15.03.1956
Efri deild: 85. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1296 í B-deild Alþingistíðinda. (1271)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Það atvikaðist þannig, að hv. form. landbn., 1. þm. N-M. (PZ), var veikur og bað mig að mæta fyrir sig í landbn., þegar hún tæki til athugunar frv. það, sem hér liggur fyrir að nýju. Nú er þessi hv. þm. ekki viðstaddur, og tel ég mér þá skylt í annað sinn að mæta í þessu máli fyrir hans hönd að vissu leyti og gera grein fyrir brtt., sem landbn. flytur á þskj. 452.

Nefndin tók málið til athugunar á ný, og það varð samkomulag allra nm. að bera fram áðurnefndar brtt. Það kom í ljós við umr. málsins, að í 2. gr. voru ákvæði, sem talið var að mætti misskilja eða væru þannig orðuð, að vafasamt væri, að þau yrðu skilin á þann hátt, sem ætlazt var til. Það hefur sem sé aldrei verið til þess ætlazt, að framleiðsluráð fengi neitunarvald, þegar um það væri að ræða, að skortur væri á kartöflum í landinu eða garðávöxtum og þyrfti að flytja inn eða álitið væri að þyrfti að flytja inn. Þó að bændastéttin sé hófsöm og treysta mætti því, að hún mundi ekki beita því, sem mætti telja að falizt gæti í frv., eins og það liggur fyrir, þ.e.a.s. neitunarvaldi, þá er réttara, og það var álit landbn., að orða þetta tvímælalaust, og því er lagt til, að breytingar verði gerðar á tveim atriðum í 2. gr. og það skýlaust látið koma fram, að hér á aðeins að vera um ráðgefandi vald að ræða. Breytingarnar eru:

a) Að í stað orðanna „leita samþykkis framleiðsluráðs“ í 1. málsl. komi: leita álits og till. framleiðsluráðs. — En það mun vera alveg hárrétt orðað, miðað við það, sem ætlazt var til í upphafi að framleiðsluráð hefði aðstöðu til að gera, að gera till. og segja sitt álit um það, hvort framleiðslan í landinu væri nægileg til þess, að ekki þyrfti á innflutningi að halda, og það verður að teljast eðlilegt, að fulltrúar bændanna, sem framleiða, séu um þetta spurðir og gefi sínar upplýsingar.

b) Að í stað orðanna „notkunarþörfinni að dómi framleiðsluráðs“ í 2. málsl. komi: neyzluþörfinni — en „að dómi framleiðsluráðs“ falli niður, því að dómsorð á framleiðsluráð ekki að hafa í þessu efni, og úr því að farið var að breyta, þótti viðfelldnara að segja „neyzluþörfinni“ en „notkunarþörfinni“.

Þá er 2. brtt., að f-liður orðist svo í 4. gr.: „Framleiðsluráði er heimilt að viðurkenna Sölufélag garðyrkjumanna sem sölufélag ylræktarbænda svo og Samband eggjaframleiðenda sem sölufélag eggjaframleiðenda, enda starfi þessi félög á samvinnugrundvelli og hafi fengið samþykktir sínar viðurkenndar af framleiðsluráði.“

Hér er um að ræða, að eggjaframleiðendum er veitt eftir till. sama aðstaða og gróðurhúsamenn eða garðyrkjumenn eiga að hafa. Þetta er samkvæmt fram kominni ósk eggjaframleiðenda, sem lá fyrir bréflega í n., enda eðlilegt, að þeir njóti sömu aðstöðu og hinir, sem ég nefndi.

Þá er 3. till. við 5. gr., orðið „matjurtum“ í 1. málsl. falli brott. Það lítur út fyrir, að það hafi orðið af vangá við afgreiðslu málsins í Nd., sem gerði nokkrar breytingar að því er matjurtirnar snerti, að þetta orð varð eftir, og er í ósamræmi við lögin og talið sjálfsagt að leiðrétta það, þó að ekki hefði nú sennilega af þessu hlotizt neinn skaði. En úr því að farið var að gera brtt., þótti rétt að gera þessa leiðréttingu, til þess að þarna væri ekki ónýtt orð sem leifar af því, sem áður var í frv.

Hv. 6. landsk., sem hefur lagt fram brtt. á þskj. 429, er samþykkur þessum brtt. frá n., hún er einhuga um að leggja þær til, og ég geri ráð fyrir því, að hann taki aftur þær sérstöku brtt. sínar á þskj. 429, sem verða óþarfar, þegar þessar brtt. koma fram, sem hann hefur líka sætt sig við.

Að öðru leyti leggur meiri hl. landbn. til, að frv. verði ekki breytt.