01.03.1956
Efri deild: 78. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í B-deild Alþingistíðinda. (1259)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Finnbogi R. Valdimarsson) :

Herra forseti. Ég hef ekki getað orðið sammála og samferða hv. meðnefndarmönnum mínum í landbn. um þetta mál, ég hef skilað um það sérstöku nál. sem minni hl., var einn um það, en aðrir 4 nefndarmenn standa saman um varðveizlu þessa frv., að samþ. það án nokkurra breytinga frá þessari hv. deild.

Ég hef leyft mér að bera fram till. til rökstuddrar dagskrár, sem það felst í, að þetta mál verði betur athugað og við þá athugun verði þeim aðilum, sem bera fyrir brjósti hagsmuni neytenda í þessu sambandi, neytenda þeirra vara, sem hér ræðir um, gefinn kostur á því að halda fram sínum sjónarmiðum. Það hefur alls ekki verið við undirbúning þessa máls, að samtökum neytenda neins konar hafi verið leyft að koma þar á framfæri sínum sjónarmiðum. Það er þetta, sem felst í till. minni til rökstuddrar dagskrár. Enn fremur vil ég bera fram brtt. við frv., sem ég óska að komi til atkv. annaðhvort við þessa umr. eða 3. umr. þessa máls, ef svo ólíklega skyldi fara, að till. til rökstuddrar dagskrár yrði ekki samþ. hér í hv. d. Mun ég því ekki að svo stöddu ræða þær brtt. mínar, þær eru ekki fram komnar, en ég á von á, að þær komi fram jafnvel á þessum fundi hv. deildar.

Ég verð að segja það hv. meðnm. mínum í landbn. til verðugs hróss, að yfirleitt voru lýðræðisleg vinnubrögð viðhöfð undir forustu hv. form., 1. þm. N-M. (PZ). Þó verð ég að segja, að mér finnst, að í þessu máli hafi borið eilitið út af því.

Þegar þetta mál kom til umr. í landbn., óskaði ég strax eftir því, að fulltrúar þeirra aðila, sem nefndir eru í þessu frv., þeirra sambanda, sem beint eru nefnd þar, og annarra aðila kæmu á fund nefndarinnar og gerðu grein fyrir afstöðu sinni til frv. og ræddu nokkur atriði þess við n. og þá sérstaklega nokkur atriði, sem ég óskaði sérstakra skýringa á. Það var orðið við þessari ósk minni, en þessir aðilar voru: Sölufélag garðyrkjumanna og Samband eggjaframleiðenda, Samband smásöluverzlana og sjálf grænmetisverzlun ríkisins, sem þetta frv. snýst nokkuð mikið um. Það mættu á fundi n. fulltrúar frá öllum þessum aðilum, en aðeins forstjóri grænmetisverzlunar ríkisins hafði ekki verið boðaður. Og nú er það áreiðanlega ljóst öllum nefndarmönnum, að ég hafði ekki borið fram þessa ósk um, að nefndin hefði álit þessara aðila, í þeim tilgangi að tefja málið, því að ég féllst alveg á það, að þetta gæti gerzt, til þessa þyrfti ekki nema eina dagstund, og þó að forstjóri grænmetisverzlunar ríkisins hefði fengíð að mæta með þessum 3 aðilum öðrum, sem málið varðar, þá hefði það ekki tafið málið svo mikið sem um einn dag. Það hefur nú yfirleitt verið talið svo, að þeim, sem eru hafðir fyrir sökum, beri að gefa kost á að verja sig. Nú virðist vera svo, að það þyki eitthvað að grænmetisverzlun ríkisins, stofnun, sem hefur starfað samkv. sérstakri löggjöf um 20 ára skeið eða nærri því. Og jafnvel hinum verstu dæmdum sakamönnum er gefinn kostur á því að verja sig og áður en þeir eru teknir af a.m.k. að ná prestsfundi. En það virðist eins og hv. form. n. hafi ekki viljað gefa forstjóra grænmetisverzlunar ríkisins einu sinni þennan rétt, og ég get ekki skilið það vel, hvers vegna þessi maður, sem gerþekkir áreiðanlega alli skipulag þessara mála, eins og það hefur verið samkv. lögum síðustu 13 árin, og gerir sér áreiðanlega manna bezt grein fyrir því skipulagi, sem lagt er til í þessu frv. að taka upp í stað þess, sem veríð hefur, mátti ekki gera grein fyrir sínum skoðunum fyrir n. þessarar hv. d. munnlega, stutta stund, þó að það að vísu leiki ekki á tveim tungum fyrir neinum, hver er hans afstaða til málsins í meginatriðum. Hann er andvígur frumvarpinu, það hefur þegar komið fram. En ég vildi óska, að nefndin fengi að ræða stutta stund við þennan mann, sem áreiðanlega þekkir allra manna bezt þessi mál.

Ég óskaði líka eftir því að fá á fund nefndarinnar einhvern af höfundum þessa frv. En það fékkst ekki, og það get ég miklu betur skilið. Ég get miklu betur skilið það, að enginn af höfundum þessa frv. vilji gefa sig fram. Það veit enginn, hverjir þeir eru, og má merkilegt heita, svo lengi sem þessi frumvarpsmynd, verður maður að segja, hefur verið á döfinni hér fyrir hv. þingi, en ég varð sem sagt ekki hissa á því, þó að hinn ókunni höfundur kæmi ekki í ljós — eða höfundar.

Um þetta mál hafa orðið óvenjulega miklar umr. í hv. Nd. og átök, bæði á s.l. þingi og á þessu þingi. Það hefur komizt í gegnum hv. Nd. án þess, að þar hafi fengizt nokkur meiri hl. þeirrar d. með málinu. Þingmenn úr a.m.k. fjórum þingflokkum, er óhætt að fullyrða, hafa lýst sig andvíga frv. og hafa greitt atkv. gegn því. Þar ú meðal eru a.m.k. tveir hv. þm. Sjálfstfl. í Reykjavík og hv. þm. Ák., og ég held það mætti orða það svo, að það eru þm. þeirra svæða á landinu, þar sem neytendur garðávaxta og grænmetis eru fyrst og fremst. Það er líka vitað, að margir þm. Framsfl. eru andvígir frv., þó að það hafi ekki komið fram í atkvgr. (Dómsmrh.: Hverjir eru það?) Ja, þegar vantar menn hér í hv. þingdeildir við atkvgr„ þá getur það verið af ýmsum ástæðum, og veit hæstv. ráðh., sem spyr, vei, að það geta legið ástæður til þess, að menn hverfa skyndilega fyrir atkvgr. En þá er stundum þess getið til, að til þess séu þær ástæður, að menn hafi ekki sérstakar mætur á því máli, sem á að greiða atkv. um. Það er vitað, að einn af stofnendum Framsfl. og áhrifamaður þar alla tíð frá stofnun þess flokks og miðstjórnarmaður nú, ef mér ekki skjátlast, þó að ég sé ekki nákunnugur því, hefur skrifað opinberlega gegn þessu frv. og telur þetta frv. ganga beint í berhögg við stefnu Framsfl. í málum bænda, eins og hún hafi lýst sér alla tíð frá stofnun flokksins, og skyldi maður ætla, að þessi maður þekkti vel stefnu Framsfl. í afurðasölumálum bænda. Þessi maður hefur ekki, þótt hann muni vera miðstjórnarmaður Framsfl. og kannske í blaðstjórn Tímans, fengið aðalgrein sína, þá grein, sem hann hefur skrifað rækilegasta um þetta mál, birta í Tímanum. Og greinar hans aðrar, sem hafa fengizt birtar í Tímanum, hafa jafnan birzt með aths. frá blaðinu.

Það er líka vitað, að fulltrúaráð Framsfl. hér í Reykjavík hefur, að því er hefur komið fram í blöðum, einróma samþykkt beinlínis vítur á þingflokk Framsfl. fyrir afstöðu hans í þessu máli, vegna þess að fulltrúaráð framsóknarfélaganna allra hér í Reykjavík telur þetta mál vera á móti stefnu Framsfl. Í öðru aðalblaði flokksins, á Akureyri, eru birtar greinar gegn þessu máli athugasemdalaust, og skilja menn það svo, að þar megi skilja þá afstöðu að vera gegn þessu máli sem afstöðu Framsóknarflokksins. Þar má forstjóri grænmetisverzlunar ríkisins skrifa athugasemdalaust gegn þessu máli. Nú virðist aftur á móti hér á hv. Alþingi þetta vera beint flokksmál þingflokks Framsfl. Hitt veit maður ekki, hvort miðstjórn Framsfl. hefur tekið afstöðu til þessa máls, sem er af sumum talið ganga beint á móti stefnu Framsfl., en þess er getið til, að sá hraði, sem hér á að hafa á afgreiðslu þessa máls, stafi m.a. af því, að það sé talið af sumum æskilegt að fá þetta mál afgreitt sem lög, áður en flokksþing Framsfl. kemur saman, en þar verður áreiðanlega rætt um það, hvorir hafi rétt fyrir sér, þeir stofnendur Framsfl. og áhrifamenn, sem telja þetta mál- og þá stefnu, sem lýsir sér í því, ganga beint á móti stefnu flokksins, eins og hún hefur verið, eða forvígismenn frv. En það er víst þetta, sem ekki má ske. Víst er um það, að hér á að hafa mjög hraðan á, og á að ganga út frá því, að við þetta frv. verði ekki gerðar hinar minnstu breytingar fremur en það sé alfullkomið. Það verður að samþykkja það óbreytt eins og það er, og veit ég þó, að sumir hv. meðnm. mínir í landbn. álíta þetta frv. ekki alfullkomið og hefðu kosið að gera á því leiðréttingar, ef þeir hefðu mátt ráða.

Auk þeirra aðila, sem ég hef nú þegar talið og hafa lýst sig andviga þessu frv. hér á þingi, hefur það líka komið í ljós, að þeir, sem hafa annazt sölu og dreifingu þeirra vara, sem þetta frv. fjallar um, hafa margir hverjir lýst sig andviga því skipulagi, sem eigi að taka upp með frv. Þar á meðal má benda á fjölmarga kaupfélagsstjóra, mikla og viðurkennda áhrifamenn, sem ekki verður neitað að þekki vel fyrirkomulag á sölu og dreifingu þessara vara, eins og hún hefur verið hingað til, og séu manna bezt fallnir til þess að gera sér grein fyrir, hvort það skipulag, sem hér er lagt til að taka upp, sé heppilegt.

Samband smásöluverzlana hafði í fyrra sent hv. Alþingi bréf og óskað eftir því, að fulltrúar þess yrðu heyrðir um þetta mál. Þeir sendu hv. Alþ. aftur nú í desember bréf, þar sem þeir óskuðu eftir að fá viðtal við nefndir í þinginu. Það mun nú ekki hafa verið gert fyrr en það var gert eftir minni ósk í landbn. þessarar hv. deildar. En það kemur fram í bréfi þeirra og viðtölum, að þeir krefjast breytinga á frv. og telja því aðeins heppilegt að samþykkja það, að þær breytingar verði gerðar.

Það er því augljóst, að úr öllum áttum er andstaða gegn þessu frv. frá aðilum, sem þekkja vel til og eru vel dómbærir á bæði það skipulag, sem verið hefur, og framkvæmd þess og það skipulag, sem kann að vera fyrirhugað með þessu frv.

Nú vildi hv. frsm. meiri hl. gera sem allra minnst úr því í sinni framsöguræðu hér áðan, að það væri nokkur skipulagsbreyting fyrirhuguð með þessu frv. Hann sagði, að breytingin væri engin hvað snerti Sölufélag garðyrkjumanna. Þetta er rétt. Það var játað af fulltrúum þess félagsskapar í viðtali við landbn., að þetta væri svona, það væri engin breyting á aðstöðu Sölufélags garðyrkjumanna með samþykkt þessa frv.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að hér væri í raun og veru aðeins um stefnuyfirlýsingu að ræða, og get ég að allverulegu leyti fallizt á það. Það er fyrst og fremst stefnuyfirlýsing, því að það er yfirlýsing um gerbreytta stefnu í þessum málum, gerbreytta stefnu af hálfu Framsfl. og gerbreytta stefnu af hálfu löggjafans.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að sú hugsun, sem væri á bak við frv., kæmi ekki nema að nokkru leyti fram í því, og þetta er rétt. Þetta fyrirhugaða skipulag kemur mjög óljóst fram í þessu frv., svo óljöst, að ég tel það ekki vansalaust fyrir hv. Alþ. að samþykkja lög svo, að það skipulag, sem fyrirhugað er með þeim, sé svo óljóst sem það er hér.

Hv. frsm. sagði, að þetta væri eins og rammi, sem ætti eftir að fylla út í. En hv. alþm. getur alls ekki verið sama um það, hvað fyllt er út í þann ramma, ef þetta er aðeins rammi.

Hv. frsm. talaði um, að hér væri verið um garðávexti og grænmeti að gera alveg það sama sem nú giltí um áhrif framleiðsluráðs á sölu kjöts og mjólkur. Ég mótmæli þessu alveg. Hér er alls ekki um það sama að ræða, eins og bezt sést á því, að í þessu frv. er eins og í gildandi lögum gert ráð fyrir einkasölu ríkisins um sölu garðávaxta og grænmetis, en hvað kjöt og mjólk snertir er ekki um neina einkasölu ríkisins að ræða.

Um það, sem hann sagði um eggjaframleiðsluna, að hér væri gert mikið fyrir eggjaframleiðendur, mun ég kannske eitthvað tala síðar, en ég vil aðeins segja það, að hann veit vel, að það var upplýst af fulltrúa Sambands eggjaframleiðenda, að þetta frv. hefði alls enga þýðingu fyrir þá framleiðendur, í fyrsta lagi breyti það á engan hátt þeirra aðstöðu til framleiðslu né sölu, og um það eina ákvæði, sem er í þessu frv. um fyrirhugaða verðmiðlun eða verðjöfnunargjald af eggjum, þá upplýsti fulltrúi þessara framleiðenda, að það væri algerlega óframkvæmanlegt og hefði enga þýðingu að setja það í lög.

Það er því ómögulegt að segja, að fylgi þeirra samtaka, sem eru nú nefnd í þessu frv., við þetta frv. liggi fyrir. Það er ekki hægt að segja það. Það er enginn áhugi hjá félagasamböndum, sem lýsa því yfir hér við þn., að frv. eins og þetta, þó að það verði að lögum, breyti í engu þeirra aðstöðu. Það finnst ekki mikill áhugi af hálfu þessara félagssamtaka á bak við slíkar yfirlýsingar. Það breytir engu um þeirra aðstöðu, þeim má vera sama, hvort það verður að lögum eða ekki. Það er ekki um neinn áhuga að ræða þar. Þetta er sannleikurinn.

Hv. frsm. talaði mikið um, að í frv. væri nýmæli, það væri heimild til að taka upp mat og flokkun á matjurtum. Það er aðeins heimild, og vil ég ekki mótmæla því, að það væri nauðsyn að taka upp mat á grænmeti. En það vantar þá í það, að það gildi einnig um gróðurhúsaframleiðslu yfirleitt og jafnvel egg, og spyr ég þá, hvers vegna ekki er gengið svo frá ákvæðinu í frv. um það, að það sé alveg tryggt, að slíkt mat og flokkun fari fram, en það er ekki. Ef hv. frsm. leggur mjög mikið upp úr þessu, þá ætti hann að fallast á þá breytingu á ákvæðum frv. um þetta, að það væri þá tryggt, að mat og flokkun á þessum mikilvægu nauðsynjavörum færi fram, svo að neytendur fengju það þá tryggt. En það mun koma líka fram í mínum brtt., og getur þá hv. frsm. tekið afstöðu til þess.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að sú hugsun, sem búi á bak við þetta frv., komi ekki nema að nokkru leyti fram. Ég sagði áðan: Ég get fallizt á þetta. Það er svo um sum mál, að það má segja um þau eins og mennina, að þau eru ekki öll, þar sem þau eru séð. Og þá er það stundum svo líka hér á hv. Alþ., að það er talað og talað fram og aftur um það, sem er látið uppi í sambandi við mál, en ekki um það, sem undir býr, og það er eins um þetta mál. Þetta er eins konar kurteisi og háttvísi í stjórnmálaátökum oft, og skal ég ekki lasta það. En ég held, að það geti stundum verið rétt að haga sér eins og barnið í ævintýrinu og kveða upp úr með það, sem allir vita, en allir eru svo háttvísir að segja ekki, og segja eins og barnið sannleikann, að keisarinn er alls ekki í neinum fötum. Keisarinn í þessu máli eru sérstakir valdhafar innan Framsfl., þeir eru í þessu máli ekki í neinum fötum, af því að þeir eru ekki að beita rökum, heldur aðeins að sýna sitt vald. Þeir eru að sýna, hvaða vald þeir hafi yfir þingflokki sínum og samstarfsflokki. Þeir eru að sýna, að þrátt fyrir það að þetta frv. sé að allra dómi losaralega orðað og illa frá því gengið, þá skuli það samt verða samþ. eins og það er. Þeir eru að sýna sínum samstarfsflokki, sem hefur kallað sig flokk frjálsrar samkeppni í landinu, að þeir skuli geta látið hann samþykkja þá einkasölu, sem felst í þessu frv., eins og frá henni er gengið, jafnvel þó að það sé með nýjum hætti og að mínum dómi miklu óálitlegri einkasala en nokkurn tíma hefur tíðkazt hér.

Hæstv. dómsmrh. hefur oft átt orðastað við hv. 1. þm. N-M. um smærri atriði í lagasetningu, sem hefur verið fyrir þessari hv. d., og verið þá mjög nákvæmur um orðalag og frágang, og játa ég fullkomlega, að hæstv. ráðh. er þar vel dómbær á. En nú á að sýna það, að þetta frv., sem er að mínum dómi í slíkum búningi, að það mætti segja, að það væri bara í tötrum, skal nú í gegn, hvað sem hæstv. dómsmrh. segir. Sjálfstfl. hér í hv. d. skal kingja því; og það skal ofan í hæstv. dómsmrh. eins og það er.

En sannleikurinn á bak við þetta frv. er auðvitað sá, að vissir valdhafar í Framsfl. þurfa að losna við þá menn, sem hafa stjórnað grænmetisverzlun ríkisins á annan áratug, og þeir gera það með þessu frv., með þeim einstæða hætti að semja um það sérstakt frv., af því að þeir treysta sér ekki til þess, sem þeir auðvitað hafa vald til, að víkja þeim frá þessari stofnun. En til þess að víkja þeim frá þessari stofnun, þyrftu þeir að færa einhver rök fyrir því, að þessir menn hefðu á einhvern hátt brugðizt í sínu starfi á annan hátt, en það geta þeir ekki.

Hæstv. landbrh. var spurður að því í hv. Nd., hvað væri að grænmetisverzlun ríkisins; í hverju hún hefði vanrækt sitt hlutverk eftir þeim lögum, sem um hana hafa gilt í 13 ár. Hann benti á, að hún hefði alveg vanrækt 8ð verja fé til þess að styðja ræktun úrvalskartaflna. Þetta var hrakið á svo óvanalegan hátt, að ég hygg, að það verði eftirminnilegt; af því að hér átti ráðh. í hlut. Það var upplýst, að þessi stofnun hefði lagt fram 600 þús. kr. til þess að styðja þessa ræktun úrvalskartaflna og þessi ræktun úrvalskartaflna væri í höndum ekki grænmetisverzlunar ríkisins, heldur tilraunaráðs jarðræktar á allan hátt, og getur þá náttúrlega enginn sagt, að sú starfsemi gæti verið í betri höndum. En ef þetta var nú eina ásökunin, sem hægt er að bera fram á stjórnendur grænmetisverzlunar ríkisins af sjálfum yfirmanni þeirrar stofnunar, hvað verður þá um aðrar ásakanir? (Gripið fram í.) Það er annað mál, það getur vel verið, að ég komi að því í þessum umr., en það mætti kannske spyrja: Af hverju vill flokkur frjálsrar verzlunar það skipulag, sem hér er verið að samþykkja? Ég veit, að það er ekki látið uppi, að þetta sé tilgangur frv., og því verður e.t.v. mótmælt harðlega. En þetta er nú staðreynd, að með þessa alvarlegu ásökun hefur verið farið hér á hv. Alþ. í garð þessara manna, og ef hún væri sönn, þá hefði það verið brot á lögunum um sölu kartaflna frá 1943, því að þar er beinlínis lagt fyrir grænmetisverzlun ríkisins að leggja fram fé til stofnræktar eða ræktunar úrvalskartaflna, en það hefur verið afsannað, og aðrar ásakanir, sem ég hef heyrt á hendur þessum mönnum fyrir það, sem þeir hafi brotið af sér, annaðhvort látið ógert eða gert það, sem miður fari, eru ekki mikilvægar. Það hefur verið talað um, að grænmetisverzlun ríkisins hafi ekki verið fús til þess að taka á leigu jarðhús nokkur hér í nágrenni Reykjavíkur eða í Reykjavíkurbæ, en það mætti kannske rökræða, hvort það væri mikið afbrot. Framleiðsluráð landbúnaðarins leigir þessi jarðhús og hefur greitt líklega fyrir þau, eftir því sem ég hef komizt næst, nokkuð á aðra milljón króna síðustu árin í leigu, og ég gæti vel skilið það, þó að það kæmi í ljós, að grænmetisverzlun ríkisins hefði ekki verið ginnkeypt fyrir því að greiða þá leigu, sem greidd er fyrir þessi hús, svo sem þau eru. E.t.v. verður hægt að ræða þetta nánar síðar, ef hv. frsm. meiri hl., sem er hér að mæla með stjórn framleiðsluráðs á öllum þessum málum, telur, að það hafi verið t.d. mikið brot eða vangæzla hjá grænmetisverzlun ríkisins að hafa ekki viljað greiða þá leigu, sem framleiðsluráðið nú greiðir eða leigusali fer fram á fyrir þessi blessuð jarðhús, en það er sem sagt orðið stórfé, og mætti kannske upplýsa það nánar.

Það er um efni og eðli þessa máls skemmst að segja, að hér er á ferðinni lítill hópur manna úr hagsmunasamtökum bænda, sem enginn vefengir að hafi umboð til þess að tala fyrir munn bænda og bændasamtaka í landinu. Þessi litli hópur vill fá að taka að sér alla verzlun með kartöflur og grænmeti í landinu og allan innflutning á þeim vörum með einkasölurétti, með þeim sama einkasölurétti sem ríkisstofnun hefur haft til þessa dags. M.ö.o.: Þessi samtök vilja taka að sér það hlutverk, sem ríkið tók að sér með setningu laga um grænmetisverzlun ríkisins og lögum um meðferð og sölu kartaflna frá 1943. Það vill vera ríkið í þessu sambandi. Það vill fá þann rétt að geta leyft eða bannað innflutning á kartöflum og nýju grænmeti til landsins. Minna dugir því ekki. Það vill taka að sér yfirstjórn allrar verzlunar, sölu og dreifingu kartaflna, hvers konar garðávaxta og grænmetis í landinu á þessum grundvelli, á einkasölugrundvelli. Minna dugir því ekki af eðlilegum ástæðum, af því að þó að það tæki að sér sölu fyrir alla bændur í landinu, þá væri það ekki einu sinni helmingur kartöfluframleiðslunnar í landinu, en þetta væri framleiðsluráðinu frjálst í dag, af því að verzlun út af fyrir sig með kartöflur innanlands er frjáls. En þetta nægir ekki framleiðsluráðinu. Það vill taka að sér rétt ríkisins til þess að banna innflutning á kartöflum og ráða því sjálft, hvenær megi flytja inn kartöflur og grænmeti.

Þegar lögin um grænmetisverzlun ríkisins og með breytingum á þeim eftir reynslunni voru sett, var það að margra áliti af illri nauðsyn, að sett var einkasala á þessum vörum. Ég fyrir mitt leyti get lýst því yfir bæði hér og annars staðar, að ég er ekki með einkasölufyrirkomulagi bara vegna einkasölufyrirkomulagsins sjálfs. En menn verða að játa, að um meðferð og sölu á þessum vörum er það ill nauðsyn. Frjáls samkeppni getur verið hættuleg fyrir alla framleiðslu á þessum vörum innanlands, og þess vegna verður að takmarka innflutning á þessum vörum að einhverju leyti, hafa eftirlit með því, svo að það spilli ekki allri framleiðslu og framleiðslumöguleikum í landinu á þessum vörum, af þeirri einföldu staðreynd, að þessar vörur eru svo miklum mun ódýrari erlendis, þar sem þær eru framleiddar erlendis, og ef þær væru fluttar inn hóflaust, þá gæti engin framleiðsla á kartöflum eða grænmeti staðizt hér í landi. Þetta er hin illa nauðsyn. Þetta liggur til grundvallar lögunum um grænmetisverzlun ríkisins og sölu á kartöflum.

En ríkið tekur þarna að sér ákveðið verk, það tekur sér einu rétt til þess að ákveða um það, hvenær megi flytja þessar vörur inn, það tekur einkasölu og meinar þar með öðrum þá starfsemi. Það tekur að sér að dæma um það, hvenær innflutningur megi eiga sér stað, en lögin, sem um þetta gilda, sýna, að löggjafinn hefur á sínum tíma gert sér grein fyrir því, að þessum einkasölurétti verður að beita með varúð. Það verður að hafa í huga bæði hagsmuni framleiðenda og neytenda í landinu í þessu sambandi. Ríkið tekur að sér það hlutverk að miðla málum milli hagsmuna framleiðenda í landinu og neytenda í þessum efnum. Þetta hlutverk hefur það haft um tuttugu ár, og menn hafa sætt sig við þetta. Það hefur verið tiltölulegur friður um þessi mál um langt skeið, og ég verð að segja, að svo erfitt sem það hlutverk er í mínum augum að fara þarna bil beggja milli hagsmuna framleiðenda og neytenda, þá tel ég það vel gert af ríkisstofnun að geta hagað sínum störfum svo, að það sé nokkurn veginn friður um þessi mál, ekki beinn ófriður.

Nú eru engin lög fullkomin, og engir menn munu fullkomnir. Nú getur vel verið í fyrsta lagi, að þeim mönnum, sem hafa borið ábyrgð á framkvæmd þessa erfiða starfs, hafi missýnzt og verið mislagðar hendur í einhverjum atriðum. En þá er að benda á, að það sé svo stórfellt, það séu svo stórfelld mistök, sem hafi átt sér stað hjá þessum mönnum í þessum efnum, að þess vegna verði annaðhvort að setja mennina frá eða gerbreyta skipulaginu og fela það öðrum mönnum. En það hefur ekki verið gert í þessu máli. Þeir menn, sem hafa farið með þessi mál, eru vitanlega búnir að fá geysilega mikla reynslu í meðferð þeirra, og þeim hefur tekizt að halda nokkurn veginn friði um framkvæmd mála. Ef nú á að breyta þessu og endurskoða þessi lög; sem gilda um þessi mál frá 1943 og eru 13 ára gömul, þá virðist mér, að það eina sé rétt að hafa sömu sjónarmið um það eins og voru höfð, þegar þessi lög voru sett, þ.e.a.s. að finna hinn gullna meðalveg milli hagsmuna framleiðenda og neytenda í landinu í þessum efnum, en það var beinlínis sett skýrum stöfum í lögin um sölu kartaflna frá 1943. Ef þess vegna á að endurskoða þessi lög, þá eiga fulltrúar að koma til, frá framleiðendum í fyrsta lagi, frá neytendum í öðru lagi, og frá þeim, sem hafa fengið reynslu, ég hygg um tvo áratugi, um framkvæmd laga um þetta efni. Þetta finnst mér svo augljóst mál, að það ætti ekki að þurfa um það að deila, að þegar ætti að taka þessa löggjöf til endurskoðunar, þá ættu fulltrúar frá öllum þessum aðilum að komast að, en það hefur ekki verið gert, þó að sagt sé, að þetta mál hafi verið á döfinni í mörg ár. Fulltrúar neytenda hafa hvergi verið kvaddir til og ekki heldur fulltrúar allra framleiðenda, af því að það er upplýst og sannað mál, að þó að bændur landsins séu allmiklir framleiðendur kartaflna, þá er langt frá því, að þeir séu það einir. Framleiðsla á kartöflum fer fram í stórum stíl í kaupstöðum og kauptúnum, bæði af mjög mörgum smáum framleiðendum og jafnvel stórum framleiðendum, og það liggur ekkert fyrir um það í þessu máli, að framleiðsluráð landbúnaðarins geti talað í nafni þeirra manna í kaupstöðum og kauptúnum, sem sannað er að framleiða helming eða meira en helming af allri kartöfluframleiðslu þjóðarinnar.

Nú má auðvitað segja, að það sé erfitt að finna fulltrúa fyrir þá mörgu menn, því að þeir hafa ekki félagsskap með sér. En í margri löggjöf síðustu áratugi hefur verið litið svo á, að Alþýðusamband Íslands gæti komið fram sem fulltrúi fólksins í kaupstöðunum í sambandi við ýmsa löggjöf, bæði undirbúning löggjafar og framkvæmd löggjafar. Það hefur innan sinna vébanda nú milli 25 og 30 þús. manna, verkamanna og iðnaðarmanna í kaupstöðum og kauptúnum, og það er svo saman sett, að tryggt ætti að vera, að fulltrúar tilnefndir af því geti vel vitað um og skilið aðstöðu vinnandi fólksins a.m.k. í kaupstöðum og kauptúnum, hvort sem það er nú eins og í þessu sambandi framleiðendur kartaflna og garðávaxta eða beinlínis litið á það sem neytendur.

Auk þess má benda á, að risinn er upp félagsskapur hér í Reykjavík, sem heitir Neytendasamtökin og hefur verið stofnað til eftir erlendum fyrirmyndum og mun vera orðinn þegar allfjölmennur. Og þó að ég sé ekki nákunnugur starfsemi þess félagsskapar, virðist mér, að hann geti átt fullan rétt á sér, og væri full ástæða til þess, eftir að sá félagsskapur hefur nú sent hv. Alþ. sínar aths. um þetta frv. og mótmæli gegn því, að hann fengi fulltrúa, ef sýnd væri nokkur viðleitni til þess að líta á þessi mál frá hlutlægu sjónarmiði og sjónarmið neytenda fengi að komast á nokkurn hátt að.

Ég legg því til í till. minni um rökstudda dagskrá, að fulltrúar þessara félagssamtaka, Alþýðusambands Íslands og Neytendasamtakanna, fái fulltrúa ásamt fulltrúa frá þeim aðilum, sem þegar hafa fjallað um þetta frv., en það er frá framleiðsluráði, Sambandi íslenzkra samvinnufélaga og grænmetisverzlun ríkisins.

Ég get ekki skilið, að það sé á nokkurn hátt hagkvæmt fyrir framleiðsluráðið sjálft að fá þetta mál afgr. nú með miklum átökum hér á hv. Alþ. í því formi, sem það er, gegn mótmælum neytenda, án þess að nokkur áhugi félagssamtaka framleiðenda, eins og Sölufélags garðyrkjumanna og eggjasölusambands, liggi fyrir til stuðnings frv. Væri það ekki alveg skaðlaust fyrir framleiðendur í bændastétt að bíða þetta sumar til næsta Alþ. og gefa á meðan fjölmennum félagasamtökum eins og Alþýðusambandi Íslands og Neytendasamtökunum rétt á að láta í ljós sínar till. um fyrirkomulag þessara mála, ef á að breyta skipulagi þeirra?

Í þeim mörgu þskj., sem liggja fyrir í þessu máli, kemur fram, að það hefur verið á döfinni hjá framleiðsluráði landbúnaðarins og á vegum þess um mörg ár að fá full tök á grænmetisverzlun ríkisins með þeim einkasölurétti, sem henni fylgir, og það getur maður út af fyrir síg skilið. Og framleiðsluráðið hefur gert sínar kröfur til ráðh. um þetta, og það hefur verið skipuð nefnd eftir nefnd í málið með fulltrúum frá framleiðsluráðinu, Stéttarsambandi bænda o.s.frv., fulltrúum framleiðenda, og það hefur verið fenginn maður að tilhlutun landbrn. til þess að starfa að undirbúningi þessa máls í heilt ár og skrifa um það mikla bók, sem fullyrt er að hafi kostað ríkissjóð tugi þúsunda króna. (Gripið fram í: Hefur hún verið gefin út?) Hún hefur verið gefin út fjölrituð í takmörkuðu upplagi, svipað og sumir höfundar gera, sem vilja, að ritverk sín séu í háu verði. Ekki veit ég, hvort það eru tölusett eintök, en hún hefur verið til sýnis hér í hv. Alþingi í sambandi við þetta mál. Ég hef hana ekki meðferðis og get þess vegna ekki sýnt hæstv. ráðh. hana, en ég hef séð hana. Það er mikið verk og vísindalegt að öllu yfirbragði, þó að ýmislegt mætti út á það setja, t.d. það, að þar er ekki farið eftir venjulegum reglum um íslenzkt mál. En þetta er vísindamaður með magistersnafnbót frá Ameríku, og verður ekki vefengt, að þar sé vísindalega tekið á málinu. En það er á þeim athugunum, sem þetta frv. byggist, ef þá þar er ekki beinlínis fundinn höfundur þessa frv. og sá maður, sem ef til vill eigi að taka við grænmetisverzlun ríkisins, og um leið sá maður, sem grænmetisverzlun ríkisins hefur verið þröngvað til að skipta við með því að taka á leigu jarðhús hans og borga fyrir þau 150 þús. kr. á hverju ári. Þetta eru þrjú járnhús, sem ég skal ekki ræða meira að svo stöddu, en það er mál, sem þyrfti að upplýsa hérna. Og ég veit, að hv. frsm., sem er talsmaður framleiðsluráðs landbúnaðarins, ætti að geta upplýst, hvað mikið hefur verið borgað af framleiðsluráðinu fyrir svonefnd jarðhús hér við Elliðaár og hve mikið framleiðsluráðið fær í leigu fyrir þessi hús frá grænmetisverzlun ríkisins. Svo skýr og fróður maður sem hv. frsm. meiri hl. landbn. getur áreiðanlega upplýst þetta, en ég óska eftir, að það sé gert nákvæmlega. En þetta er maðurinn sem sagt, sem hefur skrifað vísindalega ritgerð um þetta mál, og þetta frv. byggist á hans vísindalegu till. Hann á þessi jarðhús, hann hefur komið þeim í góða leigu, og ég tel líklegast, að hann eigi að verða forstjóri hinnar nýju grænmetisverzlunar landbúnaðarins, því að hann hefur mest til matarins unnið. (Dómsmrh.: Er hann í Framsfl.?) Það er mér ókunnugt um. En það er nú hæstv. dómsmrh., sem oft er að skjóta að mér spurningum, að meta það, hvað hann og hans flokkur verða hrifnir af þessari einkasölu, sem hér á að lögfesta með því skipulagi, að ein stofnun hafi í þessu réttinn, ekki ríkið nema rétt á pappírnum, ein stofnun, framleiðsluráð landbúnaðarins. Bændastéttin, sem framleiðir helming kartaflna í landinu, á að fá einkasöluréttinn, eða hennar fulltrúar. Hún á að hafa einkasölu á kartöflum og öllu nýju grænmeti,' þar með taldar þær tegundir grænmetis, sem alls ekki eru framleiddar hér á landi og íslenzkir bændur þekkja ekki nema sem neytendur, t.d. lauk.

Ég sé enga ástæðu til, að slík einkasala ríkisins sé afhent litlum hóp manna í nafni einnar stéttar, þó að ég vilji á allan hátt, að löggjafinn geri vel við þá stétt og líti með skilningi á alla hennar hagsmuni. Ég vil í öðru lagi alls ekki fallast á þá hugsun, sem er í þessu frv., að sá aðili, annar en ríkið meira að segja, sem fær einkasölurétt með lögum, geti framselt hann eftir sínu höfði einhverjum og einhverjum og einkasöluréttur geti þess vegna gengið frá manni til manns, stofnun til stofnunar, án þess að löggjafinn eða ríkisvaldið hafi nokkur afskipti af því, en til þessa skipulags er stofnað með þessu frv. Það er framseljanlegur einkasöluréttur, sem hér er verið að lögfesta, og það á að úthluta þessum einkasölurétti á hverju ári. Það stendur í lagafrv., að þessum leyfum, sem felst í einkasöluréttur til heildsölu með vissar vörutegundir, á að úthluta einu sinni á ári. Þessa meginhugsun í þessu frv. get ég ekki fallizt á, og hef ég þó ekki gefið mig út sem fulltrúa frjálsrar verzlunar og frjálsrar samkeppni í landinu. Það hefur hæstv. dómsmrh. og hans flokkur gert, en ef þeim lízt nú svo vel á þessa hugsjón, þessa nýju útgáfu á einokun, eins og þeir mundu orða það, þá verða þeir náttúrlega með hverjum staf í þessu frv., líka þessum ákvæðum.

Það er kannske móðgandi fyrir þá, sem að þessu standa, þessu nýja skipulagi, að gera ráð fyrir því, að það kunni að verða einhverjir menn finnanlegir í landinu, sem bjóði beinlínis í þessi nýju einkasöluréttindi, og þá verði farið að halda á þeim árlegt uppboð. En útilokaður möguleiki væri það ekki, það er auðséð, því að einhvers virði eru þessi réttindi, og það gætu verið fleiri en einn, sem vildu fá þau, og hverja á þá að velja? Þá, sem eru í einhverjum flokki t.d.? Þá kemst að hin frjálsa pólitíska samkeppni eða hinir pólitísku samningar milli þeirra flokka, sem skipta jafnt, sem þekkja þannig jöfnuð að skipta jafnt á milli sín, en afskipta alla aðra. Þar kemst að hin frjálsa pólitíska samkeppni og hin frjálsa pólitíska verzlun. Það er það, sem stofnað er til með þessu, og þar eru báðir jafnt forsvarsmenn þessarar frjálsu pólitísku verzlunar, Framsfl. og Sjálfstfl. Hér á að stofna til nýrrar stofnunar, sem á að taka við með sölu eða leigu öllum eignum grænmetisverzlunar ríkisins. Mér er sagt, að þær séu orðnar allmikils virði, það eru húseignir á bezta stað í bænum, að vísu að nokkru leyti skrifstofuhús, að nokkru leyti pakkhús. En það er ekki langt síðan pakkhús ekki langt frá þessum stað voru seld á 12 millj. kr., og ég geri mér þá grein fyrir verðmæti þessara húsa, að það séu a.m.k. nokkrar milljónir, en þetta á að selja líklega grænmetisverzlun landbúnaðarins, nýrri stofnun, sem maður veit ekki miklu meira um af þessu frv. en það, að hún á að heita grænmetisverzlun landbúnaðarins. Hún á ekki að heita grænmetisverzlun ríkisins, þó að það sé auðséð, að hún á að hafa öll réttindi grænmetisverzlunar ríkisins, einkasöluréttindi hennar, en hún á að heita grænmetisverzlun landbúnaðarins, og hún á að vera í höndum fárra manna sem fulltrúa bænda. Hún á að kaupa þessar eignir, en það er ekkert um það, hver eigi að borga þær. Það er ekki einu sinni tekið svo til orða, að þetta eigi að vera sjálfseignarstofnun, eins og hefur verið tízka hér undanfarin ár, þó að enginn viti, hvað það þýðir. Sjálfseignarstofnun er stofnun, sem á sjálfa sig, en mér hefur aldrei verið ljóst, hvað í því felst, en þetta hefur meira að segja sézt í lögum. Hér er ekki einu sinni svo vei, það er ekkert sagt um, hver vera skuli eigandi þessarar stofnunar. Það getur ekki verið ríkið, því að ríkið er að selja þessa stofnun. Það getur varla verið framleiðsluráð landbúnaðarins, því að það hefur varla fé til að kaupa milljónaeignir. Hver er það þá? Hver á að bera tap þessarar verzlunar, ef um taprekstur er að ræða? Hver á að fá gróðann, ef um gróða er að ræða? Það sést ekki af þessu frv. Það stendur aðeins í þessu frv., að þessi stofnun eigi að starfa í umboði framleiðsluráðs, ekkert annað. Umboðið fær hún frá framleiðsluráði, og framleiðsluráð fær sitt umboð frá löggjafanum, sem framselur með lögum, samkvæmt þessu frv., einkasölurétt þann, sem ríkið hefur tekið sér á ákveðnum vörutegundum, til þessarar stofnunar, sem enginn veit neitt um, og síðan er tekið fram í frv., að öll starfsemi grænmetisverzlunar ríkisins, sem nú er samkvæmt gildandi lögum, eigi að færast undir starfssvið framleiðsluráðs og þessa nýju stofnun, en nánara er ekki kveðið á um það í þessum lögum. Aftur á móti hefur grænmetisverzlun ríkisins alveg ákveðið starfssvið og reglur um rekstur í þeim lögum, sem um hana gilda nú, en þau lög eru numin úr gildi með þessum lögum, svo að þarna verður stofnun, sem aðeins hefur ákvæði þessa frv. til þess að fara eftir, aðeins hefur einkasöluréttinn, en ekkert það aðhald, sem felst í núgildandi lögum um grænmetisverzlun ríkisins, sem niður er felld með þessu frv. Það er því alveg einstakur frágangur á þessu frv. með tilliti til þess, að hér er verið að ganga frá nýrri ríkisstofnun með einkasölurétti, og það er gert með þessum hætti. Það er aðeins sagt, að hún eigi að taka við öllu hlutverki ríkisstofnunar, sem verið hefur til, en sú ríkisstofnun er lögð niður og lögin um hana felld úr gildi. Með öðrum orðum: Eftir það verða engar reglur fyrir þessa ríkisstofnun til að fara eftir.

Ég hef áður komið að því, að frágangur þessa frv. að formi til er með alveg óvenjulegum hætti. Hann er óvenjulega tötralegur og fátæklegur. Það er í hverri grein frv. einhvers konar heimildarákvæði, en ekkert ákveðið um það, hvernig með skuli fara. Í 2. mgr. 1. gr. er t.d., eins og frv. er nú, framleiðsluráði heimilað að leyfa Sambandi smásöluverzlana að koma að fulltrúa á fundum framleiðsluráðs, en í einni till., sem fram kom frá meiri hl. hv. landbn. Nd., var þó sagt, að hið sama skyldi gilda um Samband smásöluverzlana í þessu efni og um Sölufélag garðyrkjumanna og Samband eggjaframleiðenda. En af einhverjum ástæðum hefur sú hv. n. eða sá meiri hl. fallið frá þeirri till., og í frv., eins og það kemur nú til þessarar hv. deildar, er þetta aðeins heimild. Ég álít sjálfsagt að ganga út frá því af eða á, hvort þetta Samband smásöluverzlana á að fá að hafa fulltrúa á fundum framleiðsluráðs eða ekki. Ég geri því að till minni, að það sama skuli gilda um þetta Samband smásöluverzlana og um Sölufélag garðyrkjumanna og Samband eggjaframleiðenda, að það skuli fá fulltrúa á fundum framleiðsluráðs, þegar rætt er þar um mál, sem þetta samband varða, en þó aðeins með málfrelsi og tillögurétti. Lengra þýðir víst ekki að fara, má segja kannske er ekki eðlilegt að fara, þar sem þessi stofnun heitir nú framleiðsluráð landbúnaðarins, en hér er um verzlunarsamband að ræða.

Þá er í 2. gr. frv. gert ráð fyrir, að ráðherra, sem fer með þessi mál og ákveða á samkvæmt þeirri einkasöluheimild, sem ríkisstj. er veitt í 4. gr. frv., verði jafnan að leita samþykkis framleiðsluráðs, áður en hann tekur ákvörðun um innflutning landbúnaðarvara, í þessu sambandi garðávaxta hvers konar og nýs grænmetis. M.ö.o.: Með þessu orðalagi er framleiðsluráðið sett yfir ráðherrann. Það held ég sé óvanalegt í lögum frá Alþingi um úrslitavald, ákvörðunarrétt um mjög mikilvæg mál eins og þetta, hvort ráðherra skuli leyfa innflutning til landsins á nauðsynjavörum, að þar skuli hann ekki hafa úrslitavald um, heldur einhver stofnun, sem þannig er yfir honum. Ég felli mig ekki við þetta og legg til, að það skuli leita álits framleiðsluráðs, en valdið um þetta sé hjá hinum ábyrga ráðherra, og tel ekki annað fært af löggjafanum en að láta úrslítavald í öllum málum vera í höndum ráðherra, sem síðan ber ábyrgð fyrir Alþingi. Framleiðsluráð ber enga ábyrgð fyrir Alþingi, og þó að hér yrði, vegna þess að framleiðsluráð hefði t.d. alls ekki samþykkt innflutning á kartöflum, algerlega kartöflulaust, þá hefði Alþingi engan að snúa sér til um það. Ráðh. gæti sagt: Ja, ég hef ekki fengið samþykki framleiðsluráðs fyrir því að leyfa innflutning á kartöflum, framleiðsluráð hefur ekki samþykkt það. Það skiptir engu máli, hvað ég hef viljað, því að eftir lögum hef ég ekki vald um það. Framleiðsluráð getur bannað það, og það hefur bannað mér það. — Ég tel óhæfu að afgreiða frá Álþingi vald í mikilvægum málum, sem ekki sé í höndum ráðh., sem ber svo ábyrgð gagnvart Alþingi. Í fullu samræmi við þetta legg ég til, að orðin „að dómi framleiðsluráðs“ í næstsíðasta málslið falli niður með öllu:

Þá er í 3. gr. frv. helmild til handa framleiðsluráði til verðákvörðunar á „gróðurhúsaframleiðslu hvers konar“. En það er aðeins heimild, en framleiðsluráðinu er ekki skylt að ákveða þetta verð. Orðin „gróðurhúsaframleiðsla hvers konar“ eru náttúrlega mjög víðtæk að merkingu. Það þýðir t.d. alla blómaframleiðs?u, skrautblómaframleiðslu. Framleiðsluráð landbúnaðarins ætti eftir þessu að ákveða verð á öllum blómum, skrautblómum. Og það er ekki vafi á því, að það gerir það. Hv. frsm. meiri hl. lagði á það höfuðáherzlu í sinni framsöguræðu, að þetta væri nýmæli, sem væri mjög mikils virði, að framleiðsluráðið skyldi ákveða verð á allri gróðurhúsaframleiðslu, og bændur hafa náttúrlega alveg sérstaka aðstöðu til þess að ákveða verð á skrautblómum. Enn fremur er þarna ákvæði um, að það sé hægt að ákveða í reglugerð að verðskrá fleiri tegundir matjurta, og mun það eiga við 1. málsgr., þ.e.a.s. aðrar tegundir matjurta en kartöflur, gulrætur og gulrófur. Hef ég ekkert á móti því, að framleiðsluráðið fái heimild til þess að ákveða verðlag á þessari framleiðslu, en ég tel, að það geti leikið nokkur vafi á því, hvað átt er við með orðinu verð. Það getur verið í fyrsta lagi verð til framleiðenda, það getur verið heildsöluverð og það getur verið útsöluverð. Það er ekkert um það í frv., við hvað sé átt, en hv. frsm. meiri hl. skýrði það svo, skildist mér, að það ætti við útsöluverð. En því er hins vegar allmikið mótmælt af Sambandi smásöluverzlana, þeim skilningi og þeirri ákvörðun, að það skuli vera framleiðsluráðið, sem ákveði útsöluverð á öllum þessum vörum. En ég tel upplýst, að það sé átt við útsöluverð hér. Það er víðtækasta heimildin vitanlega til verðlagsákvörðunar að ákveða útsöluverð. Þar af leiðir, að framleiðsluráð getur einnig ákveðið verð til framleiðenda á þessum sömu vörum. En ég geri hér ekki brtt. við þetta. Ég tel skilning á þessu atriði liggja alveg fyrir eftir yfirlýsingar í nefnd og hér af hálfu hv. frsm. En ég geri að till. minni, að fyrir orðin „skal að jafnaði“ í næstsíðasta málsl., þar sem segir, að það skuli að jafnaði fylgja þeirri reglu að hafa verð lægst um aðaluppskerutíma hverrar vörutegundar, skuli standa: skal jafnan, þ.e.a.s., að alltaf skuli fylgja þeirri reglu að reyna að hafa verðið lægst um aðaluppskerutíma hverrar tegundar, eins og eðlilegt er, og skal ég láta þetta nægja um þessa brtt.

Við 4. gr. frv. geri ég allmargar brtt., enda er hún alllöng, í mörgum liðum.

Ég legg til í fyrsta lagi, að þessi fyrirhugaði nýi kafli í framleiðsluráðslögunum, sem á skv. frv. að heita: Um sölu matjurta og róðurhúsaframleiðslu, nái einnig til eggja. ~g sé ekki, hvað elgi að þýða að nefna Samband eggjaframleiðenda í 1. gr. frv., leyfa því að hafa fulltrúa á fundum framleiðsluráðs, nema frv. að einhverju leyti fjallaði um sölu eggja. Það er ekki að öðru leyti en því, að í 5. gr. frv: er heimilað að taka verðmiðlunargjald af eggjum, en það er upplýst, að það sé óframkvæmanlegt eins og nú er.

Ég legg enn fremur til, að fyrstu liðir þessarar greinar, a-, b- og c-liðir, falli niður og einnig d-liður, sem feist í einkasölurétturinn á kartöflum og nýju grænmeti, en til vara flyt ég þá brtt., að orðin „og nýtt grænmeti“ falli þarna niður. Þætti mér gaman að sjá, hvernig hv. fulltrúar frjálsrar samkeppni geta varið það að vera á móti því að fella niður einkasölu á nýju grænmeti, eins og lauk t.d., sem alls ekki er framleiddur hér á landi.

Þá legg ég til, að enn fremur falli niður e-liður 4. gr. um, að hin nýja stofnun, grænmetisverzlun landbúnaðarins, sé bundin við að hafa sömu umboðsmenn sem nú eru fyrir grænmetisverzlun ríkisins.

Í seinni liðum 4. gr. er svo nánar ákveðið, ef hægt er að kveða svo að orði, um framkvæmd laganna gagnvart Sölufélagi garðyrkjumanna, og geri ég að till. minni, að það verði orðað svo, að skiljist, og að sá liður verði einnig látinn ná til Sambands eggjaframleiðenda, þannig að sams konar viðurkenningu og ráðgert er að veita Sölufélagi garðyrkjumanna veiti framleiðsluráð einnig Sambandi eggjaframleiðenda og með sömu skilyrðum. Ég held, að ef þurfi að greiða á einhvern hátt fyrir afurða- og hagsmunamálum Sölufélags garðyrkjumanna sem almenns sambands garðyrkjumanna, sem notfæra sér jarðhita, eins og lagt er til í frv., þá sé ekki síður ástæða til þess að koma á móts við Samband eggjaframleiðenda til þess að gera tilraun til að skipuleggja ,sölu á eggjaframleiðslunni, og legg ég ákveðið til, að það gildi alveg sama um Samband eggjaframleiðenda.

Næsta lið 4. gr. tel ég að sé alveg ótækt að samþykkja, eins og hann er orðaður, því að þar segir, að framleiðsluráðið skuli leitast við að hafa tiltæk úrræði til þess að taka á móti og koma í verð þeim hluta garðávaxtaframleiðslunnar, sem selst ekki til manneldis hverju sinni. Ég held, að þetta orðalag á lagagrein sé alveg einsdæmi í lögum, að ákveðin stofnun eða ákveðnir menn skuli leitast við að hafa tiltæk úrræði. Það mætti alveg eins segja: Framleiðsluráð skal leitast við að hugsa. Það á að leitast við að hugsa fyrir einhverjum úrræðum. Virðist vera gert ráð fyrir því, að það þurfi að skylda þetta ágæta ráð til þess með lögum að reyna að hugsa. Ég vil, að það sé kveðið svo á, að verkefnið, sem þessu ráði ber að framkvæma, sé tiltekið. Ég legg því til, að þetta fáránlega og þýðingarlausa orðalag þessarar greinar og alveg einstæða sé fellt niður og í þess stað tekið fram í frvgr., hvað framleiðsluráð skuli gera í þessum efnum, að það skuli vinna að því að koma upp vönduðum geymslum fyrir garðávexti, grænmeti og egg og greiða fyrir sölu þeirrar vöru allrar jafnt árið um kring. Ég tel, að eins og lögin um framleiðsluráð landbúnaðarins eru, megi eins ætla því þetta hlutverk að því er snertir þessar vörur eins og þær vörur, sem það hefur nú til meðferðar, en það er, eins og vitanlegt er, eins og nú er kjöt og mjólk. En þar er ólíku saman að jafna, þar starfar framleiðsluráðið að verðákvörðuninni og almennt að greiða fyrir sölu þeirra vara, en fer alls ekki með neina verzlun. Ég get fallizt á það, að framleiðsluráðinu verði ætlað þarna nýtt hlutverk og merkilegt, að gera ráðstafanir til þess, að þessir framleiðendur grænmetis og eggja geti komið upp stöðvum til þess að geyma sína vöru, svo að jafnari sala takist á henni árið um kring. Það er vitanlegt, að það, sem hefur háð því, að sambönd þessara framleiðenda gætu komið sér upp nauðsynlegum geymslum, eins og þarna er talað um, er fyrst og fremst skortur á fjármagni, en ekki á vilja eða á því, að þessi sambönd þessara framleiðenda hafi ekki séð nauðsynina á þessu. En þar ætti þetta volduga framleiðsluráð að geta komið til hjálpar þessum samtökum.

Þá legg ég til, að flokkun og mat, sem gert er ráð fyrir að setja reglugerð um, verði einnig látíð ná til grænmetis hvers konar, þ. á m. gróðurhúsaframleiðslu, og enn fremur eggja, og ef það er til bóta, eins og hv. frsm. meiri hl. lagði mikla áherzlu á, að mati og flokkun yrði komið á garðávexti og grænmeti, þá tel ég sjálfsagt, að þau ákvæði verði látin ná til allrar gróðurhúsaframleiðslunnar og einnig eggjaframleiðslunnar. Ef það er trygging í því fyrir neytendur, að slíku mati verði komið á, og það viðurkenni ég, þá er sjálfsagt, að það nái til allra þessara framleiðsluvara. En það er í því sambandi vert að benda á, að það er alveg fráleitt, að sami aðilinn sem sér um mat, útnefnir matsmenn o.s.frv., fari einnig með sölu sömu vara, en það er ætlunin samkv. frv., að framleiðsluráðið, sem raunverulega á að reka hina nýju grænmetisverzlun landbúnaðarins, hafi samkv. sömu lögum heimild til þess að annast matið, tilnefna matsmenn þeirrar vöru, sem það verzlar með sjálft. Það tel ég alveg óhæfu og ekki geta staðizt.

Þá legg ég til, að orðið „matjurtum“ í 1. málslið 5. gr. falli niður. Það er nú alveg sjálfsögð brtt. til lagfæringar á frv., hvaða augum sem menn líta á þetta mál. Hv. n. í Nd. mun hafa lagt til, að dálítill hall, sem var við 5. gr., félli niður, þar sem í þeim lið, sem niður var felldur, var gert ráð fyrir verðmiðlun á matjurtum, en það er leitt að verða að segja það, en þar hefur hinni ágætu hv. Nd. sézt yfir, að þá átti vitanlega ekki að gera ráð fyrir verðmiðlun á matjurtum í 1. mgr. gr., eftir að heimildin til verðmiðlunar var felld niður. Ég tel því alveg einstakt, ef ekki yrði fallizt á þessa brtt., svo sjálfsögð sem hún er.

Þá legg ég til, að 7. gr. frv., um það, að lögin um grænmetisverzlun ríkisins verði úr gildi felld við gildistöku þessara laga, falli niður. Þar af leiðandi tel ég, að gildistökuákvæði þessa frv. mættu gjarnan vera á þá leið, eins og tíðkanlegast er með frumvörp frá Alþ., að þau lög, sem samþykkt yrðu samkv. mínum till., öðluðust gildi nú þegar. Samkv. mínum brtt. yrði, ef þær væru samþykktar, um verulega breytingu á lögunum um framleiðsluráð landbúnaðarins að ræða, þess starfssvið væri fært út, það hefði heimild til verðákvörðunar á allri grænmetisframleiðslu, og það yrði gert ráð fyrir í lögunum, að settar yrðu reglur með reglugerð um sölu á þeim vörum og mat og flokkun, þar með á eggjum. Ég tel, að framleiðsluráð mætti vel við una þá lagabreytingu, sem fælist í slíku frv., ef samþ. yrði nú. En ég tek það fram, að ég teldi réttara að samþ. till. mína til rökstuddrar dagskrár um, að komandi sumar yrði notað til þess að láta fara fram endurskoðun á gildandi lögum um þessi mál, ég teldi það eðlilegra og æskilegra. En það væri því aðeins að þessar brtt. mínar, sem ég hef borið fram til vara og koma til atkv. að fallinni dagskrártillögu minni, væru samþykktar, að ég gæti fylgt þessu frv. Ég teldi, að framleiðsluráð landbúnaðarins gæti vel við þau málalok unað að svo stöddu, og það fengi verulega aukið starfssvið, og ég fyrir mitt leyti hef ekkert á móti því. Ég hef ekkert á móti framleiðsluráði landbúnaðarins í sjálfu sér eða þeim lögum, sem um það gilda. Ég hef ekkert og vil ekkert orð segja og mun aldrei segja gegn hagsmunum bænda, en ég get ekki fallizt á það, að stéttarsamtökum bænda, en í þeirra umboði talar framleiðsluráð, sé falin ríkísstofnun með einkaréttindum, sem henni hafa fylgt sem ríkisstofnun. Ég tel ekki, að Alþ. geti falið nokkrum aðila einkasölurétt nema ríkinu sjálfu, aðilum, sem bera ábyrgð beint gagnvart Alþingi. Það er mikið vald, sem þeirri stofnun er veitt, sem fær einkarétt til innflutnings og sölu á vörum, og ég tel rétt fyrir mitt leyti, að það sé vel um það búið, að þeim rétti sé ekki misbeitt. Það eru alls engar tryggingar fyrir því í þessu frv. og verða trauðla settar, að ekki megi misbeita einkasölurétti, sem einni stétt yrði gefinn. Og það er engin ástæða til þess að stofna til þess einu sinni sem tilraunar. Af þeim ástæðum er það, að ég get alls ekki á það fallizt, að það sé nokkurt vit í þessu frv., eins og það liggur fyrir, að gefa samtökum einnar stéttar einkasölurétt og ákvörðunarrétt um allan innflutning til landsins á mikilli nauðsynjavöru, en það felst í frv. ómótmælanlega.

Ég tel svo auk þess allan frágang frv. og undirbúning þessa máls svo einstakan, að mig furðar á því, að menn skuli vera til hér, sem vilja ekki líta á það að leiðrétta a.m.k. ytra útlit og frágang og búning þessa frv. En það er að vísu ekki einsdæmi um þetta frv. Það er svo um stórmál, maður veit, að á þeim fást engar breytingar. En það er ólíku saman að jafna við þetta frv. Hin stóru mál hv. stjórnarflokka, sem oft eru borin fram þannig, að vitanlegt er, að þau eiga að ganga fram óbreytt, hafa verið rækilega undirbúin af öllum þeim beztu mönnum, sem hv. stjórnarflokkar eiga á að skipa í sínum þingflokkum. Þetta frv. hafa einhverjir ókunnir menn utan þings samið og samið illa, svo að það er með eindæmum, svo að ég trúi því ekki, að hv. þingmenn stjórnarflokka láti hafa sig til þess eða taki þeim skipunum að samþykkja þetta dæmalausa frv. alveg óbreytt, án nokkurra leiðréttinga einu sinni að formi til. Ég á eftir að sjá það.