10.12.1955
Neðri deild: 30. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (130)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það er út af nokkrum ummælum í ræðu hv. síðasta ræðumanns, sem ég vildi strax gera örfáar athugasemdir. Ég vil ekki láta þau standa ómótmælt.

Hv. þm. A-Húnv. er á móti því að lögleiða almenna hækkun á launum opinberra starfsmanna. Ef við íhugum þetta mál og túlkum það rétt, þá sjáum við, að síðan launalögin voru sett, þau sem nú gilda, hafa átt sér stað verulegar hækkanir á kaupgjaldi almennt í landinu. Þetta er staðreynd. Með þessu frv. er gert ráð fyrir að hækka nokkuð almennt laun opinberra starfsmanna til samræmis við þær launahækkanir, sem almennt hafa þegar átt sér stað. Þetta er kjarni málsins, og þetta er málið allt, en þetta virðist mér hv. þm. A-Húnv. ekki láta sér skiljast. Honum finnst það sanngjarnt, að laun opinberra starfsmanna standi óbreytt, á sama tíma sem laun almennt í landinu fara hækkandi. Hann vill m. ö. o., að lífskjör annarra séu bætt á kostnað opinberra starfsmanna, því að það væri einmitt það, sem mundi gerast, ef slíkt ætti sér stað til langframa og í verulegum mæli. Slíkt er ekki sanngjarnt, og þess vegna hefur þetta frv. til nýrra launalaga verið samið. Með því er verið að gera tilraun til að samræma starfskjör opinberra starfsmanna við kjörin eins og þau nú eru orðin annars staðar og satt að segja hvergi gengið lengra en þessi stefna takmarkar. Þess vegna er allt tal hv. þm. A-Húnv. um það, að þetta frv. verði upphaf að nýjum, almennum launahækkunum, byggt á rangri túlkun málsins. Hér er aðeins tekið afleiðingunum af því, sem þegar hefur gerzt. Það er ekki vottur af sanngirni í því í garð opinberra starfsmanna að ætlast til þess, að þeir geti unað við, að þeirra launakjör séu látin standa óbreytt til lengdar, þegar allt í kringum þá hækka launagreiðslur. Þá er það líka alger misskilningur hjá hv. þm. A-Húnv., að þótt ríkið fylgdi þessari stefnu, sem hann túlkar, sem sé að synja um allar breytingar á launum opinberra starfsmanna, þótt laun almennt hafi hækkað, að laun í verzlunarfyrirtækjum og hjá öðrum stofnunum mundu haldast niðri. Þeim mundi vitanlega alls ekki verða haldið niðri. Ríkið mundi verða eitt um að reyna að reka slíka launapólitík.

Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var einungis sú að vekja athygli á meginkjarna málsins, vegna þess að mér fannst hv. þm. A-Húnv. alveg ganga fram hjá honum og leggja allt annan skilning í það, sem hér er að gerast, en þann, sem réttur er og nokkur rök hníga að.

Þá lét hv. þm. A-Húnv. nokkur huggunarorð falla til opinberra starfsmanna; hann hefði gott úrræði fyrir þá, þó að hann væri á móti því að hækka launin, það væri að lækka tekjuskattinn. Vitanlega mundi það ekkert gagna opinberum starfsmönnum sérstaklega, þó að tekjuskatturinn væri lækkaður, því að hann yrði lækkaður á öllum öðrum alveg jafnt, þannig að hlutfall þeirra í skattgreiðslu stæði óbreytt. Þeirra laun yrðu eftir sem áður í ósamræmi við laun annarra. Þeim kæmi ekkert sérstaklega til góða lækkun á tekjuskattinum, fyrir utan það, að lækkun á tekjuskattinum mundi þýða, að samstundis yrði að afla tekna með öðru móti, og ég er ekki viss um, að það yrði gert á þann hátt, sem kæmi opinberum starfsmönnum betur en tekjuskatturinn, þótt hann væri látinn óbreyttur standa. Þetta mál er ekki sízt um hlutföll í launagreiðslum, og það verður ekki leyst með almennri tekjuskattslækkun. Spurningin er bara þessi: Er eðlilegt, að opinberir starfsmenn geti sætt sig við það, eða á að bjóða þeim það, að þeir sitji lon og don við óbreytt launakjör, þegar allir aðrir fá hækkanir? Ég segi nei. Það á ekki að gera, og þess vegna er þetta frv. hér.