16.03.1956
Efri deild: 86. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (1372)

26. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., hefur verið flutt á allmörgum undanförnum þingum. Hefur jafnan farið þannig fyrir því, að það hefur komizt til n., en ekki hlotið þar afgreiðslu. Að þessu sinni hefur frv. átt meiri skilningi og velvild að fagna en áður hér á hv. Alþingi, því að nú hefur sjútvn. orðið sammála um að mæla með því, að frv. verði samþykkt. Fyrir þessa afgreiðslu vil ég leyfa mér að þakka hv. n., og ég vildi mega vænta þess, að þessar undirtektir n. séu tákn þess, að málið megi loks ná fram að ganga á þessu þingi.

Tveir hv. nm., þeir hv. þm. Hafnf. og Vestm., hafa borið fram eina brtt. við frv. Í 1. gr. þess segir, að lágmarkshvíldartími háseta skuli vera 12 klst. á sólarhring hverjum. Þessu vilja þeir breyta þannig, að hásetar skuli hafa minnst 12 klst. á sólarhring hverjum til hvíldar og matar. Þarna er sem sagt lagt til, að sú breyting verði gerð á frv., að matartíminn teljist til hvíldartímans. Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að henda á, að það er alveg fordæmalaust, að þannig sé á málum haldið, að matartími teljist til þess venjulega hvíldartíma. Í öllum þeim samningum, sem eru, og reglum um hvíldartíma, lágmarkshvíldartíma, er það grundvallaratriði, að matartími telst ekki með í hvíldartímanum. Hér er því með þessari brtt. verið að hnika til frá því, sem venja er. Með hliðsjón af því, að hér er um óvenjulega skipan að ræða, og auk þess með hliðsjón af því, að vinnutími sjómanna er lengri en allra annarra starfsmanna og hvíldartími þeirra því styttri, þá sé ég mér fyrir mitt leyti ekki fært að vera með þessari brtt. og mun greiða atkv. á móti henni, þó að ég telji hins vegar, að enda þótt breytingin kunni að verða samþykkt, sé það mikill fengur í frv. Út af fyrir sig, að ég mun verða með því, hvað sem brtt. líður.