisverzlunar ríkisins hetur látið n. í té, og sá maður er sjálfur einn miðstjórnarmaður Framsfl. Hv. þm. Dal. sagði, að honum væri málið skylt, hann væri einmitt sá sérfræðingur, sem ríkið hefur trúað bezt á þessu sviði og forusta Framsóknar gefur hvað bezt vottorð. En þá skal ég taka annan mann, sem líka er miðstjórnarmeðlimur Framsfl., og lofa hv. þm. Dal. að heyra ofur lítið af því, sem hann segir. Sá maður er einn af stofnendum Framsfl., ég held, að hann hafi setið áratugi í stjórn Framsfl., og var einn af þeim, sem stofnuðu Tímann á sínum tíma, það er Vigfús Guðmundsson. Hann skrifar um grænmetisverzlunina nokkrar athugasemdir, sem birtust í Þjóðviljanum þann 14. febr., fyrir tveim dögum. Hann gerir þá athugasemd á eftir, að hann hafi ætlað að birta ofanritaða grein í Tímanum, en skilji, að það sé erfitt fyrir ritstjóra hans að ljá henni rúm, þar sem Tíminn er gefinn út af Framsóknarflokknum. Hann biður þess vegna Þjóðviljann fyrir greinina. Það er eins og hann hafi haft einhverja hugmynd um, að heldur mundi nú verða amazt við því að fá þetta mál rætt í Tímanum, þ.e. málgagni lýðræðisins og málfrelsisins, frá ýmsum sjónarmiðum.

Ég skal aðeins minnast á nokkur atriði af því, sem Vigfús Guðmundsson segir í þessari grein sinni, með leyfi hæstv. forseta. Hann segir í fyrstu athugasemdinni:

„Lagafrumvarp þetta sýnist vera hið mesta hrákasmiði, fyrir utan þann boðskap, er það flytur.“ Síðan fer hann að telja upp allar fjólurnar í því. Svo segir hann í annarri athugasemd sinni: „Með hinni nýju ráðgerðu skipun virðist eftir frv. að dæma, að enginn eigi að eiga hina nýju verzlun, sem kenna á þó við landbúnaðinn og ráðgert er að taki við af grænmetisverzlun ríkisins að einhverju leyti, og sýnist það í meira lagi fálmkennt.“ Hann heldur áfram, gagnrýnir í þriðja lagi yfirstjórn framleiðsluráðsins á þessu, í fjórða lagi, hvernig frv. gerir ráð fyrir, að landbrn. fái einkarétt til þess að flytja inn kartöflur, og spyr, hvort landbrh. eigi sjálfur að standa í þessu, segir svo áfram, með leyfi hæstv. forseta: „Frekar á hann sennilega að hafa einveldi um að fela einhverjum aðila öðrum þetta starf, en úr því að hann á að verða hinn mikli einvaldi í þessum etnum, er hætt við, að hann vilji fela starfið þeim, sem honum þykir vænst um. T.d. væri freistandi fyrir sjálfstæðismenn að fela vinum sínum heildsölunum innflutninginn og verzlunina.“ Svona athugasemdir gera gamlir og reyndir framsóknarmenn úr miðstjórn Framsfl., sem hugsa það lengra um þessi mál, að það sé ekki alltaf víst, að landbrh. sé t.d. framsóknarmaður. Þá segir hann í fimmtu athugasemd sinni, með leyfi hæstv. forseta:

„Unnandi bændum alls góðs, sýnist það þó nokkuð hart og óréttlátt í garð allra þeirra mörgu kaupstaðabúa, sem framleiða um helming allra þeirra garðávaxta, sem koma til sölu í landinu, að þeir verði háðir yfirstjórn framleiðsluráðs með vöru sína, þar sem þeir eiga ekki einu sinni nokkurn fulltrúa í ráðinu, og ekki laust við frekju og óréttlæti af bændafulltrúum að krefjast þess.“

Þessi hv. miðstjórnarmeðlimur Framsfl. tekur jafnvel sterkar til orða en hefur verið gert af þeim, sem hér hafa talað um málið.

Þá gerir hann í sjöttu athugasemd sinni grein fyrir skoðun sinni á verðjöfnunargjaldinu og gagnrýnir það; og ég sé, að þær athugasemdir, sem við höfum gert nú undanfarið út af því verðjöfnunargjaldi, hafa leitt til þess, að nú leggur loks meiri hluti hv. landbn. til, að verðjöfnunargjald af kartöflum sé látið niður falla.

Þá segir hann í sjöundu athugasemd sinni, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstjórninni á að vera heimilt að selja eignir grænmetisverzlunar ríkisins hinni nýju grænmetisverzlun, sem enginn á og engar eignir hefur til umráða. Hvers konar ráðstöfun er slíkt á fé þjóðarinnar, sem hún öll á jafnt, hvort sem menn búa í sveitum, kaupstöðum eða kauptúnum? Eiga hinir nýju huldumenn máske að fá að borga með einhverju prentuðu bréfadóti, sem verður einskis virði eftir nokkur ár, eins og nú horfir?“

Þessi hv. miðstjórnarmeðlimur Framsfl., sem mikið hefur haft með fjármál Framsfl. að gera oft og tíðum og Tímans, eftir því sem mér er bezt kunnugt, spyr eðlilega, hvernig eigi að fara með þessar eignir, og hefur einhverja hugmynd um, að það verði máske hálfeinkennileg sala á þessu, þegar allt kemur til alls. — Þetta er nú það, sem þeir menn vara við, sem út í frá eru að hugleiða þessi mál, menn, sem varla verða af framsóknarmönnum sakaðir um að ætla að læða inn tortryggni til bænda, svo að ég noti orðatiltæki hv. þm. Dal. hér áðan.

Þá minnist hann í áttundu athugasemd sinni á það, að þessu máli hafi lítið verið haldið á lofti, og segir þar í seinni hlutanum, með leyfi hæstv. forseta: „Síðan þetta mál fór að koma á dagskrá fyrir nokkrum missirum, hefur það oft borizt í tal á gestaheimill mínu við bændur víðs vegar af landinu, þegar gott næði hefur verið til þess að spjalla saman um landsins gagn og nauðsynjar. Man ég ekki eftir, að örlað hafi á áhuga fyrir málinu hjá nema aðeins tveim bændum, öðrum úr Mýrasýslu og hinum úr Dalasýslu. Langflestum hefur legið mjög hlýtt hugur til grænmetisverzlunar ríkisins og þeir lýst fullu trausti á forustumenn hennar.“

Það munu ekki margir menn á landinu ef til vill hafa öllu meira samband og kynni við bændur, a.m.k. hér vestanlands, heldur en einmitt þessi hv. miðstjórnarmeðlimur Framsfl., og hann hefur alveg sérstaklega góða aðstöðu til þess að ræða við bændur um þetta mál. Þetta er hans niðurstaða, m.ö.o. nákvæmlega sama niðurstaða og fjöldinn af kaupfélagsstjórum landsins þegar hefur látið í ljós í sínum skrifum til þeirrar nefndar, sem hefur haft með þetta mál að gera hér í þinginu, að áhugi hjá bændum sjálfum sé hverfandi lítill. Hitt vitum við, að það mun vera hægt fyrir flokksstjórn Framsfl. að fá í gegn samþykkt á t.d. fundi Stéttarsambands bænda. Það efast ég ekki um, þegar jafnvel öll handjárn eru sett í gang, það er sama fyrirbrigðið og við kynnumst hérna á þinginu. Ef ráðherrar Framsfl. fara að sækja eitthvert mál hart, þá geta þeir það. En hvað býr á bak við svona samþykkt?

Þá gerir hann í níundu athugasemd sinni svo hljóðandi grein fyrir skoðun ýmissa kaupfélagsstjóra, með leyfi hæstv. forseta:

„Komið hefur í ljós, að fjöldi kaupfélagsstjóranna í landinu eru ánægðir með skipulagið eins og það er nú og síður en svo að þeir óski eftir því örverpi, sem virðist eiga að fara að skapa upp úr grænmetisverzlun ríkisins, og það eru einmitt kaupfélagsstjórarnir, sem eru kunnugastir allra manna viðskiptamálum bændanna. Þeir eru beinlínis mjög oft trúnaðarmenn þeirra, munu þeir oft gefa hver öðrum góð ráð, þar sem samvinnan er í góðu lagi.“

Og svo endar hann með því í tiundu athugasemdinni að segja, að grænmetisverzlunin sé af fjölda manna viðurkennd fyrir að vera einhver sparlegast og bezt rekna stofnun þjóðarinnar.

Og hver er svo dómur þessa miðstjórnarmeðlims Framsfl. um þetta mál í heild? Hann er þessi, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðförin að grænmetisverzlun ríkisins er pólitískt brennumál og vansmíði, lagafrv. um endurreisn hennar undir stjórn stéttarfélags er höfundum þess til lítils sóma. Viðtökur frv. hjá að því er virðist meiri hl. Alþingis eru einn raunalegi hlekkurinn í mistakakeðju þeirrar virðulegu stofnunar nú á síðustu tímum. Það er stundum líkast og ýmsir góðir menn séu bergnumdir, en skilji ekki, hverjir valda. Öðrum, sem kunnugir eru, sýnist þó, að ekki sé mjög mikill vandi að skilja, hver seiðkonan hafi verið hér á ferð.“

Þetta voru orð Vigfúsar Guðmundssonar, eins af elztu brautryðjendum Framsfl., miðstjórnarmeðlims hans um áratugi, eins af stofnendum Tímans, manns, sem ég held að þeim hv. þm. Framsfl., sem ræða um þetta mál hér í d. eða hugsa nm það eða greiða atkvæði um það, væri alveg óhætt að taka nokkurt tillit til.

Og hver hefur svo verið afstaðan á þeim fundum bænda, við skulum segja eins og hér á Suðurlandsundirlendinu, sem haldnir hafa verið? Hv. 3. landsk. skýrði frá því nú nýlega, hvað var að gerast á Selfossi, þar sem voru upp undir 200 bændur mættir af öllu svæðinu frá Selvogi að Vík í Mýrdal. Forseti Búnaðarfélagsins stjórnaði fundi, og hann varð að margítreka, margbiðja menn um að greiða atkvæði um till., sem kom fram um að lýsa fylgi við þetta mál, — og hvað fengust á endanum, eftir þrítekna atkvgr., margir, sem lýstu fylgi sínu við það? 23 bændur. Líklega yfir 100 bændur sátu hjá, vildu ekki láta í ljós samþykki sitt við þetta með því að gera svo lítið sem bara að rétta upp höndina, þó að sjálfur forseti Búnaðarfélags Íslands bæði þá um það og þó að þarna væri um að ræða mál, sem væri samþykkt af stéttarsamtökum bænda, eins og sagt er. Og þrír greiða atkvæði á móti. 23 með, 3 greiða atkvæði á móti, en vafalaust yfir 100 sitja hjá. Þetta er sem sé áhuginn hjá bændum.

Og að síðustu: Hvernig er það svo í sjálfum Framsfl., við skulum taka bara hér í Rvík? Mér þætti mjög vænt um, ef hv. þm. Dal. væri hér inni, ef hann vildi nú gera svo vel og lesa hér upp á Alþingi þá samþykkt, sem gerð var í fyrrakvöld á fundi í fulltrúaráði framsóknarfélaganna í Rvík. Mér þætti vænt um og ég vil skora alveg sérstaklega á hv. þm. Dal. að lesa upp þá samþykkt. Skyldi hafa verið samþykkt þar alveg einróma af aðalmönnum Framsfl. í Reykjavik að mæla með þessu frv. og óska eftir, að því yrði flýtt í gegnum þingið, eða skyldi kannske hafa verið ágreiningur í sjálfu fulltrúaráði Framsfl., mikill ágreiningur og hörð átök, eða skyldi máske hafa verið samþykkt svo að segja einróma að skora á flokksstjórn Framsfl. að hætta við þetta frv. og draga það til baka? Mér er nær að halda það síðasta, að meira að segja sjálft fulltrúaráð Framsfl. í Reykjavík sé ekki hrifnara af þessu frv. en svo, að það óski þess, að flokksstjórn Framsfl. sjái um að draga þetta frv. til baka.

Ég held þess vegna, að það færi bezt á því að öllu leyti, að þetta mál yrði nú látið daga uppi, það yrði ekki keyrt lengra áfram.

Eins og ég hef áður tekið fram, þá var ég á móti þessu frv. við 2. umr. og er það enn. Ég hef hins vegar freistað þess með brtt., sem ég ber fram á þskj. 378, ef á annað borð á að keyra það í gegn, að fella niður nokkrar greinar af því, fella niður 4. gr., sem fjallar um þetta nýja söluskipulag, sem á að setja upp, og fella niður 5. gr., sem fjallar um verðmiðlunina, og þá 6. gr. líka, því að hún er um það sama, og enn fremur 7. gr., sem afnemur lögin, sem nú gilda um grænmetisverzlun ríkisins. Það yrði þá eftir að vísu ofur lítið. En þetta er eins og hver önnur miðlunartill., sem ég þarna kem með, þó að ég sé hins vegar á móti frv. í heild. Þrjár fyrstu greinarnar væru sem sé saklausari, þó að þær einar yrðu samþykktar.

Ég vil þess vegna leyfa mér að óska þess eftir það, sem komið hefur nú fram í þessu máli við þá frestun, sem orðið hefur á afgreiðslu þess hér í hv. deild, að hv. þm. Framsfl. sjái nú, að ekki sé viturlegt að herða meira á þessu máli. Það hefur ekki fylgi bænda, og það hefur meira að segja andstöðu framsóknarmanna sjálfra, þar sem þeir á annað borð ræða það.