15.03.1956
Efri deild: 85. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1307 í B-deild Alþingistíðinda. (1275)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Þetta mál hefur verið svo mikið rætt hér á Alþ., að helzt mætti segja, að það hefði verið notað til þess að æfa við það orðaleikfimi. (Forseti: Ekki hér í þessari hv. deild.) Það er ekki hægt að segja það, að enn sé svo orðið hér í þessari hv. d., en verið gæti, að til þess leiddi, ef haldið væri lengi áfram umr., og ég ætlaði að taka fram, að ég vildi ekki stofna til þess hér í þessari d. eða taka þátt í umr. málsins með það fyrir augum. En ég hef aðeins talað hér vegna þess, að frsm. landbn. er fjarverandi og bað míg að hlaupa í sitt skarð.

Það hefur verið gengið svo langt af þeim, sem hafa mælt gegn þessu frv., að rangfærð hafa verið orð hæstv. landbrh., sem hann á að hafa viðhaft í hv. Nd. og hv. 6. landsk. (FRV) minnti á í ræðu sinni áðan, og því hefur verið haldið fram, að landbrh. hafi látið ámælisorð falla um rekstur grænmetisverzlunarinnar, en því fer fjarri. Allir viðurkenna, að þeir ágætu menn, sem fyrir, grænmetisverzluninni hafa staðið, hafa unnið sín verk vel, og hér er ekkert um það að ræða, að verið sé að breyta þessari verzlun vegna þess, að þeir hafi vanrækt sitt starf, heldur er hér um skipulagsbreytingu að ræða til þess að búa betur í hendur, að því er þeir, sem málið flytja, telja, fyrir framtíðina, án þess að miðað sé við einstaka menn, því að við einstaka menn má í raun og veru aldrei miða, þegar verið er að skipuleggja.

Hv. frsm. minni hl. sagði eða það mátti skilja á orðum hans, að helzt væri það framleiðsluráð eitt, sem að þessu stæði. Hv. 1. þm. Eyf. (BSt) hefur nú minnt frsm. á Stéttarsamband bænda og Búnaðarfélag Íslands, sem eru tvenn landssamtök bændastéttarinnar, og þessi landssamtök hafa bæði óskað eftir þeirri breytingu, sem nú er verið að leggja til að gerð verði og felst í frv. Framleiðsluráð er aðeins lögleitt framkvæmdaráð fyrir Stéttarsambandið, og afstaða þess byggist á þeim óskum, sem Stéttarsambandið hefur falið því að bera fram og vinna að.

Hv. frsm. minni hl. minntist á það réttilega, að ýmis mótmæli hefðu komið fram gegn þessari breytingu, en fyrr mætti nú vera, þegar málið hefur verið gert að eins miklu kappsmáli og það hefur verið gert af andstæðingum þess, að ekki væri hægt að fá fram undirtektir einhverra. Hann vitnaði í það, að kaupfélagsstjórar og kaupsýslumenn hefðu lýst því yfir, að þeir teldu breytinguna ekki til bóta og væru henni andvígir. Um þetta hefur nú verið ágreiningur hjá þessum mönnum, og vafasamt er, að málið hafi verið lagt fyrir þá, þegar þeirra umsagnar var leitað, svo greinilega, að þeir hafi fullkomlega áttað sig á, hvað um var að vera, heldur byggt umsögn sína á því, að þeim hafði fallið mjög vel við þá forstöðumenn grænmetisverzlunarinnar, sem þeir höfðu haft viðskipti við og alls ekki er miðað við, eins og ég tók fram áðan, þegar þetta frv. er borið fram, heldur skipulagið. En úr því að nefndir eru kaupfélagsstjórar og kaupsýslumenn, vil ég nefna það og segja frá því, sem snertir mitt hérað, að þar, í mínu héraði, er mesta framleiðslusvæðið um kartöflur Svalbarðsströnd, og hún er ein mesta kartöfluframleiðslusveit landsins. Þar var í mörg ár kaupfélagsstjóri, sem fyrir örstuttu er að vísu fluttur þaðan til Húsavíkur, og hann fékk alveg sérstakt hrós fyrir það, hvað honum tókst vel að koma í verð þessari framleiðslu bænda, líka á þeim tímum, þegar grænmetisverzlunin átti örðugt með því skipulagi, sem hún hefur, og þessi kaupfélagsstjóri mælir með breytingunni. Ég tel það mjög mikils vert, að þetta sé sagt hér, úr því að verið er að vitna í umsagnir. Ég hygg, að fáir í landinu, sem með þessi mál hafa farið fyrir bændur, hafi haft meira verkefni í því efni en einmitt þessi kaupfélagsstjóri.

Nú hefur hv. frsm. minni hl. vitnað í og lesið hér upp fundarsamþykkt frá bændafélagi í Eyjafirði. Hv. 1. þm. Eyf. hefur upplýst eftir þeim nánustu fréttum, sem hann hefur haft, hvaða líkur eru til þess, að þar sé um mikinn fjölda að ræða, sem þátt hefur tekið í afgreiðslu málsins, og úr því að komin er fram og hér inn í umr. yfirlýsingin frá bændafélaginu, þá tel ég mér skylt líka að geta þess, að Alþ. hefur borizt 14. marz samþykkt frá Garðyrkjufélagi Borgarfjarðar, sem skorar á Ed. Alþ. samþ. frv. Þetta garðyrkjufélag mun ná yfir Borgarfjarðar- og Mýrasýslur og er fjölmennt félag. Með leyfi hæstv. forseta, hljóðar það símskeyti, sem þeir hafa sent, á þessa leið:

„Fundur Garðyrkjufélags Borgarfjarðar, haldinn að Logalandi 13. marz 1956, beinir þeirri eindregnu áskorun til Ed. Alþ. að samþykkja frv. til laga um afurðasölulöggjöf á grænmeti o. fl., sem nú liggur fyrir deildinni.

Garðyrkjufélag Borgarfjarðar.“ Það má því segja, að þó að það hafi heyrzt mótmælaraddir, þá vanti ekki heldur meðmæli. Sannleikur málsins mun vera þetta, eins og ég sagði áðan, að vinsældir grænmetisverzlunarinnar byggjast á því, hve vel hún hefur verið rekin af þeim ágætu mönnum, sem fyrir henni hafa staðið, og það vefst fyrir ýmsum að skilja það, að hér er aðalatriðið að breyta um skipulag og búa betur í haginn fyrir þá, sem við þessi mál eiga að vinna eftirleiðis.