22.03.1956
Neðri deild: 91. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (1285)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Einar Olgeirsson:

Ég sé það, að hv. þm. Dal. (ÁB) hefur ekki kvatt sér hljóðs í málinu og að hann sem frsm. landbn. muni ætla að láta sig hafa það að reyna að koma málinu í gegn án þess að koma fram með rök fyrir sínu máli eða svara nokkrum af þeim fyrirspurnum og ádeilum, sem fluttar hafa verið á það. Hér las ég upp yfir honum þær samþykktir, sem gerðar hafa verið, frá því að þetta mál var síðast til umr. í þessari hv. d. Ég las upp yfir honum mótmæli gegn þessu frv., sem voru samþykkt af Bændafélagi Eyfirðinga. Ég las upp yfir honum mótmæli gegn frv., sem voru samþykkt einróma af bæjarstjórn Reykjavíkur. Sem sagt alls staðar að af landinu koma mótmæli gegn þessu frv. Engu að síður virðist nú ákveðið að berja þetta frv. fram. Hér liggur að vísu ein brtt. fyrir frá hv. 3. landsk. viðvíkjandi matinu, og ég býst við, að það mætti þó ekki minna vera en að sú till. væri samþykkt, ef málið ætti að ná fram að ganga. Hins vegar kann nú að vera, að það séu komnir á einhverjir samningar um þetta mál á milli stjórnarflokkanna tveggja. Það er sem sé vitanlegt, að kærleiksböndin á milli þeirra virðast ekki alveg slitnuð enn þá. Við sáum hér á einu máli, sem íhaldið hefur haft mikinn áhuga fyrir og Framsókn þykist hafa barizt á móti, að það var auðsjáanlega komið á samkomulagi um að hleypa því í gegn hér í d. áðan. Og grunur minn er sá, að það sé nú búið að gera sams konar samkomulag um þetta mál. Ég skil það út af fyrir sig vel, að íhaldinu þyki nokkur fengur að því að fá þetta mál fram. Þetta mál er alveg í samræmi við þess reglur og þess stefnu í þessum málum: afnema einkasölu ríkisins og búa til einkasölu handa einstökum mönnum. Þetta er það, sem gert er í sambandi við fiskhringina og annað slíkt og Framsókn hefur stundum verið að lýsa yfir hér í d. að hún væri á móti. Líka hefur það komið fyrir, að Framsfl. hefur staðið vörð um nokkrar af ríkiseinkasölnnum eða nokkur ríkisrekin fyrirtæki, svo sem skipaútgerð ríkisins eða ferðaskrifstofu ríkisins. Hins vegar hef ég hvað eftir annað bent hér á það, að ef Framsfl. ætlar nú að fara inn á þá braut, sem hann er að fara með þessu frv., þá virðist hann vera að hverfa frá þeirri reglu og frá þeirri stefnu, sem hann hefur fylgt í afstöðu sinni til skipaútgerðar ríkisins og til ferðaskrifstofu ríkisins. Ég held þess vegna, að það sé gott, að það fái nú alveg að koma hér fram, hver sé stefna Framsfl. í þessum málum. Þess vegna hef ég leyft mér að bera fram svo hljóðandi rökstudda dagskrá:

„Þar sem d. lítur svo á, að skipaútgerð ríkisins, ferðaskrifstofa ríkisins og grænmetisverzlun ríkisins eigi að vera í eigu ríkisins áfram og reknar af því, telur d. ekki ástæðu til að samþ. frv. og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég hef sýnt fram á það, að hv. þm. Framsóknarflokksins hér í þessari hv. deild hafa samþykkt það með þögninni, að það séu að öllu leyti sambærilegar grænmetisverzlun ríkisins og skipaútgerð ríkisins eða ferðaskrifstofa ríkisins. Þeir hafa ekki getað mótmælt því með einu orði. Ég held, að það sé þess vegna bezt, að það liggi fyrir, hvort það er allsherjarstefnubreyting hjá þeim í þessum málum eða ekki. Ef þeir fella þessa rökstuddu dagskrá mína, þá lýsa þeir því þar með yfir, að þegar þeir eru búnir með sínar blekkingarkosningar, eigi skipaútgerð ríkisins og ferðaskrifstofa ríkisins að fara sömu leiðina og grænmetisverzlun ríkisins á að fara núna, ef þeir fá að ráða. Og ég tel heppilegt, að það fái að koma fram alveg skýrt og greinilega, hver sé afstaða Framsfl. í því efni. Hins vegar álit ég, að það, sem væri rétt að gera nú, sé, að hv. d. lýsi því yfir, að hún sé þeirrar skoðunar, að skipaútgerð ríkisins, ferðaskrifstofa ríkisins og grænmetisverzlun ríkisins eigi að fá að vera til áfram eins og þær hafa verið fram að þessu, og um það fjallar mín rökstudda dagskrá. Ég lýsi því svo jafnframt yfir, að ég er fylgjandi þeirri brtt., sem hv. 3. landsk. flytur hér, og álít, að ef mín rökstudda dagskrá yrði ekki samþykkt og málinn þannig vísað frá, þá eigi að samþykkja þá brtt., það megi ekki minna vera en að það tillit sé tekið til neytendanna í bæjunum, að sú till. viðvíkjandi matinu sé samþykkt.

Ég minni á, að áður fékkst þó fram sú breyting hér, að verðjöfnunargjaldið var numið úr lögunum eða var tekið út úr frv., og þessi brtt. viðvíkjandi matinu er svo sjálfsögð, að ef ekki væri rekið á eftir þessu frv. með þeim krafti, sem stjórnarflokkarnir gera, og samið um það á bak við tjöldin, í skiptum fyrir ýmislegt annað, þá mundi það teljast sjálfsagt og eðlilegt að samþykkja þá till. hv. 3. landsk.

Ég vil svo hins vegar lýsa því yfir, að ég álít langeðlilegast eftir allt, sem upplýst er í þessu máli, eftir öll þau mótmæli, sem fram hafa komið, bæði frá bændum og borgarbúum, að Alþingi taki það tillit til vilja fólksins í landinu í þessu efni, að það vísi þessu máli frá og samþykki þess vegna mína rökstuddu dagskrá.