26.03.1956
Neðri deild: 95. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (1390)

197. mál, gjafabréf fyrir Þykkvabæ

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson) :

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég hef oft verið dálítið undrandi á ræðubrögðum hv. 2. þm. Reykv., en sjaldan þó meir en af þessari langloku, sem hv. þm. flutti hér, sem var alveg utan við efnið og auðheyrt, að hann skilur ekkert í því, sem hér er verið að fara fram á.

Málið er ósköp einfalt og er eingöngu það, að ágætur bóndi, Helgi Þórarinsson, hefur á sínum tíma gefið þessa jörð með vissum skilyrðum. Börn hans óska nú eftir í samræmi við gjafabréfið, að nokkrar breytingar séu gerðar, til þess að jörðin hafi sömu möguleika til að fá lán og aðrar jarðir í landinu, og ég er í raun og veru alveg undrandi á því, að nokkrum hv. þm. detti í hug að vera á móti þessu. Ég segi það alveg eins og það er. Þetta er málið og ekkert annað, og það er sonur Helga Þórarinssonar, Þórarinn Helgason, sem lengi bjó þar í Þykkvahæ, en er nú fluttur hingað, sem hefur sérstaklega óskað eftir þessu, og ég hef tekið þetta mál upp fyrir hann, vegna þess að hann veit og skilur, að jörðin má til að fá möguleika til lánsfjáröflunar á þennan hátt. Ég fyrir mitt leyti segi það eins og er, að þótt þetta komi fram nú á allra síðustu dögum þingsins, þá legg ég nokkra áherzlu á það, að þetta litla frv. verði afgr., því að þótt hér sé ekki nema um einn bónda að ræða, þá er það alveg nægilegt til þess, að það sé þörf á því að lagfæra það, sem hér er um að ræða.

Í sjálfu sér þarf ekki að fara fleiri orðum um þetta mál að mínum dómi. Allar bollaleggingar hv. 2. þm. Reykv. um nýja lánsfjármöguleika yfirleitt út á jarðir snerta þetta ekki að mínum dómi nokkurn skapaðan hlut. Það getur vel verið, að það verði breytt mjög um það kerfi, sem gildir um þessi efni, og þá auðvitað kemur þessi jörð inn í það. En hví á núna að vera að meina þessari jörð að fá eðlileg lán til ræktunar og annarra hluta eins og öðrum jörðum, sem svipað er ástatt um? Ég leyfi mér að spyrja, Það er ekkert annað, sem hér er farið fram á, ekki nokkur skapaður hlutur annar. Og það er sonur Helga Þórarinssonar, það eru börn hans, sem óska eftir þessu, og það er tekið fram í gjafabréfinu, að Alþingi Íslendinga geti breytt þessu, og hvernig er þá hægt að hugsa sér, að því sé breytt á eðlilegri hátt en eftir till. frá börnum sjálfs gefandans? Ég leyfi mér að spyrja.

Það er ekkert annað, sem hér er um að ræða. Og ég verð að segja það, að eftir að hafa hlustað á þessa ræðu hv. 2. þm. Reykv., þá leyfi ég mér að leggja miklu meiri áherzlu á það en áður, að þetta frv. verði afgr. frá Alþ., áður en því er slitið nú, og vona, að það verði.