02.03.1956
Neðri deild: 80. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1333 í B-deild Alþingistíðinda. (1294)

104. mál, sjúkrahúsalög

Frsm. (Jónas Rafnar):

Herra forsetl. Heilbr.- og félmn. hefur athugað þetta frv. og orðið sammála um afgreiðslu þess.

Höfuðatriði þessa frv. er það, að ríkissjóður skuli framvegis greiða nokkurn hluta af kostnaði við kaup á tækjum til sjúkrahúsa. Eins og kunnugt er, hefur verið litið svo á, að ríkissjóðsstyrkurinn til sjúkrahúsanna næði eingöngu til kostnaðar við að koma upp sjálfri sjúkrahúsbyggingunni. Flm. þessa frv. hefðu upphaflega talið eðlilegt og æskilegast, að ríkissjóður greiddi að sínum hluta eða að sama hluta og hann greiðir til byggingar sjúkrahússins allan kostnað við að búa sjúkrahúsin þeim nauðsynlegu tækjum, sem alltaf þurfa að vera fyrir hendi í fullkomnu sjúkrahúsi. Hins vegar var vitað, að ýmsir forráðamenn heilbrigðisþjónustunnar mundu leggjast á móti svo róttækri breytingu, svo að að lokum komum við okkur saman um að taka út úr ákveðin tæki, sem framvegis yrðu styrkhæf.

Það var gerð mjög ýtarleg grein fyrir þessu máli við 1. umr„ svo að það er ekki ástæða fyrir mig til þess að fara um það mörgum orðum. En heilbr.- og félmn. mælir með því, að frv. verði samþykkt, þó með þeirri breytingu, að ríkissjóðsstyrkurinn verði eigi hærri en 2/5 hlutar af kostnaðarverði tiltekinna tækja og lóðar.