09.01.1956
Neðri deild: 40. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1343 í B-deild Alþingistíðinda. (1333)

125. mál, lögreglumenn

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja frv. á þskj. 209 um breyt. á l. um lögreglumenn, nr. 50 1940. Efni frv. er, að svo verði fyrir mælt, að lögreglumenn ríkisins og varalögreglumenn skuli annast löggæzlu á sumrin í þorpum, þar sem fjölmenni dvelur um stundarsakir vegna síldveiðanna. Gert er ráð fyrir, að nánar verði ákveðið í reglugerð nm fyrirkomulag þessarar sumarlöggæzlu í þorpunum.

Nú er það svo, að í ýmsum sjávarþorpum á Norður- og Norðausturlandi safnast saman fjöldi aðkomufólks um síldveiðitímann á sumrin, aðallega í júlí og ágústmánuði. Hér er um að ræða bæði aðkomufólk, sem stundar vinnu í landi við síldarsöltun eða síldarbræðslu, þar sem hún er, og áhafnir síldveiðiskipa og flutningaskipa. Á slíkum stöðum er oft fjöldi skipa í höfn vegna löndunar eða þegar veður eru óhagstæð og ekki hægt að vera við veiði á miðunum. Þá er oft margt manna í landi af skipum. Vegna þessa aðkomna fjölmennis reynist óhjákvæmilegt að hafa lögreglumenn á þessum stöðum til þess að halda uppi löggæzlu um síldveiðitímann, þótt ekki séu þar starfandi fastir lögreglumenn aðra tíma ársins. Sumarlöggæzlan mun yfirleitt hafa verið framkvæmd þannig, að fengnir hafa verið menn í sumarleyfi úr lögregluliði Reykjavíkur til þess að annast löggæzluna þennan tíma. Hafa þá hlutaðeigandi hreppar greitt kostnaðinn við löggæzluna, en fengið endurgreiddan hluta af honum úr ríkissjóði, og hefur verið veitt til þess nokkurt fé á fjárlögum undanfarin ár, þannig að hverjum stað hefur verið ætluð tiltekin upphæð. Kostnaðurinn við sumarlöggæzluna hefur hins vegar, a.m.k. sums staðar, orðið miklu hærri en fjárveitingar Alþingis, og að því leyti sem þær hafa ekki hrokkið, hafa hrepparnir orðið að borga brúsann. Löggæzla þessi hefur reynzt nokkuð dýr og kostnaður við hana farið vaxandi. Er hér a.m.k. sums staðar um háan og óvæntan útgjaldalið að ræða fyrir fámenn og getulitil hreppsfélög, og ekki verður talið sanngjarnt, að þessi byrði sé á þau lögð, þar sem sumarlöggæzlunnar er þörf fyrst og fremst af utanaðkomandi ástæðum, eins og ég hef áður gert grein fyrir. Þess vegna virðist mér nauðsynlegt að finna leið til þess að losa hreppana við þessi útgjöld, og þykir mér rétt, að það sé gert með lagasetningu í eitt skipti fyrir öll.

Í lögum nr. 50 frá 1940, um lögreglumenn, er svo fyrir mælt, að ríkissjóður skuli greiða nokkurn hluta lögreglukostnaðar í kaupstöðum, sem hafa samkvæmt fyrirmælum ríkisstjórnar allt að tveim lögreglumönnum á hverja 1000 íbúa. Þar sem svo stendur á, getur ríkisstj. ráðið yfir tilsvarandi hluta af lögreglulið kaupstaðanna. Er m.a. heimilt að láta lögreglumenn ríkisins starfa að eftirliti með umferð á vegum og eftirliti með áfengislöggjöf og senda þá í önnur byggðarlög til að halda uppi reglu á samkomum.

Þá er og heimilt samkvæmt þessum lögum að bæta varalögreglumönnum við hið fasta lögreglulið, og er gert ráð fyrir því, að ríkið greiði allan kostnað við þá ráðstöfun, þó innan ákveðinna takmarka.

Mér sýnist þess vegna eðlilegt, að lögreglumönnum ríkisins og varalögreglumönnum verði falið að annast þá sumarlöggæzlu í þorpum vegna síldveiðanna, sem ég hef rætt um nú. Mér sýnist ekkert vera því til fyrirstöðu, ef sú breyting er gerð á lögunum um lögreglumenn, sem í frv. mínu felst. Það má að vísu vel vera, að þetta hefði kostnað í för með sér umfram þann, sem nú er greiddur af ríkinu samkvæmt lögum um lögreglumenn, en þá væri líka hægt að fella niður sérstakar fjárveitingar í fjárlögum til sumarlöggæzlu á tilteknum stöðum, og mér þykir ekki ólíklegt, að sumarlöggæzlan kynni að verða eitthvað ódýrari á þennan hátt en með því fyrirkomulagi, sem tíðkazt hefur. Um það skal ég þó ekkert fullyrða að svo stöddu. En mér virðist öll sanngirni mæla með því, að ríkið annist þessa löggæzlu, sem hér er um að ræða, á sumrin og beri kostnaðinn af henni, hver sem hann reynist, en ekki hrepparnir, því að það er ekki eðlilegt af ástæðum, sem ég hef nefnt. Hins vegar skal ég geta þess, að ef bent væri á einhverja aðra viðunandi leið í þessu máli, þá vil ég að sjálfsögðu vera til viðræðu um það.

Ég legg svo til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.