15.03.1956
Efri deild: 85. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1298 í B-deild Alþingistíðinda. (1273)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Finnbogi R. Valdimarsson) :

Herra forseti. Það er nokkuð um liðið, síðan þetta mál var síðast til umr. hér í hv. deild, enda hafa komið fram í því viss gögn, síðan það var rætt hér síðast. Landbn. hafa síðan borizt erindi frá Sambandi eggjaframleiðenda, frá Sambandi smásöluverzlana, og til Alþ. hefur enn fremur verið send ályktun um málið frá Bændafélagi Eyfirðinga. Mun ég víkja nánar að öllum þessum erindum, sem nú liggja fyrir í málinu, en lágu ekki fyrir síðast þegar það var til umr. hér.

Ég gerði við 2. umr. þessa máls grein fyrir meginskoðun minni í því, en hún er í stuttu máli sú, að málið sé mjög illa undirbúið, óhæfilega illa og ranglega undirbúið, vegna þess að um undirbúning þess hafa ekki fjallað þeir aðilar, sem eru hinir réttu aðilar í þessu máli. Það hefur að vísu verið fjallað lengi um þetta mál og af ýmsum, það hafa verið settar í það stjórnskipaðar nefndir, en í engum þeirra nefnda hafa neytendurnir í landinu átt nokkurn fulltrúa. Aðilar að afurðasölumálum sem þessum eru vitanlega framleiðendur þeirra vara, sem um er að ræða, í öðru lagi kaupendur þeirra sömu vara í landinu, neytendurnir, og í þriðja lagi þeir aðilar, sem fjalla um og fara með sölu og dreifingu varanna. Um þetta mál hafa að vísu fjallað menn, sem hafa nokkurt umboð frá framleiðendum í landinu, en hafa aðeins umboð fyrir nokkurn og það minni hluta framleiðenda á þessum vörum. Um það hafa líka fjallað fulltrúar þeirra, sem hafa árum saman og um langan tíma farið með sölu og dreifingu þessara vara í landinu, um áratugaskeið. En þessir aðilar hafa ekki orðið sammála um málið, og liggur það ljóslega fyrir í þeim skjölum, sem þessu máli fylgja. Það liggur ljóslega fyrir, að engir þeirra, sem hafa starfað að sölu og dreifingu kartaflna og grænmetis í landinu á undanförnum árum, eru samþykkir þessu frv., eins og það liggur fyrir, og eru það þó menn, sem hafa mesta reynslu og yfirsýn um sölufyrirkomulagið á þessum vörum. Það liggur þvert á móti fyrir, að einmitt þeir, sem hafa starfað að verzlun með þessar vörur í umboði grænmetisverzlunar ríkisins, mótmæla þessu frv. og telja það fyrirkomulag, sem stungið er upp á með því, vera sízt til bóta og margir mjög til hins verra. Þetta liggur fyrir frá fjölda kaupfélagsstjóra í landinu. Það liggur einnig fyrir frá Sambandi smásöluverzlana, og skal ég víkja nokkru nánar síðar að þeirra áliti, sem liggur nú fyrir sérstaklega í bréfi frá því sambandi. En neytendurnir, þeir sem eiga að kanpa vöruna í landinu, hafa aldrei verið að spurðir um þeirra afstöðu um breytt fyrirkomulag á þessum málum, þrátt fyrir það að þetta mál sé talið hafa verið á döfinni í mörg ár. Það er þetta, sem ég tel rangan undirbúning málsins. Því er það aðaltill. mín, að málið verði tekið upp að nýju og fái réttan undirbúning, áður en það komi að nýju fyrir Alþ., þann undirbúning, að fulltrúar frá öllum þessum aðilum, sem hlut eiga að máli, fái kost á að fjalla um málið og gera sínar till. um það. Þessi megintill. mín liggur fyrir í þeirri till. til rökstuddrar dagskrár, sem ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 416, en þar er gert ráð fyrir, að 5 manna nefnd, skipuð fulltrúum frá framleiðsluráði landbúnaðarins, Alþýðusambandi Íslands, Neytendasamtökunum, S.Í.S. og grænmetisverzlun ríkisins, fjalli um þetta mál og endurskoði gildandi löggjöf um sölu á kartöflum og grænmeti. Með því að samþykkja þessa till. væri tryggt, að allir þeir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, fengju að fjalla um málið. Ég væri að sjálfsögðu til viðtals um breytingu á þessari till. minni, ef einhverjir vildu fylgja henni í meginatriðum, en teldu, að fleiri aðilar eða aðrir ættu að koma þarna og eiga kost á að fjalla um þessi mál.

En með því að ég bjóst varla við því eftir það, sem komið hefur fram í þessu máli, og það kapp, sem hefur verið lagt á að koma þessu máli fram, að þessi till. mín, hin rökstudda dagskrártill., yrði samþ., þá bar ég fram brtt. við frv. á þskj. 429, og ég gerði við 2. umr. málsins grein fyrir þeim, svo að ég mun nú ekki hér endurtaka það, sem ég sagði þá um þessar till. Þessar till. komu svo til athugunar hjá landbn. eftir 2. umr., og lágu þá fyrir um þær umsagnir t.d. frá Sambandi eggjaframleiðenda, sem mælti mjög eindregið með mínum till. að því er það samband varðaði. Það samband sendi landbn. erindi um þetta, þar sem það áréttaði enn það, sem komið hafði í ljós af þess hálfu við umr. í n. áður, að það ákvæði í frv., sem eggjaframleiðendur varðar helzt, er að dómi þessa Sambands eggjaframleiðenda algerlega óframkvæmanlegt og því þýðingarlaust að hafa það í frv. Þetta kemur skýrt fram í erindi Sambands eggjaframleiðenda. En þetta ákvæði felst, ef ég man rétt, í 5. gr. frv., að heimilt sé að leggja verðjöfnunargjald á egg. Þetta atriði frv. telja eggjaframleiðendur sjálfir gersamlega þýðingarlaust í frv., með því að það sé óframkvæmanlegt.

Hv. meiri hluti n., sem við athugun frv. eftir 1. umr. taldi sig geta samþ. frv. án nokkurra breytinga, gat nú, er nefndin fór að athuga brtt. mínar og það, sem fyrir lá um þær, talið sig fallast á að breyta nokkrum atriðum í frv. Efnislega er það í raun og veru aðeins ein breyting. Það er brtt. mín við 2. gr. frv. um, að þau orð í 2. gr. frv., sem gera framleiðsluráð að æðsta valdi um innflutning allan á kartöflum og garðávöxtum, yrðu felld niður. Ég sýndi fram á það við 2. umr. málsins, að með þessu ákvæði væri framleiðsluráð sett yfir landbúnaðarráðherra og ætti eitt að meta, hvenær þörf væri á að flytja kartöflur til landsins, en þetta framleiðsluráð bæri síðan enga ábyrgð gagnvart neinum nema þá sínum umbjóðendum, þó að af því hlytist stór skaði, að ekki væru fluttar inn þessar vörur og alger skortur yrði á þeim í landinu. Ég sýndi fram á, hver óhæfa það væri að hafa það í löggjöf að veita nokkurri stofnun annarri en ríkisstjórn sjálfri slíkt vald, og nú hefur hv. meiri hluti fallizt á þetta. Hv. frsm. segir nú, að það hafi aldrei verið tilætlunin, að framleiðsluráð fengi slíkt vald, en samt var þetta skýrum orðum í frv. Ja, ég hef nú af þessum ástæðum og fleiri ástæðum ástæðu til að ætla, að hv. frsm., hv. þm. S-Þ., hafi alls ekki lesið þetta frv.; a.m.k. ekki nógu gaumgæfilega, því að hann er svo skýr maður, að hann hefði séð það við fyrsta yfirlestur, að það var einmitt einræðisvald um þessi mál, sem fólst í ákvæðum þessarar greinar. frv. Og verð ég að segja, að það er þá ekki að ófyrirsynju, að hv. n. hefur fengizt til að athuga þessi ákvæði, þegar hún hefur nú komizt að þeirri niðurstöðu, að það hafi aldrei verið tilætlunin, að í þeim fælist það, sem nú er játað að í þeim felist. (KK: Þannig getur það verið, þegar rétt orð eru ekki valin.) Hér er ekki spurning um orðaval. Hér er spurning um það, hver hafi æðsta vald. Hvernig það er orðað um þetta æðsta vald, hvort það er sagt æðsti dómur eða æðsta vald, það má segja, að það er spurning um orðaval, en hitt er alveg víst, að sá, sem hefur síðasta orð, dóm um eitthvert mál, hefur þar með vald. Með þessu ákvæði var framleiðsluráði landbúnaðarins, sem fer með umboð fyrir minni hluta framleiðenda í landinu, gefið einræðisvald til þess að ákveða um innflutning til landsins, alveg óháð því, hvað landbrh. eða ríkisstj. segðu um þessi mál.

Ég held, að það væri heppilegt, að hv. meiri hl. læsi nú þetta frv. enn betur en hann hefur gert enn þá, því að það eru enn þá í því mörg ákvæði, sem eru lítt frambærileg, bæði að formi og efni, þó að þetta atriði hafi nú verið leiðrétt. Meginefni frv. stendur óraskað, það, að framleiðsluráði, litlum hóp manna, sem hefur umboð fyrir minni hluta framleiðenda, er falin yfirstjórn á einkasölu, sem hefur nákvæmlega sömu réttindi og meðan hún var ríkiseinkasala. Ég held því fram, að slíka einkasöluaðstöðu geti Alþingi ekki gefið neinum nema þá ríkisstj. sjálfri.

Það skipulag hefur verið ríkjandi um nær 20 ár, að ríkisvaldið sjálft hefur farið með einkasölu á þessum vörum, og það liggur fyrir næg reynsla um það, hvernig þetta hafi gefizt. Menn geta verið með eða á móti ríkiseinkasölum, en það liggur fyrir reynsla um það, hvernig þessi ríkiseinkasala hefur gefizt, og það liggur hvergi fyrir í skjölum þessa máls og hefur hvergi komið fram í umræðum um þetta mál, að framkvæmd þessarar einkasölu hafi verið óhæf. Það hefur hvergi komið fram, að neytendum hafi verið sýnd ósanngirni af stjórn þessarar einkasölu. Þó að hæstv. dómsmrh. kalli forstjóra hennar í hverju orði einræðisherra eða einræðisklærnar frá Hornafirði, þá hefur það hvergi komið fram í neinum skjölum þessa máls né heldur í blöðum hæstv. ráðh., sem þó er ekki vel við einkasölur, að framkvæmd þessarar einkasölu hafi verið óhæf í garð neytenda. Það hefur ekki heldur komið fram með neinum rökum, að hún hafi verið óhæf í garð framleiðenda. En það var meginatriðið í þeirri löggjöf, sem gildir um þessa stofnun, að hún eigi að sýna framleiðendum og neytendum jafna tillitssemi, taka tillit til hagsmuna beggja aðila. Það er erfitt hlutverk og illt að eiga að framkvæma það, en það virðist svo sem þetta hafi tekizt furðanlega vel, því að ásakanir á framkvæmd þessarar ríkiseinkasölu, þessarar ríkiseinokunar, geta menn sagt, eru ekki miklar. Ég hef spurt eftir þeim, ég hef lýst eftír þeim hér, og þær hafa ekki komið fram. Það hafa komið fram órökstuddar, ósannar ásakanir á stjórnendur þessarar stofnunar úr þeirri átt, sem sízt skyldi ætla, frá yfirmanni þessarar stofnunar, en þær hafa reynst ósannar. Og það eru einmitt þessar ásakanir, sem gefa mér og öðrum bendingu um það, að hér sé ekki allt með felldu, að einmitt yfirmaður þessarar stofnunar skuli bera fram rangar sakargiftir á hendur þessari ríkisstofnun, sem undir hann hefur heyrt.

Þetta mál hefur þegar sætt mikilli andstöðu bæði innan þings og utan. Hæstv. dómsmrh. sagði í umræðum hér við 2. umr., að hann hefði ekki getað séð, að málflutningur gegn þessu frv. væri málefnalegur. Nú er það staðreynd, að margir mætir og mikilsmetnir flokksbræður þessa hæstv. ráðh. hér á Alþingi hafa sýnt þessu frv. fulla andstöðu,tveir hv. þm. Reykjavíkurbæjar hafa greitt atkv. gegn því, hv. þm. Ak., og sjálf bæjarstjórn Reykjavíkur hefur lýst fullri andstöðu gegn frv. Eitt blað Sjálfstfl., aðalblað Sjálfstfl. hér í bænum, Vísir, skrifaði forustugrein um þetta mál sérstaklega, nokkru eftir að bæjarstjórn Reykjavíkur hafði látið það til sín taka, og í þessari forustugrein var kveðið svo að orði, að blaðið teldi það skyldu þm. Reykjavíkur allra að standa á móti þessu frv. Samband smásöluverzlana hér í bænum hefur lýst andstöðu við frv., svo að það er einmitt úr herbúðum hæstv. ráðh., hv. Sjálfstfl., sem andstaðan gegn þessu frv. kemur. Nú má vera, að minn málflutningur hér og andstaða gegn þessu frv. sé ekki nógu málefnalegur, og þætti mér það þá illt, ef það yrði allsherjardómur um minn málflutning hér í þessu máli sem öðrum, að hann styddist alls ekki við málefnaleg rök. En einstakir hv. þm. hafa verið svo elskulegir í minn garð stundum að viðurkenna, að ég a.m.k. reyndi að hafa í frammi málefnalegan málflutning. Ég hef reynt að mynda mér skoðun á þessu máli sem öðrum eftir þeim gögnum, sem fyrir liggja í því, og hef miðað mína afstöðu og minar till. í því við þá niðurstöðu, sem ég hef komizt að. Það er langt frá því, að fyrir mér vaki í þessu máli að taka þátt í flokkspólitískri togstreitu, sem kann að vera innan eins flokks meðal manna, sem skyldir eru þessu máli. Það kemur mér ekki við. En mér kemur það við, hvaða löggjöf er sett á Alþingi um sölu á afurðum, sem eru framleiddar á þeim svæðum, sem ég þekki bezt til, og keyptar af öllum þorra manna í öllum kaupstöðum og kauptúnum landsins. Og það er vegna þess, að ég hef sannfærzt um, að það skipulag, sem stungið er upp á með þessu frv., er langtum háskalegra en það. einkasölufyrirkomulag, sem veríð hefur, hvað sem menn geta um það sagt, að ég er andvígur þessu frv.

Ég hef spurt: Hvar eru rökin með þessu frv.? Og þau rök hafa ekki komið fram, nema ein, ef rök skyldi kalla. Það er þetta: Framleiðsluráð landbúnaðarins vill þetta mál fram. Það eru einu rökin, og það á að vera nóg. Það eru svona álíka rök og það voru í trúarbragðastyrjöldum að hrópa: Guð vill það. — Það er hrópað núna: Framleiðsluráð vill það. — Það hafa engin rök verið færð fyrir því, hvers vegna það væri betra skipulag en það, sem nú er, ef framleiðsluráðið færi með einkasölu á þessum vörum. Það vantar. Svo er talað um, að bændastéttin vilji það, framleiðsluráðið sé fyrir Stéttarsamband bænda og tali í nafni allra bænda. En það vill svo til, að einmitt nú síðustu daga hefur hv. Alþingi borizt rödd einmitt frá bændum. Bændur eru ekki aðilar að þessu máli nema að nokkru leyti. Þeir eru ekki framleiðendur þessara vara nema að minni hlutanum.

En svo hefur borizt rödd til hv. Alþ., sem ekki verður vefengt, að er frá bændum. Bændafélag Eyfirðinga sendi Alþingi fyrir fáeinum dögum símskeyti um ályktun, sem það hefði gert í þessu máli, og sú ályktun liggur nú frammi í lestrarsal Alþingis. Ég vildi, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp þessa ályktun í þessu máli, með því að hún er komin frá félagi í einu stærsta landbúnaðarframleiðsluhéraði landsins, því héraði, sem eftir Reykjavík og nágrenni hefur mesta framleiðslu á þeim vörum, sem hér er nú verið að ræða um sölu á. Þessi samþykkt er gerð á aðalfundi Bændafélags Eyfirðinga 7. þ. m. og er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalfundur Bændafélags Eyfirðinga, haldinn 7. marz 1956, skorar á Alþingi að fella frv. það, sem nú liggur fyrir Ed. um breytingu á lögum um framleiðsluráð landbúnaðarins. Fundurinn lítur svo á, að breytingar, sem fram koma í þessu frv., séu ekki líklegar til hagsbóta fyrir kartöfluframleiðendur, og telur því fráleitt að kollvarpa því skipulagi, sem verið hefur á þessum málum um nokkurt árabil, eins og ákveðið er í lögum nr. 21 2. apríl 1943, um verzlun með kartöflur.“

Bændafélag Eyfirðinga mun, að því er mér er tjáð, ná yfir allar sveitir Eyjafjarðarsýslu og vera skipað bændum, ekki sízt hinum áhugasömustu og beztu bændum í þessu mikla landbúnaðarhéraði. Ég þekki ekki forustumenn þess, en mér er sagt, að þeir séu valinkunnir menn margir hverjir og ekki verði þetta félag vænt um það, að því gangi til pólitísk togstreita með því að láta þetta álit sitt í ljós. Þar munu vera menn, sem eru mikils metnir í bæði Framsfl. og Sjálfstfl., frömuðir um landbúnaðarmál og menn, sem hafa hið bezta vit á þeim og vita þá ekki sízt, hvað þeir eru að segja um þessi mál, því að þarna fer fram, eins og ég sagði áðan, einhver mesta framleiðsla á kartöflum, sem á sér stað í einu héraði. Þetta er álit þessa félags, og var, að því er mér er tjáð, till. um þessa ályktun borin fram af stjórn félagsins og samþykkt einróma á fjölmennum aðalfundi félagsins, svo að hér er ekki um það að ræða, að hér sé aðeins lítill hluti. (Gripið fram í.) Ja, mér er sagt, að það hafi verið margir tugir manna á þeim fundi. En annars vænti ég, að hv. 1. þm. Eyf. þekki svo vel þetta félag og þá menn, sem hér eru að láta álit sitt í ljós á þessu máli fyrir hönd bænda í Eyjafirði, að hann gæti þá gert nánari grein fyrir, ef ég fer hér að einhverju leyti með rangt mál eða ofsegi í einhverju vafaatriði.

Þetta er álit þessa bændafélagsskapar, en það liggur ekki fyrir álit bænda, nema þá fulltrúafunda einhverra eins og framleiðsluráðs og búnaðarþings, þar liggja fyrir óskir um, að framleiðsluráðið fái einkasölu með kartöflur og grænmeti. Ég get vel skilið það, að stofnun eins og framleiðsluráð landbúnaðarins óski eftir að fá sem mest vald, ég hef ekkert við það að athuga. Það eru fleiri stofnanir en það, sem óska eftir að fá sem mest vald. En það verður að líta á það, hvort þær óskir eru skynsamlegar fyrir alla aðila. Ég neita því, að það geti verið hagsmunamál framleiðenda allra að gefa þessari einu stofnun einkasöluna með allar þær framleiðsluvörur, sem hér ræðir um. Það telja a.m.k. ekki allir bændur, að það sé hagsmunamál bænda, sbr. þá ályktun Bændafélags Eyfirðinga, sem ég hef nú lesið. Það liggur fyrir, að þau neytendasamtök, sem til eru, mótmæla þessu frv. og telja sínum hagsmunum stefnt í háska með samþykkt þess. Neytendasamtökin í Reykjavík, fjölmennur, en að vísu ungur félagsskapur, mótmælti, og verzlunarstéttin, bæði kaupfélagsstjórar og kaupmenn, er síður en svo hrifin af þessu. Hún er alls ekki með því. Það liggur fyrir skjallega frá bæði kaupfélagsstjórum og kaupmönnum, sem hafa farið með smásöluverzlunina á þessum vörum, að þeir geta vel sætt sig við það fyrirkomulag, sem hefur verið. Það liggur fyrir í bréfi frá Sambandi smásöluverzlana, sem ég hef hér fyrir framan mig, að það, samband smákaupmanna, viðurkenndi, að þeir, sem nú fjalla um innflutning og heildsölu garðávaxta og gróðurhúsaafurða, hafi haft samráð við þá um framkvæmd málanna, og þeir bera engar kvartanir eða ásakanir fram á þessa ríkísstofnun. Það getur verið skiljanlegt, að stofnun eins og framleiðsluráð landbúnaðarins óski eftir fullkomnu valdi yfir þessari ríkiseinkasölu. En spurningin er: Er það viturlegt? Ég spyr sjálfan mig meira að segja, hvort það sé viturlegt fyrir framleiðsluráðið. Það væri hægt að hugsa sér, að stofnun eins og Alþýðusamband Íslands færi fram á að fá algert einræðisvald frá ríkisvaldinu til þess að ákvarða kaup og kjör í landinu. Það hefur ekki gert það, og ég tel ekki beinlínis líklegt, að það fari fram á það. En ég teldi það ekki viturlegt af því. En hér er framleiðsluráð landbúnaðarins í nafni hænda að fara fram á það að geta eitt ákveðið kaup og kjör þeirra framleiðenda, sem vinna að framleiðslu kartaflna og grænmetis, því að það ákvarðast af verðinu og verðið ákveður framleiðsluráðið. Og ef framleiðsluráðið fær svona einkasöluaðstöðu, þá getur það fullkomlega ákveðið sjálft kaup og kjör sinna meðlima að þessu leyti sem framleiðenda. Það, sem framleiðsluráðið fer hér fram á, væri alveg sambærilegt við það, að Alþýðusamband Íslands færi fram á að fá úr höndum ríkisvaldsins með lögum rétt til þess að ákveða sjálft um kaup og kjör sinna meðlima, — eða að t.d. iðnrekendur í landinu færu fram á að fá sjálfir að ákveða um innflutning á iðnaðarvörum, og þar með réðu þeir vitanlegu öllu verði á iðnaðarvörum í landinu, þeim sem þeir framleiða. Félag iðnrekenda hefur ekki faríð fram á slíkt eins og þetta framleiðsluráð landbúnaðarins. Og ég teldi ekki viturlegt af því að fara fram á það, og ég held, að það séu þar svo vitrir menn, að þeir fari ekki fram á að fá vald til þess að taka t.d. fyrir innflutning á iðnaðarvörum og sitja sjálfir einir að markaðnum. En þetta vald er framleiðsluráðinu fengið með því, að það fái einkasölu á kartöflum og grænmeti. Þessi stéttarsamtök gera ýmsar kröfur á hendur ríkisvaldsins, á hendur Alþingi, en ekkert stéttarsamband hefur enn þá gert þessa kröfu, sem framleiðsluráð landbúnaðarins er hér að gera fyrir hönd Stéttarsambands bænda.

Það hefur verið sagt hér, að í þessu máli felist stefna eða yfirlýsing — væntanlega af hálfu Stéttarsambands bænda heldur en Framsfl. Og stefnan er þá þessi, að ákveðin stéttarsambönd geti fengið rétt til þess að ákveða sjálf verð á sínum vörum, sitt framleiðsluverð, taka fyrir alla samkeppni um sölu á þeim vörum og þar með ákveða sín kjör.

Það er mikið talað nú um ný bandalög pólitísk. Ef til vill er þetta stefnuyfirlýsing fyrir það, sem koma skal, að ákveðin stéttarsambönd eigi að geta fengið þennan rétt. Það er það ekki af minni hálfu. Ég tel ekki þá kröfu viturlega, ég tel hana fráleita, ég tel, að ekki komi til mála, að nokkurt stéttarsamband nokkurrar stéttar í landinu geti fengið slíkt vald. Og ég tel það alveg óþarfa af mönnum, þó að þeir vilji stéttarsamböndum vel, að láta undan slíkum kröfum, þó að þær séu bornar fram, þótt menn séu svo óvitrir að bera þær fram.

Það er ef til vill tilgangslaust að ræða lengur eða skemur um þetta mál. Það hendir ýmislegt til þess, að enn eigi þrátt fyrir allt að beita þingvaldi til þess að knýja það fram, gegn öllum mótmælum, gegn öllum rökum og án þess að bera fram nokkur rök fyrir því, því að það er óhrakið, að fyrir þessu máli, eins og það liggur fyrir, hafa ekki verið borin fram nein rök, hvorki meginefni þess né í einstökum atriðum.

Þótt minar brtt., sem hv. meiri hl. landbn. hefur fallizt á, en þó orðað öðruvísi en ég hef orðað þær, væru samþykktar, þá tel ég ekki ráðna þá bót á þessu frv., að ég geti fylgt því, og langt þar frá. Ég tel það höfuðatriði þessa máls, eins og ég sagði í upphafi máls míns nú, að það hefur fengið rangan undirbúning, ótilhlýðilegan undirbúning. Það hefur ekki verið fjallað um það af þeim aðilum, sem eiga fullan siðferðislegan rétt til þess að fjalla um undirbúning löggjafar á þessu sviði. Þó að ég geti fallizt á brtt., sem bornar eru fram á þskj. 452 frá landbn., svo langt sem þær ná, og þótt ég hefði kosið orðalag þeirra öðruvísi, þá get ég ekki fylgt þessu frv. Ég mun að vísu greiða atkv. með þessum brtt., en ég tel það skyldu mína að greiða atkv. gegn þessu frv., jafnvel þótt sú smáræðisbót fengist á því ráðin að formi til, sem í þeim felst.