09.01.1956
Neðri deild: 40. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1345 í B-deild Alþingistíðinda. (1334)

125. mál, lögreglumenn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta er sízt komið fram að ófyrirsynju, vegna þess að vitað er, að þau litlu hreppsfélög, sem á vissum árstímum taka við miklum fjölda dvalargesta, eru í fullkomnum vandræðum með að standa undir kostnaði af þeirri löggæzlu, sem þessu er samfara. Að vísu má benda á og nauðsynlegt að hafa í huga, að hreppsfélögin hafa nokkrar tekjur af dvöl þessara manna og þeim atvinnurekstri, sem er ástæðan til þess, að þeir koma á þessa staði. En þótt svo sé, þá er alveg víst, að hreppsfélögin eru í fjárhagslegum örðugleikum með að ráða við þetta og allur aðbúnaður til löggæzlu á þessum stöðum er ófullnægjandi. Að því leyti tel ég, að þetta frv. stefni í rétta átt.

Hins vegar vil ég vekja athygli á því, að þetta er ekki bundið þeim mörkum, sem kemur fram í frv. Það er t.d. vitað, svo að við nefnum dæmi, að staður eins og Ólafsvík hefur svipaða aðstöðu á aðalvertíðinni, eins er með Sandgerði og nokkra fleiri staði, þannig að ef ætlun hv. Alþingis er að gera hér á bætur, þá þarf heimildin að vera rýmri en í þessu frv. er. Á þetta vil ég benda nú þegar, til þess að hv. n., sem málið fær til meðferðar, geti íhugað það, meðan á meðferðinni stendur.

Þá vil ég einnig minna á það, að í fjárlagafrv., eins og það liggur nú fyrir, er tekin upp nokkur fjárhæð til aukinnar löggæzlu og tollgæzlu, og er ætlunin, að ráðnir verði menn til viðbótar, sem geti, helzt í sameiningu, annazt tollgæzlu og löggæzlu eftir því, sem nánar yrði ákveðið síðar. Að mínu viti er sú fjárhæð, sem í þessu skyni hefur enn verið tekin upp á fjárlagafrv., of lítil; það þarf þar að bæta við. Ástæðan til þess er m.a. sú, sem kemur fram í þessu frv., að það er óhjákvæmilegt að bæta verulega við löggæzlu víðs vegar úti um landið, bæði í þeim verstöðvum, sem við höfum rætt um nú, hv. flm. og ég, en eins er vitað mál, að löggæzla víða í sveitahéruðum er allsendis ófullnægjandi. Með þeim greiðu samgöngum, sem orðnar eru, verður að vera möguleiki til þess að hafa þar öflugri löggæzlu en enn hefur verið komið á. Að vísu má segja, að heimamenn geti með nokkurri æfingu og fjárhagslegum styrk frá ríkinu áorkað verulega í þessu efni, og hefur nú þegar verið gerð merkileg tilraun í þá átt, t.d. í Mýra- og Borgarfjarðarsýslum, en víst er þó, að ekki er hægt að treysta á þetta eitt saman. Fleira þarf til að koma, t.d. á stað eins og Selfossi, þar sem risin er upp allmikil byggð, bær, má segja, og þar að auki er samgöngumiðstöð milli margra þéttbýlla staða og stórra sveitarfélaga. Slíkur staður getur ekki til frambúðar verið jafnlöggæzlulítill og hann er nú, en byggðarlaginu sjálfu er um megn að gera þær ráðstafanir, sem þarf. Allt þetta hefur verið til athugunar í ráðuneytinu, og þess vegna höfum við beitt okkur fyrir að fá þessa viðbótarfjárhæð í fjárlögunum til manna, sem gætu í sameiningu annazt löggæzlu og tollgæzlu. En ég vek athygli á því, að þar þarf að gera betur en enn hefur verið ákveðið eða gerðar tillögur um í frv.

Ég vildi benda á þetta nú þegar, til þess að hv. allshn. við athugun þessa þarfa frv., sem hér liggur fyrir, athugi málið út frá nokkru hærri sjónarhól en þar kemur fram, vegna þess að hér er um stærra viðfangsefni að ræða en einungis þau sjávarþorp, sem frv. fjallar um, eða þau sjávarþorp, sem ég minnti á. Hér er um að ræða löggæzluvandræði, sem eru komin upp víðs vegar um landið, stafa ekki sízt af hinum stórbættu samgöngum og eðlilegt er að ríkið þess vegna láti mun meira til sín taka en ætlazt var til, meðan segja mátti, að vandræðin stöfuðu eingöngu af innanhéraðsmönnum.