02.03.1956
Efri deild: 79. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1291 í B-deild Alþingistíðinda. (1265)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Það var aðallega sú ósk frá frsm. minni hl., hv. 6. landsk. (FRV), að umr. verði frestað nú, sem gaf mér tilefni til þess að standa upp.

Hann hefur sjálfur flutt till. um rökstudda dagskrá, og vitanlega gengur hún fyrir og verður borin upp fyrst. Ef honum er annt um, að till. fái að ræðast í nefnd, þá er náttúrlega sjálfsagður hlutur, að hann taki þær aftur til 3. umr. og leyfi n. að ræða þær milli umr. Annars leikur hann sér að því að láta þær koma fram núna á eftir, án þess að nefndin geti athugað þær. Rökstudda dagskráin kemur vitanlega fyrst. Verði hún samþykkt, þá eru þessar till. búnar að vera og frv. allt. Verði hún ekki samþykkt, heldur felld, þá fer málið til 3. umr., og þá tekur hann sínar till. aftur og n. athugar þær milli umr. Þetta liggur eins ljóst fyrir og hægt er að vera. Vilji hann hins vegar ekki taka þær aftur til 3. umr. nú, þá koma þær til atkvæða núna, og þá er ekkert um það að segja. En vitanlega er engin ástæða til að fresta málinu núna, því að hann hefur nógan tíma til að taka þær aftur og leyfa okkur að ræða þær á milli umræðna, ekki sízt þegar helgi fer í hönd og engir fundir verða, en nógur tími til nefndarstarfa. Ég vona þá bara, að hann og aðrir komi á fund, þegar hann er boðaður, til að ræða þetta, en láti sig ekki vanta og þurfa að biða daga eftir að geta haldið fund með þeim.

Margt annað skal ég ekki segja. Ég heyrði það á ræðu hv. 6. landsk., að hann þekkir einhverja kúgun og dæmir mann af sér og heldur, að aðrir þm. séu kúgaðir. Ja, það dæmir hver um þá kúgun, sem hann þekkir. Það verður að hafa það. Ég vísa því frá mér, að ég sé á nokkurn hátt kúgaður, hvorki í þessu máli né öðru. Ég hef aldrei þekkt neina slíka kúgun. En hann þekkir þetta í sínum flokki, og því býst hann við, að henni sé beitt í öðrum flokkum. Hann getur þess vegna ætlað af því, að það sé sama með aðra. Hann um það.

Ég er ósköp tregur til að hlýða á gróusögur og því síður að svara gróusögum, og ég nenni þess vegna ekki að svara því, sem hann yfirleitt var að fleipra með, sem eru gróusögur, teknar upp á götunum í bænum. Hitt vil ég upplýsa, af því að hann virðist ekki vita það, að þetta frv., sem lagt er fram í Nd. af landbrh„ var undirbúið af 5 manna nefnd, sem mig minnir að í sætu Jón alþm. á Reynistað, Sverrir Gíslason í Hvammi, Björn Jóhannesson jarðeðlisfræðingur við atvinnudeildina, Unnsteinn Ólafsson skólastjóri á Reykjum í Ölfusi og Helgi Pétursson forstöðumaður í Sambandinu. Þessir 5 menn sömdu frv. í hendur landbrh. Af því að honum virtist vera ókunnugt um þessa nefnd eða a.m.k. mundi ekki eftir henni í bili, þegar hann var að tala, þá ætla ég bara að upplýsa þetta. Og ég hygg, að í þeirri nefnd hafi komið fram bæði sjónarmið bændanna, þar sem í henni voru bæði Jón á Reynistað og Sverrir úr framleiðsluráðinu, sem setið hafa á öllum þeim stéttarsambandsfundum bænda, sem höfðu málíð til meðferðar frá 1948 og þangað til sumarið 1955 og alltaf heyrt þeirra samþykktir og þeirra kröfur. Unnsteinn var þar fyrir hönd ylræktarmannanna a.m.k. og reyndar allra garðræktarmanna, þar sem hann er skólastjóri garðyrkjuskólans. Og það má þá segja, að hinir tveir, sem eru Reykvíkingar og búa hér í Reykjavík og þurfa að kaupa hér matjurtir, mættu kannske teljast að einhverju leyti að minnsta kosti fulltrúar neytenda, þó að annar þeirra hafi líka umsjón með sölu, þar sem hann er forstjóri að einni deild Sambandsins, sem selur innlendu vöruna, og ættu þeir þess vegna að vera þeim málum kunnugir líka. Þessir menn undirbjuggu frv.

Að öðru leyti skal ég ekki fara inn á málið meira, en endurtaka það, sem ég sagði í gær, að það er fyrst og fremst ósk bændanna, sem að framleiðslunni stóðu og standa, enda þótt þátttaka bæjarmannanna á seinni árum hafi orðið meiri. Það hefur skapazt aðstaða sérstaklega hér í Reykjavík til þess, að unglingar gætu átt meira við garðrækt en áður, og þeirra aðstaða til þess breytist á engan hátt frá því, sem nú er. Þeir geta ræktað allar sínar kartöflur sjálfir hér, alveg eins og þeir gerðu, og ef þeir vilja selja þær í heildsölu og hafa meira en handa sjálfum sér, þá er heildsalan til til að taka á móti þeim, alveg eins og hún var, og ef þeir vilja selja þær einhverjum prívatmanni, þá er smásöluverzlunin alveg eins og var. Um það breytist ekki aðstaða þeirra á nokkurn veg fyrir þetta. Það er þess vegna mjög langt frá því, að það þess vegna sé ástæða til þess að vera á mótí frv. Hitt er annað mál, að neytendur mundu kannske geta fengið ódýrari framleiðslu, ef allur innflutningur á öllu grænmeti væri gefinn frjáls og ef alltaf væru hér á markaðnum útlendar kartöflur, sem keyptar væru erlendis fyrir á milli 40 og 50 kr. tunnan. En hve mikið yrði þá eftir af ræktun hér á landi, það er allt annar háleistur. Það verða ekki ræktaðar kartöflur hér á landi til að seljast á sama verði og innfluttar. Alveg sama er að segja um káltegundir. Nokkrir menn hér í Reykjavík lifa beinlínis á matjurtarækt í kaldri jörð, káltegundum og öðru, sem þeir selja að sumrinu. Ég er ekkert viss um, ef öll slík verzlun yrði gefin frjáls og alltaf væri hér kál á markaði, að kál yrði ræktað hér. Útlent kál kostar um helming af því, sem það kál kostar, sem ræktað er hér. Ég er ekki alveg viss um, hvort það yrðu þá margir, sem legðu sig ákaflega mikið eftir því að rækta garðmat, ef alltaf væru nægar birgðir af þeim erlenda. Ég er ekki viss um það. Þetta sjónarmið snýr að heildinni, en ekki bara að neytendum. Það er þess vegna, sem það opinbera hefur nú í mörg ár haft takmörkun á innflutningi á garðmat. Það er til að halda uppi garðmatarframleiðslu í landinu sjálfu, og gildir þetta fyrir alla framleiðslu, hver sem hún er. Framleiðsluverð er allt annað hér á landi en í öllum okkar nágrannalöndum. Það gildir ekki bara um garðmat, þetta gildir líka t.d. um mjólk og kjöt, og ég geri ráð fyrir, að ef einhver vildi fara að flytja inn fisk, þá gæti hann hæglega selt hann hér ódýrari en fiskur er hér í búðum. En það bara dettur engum í hug að gera það. Það er vandalaust að gera það, því að framleiðsluskilyrðin eru öll dýrari hér á landi en í öðrum löndum og alveg sama hvað þar er um að ræða. Iðnaðinn höfum við verndað með háum verndartollum, og hitt höfum við verndað með því að láta ekki flytja vörurnar inn, nema þegar þær vantar. Meðan svo ríkið ver fé til þess að borga niður verð á kartöflum, eins og gert hefur verið í mörg ár, þá er eðlilegt, að það vilji hafa hönd í bagga með um hagnaðinn, sem af sölunni kemur. Það hefur verið gert í gegnum einkasöluna, síðan farið var inn á þessa leið, og mun sjálfsagt líka halda því áfram, í hvers hendur sem það lætur einkaleyfi á innflutningnum í framtíðinni. Það er líka ósköp eðlilegt. Mér finnst það svo eðlilegt sem mest getur verið, og þó að ég sé ekki með einkasölum yfirleitt, þá þykir mér, eins og þau mál liggja núna, eðlilegt, að ríkið vilji hafa það í sínum höndum til þess einmitt að verðmiðla, lækka verðið á því innflutta og hafa svipað verð allt árið, eins og hefur verið gert. Þetta finnst mér alveg sjálfsagður hlutur.

Ég skal svo að síðustu taka það fram fyrir mína hönd og sjálfsagt margra, kannske allra, sem standa að þessu máli, — ég veit það ekki, en ég geri ráð fyrir því, — að það er svo ákaflega langt frá, að það sé nokkur vottur af nokkurri persónupólitík í þessu máli. Hv. 6. landsk. þm. hélt, að þetta væri eitthvað til að bola einhverjum mönnum frá og koma einhverjum öðrum að. Og hann vissi miklu meira, því að hann vissi, hver átti að komast að, og alla skapaða hluti vissi hann um það. Hann hafði heyrt það einhvers staðar hérna niðri í Hafnarstræti eða kannske uppi á Grettisgötu eða ég veit ekki hvar. En ég hef ekki hugmynd um neitt af þessu, og það er langt frá því, að það sé nokkur vottur af nokkurri persónupólitík í málinu frá minni hálfu. Það er bara mál, þar sem mér finnst eðlilegt að standa með stéttarsamtökum bænda, sem standa einhuga á öllum sínum fundum að málinu.