10.12.1955
Neðri deild: 30. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa óánægju minni með afgreiðslu þessa máls hér. Þannig er, að þegar við vorum boðaðir á þennan laugardagsfund, er útbýtt á borðið hjá okkur samtals um 168 brtt. á einn þskj., og þess er að sjálfsögðu enginn kostur að fara yfir slíkan sæg af brtt. og athuga þær og gera sér grein fyrir því, hverjar þeirra eru sanngjarnar og réttlátar og hverjar ekki. En svo virðist sem ætlunin sé að hespa þetta mál af á örskammri stundu, þó að þannig sé það í pottinn búið. Við þetta bætist svo það, að mér fannst koma fram í ræðu tveggja hv. þm., sem hér töluðu áðan og eiga sæti í hv. fjhn., dálítið ósamræmi með tilliti til þessara brtt. Hv. frsm. n., hv. þm. V-Húnv., lýsti þessum till., að því er ég bezt fékk skilið, sem brtt. frá fjhn., en hv. 9. landsk. þm. tók greinilega fram, að hér væri um að ræða brtt. frá launamálanefnd, og sagði, að fjhn. hefði talið rétt að gefa þinginu kost á að fjalla um þessar till. við 2. umr. málsins. Nú vildi ég spyrjast fyrir um það, sérstaklega hjá form. nefndarinnar, hvernig þessu sé varið, hvort þetta eru, eins og hv. 9. landsk. þm. sagði, brtt. frá launamálanefnd og fjhn. geri hvorki að mæla með þeim né móti, en leggur þær aðeins undir úrskurð hv. þm., eða hvort hér er um að ræða till. frá n., sem hún hefur orðið sammála um að mæla með. Þetta finnst mér skipta mjög miklu máli að komi greinilega fram.

Eins og ég tók fram áðan, er að sjálfsögðu enginn kostur að ræða þetta mál eins og skyldi vegna þess, hvernig það er lagt fyrir þér að þessu sinni.

Ég get lýst því yfir, að þegar frv. til laga um laun starfsmanna ríkisins var lagt hér fram, var ég því frv. samþykkur í öllum meginatriðum, en hins vegar sýnist mér við lauslega athugun, að ég geti ekki verið þeim till., sem hér hafa verið bornar fram á þskj. 176, eins samþykkur í öllum atriðum.

Það hefur verið rætt um það á undanförnum árum, og það var tekið fram af hæstv. fjmrh. mjög skilmerkilega áðan, að meginástæða til breytingar á launalögum væri sú, að opinberir starfsmenn hefðu dregizt aftur úr öðrum sambærilegum stéttum. Þetta er alveg rétt, og ég er hæstv. ráðherra alveg sammála að þessu leyti. Vegna þessa misræmis, sem þarna gætti á milli launa opinberra starfsmanna og annarra hliðstæðra eða sambærilegra starfsmannahópa í þjóðfélaginu, var fullkomin ástæða til að breyta þessum launalögum og það fyrir nokkrum árum meira að segja. Þá var einnig um það rætt og hefur verið rætt á undanförnum árum og að sumu leyti komið fram í umr. hér, að ekki hefði verið tekið nægilegt tillit til þess í launalögum, þegar þau voru sett, að ákveða sérstök laun eða hærri laun til einstakra manna og starfshópa, sem hefðu undirbúið sig mjög verulega undir starf sitt, lagt í verulegan kostnað við að búa sig undir það starf, sem þeir hefðu síðan með höndum, og að það væri ekki gerður nógu mikill munur á því í launalögum ríkisins, hvort menn hefðu að baki langan námsferil og mikinn kostnað af undirbúningi undir starf sitt eða ekki.

Ég skal játa það, að ég var þessu í meginatriðum líka sammála. Ég taldi og tel mjög mikla ástæðu til þess að miða laun manna að einhverju leyti við það, hvort þeir hafa haft af því mikinn kostnað að búa sig undir starfið eða engan kostnað. En ég get ekki séð, að brtt. þær, sem prentaðar eru á þskj. 176 og eru allar, að því er mér skilst, eða a. m. k. flestallar til hækkunar, séu byggðar á þessu sjónarmiði. Ég get ekki séð það, og ég hef ekki heyrt nokkurn rökstuðning frá hv. fjhn. og hennar talsmönnum um það efni. Við lauslegan lestur á þessum brtt. sýnist mér, að þeirri reglu hafi verið fylgt í meginatriðum að breyta embættistitlum manna og hækka laun þeirra síðan eftir þessum breyttu embættistitlum. Skrifstofustjórar í ráðuneytunum eiga nú að heita ráðuneytisstjórar og hækka um einn launaflokk vegna þess. Bókarar sumra fyrirtækja eiga nú að heita aðalbókarar og hækka um einn launaflokk. Gjaldkerar skulu heita aðalgjaldkerar og hækka um einn launaflokk, umsjónarmenn heita yfirumsjónarmenn og hækka um einn launaflokk. Og þannig er þessu farið með meginhlutann af þessum 168 brtt., sem hér eru á þskj. 176. Ég get ekki séð, að það sé nokkur skynsamleg ástæða til að halda þannig á málunum né heldur að það sé heppilegt upp á framtíðina.

Ég vil nefna hér nokkur dæmi. Ég skal stytta mál mitt mjög mikið, eins og hæstv. forseti var að óska eftir.

Í 13. gr. er langur listi um starfsmenn hjá flugþjónustu. Þar eru fulltrúi á Keflavíkurflugvelli, aðalbókari, aðalgjaldkeri, varðstjórar o. s. frv. Allir eru þessir menn hækkaðir um launaflokk, settir í VIII. launaflokk eða sama launaflokk og allir kennarar við framhaldsskóla landsins. Nú vil ég á það benda, að ef það hefði átt að hafa þarna til hliðsjónar menntun manna, undirbúning undir starf eða eitthvað þess háttar, hefði átt að sýna einhverja sanngirni í því að launa menn hærra, ef þeir hefðu lagt í mikinn kostnað við að búa sig undir starf sitt, þá er því ekki til að dreifa hér. Kennarar við framhaldsskólana hafa t. d. sennilega langflestir háskólamenntun, en aðalbókari á Keflavíkurflugvelli og aðalgjaldkeri þurfa alls ekki að hafa meiri menntun en nokkurra mánaða námskeið, eins vetrar nám í Samvinnuskólanum eða eitthvað þess konar. Samt eiga þeir að vera á sömu launum og menn með margra ára skólanám að baki til undirbúnings starfi sínu. Varðstjórarnir á Keflavíkurflugvelli þurfa mér vitanlega ekki annað en fara í boði Bandaríkjastjórnar eða Bandaríkjahers til 3–6 mánaða námsdvalar í Bandaríkjunum, og þá skulu þeir settir í sama launaflokk og kennarar við alla framhaldsskóla landsins. Ég get ekki séð, að það sé nokkur sanngirni eða nokkurt réttlæti í þessu, og ekki heldur, að nokkur rök mæli með því, að þannig sé á málunum haldið. Þannig gæti ég lengi talið, en slíkar upptalningar yrðu að sjálfsögðu endurtekningar á því sama, og skal ég því sleppa því.

Ég vil þó nefna eitt dæmi enn. Í brtt. á þskj. 176 eru prófessorar við háskólann hækkaðir um einn launaflokk, dósentar við háskólann hækkaðir um einn launaflokk og ritari háskólans hækkaður um einn launaflokk, þ. e. a. s. allt starfslið háskólans er hækkað um einn launaflokk, nema einn maður, bókavörður háskólabókasafnsins. Hann er raunverulega lækkaður um einn launaflokk, því að hann var samkv. eldri launalögum í sama launaflokki og prófessorar, en er nú settur niður í næsta launaflokk fyrir neðan, þ. e. a. s. í launaflokk með dósentum. Nú er það vitanlegt, að þeir, sem settu háskólabókavörð á sínum tíma í sama launaflokk og prófessora, höfðu til þess einhver rök og það svo sterk rök, að á það var fallizt. Ég fæ ekki séð, að þeim rökum hafi verið neitt haggað hér. Það er vitað, að háskólabókavörður verður að hafa sömu eða mjög svipaða menntun og prófessorar við háskólann, í norrænum fræðum t. d., þar að auki verður hann að hafa sérmenntun í meðferð bókasafna. Samt sem áður hefur hv. fjhn. séð ástæðu til þess að færa hann raunverulega niður um einn launaflokk, þ. e. a. s., hann er í sama launaflokki og hann var, þegar allir aðrir eru hækkaðir um einn launaflokk. Nú vil ég spyrja hv. fjhn. að því, hvaða rök liggi þar til grundvallar.

Ég skal ekki fjölyrða meira um þetta frv. Hv. þm. A-Húnv. talaði hér almennt gegn þessu frv. og gegn þeim launahækkunum, sem það felur í sér. Hann var þó, að því er mér skildist, samþykkur ýmsum tilfærslum á milli launaflokka, sennilega þeim tilfærslum, sem nefndin leggur hér til og ég er ekki samþykkur í meginatriðum. Ég skal taka það fram, að það eru nokkrar undantekningar, sem ég hef þegar tekið eftir. En í stað þess að hækka laun vildi hv. þm. A-Húnv. fara aðra leið til að bæta kjör opinberra starfsmanna. Hann vildi lækka tekjuskattinn. Nú veit ég, að þessi till. er ekki út í bláinn gerð. Hún er byggð á því sama sjónarmiði og alltaf kemur fram hjá þm. Sjálfstfl., jafnvel þó að þeir séu ekki sammála innbyrðis, en það er sjónarmiðið að hækka mest laun þeirra ríkustu. Hjá starfsmönnum í lægstu launaflokkum hjá ríkinu er tekjuskatturinn til ríkissjóðs að sjálfsögðu, eins og allir vita, mjög óveruleg upphæð, og lækkun á honum mundi því verða þessum hópum að sáralitlu gagni, ef nokkru. Hv. þm. A-Húnv. er þess vegna ekki að hugsa um þetta fólk, þegar hann ætlar að gera það að till. sinni að lækka tekjuskattinn. Hann er að hugsa um hátekjumenn ríkisins, sem hafa nokkuð verulegan tekjuskatt, og að sá skattur lækki og tekjur þeirra þess vegna hækki.

Nú er ég hissa á því, að úr því að hv. þm. A-Húnv. nefndi það og vildi fara inn á þá braut að lækka eitthvað tekjustofna ríkisins, einhvern skatt á almenning, að hann skyldi þá ekki heldur nefna þann skattinn, sem þyngst kemur niður á þeim, sem minnstar tekjur hafa í þessu þjóðfélagi og verst eru settir, en það er söluskatturinn, sem kemur fram á öllum lífsnauðsynjum manna og öðru því, sem almenningur þarf til síns lífsviðurværis. Þar mundi láglaunafólkið muna verulega um, ef sá skattur væri lækkaður, en hátekjumennina mundi að sjálfsögðu muna miklu minna um það. Og ef hv. þm. A-Húnv. vill sýna hinum bágstöddu í þessu þjóðfélagi einhverja velvild, þá mælist ég til þess, að hann geri heldur till. um lækkun söluskattsins, sem þessu fólki getur komið að haldi, en ekki tekjuskattsins, sem er í samræmi við íhaldsaðferðirnar að auka tekjur og bæta hag hinna ríkustu í þjóðfélaginu.