10.12.1955
Neðri deild: 30. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru aðeins fáein orð út af þessari ræðu hv. 9. landsk. þm. Hann sagðist mæla með því, að launalagafrv. yrði samþ., — að vísu vill hann breyta frv., skilst mér, en hann er með því, að sett séu ný launalög og laun opinberra starfsmanna hækkuð til samræmis við þær launahækkanir, sem hafa orðið almennt í landinu. Hann sagði, að það væri eðlilegt að gera þetta.

Man nú nokkur, hvað fór á milli mín og kommúnistanna hér á Alþ. um það leyti, sem verkfallið stóð yfir s. l. vor? Man það nokkur maður nú? Þá leyfði ég mér að benda á, að ef fram yrðu knúðar almennar kauphækkanir í landinu, þá hlytu laun opinberra starfsmanna að hækka að sama skapi. Kommúnistar óðu þá hér um hv. deild með steytta hnefana og sögðu, að þessi ummæli væru byggð á fjandskap í garð verkalýðsins, sem væri að knýja fram sínar kjarabætur, það væri óhæfa, fullkomin óhæfa að halda því fram, að nokkur ástæða væri til þess fyrir opinbera starfsmenn að fá sín laun hækkuð, þótt verkamenn með hálfs annars mánaðar verkfalli knýðu fram launabætur handa sér. Ég sagði þá: Við skulum biða og sjá, hvað þeir gera, þegar launalagafrv. kemur. Við skulum heyra, hvað þessir peyjar segja þá. Við skulum vita, hvort það verður ekki öðruvísi tónninn í þeim þá og hvort þeir muni þá beita sér á móti launahækkun til opinberra starfsmanna. Við skulum bíða og sjá. — Og hvað skeður nú? Það skeður vitanlega það, sem fyrir fram var vitað að hlaut að ske, þrátt fyrir stóryrðin, að kommúnistar lýsa yfir, að þeir telji sjálfsagt og eðlilegt að hækka laun opinberra starfsmanna til samræmis við þær almennu kauphækkanir, sem hafi átt sér stað í landinu. En s. l. vor var það álitin árás á verkalýðinn að benda á, að þetta hlyti að fara svona. Hver haldið þið að taki á eina eða aðra lund mark á ummælum þessara manna, sem gera sig bera að öðru eins og þessu með örfárra mánaða millibili? Það mætti því í raun og veru segja um það, sem fylgdi hjá þessum hv. þm., að ómerk væru hans orð og því óþarfi að svara þeim. Það er ekki mikið leggjandi upp úr því, sem þeir hv. þm. segja um landsmál yfirleitt, sem þannig koma fram.

Ég vil þó minnast á tvennt af því, sem þessi hv. þm. drap á. Hann sagði, að það hefði verið sagt í vor, að það yrði ekki til hagsbóta að knýja fram almenna launahækkun. Það hygg ég að mönnum sé nú nokkuð ljóst, að af því hafa orðið litlar hagsbætur. En svo sagði hv. þm.: Á hinn bóginn hafa yfirvöldin mikinn áhuga fyrir launahækkunum handa sér. — Það er rétt, við eigum að fljóta með, þegar hækkuð eru laun opinberra starfsmanna. En hefur hv. þm. ekki botnað neitt í þessu enn þá? Veit hann ekki, hvað er verið að gera með þessu frv.? Það, sem verið er að gera með þessu frv., er að forða opinberum starfsmönnum frá því tjóni, sem þeir mundu bíða, ef þeirra laun hækkuðu ekkert, þegar allra annarra laun breytast. Þetta er það, sem er verið að gera með frv., og ekkert annað. Það er verið að forða þeim frá því tjóni, sem þeir mundu hljóta að bíða, ef þeirra laun ættu að standa óbreytt, á sama tíma sem kaupgjald almennt hækkar. Þetta ætti stærðfræðikennarinn úr Vestmannaeyjum að geta skilið. Í þessu frv. felst enginn dómur um gildi almennra kauphækkana til eða frá, það er einungis verið að samræma til að forða opinberum starfsmönnum frá tjóni.

Þá sagði hv. þm. og gerði það að nokkru atriði í ræðu sinni, að með þessu væri verið að hækka alveg sérstaklega laun hinna hærra launuðu opinberra starfsmanna og teygja laun þeirra langt upp fyrir laun hinna eða út úr samræmi. Röksemdafærslan hjá honum var sú að bera saman launagreiðslur til nokkurra embættismanna eins og þær hefðu verið annars vegar í desembermánuði s. l. og hins vegar mundu verða í janúarmánuði næsta, ef frv. verður samþ. Þessi samanburður er algerlega falskur og gefur enga hugmynd um það, sem hv. þm. var að ræða, eða efni frv., og það af þeirri einföldu ástæðu, að þessi mismunur, sem kom fram hjá honum, stafar að langmestu leyti af því, að vísitöluskerðingin hefur verið afnumin og grunnlaunauppbótin hefur verið gerð jöfn hjá öllum. Það, sem hefur skeð, er ekkert annað en það, að þeir hærra launuðu fá fyrst nú vísitöluuppbót sína að fullu, og fá frá byrjun þessa árs grunnlaunauppbótina að fullu, sem hinir höfðu fengið um mörg ár. Þeir, sem voru í hærri launaflokkunum og miðlungslaunaflokkunum, voru um nokkur ár lækkaðir í launum. Þeir fengu ekki grunnlaunauppbót til jafns við aðra og ekki vísitöluuppbót til jafns við aðra. Þetta var leiðrétt vegna þess, að menn sáu, að þetta leiddi hreinlega til þess, að launamismunur varð óviðunandi lítill í þjónustu ríkisins. Sést þetta á því, að hann var orðinn hér a. m. k. helmingi minni en dæmi eru til hjá nágrannaþjóðunum á Norðurlöndum. Þetta var komið í slíkar öfgar, að ekki gat staðizt lengur, og þá var tekin sú ákvörðun af hv. Alþingi, að þessir starfsmenn fengju grunnlaunauppbót til jafns við aðra og vísitöluuppbót til jafns við aðrar vísitöluuppbætur. Þessir starfsmenn eru því fyrst á síðasta Alþingi og því yfirstandandi færðir til samræmis við þær almennu breytingar, sem orðið hafa, en það eru mörg ár síðan hinir lægra launuðu voru færðir í áttina með fullri grunnlaunauppbót og vísitöluuppbót. Þess vegna er málflutningur hv. 9. landsk. þm. alveg rangur og samanburðurinn út í hött og hvergi nærri efni frv.