10.12.1955
Neðri deild: 30. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér þykir þetta frv. eiga að afgreiðast með nokkuð óvenjulegum hætti, að það skuli ekki gerð eðlileg hlé hér í þd., og ég vil segja, að svo framarlega sem hæstv. ríkisstj. óskar eftir því, að frv. sé afgreitt með svona hætti, þá er það minnsta, sem hún getur gert, að gera svo vel að vera hér inni. Ég vil leyfa mér að óska eftir því, að hæstv. forseti láti senda eftir hæstv. fjmrh. Það getur ekki gengið, að hæstv. fjmrh. komi hér fram með alls konar staðlausa stafi og þori svo ekki að vera hér viðstaddur, þegar farið verður að ræða við hann. Ég vil leyfa mér að óska eftir, að hæstv. fjmrh. sé hér viðstaddur.

Ég vil, meðan hann kemur ekki, minnast á það, sem gerðist í vor, þegar verkamenn undirbjuggu launahækkun, sem þeim var orðin brýn nauðsyn á. Þá var sendur út af örkinni einn prófessor við Háskóla Íslands, prófessor í hagfræði. Þessi prófessor í hagfræði, sem er einn af varaþingmönnum Sjálfstfl., var látinn halda því fram, að verkamenn ættu hvorki skilið þessar launahækkanir né hefðu neitt gagn af þeim, ef þeir fengju þær. Þessi prófessor í hagfræði var látinn reikna og reikna endalaust, og Morgunblaðið birti alla hans útreikninga, sem allir saman áttu að sanna þá niðurstöðu, að það þýddi ekki að vera með launahækkanir. Má ég nú spyrja: Hvar er þessi prófessor í hagfræði nú? Það vill svo einkennilega til, að þessi sami prófessor í hagfræði er formaður fyrir Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Í hvert skipti sem verkamenn þessa þjóðfélags og það einmitt þeir lægst launuðu taka sig til að berjast fyrir bættum kjörum, er það hann, sem kemur fram til að reyna að vega aftan að þeim, og hann gerði allt, sem hann gat, til að hindra, að nokkuð yrði úr þeirri réttlátu launabaráttu, sem verkamenn háðu í vor og varð þeim til mikilla hagsbóta. Ég vil nú spyrja: Hvernig stendur á því, að þessi prófessor, Ólafur Björnsson, formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, skuli nú ekki koma fram og slást á móti þessum hagsbótum, sem hér er farið fram á fyrir láglaunamennina? Hvernig stendur á því? Hvernig stendur á því, að nú skuli ekki útreikningarnir birtast, að það sé mönnum ekki til neins hagnaðar að fá hækkuð laun? Hvernig stendur á, að hann skuli nú ekki sýna starfsmönnum ríkisins fram á, að þeir hafi ekkert að gera við hækkuð laun, það sé bara til bölvunar, ekki bara fyrir þá, heldur líka fyrir þjóðfélagið? Ég vil bara minna á þetta, af því að ég kann ekki við þessa hræsni, og mér þykir það óviðkunnanlegt meira að segja fyrir Bandalag starfsmanna ríkis og bæja að draslast með menn í formannsstöðu hjá sér, sem láta hafa sig til þess að ráðast á móti verkamönnum, í hvert skipti sem þeir fara fram á eðlilegar kjarabætur. En hvað gera svo þessir sömu menn, þegar láglaunamenn ríkisins eiga að fara að uppskera eitthvað af því, sem verkamenn hafa fórnað milljónum fyrir að ávinna? Jú, ég býst ekki við, að prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands muni neita því, að honum þyki gott að fá 33% launahækkun, þó að honum tækist með sinum útreikningum að hjálpa til við það, að verkamenn fengju ekki nema 10–11% launahækkun í vor. Þessa hræsni þarf að brennimerkja, og ég held, að þeir meðlimir í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, sem horfa upp á það ár eftir ár, að verkalýðurinn verður að fara út í baráttuna fyrir þá, verður að standa í 6 mánaða verkfalli eins og nú í sumar, verður jafnvel að svelta, á meðan starfsmenn ríkisins vinna, verði að fara að skilja, að þeir verða að gera svo vel að fara að samræma sína forustu í sínum samtökum við verkamenn, þannig að þessar stéttir berjist saman, en það séu ekki sendir menn út af örkinni, sem hafa forustuaðstöðu í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, til þess að vega aftan að verkamönnum í hvert einasta skipti sem þeir heyja sína réttlátu hækkunarbaráttu.

Svo kemur hæstv. fjmrh., og hann er nú búinn að standa hér upp og halda miklar ræður til þess að sýna fram á, að allt sé það gott og blessað, sem hér hafi nú verið stungið upp á af launamálanefnd og fjhn., og það sé ekkert annað fyrir þm. að gera en að samþykkja það og þeir eigi helzt ekki að vera lengi að humma við þetta, — þegar hæstv. fjmrh. einu sinni vilji ganga inn á kauphækkanir, eigi menn ekki að vera að tvínóna við þessa hluti og helzt eigi að afgreiða þetta með tómum afbrigðum í gegnum þingið. Nú er sem sé vísitöluuppbót og allt saman slíkt, meira að segja það að hækka menn á milli starfsflokka, meira að segja að fara allt upp í 30–50% grunnkaupshækkanir, allt saman gott og blessað.

Má ég minna hæstv. fjmrh. á, hvað hann las yfir okkur þm. og yfir allri þjóðinni, þegar þetta þing var að hefjast? Þá sagði hann í sinni fjárlagaræðu, sem útvarpað var, eftirfarandi orðrétt. Þetta eru orð hæstv. fjmrh.:

„Það sýnir m. a., hvernig augu margra eru að opnast gagnvart þessum verðbólgu- og vísitöluleik, sem leikinn er, að starfsfólk hjá fyrirtæki einu í Danmörku neitaði nú fyrir skemmstu að taka á móti nýrri vísitöluuppbót, sem það átti rétt á að fá vegna almennrar verðhækkunar. Með þessu vildi fólkið á kröftugan og eftirminnilegan hátt gefa til kynna þann skilning sinn, að hinar sífelldu kauphækkanir og verðlagshækkanir á víxl væru ekki til hagsbóta fyrir launþegana almennt, það yrði að finna aðrar leiðir. Það verður skýrara og skýrara fyrir mönnum, að kauphækkanir einar tryggja mönnum ekki betri lífskjör, það þarf fleira að koma til. Það þurfa m. a. að koma til áhrif og samstarf alþýðusamtakanna í jákvæðu þjóðmálastarfi.“

Þetta voru orð fjmrh. Þetta voru svo að segja blessunarorðin, sem hann fylgdi þinginu úr garði með í haust. Hver er meiningin? Er það meiningin t. d. um þetta frv., sem felur í sér 33% hækkanir til ýmissa hálaunamanna, eða ráðherrafrv., sem fylgir með því sem kálfur og felur í sér 47% grunnkaupshækkun til ráðherra, að við hér á Alþingi eigum bara að samþykkja þetta og svo komi ráðherrarnir og skrifstofustjórarnir eða kannske heiti þeir þá forstöðumenn ráðuneyta og allir þessir góðu menn, þessir þjóðhollu menn, sem ekki taka þátt í vísitölu- og verðbólguleik, og segi við Alþingi: Við tökum ekki á móti svona vísitöluuppbót? — Er meiningin, að við eigum að standa hér og rífast um það, hvort hálaunamenn eigi að fá vísitöluuppbót og verðhækkanir frá 33% og upp í 47%, á sama tíma sem verkamenn fá 10%, til þess eins að þessir menn geti auglýst á eftir, að þeir séu svo göfugir menn, þeir séu eitthvað betri menn en ótætis verkamennirnir, sem séu að heimta kauphækkanir, að þeir ætli að fórna þessu öllu saman fyrir þjóðfélagið á eftir? Ég verð að segja, að ef þetta er meiningin, þá er eins gott, að þetta komi fram strax. Það er alveg óþarfi, ef þessir menn ætla að fara að sýna sinn þegnskap á svona hátt, að við séum neitt að deila um þetta, því síður að við séum að ætla þeim jafnvel það, að þeir séu að fljóta á kauphækkunum verkamanna upp til hærri launa fyrir sjálfa sig, ef þeir ætla að koma á eftir og afsala sér þessu öllu saman.

Ég kann betur við; að við fáum yfirlýsinguna um þetta strax, og hún mun áreiðanlega verða tekin gild. En ef hún kemur ekki, þá er auðséð, að hér er reyndar hræsni á ferðinni, að hálaunamönnunum, að ráðherrunum meðtöldum, þykir ósköp gott að vera með í vísitölu- og verðbólguleiknum, sem þeir atyrðast yfir, þegar fátækir verkamenn eiga í hlut. Og hvað snertir það, sem hæstv. fjmrh. sagði í niðurlagi þessarar tilvitnunar, að þarna yrði að koma fleira til en kauphækkanir einar saman, það þurfi að koma til áhrif og samstarf alþýðusamtakanna í jákvæðu þjóðmálastarfi, vil ég leyfa mér að segja: Það stendur ekki á alþýðusamtökunum að taka þátt í jákvæðu þjóðmálastarfi; það stendur ekki á Alþýðusambandi Íslands að bjóða meira að segja Framsfl. upp á að vera með í því að mynda ríkisstj. hér, sem tryggi þátttöku alþýðusamtakanna í jákvæðu þjóðmálastarfi. En á hverju stendur, að slík ríkisstj. sé mynduð? Á hverju stendur, að áhrif og samstarf alþýðusamtakanna í jákvæðu þjóðmálastarfi fái að njóta sín? Það stendur fyrst og fremst á hæstv. fjmrh., sem vill ekki slíta sambandinu við íhaldið, sem vill ekki taka upp samstarf við vinstri flokkana í landinn, sem vill ekki reka pólitík, sem sé í þágu alþýðustéttanna á Íslandi. Ég held þess vegna, að hæstv. fjmrh., áður en hann talar svo skeleggt sem hann gerði hér áðan, ætti að athuga fyrst, hvað hann hefur verið sjálfur að segja og prédika undanfarið.

Hitt vil ég svo segja viðvíkjandi afstöðu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og forustu þess í þessum málum, að það getur ekki gengið til lengdar, að það bandalag haldi áfram að láta sína forustumenn berjast á móti hverri einustu kauphækkun, sem verkamenn eru að berjast fyrir, kauphækkun, sem verkamenn berjast fyrir að fari fram á kostnað auðvaldsins í þessu landi, á kostnað þeirra 200 milljónamæringa, sem eru í Reykjavík, á kostnað þeirra auðfyrirtækja, sem hrúga til sín svo að skiptir hundruðum milljóna króna í gróða á hverju ári. Það getur ekki gengið, að starfsmenn ríkisins haldi áfram því skilningsleysi, sem þeir hafa sýnt hvað snertir sitt forustuvald fram að þessu, að kljúfa þær fylkingar, sem þurfa að standa saman. Þegar verkamenn eru að heyja sína baráttu, eiga meðlimir Bandalags starfsmanna ríkis og bæja að skilja það, að sú barátta er á vissan hátt háð fyrir þá líka, enda hafa þeir alltaf sýnt það, þegar verkamenn eru búnir að vinna sigrana, að þeir krefjast hins sama. En formaðurinn vegur alltaf að verkamönnum, meðan þeir eiga í hörðustu baráttunni. Og nú koma svo jafnvel þessir forustumenn og heimta hærri laun sjálfum sér til handa en hafði talizt fært að verkamenn fengju, þegar þeir voru að standa í sínu harða stríði.

Þá kemur Eysteinn Jónsson að því, að það hafi verið hafðar blekkingar í frammi af hálfu okkar viðvíkjandi afstöðunni í vor.

Ég vil rifja upp, hverjir það voru, sem fóru með blekkingar þá. Hvað var það, sem hæstv. fjmrh. lét kunngera í útvarpinu, þegar verkamenn höfðu komið fram með sínar kröfur? Hann lét reikna út, hvernig fjárlög ríkisins mundu hækka. Hann lét básúna út, að það væru tugmilljónir króna, sem fjárlög ríkisins mundu hækka vegna kauphækkunar verkamanna, og þetta sögðum við að væru blekkingar hjá honum, og það var það líka. Það, sem hann var að reikna út þá, var ekki, hvað fjárlög ríkisins mundu hækka vegna kauphækkana verkamanna, þegar þetta kom í útvarpinu og alls staðar eins og það væri slíkt. Þegar ég yfirheyrði hann um þetta hér í þinginu þá, varð hann að viðurkenna, að þetta væri ekki afleiðing af kauphækkun verkamanna, ekki vegna þess, að kaup verkamanna í vegavinnu eða öðru slíku hækkaði. Nei, það var kauphækkun af allt öðru; það var kauphækkun af því, að hæstv. fjmrh. reiknaði með, að kaup starfsmanna ríkisins mundi verða hækkað og sú hækkun mundi nema þessari upphæð, sem hann var þarna að setja fram. M. ö. o. hann sveikst um að taka það fram í öllum yfirlýsingunum í útvarpinu, að svo framarlega sem kaupgjald starfsmanna ríkisins væri hækkað til samræmis við kaupgjald verkamanna, þá mundi hækkunin verða svona og svona mikil. Þetta var blekkingin, þetta voru ósannindin, sem hæstv. fjmrh. lét ríkisútvarpið hafa eftir sér dag eftir dag og leiðrétti aldrei. Tugmilljónirnar, sem reiknaðar voru út, voru ekki afleiðing af kauphækkun verkamanna; það var afleiðing af því að samræma kaup starfsmanna ríkis og bæja við það kaup, sem verkamenn fóru fram á. Og þetta er tvennt ólíkt. Hæstv. ríkisstj. leyfir sér að halda því fram, að kauphækkanir séu til einskis, en þegar um er að ræða hana sjálfa og starfsmenn ríkisins, þá finnst henni kauphækkanir sjálfsagðar. En af hverju er þetta? Það er af því, að þessar kauphækkanir eru nauðsynlegar, bæði fyrir verkamenn og fyrir þá, sem eru í þjónustu ríkisins.

Það einkennir þetta frv., að láglaunamenn meðal starfsmanna ríkisins fá of lítið, alveg eins og verkamenn fengu of lítið í vor. Það einkennir þetta frv., að hálaunamennirnir hins vegar álita tíma kominn til þess að hækka hjá sér, þrefalt, ferfalt og fimmfalt meira en hjá láglaunamönnunum. Á sama hátt og ríkisstj. hefur legið á því lúalagi, síðan verkfallið var í vor, að ýta undir allar verðhækkanir í landinu, að skora svo að segja bak við tjöldin á auðmenn landsins að okra hver sem betur geti, til þess að verðbólgan verði sem allra mest, fer líka ríkisstj., sem leggur fram þetta frv., fram á það, að laun hálaunamannanna séu hækkuð um 30–50%, á sama tíma sem laun láglaunamanna séu aðeins hækkuð um 12%, eins og verkamenn fengu í vor. Og ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Ætlar hann að reyna að telja okkur trú um, að þessi hans íhaldssemi viðvíkjandi láglaunamönnunum og gæzka hans við hálaunamennina stafi af einhverri ábyrgðartilfinningu gagnvart ríkissjóði eða almennu verðlagi í landinu? Hann hefur þá lítið sýnt af þeirri ábyrgðartilfinningu í afstöðu sinni til verðhækkananna í sumar, 30 og 40% verðhækkana á mörgum sviðum, þar sem vinnulaun hafa hækkað um 10% og vinnulaunin voru kannske ekki nema 30–40% af kostnaðinum við viðkomandi vöru. Ætlar hæstv. fjmrh. að reyna að telja okkur trú um, að það sé aðeins núna, sem hann líti svo á, að kauphækkun hjá verkamönnum sé til einskis, sé til ills? Heldur hann, að við munum ekkert lengra aftur í tímann? Ætlar hann að reyna að telja okkur trú um, að núna sé kaupgjaldið orðið allt of hátt, núna þurfi að lækka það? Má ég rifja upp fyrir honum: Hvernig var hans afstaða, þegar kaup Dagsbrúnarverkamanna var kr. 1.45 um tímann? Hvað sagði hann, að þá þyrfti að hækka? Var hann ekki sjálfur í ríkisstj., þegar þrælalögin voru sett 1939, gengið lækkað og kaupgjaldið bundið? Honum fannst ekki þörf á að hækka þá, heldur þvert á móti hindra allar hækkanir. Eða hvernig var það 1941? Kaupgjaldið var litlu hærra þá hjá verkamönnum. Hvað gerði hæstv. fjmrh. þá? Þá setti hann gerðardómslög ásamt sams konar félögum sínum og nú sitja í ríkisstj. með honum og bannaði ekki aðeins verkamönnum kauphækkanir, heldur lét það líka liggja við, að svo framarlega sem þeir færu út í kauphækkanir samt, þá skyldu sjóðir verkalýðsfélaganna gerðir upptækir og forustumenn verkalýðsfélaganna settir í fangelsi. Það átti víst að verða þátttakan í því jákvæða þjóðmálastarfi af hálfu verkalýðssamtakanna, sem þá var boðið upp á. Og hvað gerði hæstv. fjmrh. 1944, haustið þá, þegar hann stóð með því að reyna að lögbjóða 10% kauplækkun hjá verkamönnum? Og hvað gerði hann 1947, þegar hann stóð að því að svipta verkamenn vísitöluuppbótinni? Hæstv. fjmrh. þarf ekki að vera með neinar vandlætingar gagnvart okkur. Við vitum ósköp vel, að í hvert einasta skipti sem hann heldur, að hann hafi haft vald og aðstöðu til þess að geta haldið niðri kaupgjaldi verkamanna eða lækkað það, þá hefur hann gert það. Við þurfum engar siðferðisprédikanir í slíku efni. Hitt ætla ég að segja honum, að það var vel hægt að láta framkvæma allar þær kauphækkanir, sem verkamenn knúðu fram í vor, án þess að nokkrar verðhækkanir fylgdu á eftir, svo framarlega sem að völdum hefði setið ríkisstj., sem lét þessar kauphækkanir verða á kostnað auðmannastéttarinnar í landinu; hún gat vel borið þær, hún hafði alveg nógu breitt bak til þess. En það þurfti hins vegar að gera allmargar fjármálalegar ráðstafanir, til þess að það lenti á réttum aðilum innan auðmannastéttarinnar, og það eru þær fjármálaráðstafanir, sem hæstv. fjmrh. stendur í vegi fyrir að gerðar séu.

Það þýðir þess vegna ekkert að vera með þessar blekkingar við okkur. Við þekkjum þessa sögu, og við vitum, að verkamenn fá ekki fram sínar réttlátu og nauðsynlegu launahækkanir, nema því aðeins að þeir berjist og það harðvítuglega fyrir þeim. Það er hæstv. núverandi ríkisstj. og þeir flokkar, sem að henni standa, sem hafa valdið þeirri dýrtíðaröldu, sem riðið hefur yfir þjóðfélagið hamslausast á síðustu 5 árum, ekki sízt eftir að húsaleigulögin voru afnumin að tilstuðlan þessara tveggja stjórnarflokka. Og húsaleiga nú hefur hér í Reykjavík verið tífölduð, á sama tíma sem laun hafa tvöfaldazt, og svo dirfast menn að koma hér upp og ætla að reyna að telja okkur og þjóðinni trú um þá bábilju, að það sé kauphækkun verkamanna, sem hafi valdið dýrtíðinni, þegar hver einasta kauphækkun verkamanna á undanförnum 7 árum hefur verið til þess að velta af sér ofur litlu af dýrtíðaröldunni, sem dýrtíðarforkólfarnir í ríkisstj. hafa skipulagt yfir fólkið, enda sýnir það sig bezt, hver varnarbarátta þetta er, að kaupgjald verkamanna er í dag, þrátt fyrir fimm harðvítug stórverkföll á síðustu 7 árum, raunverulega heldur lægra en það var 1947, þegar Marshallstefnan og amerísku lepparnir tóku við völdunum hér á Íslandi.

Ef hæstv. fjmrh. þess vegna vill fara út í, eins og hann gerði nú, einhverjar almennar umræður um þetta mál og halda áfram með þær blekkingar, sem hann hefur verið með í hvert einasta skipti, sem hann hefur minnzt á þetta, þá erum við reiðubúnir í þær umræður, en þá klárast þetta mál ekki nú fyrir klukkan 7 í kvöld.

Þá segir hæstv. fjmrh., þegar hann er að afsaka, að ráðherrarnir séu ofur lítið að reyna að ota sínum tota í sambandi við þetta: Ja, verkamenn fengu þarna hagsbætur, og við vildum nú fá að fljóta með. — Já, það var nú það. Þeir vildu fá að fljóta með. En það var ekki aðeins, að þeir vildu fá að fljóta með; þeir vildu fá að fljóta á öldutoppinum, og þeir vildu helzt eins og einhver flugfiskur mega taka sig til flugs og fljúga heldur hærra, meira að segja upp fyrir toppana, sem verkamenn höfðu heimtað, þegar þeir fóru allra lengst í sínum draumum um kauphækkanir. Svona er það þá, þegar kemur að staðreyndunum. Hæstv. ráðherrum finnst sem sé allt í lagi, að verkamennirnir berjist, verkamennirnir standi í verkfalli, verkamennirnir verði að fórna 6 vikna vinnu, verkamennirnir verði allt að því að svelta. Þegar svo kemur að því á eftir, að farið er að ræða um, hvaða laun ráðherrarnir eigi að fá, þá segja þeir: Við gerðum allt, sem við gátum, til þess að hindra, að þið fengjuð nokkra kauphækkun, að þið fengjuð einu sinni 10% kauphækkun, en fyrst við á annað borð urðum að láta undan ykkur, þá viljum við helzt fá að fljóta með. Er nokkuð að því, þó að ég fái svo sem 47% kauphækkun?

Ég verð að segja það, að ég held, að forsvarsmenn ríkisstj. ættu að hafa sem fæst orð um alla sína framkomu í sambandi við kaupbaráttu verkamanna og afgreiðslu þessa frv., það væri þeim bezt.

Svo kom hæstv. ráðh. inn á það, að það væri eiginlega bara verið að lofa vesalings hálaunamönnunum að fljóta með, vera ekki lengur hálfdrættinga hvað vísitöluna snertir; þeir ættu nú að fá fulla vísitöluuppbót.

Kannske það sé rétt, að ég rifji upp eitt af þeim tilboðum, sem verkamenn komu með og voru allir sammála um, þegar samningarnir fóru fram í vor í verkfallinu og þegar rætt var um hið svonefnda skerðingarákvæði. Fulltrúar verkamanna buðu, að skerðingarákvæðin væru látin haldast og miðuð við 12 króna kaup á tímann í grunn, og þeir buðu það allir. Það samsvarar með 8 tíma vinnudegi, eftir því sem mér reiknast til, um 28800 kr. á ári í grunn, eða eins og VH. flokkurinn hefur hjá starfsmönnum ríkis og bæja. Af hverju var tilboði verkamanna um að halda skerðingunni, þegar kom yfir 12 kr. á tímann í grunn, 28800 kr. á ári, samsvarandi VII. flokki, ekki tekið? Verkamennirnir buðu það; það voru ekki verkamennirnir, sem fóru fram á, að hálaunamennirnir fengju fulla verðlagsuppbót af því, sem þarna var yfir. Nei, það voru atvinnurekendurnir, vafalaust í samfélagi við ríkisstj., sem sögðu: Nei, ef við hvort sem er erum að hækka þessa verðlagsuppbót, þá er rétt, að við afnemum hana alveg. Við höfum ekkert á móti því, að hálaunamennirnir fái þetta þá líka. — Og þegar maður sér núna, hve duglega hálaunamennirnir og ríkisstj. taka til sín, þá dettur manni í hug: Hæstv. ríkisstj. hefur líklega ekkert verið á móti því í vor, þegar um þetta var samið, að afnumin væri skerðingin á hálaununum. Ég vil sérstaklega segja þetta hér vegna þess, að hér talaði áðan einn af fulltrúum Sjálfstfl., hv. 5. þm. Reykv. (JóhH), og hann sagði: Það var rétt að hækka laun þeirra lægst launuðu. — Það kom aldrei fram í vor hjá Sjálfstfl. og ekki heldur ríkisstj., að það væri rétt að hækka laun þeirra lægst launuðu. En það voru einmitt sjálfstæðismennirnir, fulltrúar atvinnurekendanna, sem settu það fram í vor, þegar verkamennirnir buðu upp á skerðinguna miðað við 12 kr. um tímann, að skerðingin væri algerlega afnumin og að það væri reiknuð á öll hærri laun full verðlagsuppbót. Sjálfstfl. og atvinnurekendur og — eins og nú sýnir sig — ríkisstj. stóðu einmitt á því, að það væri um að gera, að svo framarlega sem verkamenn fengju einhverja kauphækkun, þeir lægst launuðu af þeim, þá skyldu þeir, sem hefðu yfir 12 kr. um tímann í grunn, fá fulla verðlagsuppbót á allt sitt. M. ö. o.: Þegar kemur að ákveðnu stigi í launastiganum, þá er eins og atvinnurekendur og ríkisstj. hafi öðruvísi afstöðu gagnvart kauphækkunum en ef um þá láglaunuðu er að ræða.

Ég veit svo sem, hvað þarna er um að ræða. Það er um það að ræða, að hæstv. ríkisstj. og hálaunamennirnir eru að smitast af þeirri tiltölulega háu lífsafkomu, sem auðmennirnir hér í Reykjavík og þeirra gæðingar njóta. Það hefur risið upp það rík og voldug og það tekjuhá auðmannastétt hér í Reykjavík, stétt, sem berst það mikið á í þjóðfélaginu, stétt, sem lifir það „flott“, að hálaunuðum embættismönnum ríkisins finnst og það kannske eðlilega, að þeir séu orðnir eins og einhverjir litlir karlar, eins og bara verkamenn við hliðina á þessum hátekjumönnum auðvaldsins. Og ráðherrunum, sem stjórna landinu, og æðstu starfsmönnunum í stjórnarráðsskrifstofunum, sem ráða svona og svona miklu, finnst það raunverulega anzi hart, þegar einstakir menn hér í þjóðfélaginu taki sjálfum sér t. d. 200 þús. kr. á ári í laun, að ráðherrar, sem eiga þó að ráða raunverulega yfir öllum þessum mönnum, skuli búa við laun, sem séu máske ekki miklu hærri en duglegur múrari geti haft upp úr sér. Óréttlætið, sem hefur gripið um sig í þjóðfélaginu, spillingin, gróðinn, sem er að gagnsýra þjóðfélagið og kemur fram í því, að hér er að verða forrík, spillt auðmannastétt, er að smita í kringum sig og framkallar þær kröfur hjá þeim mönnum, sem talið er að standi hátt í þjóðfélagsstiganum, að þeir hafi einhverjar svipaðar árstekjur til þess að lifa af.

Ég skal fyllilega viðurkenna, að það er ekkert óeðlilegt, að þessum mönnum finnist þetta. Það er máske hart fyrir einn ráðherra eða einn mann, sem getur ráðið svo að segja öllum innflutningi landsins eða ráðið því, hvaða menn séu bankastjórar eða annað slíkt, að sitja svo kannske við helmingi lægri laun en við eiga að búa þessir menn, þó að þeir hafi fjárhagsleg örlög þeirra í höndum sér. En þá er bara eitt þar til að svara. Það er tími til kominn að lækka þá lífsafkomu, sem auðmannastétt Reykjavíkur skammtar sér, sú auðmannastétt, sem lifir í „vellystingum praktuglega“, á meðan hún er að drepa atvinnuvegina undir sér og meðan hún er að neita verkamönnunum um nauðsynlegar kauphækkanir, sem þeir þurfa að fá til þess að standast þá dýrtíðaröldu, sem ríkisstj. leiðir yfir þjóðfélagið.

Það er rétt, að við höfum þetta í hyggju, þegar við sjáum þær kröfur, sem hérna koma fram. Undirrótin að þeim till., sem hér liggja fyrir og hv. 9. landsk. rakti hér greinilega hvað hálaunamennina snertir, er uppkoma og ríkidæmi og óhóf auðmannastéttarinnar í Reykjavík. Það verkar smitandi á alla þá, sem hana umgangast.

En þeim, sem nú finnst þess vegna rétt að hækka laun hálaunamanna og ráðherra til einhvers samræmis við þetta, svo að þeir finni sig ekki eins og kotunga í sölum auðmannanna hér í Reykjavík, er rétt að muna eftir því í næsta skipti, þegar þeir tala um laun verkamanna, og þeim er um leið rétt að muna eftir því, að verkamennirnir vita vel, að auðmannastéttin hér í Reykjavík hefur ekki sparað við sig síðan kauphækkanirnar voru framkvæmdar í vor og bílunum hefur ekki fækkað hérna og „lúxusinn“ í þeim er ekki minni en var fyrir verkfallið.

Hv. á. þm. Reykv., sem talaði hér sem eins konar fulltrúi Sjálfstfl., vildi segja, að kauphækkanirnar hefðu orðið til lítils ávinnings fyrir verkamennina. Þetta er rangt. Kauphækkanirnar hafa orðið til ávinnings fyrir verkamenn. Þeir hafa borið úr býtum raunverulega sínar 10% kauphækkanir þrátt fyrir allar þær ráðstafanir, sem ríkisstj. hefur gert og er að gera enn til þess að svipta þá þessu. Það hefur ekki tekizt nema að litlu leyti þrátt fyrir góðan vilja ríkisstj. að ræna aftur því af verkamönnum, sem þeir náðu með sinni hörðu baráttu í vor.

Hins vegar er það greinilegt, að Sjálfstfl. í Reykjavík hefur ekki látið sitt eftir liggja. Það var nýlega að koma út vísitala fyrir byggingarkostnaðinn í Reykjavík, og það væri æskilegt, að hv. 5. þm. Reykv., sem líka er bæjarfulltrúi Sjálfstfl. og situr í bæjarráði, vildi lesa upp fyrir okkur, hvernig hlutfallið er á milli hækkunarinnar og verðlagskostnaðar hjá verkamönnunum annars vegar og þess þáttar, sem íhaldið í bæjarstjórn Reykjavíkur ræður, sands og malar. Og þá mun hann sjá, að íhaldið í Reykjavíkurbæ tvöfaldar sínar hækkanir, á sama tíma sem verkamennirnir láta sér nægja tiltölulega lítið.

Ég hef áður minnzt á það í þessari ræðu, sem hv. 5. þm. Reykv. kom inn á, að það hefði verið rétt að hækka laun þeirra lægst launuðu. Hann gleymdi að koma fram með þá till. hér á Alþ., meðan verkfallið stóð, og sat þó Alþingi þær 6 vikur, sem verkfallið var, að það væri rétt að hækka laun þeirra lægst launuðu. Hann gleymdi því þá, hann kemur með það núna. (Gripið fram í.) Nei, en það hefði verið þegið að fá þá rödd hérna í þingsalnum, að baráttan væri réttlát, sem háð var utan við veggi þingsalarins, og það hefði getað hjálpað til þess, af því að það fóru nú m. a. fram hérna í þinghúsinu flestir samningarnir um þetta, að þeir hefðu gengið fljótar. Það hefði ekki átt að þurfa að taka 6 vikur fyrir þá lægst launuðu að fá 10% hækkun. En hann á máske eftir að svara því, hvernig stóð á því, að atvinnurekendurnir neituðu fyrir sitt leyti að viðhalda vísitöluskerðingunni, þegar kæmi upp fyrir 12 kr. grunnkaup á tímann.

Svo kom hv. 5 þm. Reykv. inn á það, að það hefði náttúrlega ekki vakað fyrir ótætis kommúnistunum, eins og hann er nú vanur að segja, að hækka laun verkamanna og bæta kjör þeirra. Hann sagði það ekki beint, en ég skildi, hvað í honum söng, auðvitað hefðu þeir ætlað eins og vant er að eyðileggja þjóðfélagið með því. Það var nú svo sem ekki nema það, sem kvað við 1944, — þá var það að vísu mest í Framsókn og Vísi, — að við hefðum ætlað að eyðileggja þjóðfélagið þá, þegar við vorum að koma á nýsköpunarstjórninni. Ég held nú, að þjóðfélagið lifi af því enn þá, sem við eyðilögðum þá. En fyrst það hefur nú ekki vakað fyrir ótætis kommúnistunum að ætla að bæta laun verkamanna, heldur að eyðileggja þjóðfélagið, má ég þá spyrja hv. 5. þm. Reykv.: Hvað vakir þá fyrir þeim mönnum, sem ekki aðeins vilja nú hækka við þá lægst launuðu meðal starfsmanna ríkisins, heldur líka beita sér fyrir sem mestri hækkun hjá hálaunamönnum? Ætla þeir ekki aðeins að eyðileggja þjóðfélagið, heldur jafnvel ríkissjóðinn líka? Eða hvað meina þeir með öllu sínu eyðileggingartali og allri sinni kommúnistabábilju. Ég held, að Sjálfstfl. væri sæmst að tala sem minnst um launamálin, sízt af öllu þeim, sem sæti eiga í bæjarstjórn Reykjavíkur af hálfu Sjálfstfl.

Við, sem þekkjum Sjálfstfl. af framkomu hans gagnvart láglaunamönnum síðustu áratugina, vitum ósköp vel hug hans í garð verkalýðsins, þó að honum þyki gott að hræsna öðru hverju eins og nú, að tala um, að það þurfi að hækka laun þeirra lægst launuðu, eftir að þeir lægst launuðu eru búnir að koma Sjálfstfl. á kné í 6 mánaða verkfalli. Við vitum ósköp vel af reynslunni, hvernig Sjálfstfl. hagar sér, þegar hann heldur, að hann komist upp með það að geta knésett verkamenn.

Það erum ekki við sósíalistar, sem beitum okkur fyrir því að koma á atvinnuleysi í þjóðfélaginu.

Það erum við, sem höfum beitt okkur fyrir því að tryggja, að verkamenn hefðu einhver vinnutæki til þess að vinna með hérna. Það erum við, sem beittum okkur fyrir því, að þeir togarar, sem nú ganga og halda uppi íslenzku þjóðfélagi, væru keyptir. Og síðan við fórum út úr ríkisstj., hefur, að undanteknum þeim 10 togurum, sem keyptir voru 1948, meðan nýsköpunartogararnir voru að sigla inn og undir áhrifunum af því, Sjálfstfl., sem síðan hefur verið í ríkisstj., ekki keypt svo mikið sem einn einasta togara. Þetta er umhyggjan fyrir að tryggja atvinnu þjóðarinnar. En hverjir eru það svo aftur á móti, sem hafa hag af atvinnuleysinu? Hvernig hagar Sjálfstfl. sér, þegar tekizt hefur fyrir óstjórn valdhafanna að koma atvinnuleysi á? Eða hefur hv. 5. þm. Reykv. gleymt því, hvernig Sjálfstfl. kemur fram, þegar launin eru lægst hjá almenningi og vinnan þar að auki stopul? Ég skal rifja það upp fyrir honum. Það var einu sinni, að verkamenn hér í Reykjavík áttu við sárt atvinnuleysi að búa, svo sárt atvinnuleysi, að þeir fengu, fjöldinn af þeim, aðeins eina viku í mánuði að vinna atvinnubótavinnu og höfðu aðeins kr. 1.36 um tímann og áttu að láta það vikukaup duga. Hver var þá afstaða Sjálfstfl.? Var Sjálfstfl. þá að tala um, að það þyrfti að hækka kaup þeirra lægst launuðu? Nei, þá var það Sjálfstfl., sem á sínum miðstjórnarfundi tók þá ákvörðun, að nú skyldi lækka kaup allra verkamanna í landinu og nú skyldi byrjað á þeim, sem bágstaddastir voru og höfðu aðeins eina viku í mánuði að vinna og aðeins einnar viku laun í mánuði til þess að lifa af, og hjá þeim skyldi lækka launin úr kr. 1.36 niður í eina krónu.

Þetta eru ráðstafanir Sjálfstfl., þegar hann heldur, að verkalýðurinn og verkalýðssamtökin séu svo veik, að þau standist ekki árásir hans. Þá kemur hugurinn fram eins og hann er. Það þýðir þess vegna ekki að koma til okkar eftir að hafa í vor staðið í sex vikur á móti því, að verkamenn fengju 10 eða 11% kauphækkun, og segja: Ja, það er rétt að hækka laun þeirra lægst launuðu — þegar hálaunamennirnir eru að fara fram á að fá allt upp í 47% kauphækkanir til sín. — Þetta vildi ég aðeins segja hér út af þeim ummælum, sem hæstv. fjmrh. og hv. 5. þm. Reykv. sem fulltrúar stjórnarflokkanna í þessum umræðum létu frá sér fara. Vilji þeir almennar umræður um þessi mál, þá erum við reiðubúnir að taka þær upp.