26.03.1956
Neðri deild: 95. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í B-deild Alþingistíðinda. (1391)

197. mál, gjafabréf fyrir Þykkvabæ

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það væri æskilegt, að hæstv. landbrh. væri inni. Ég held, að það sé dálítið óviðkunnanlegt, að hæstv. landbrh. rjúki hér upp í stólinn og sé að saka þm. um að flytja hér langlokur, þegar hann sjálfur virðist vera í því ástandi, að hann skilji yfirleitt varla, hvað sagt er, og ég kann betur við, að þó að ráðuneytið sé að segja af sér á morgun, þá reyni þeir að haga sér nokkurn veginn sómasamlega seinasta daginn, sem þeir eru hérna.

Sú ræða, sem ég hélt um þetta mál, var síður en svo af einhverri óvild í garð þess, sem þarna á í hlut, og það var ákaflega fjarri því, að ég væri að tala gegn því, að sá maður, sem á jörðinni býr, gæti fengið lánsfjármöguleika. Það, sem ég var að ræða um, og það, sem hæstv. landbrh. máske einhvern tíma, þegar hann var yngri, hugsaði dálitið alvarlega um, þó að hann sé búinn að gleyma því nú, var það vandamál, sem jarðeignarétturinn er fyrir þá vinnandi bændur, eftir að sú hætta er komin upp í þjóðfélaginu, að jarðirnar geti lent í braski eða geti, þegar bændur eru fátækir og illa staddir, lent í greipum bankanna. Það, sem ég var að reyna að skýra fyrir hv. þm., var, hver hefði verið hugsunarháttur þess manns, sem gaf þetta gjafabréf. Það var hugsunarháttur, sem var ríkjandi á þessum árum, 1913 og þar í kring. Það var hugsunarháttur, sem var mótaður af hugsjón ungmennafélaganna. Það var hugsunarháttur, sem var mótaður af afstöðu þeirra manna, sem upprunalega beittu sér fyrir að stofna tímaritið Rétt og þeirri stefnu, sem það þá fylgdi. Það var afstaða frjálshuga bænda á Íslandi, sem þorðu að horfa skýrum augum á vandamál jarðeignaréttarins fyrir hinn vinnandi bónda og með þessu gjafabréfi, sem hérna var gefið, alveg sérstaklega mótuðu sinn hugsunarhátt í reynd, þannig að þetta gjafabréf og þetta afrek, sem Helgi Þórarinsson þá vann, var umtalað á þessum tímum sem fyrirmynd um, hvernig framsýnir bændur vildu haga málum á Íslandi. Það, sem ég þess vegna vildi leggja áherzlu á, er, að það sé leitt, að málum hafi verið hagað þannig, að nú neyðist meira að segja börn þessara manna til að fara fram á, að það sé brotið á móti þeim vilja, sem þeirra foreldrar skráðu í sitt gjafabréf, vegna þess að það hefur ekki verið tekið tillit til þess í lánsfjárlöggjöfinni, að það væri hægt að haga lánum á þann veg, að ekki þyrfti að veðsetja jarðir.

Hví er óhugsandi, að maður, sem býr á einni jörð, geti fengið lán, eins mikið og hver annar, án þess að hann þurfi að veðsetja jörðina, persónulegt lán til sín sem ábúanda? Hví er það óhugsandi? Menn eru orðnir svo vanir því sem sjálfsögðu, að bændur verði að veðsetja sínar jarðir. Veðböndin eru orðin svo sjálfsagður fjötur, að menn geta helzt ekki hugsað sér annað ástand en það, að einn bóndi, og jafnvel þegar um er að ræða jörð, sem hann á ekki sjálfur, megi samt veðsetja hana. Ég vil spyrja: Hvernig halda menn, að þetta hefði verið, ef þróunin hefði verið sú á Íslandi, að okkar króna hefði verið að hækka í gildi í staðinn fyrir að lækka, ef engin verðbólga ætti sér stað ? Ég veit, að það gerir öll þessi mál auðveldari og hættuminni fyrir bændur, á meðan krónan er kannske skriðin niður í einn fjórða hluta eða einn tíunda hluta af því, sem hún var fyrir nokkrum áratugum, það gerir það auðveldara fyrir þá, sem hafa tekið lán út á jörð, að þurfa að borga það í verðminni peningum seinna meir. En þetta skapar hættu fyrir bændur, hvenær sem það ástand er komið, að verðgildi peninga haldist jafnt.

Ég veit, að menn hafa ekki lifað það síðan fyrir meir en 20 árum, að það væri kreppa hér á Íslandi, að búfjárafurðir féllu í verði, að erfitt væri að selja þær, að skuldirnar þess vegna raunverulega hækkuðu í verði og að veðbandafjötur gæti þess vegna orðið tilfinnanlegur, og menn halda þess vegna, að slíkir tímar geti aldrei komið aftur. En það var einmitt til þess að sporna við því, að slíkt gæti gerzt, að þetta gjafabréf var gefið á sínum tíma, forða jörðinni og ábúendum hennar frá öllum þeim sveiflum, sem brask auðvaldsskipulagsins, sem kaup, sala og veðsetning á jörðum þýðir fyrir manninn, sem vinnur á jörðinni. Og ég verð að segja, að það kemur vissulega úr hörðustu átt, þegar svo er komið, að aðalforustumenn Framsfl. og landbrh. hans hér á þingi gerast til þess að ráðast og það með ósvífni að mönnum fyrir að halda fram skoðun, sem einu sinni, á meðan Framsókn var ung og óspillt, var þó ein af hennar skoðunum og hennar róttækustu manna.

Það fer fjarri því, að með því, sem ég var að vekja hér eftirtekt á, væri verið að gera eitthvað til þess að svipta ábúanda þessarar jarðar lánsfjármöguleikum. Á nákvæmlega sama hátt og hægt er að samþykkja hér frv. til laga um þessa breytingu á gjafabréfinu, er hægt að samþ. frv. til laga um breytingu á lánunum, sem bændur fá. Það er alveg jafnt hægt að opna þann möguleika, að þegar svo standi á, að jörð samkvæmt sérstökum fyrirmælum sé ævarandi eign hrepps, þá skuli sá bóndi, sem á henni býr, fá sama rétt til lána og aðrir bændur gegn sinni persónulegu ábyrgð, og jafnvel hægt að mæla svo fyrir, að hreppsnefndin, sem er eigandi jarðarinnar undir slíkum kringumstæðum, verði bakábyrg.

Spurningin er einfaldlega þarna um það, hvort menn vilja berjast fyrir því, að hugsjón þess manns, sem gaf þetta gjafabréf, megi rætast eða hvort menn vilja beygja gjafabréfið og þar með hans vilja látins undir það ástand, sem hann vildi forða sinni jörð og sínum afkomendum frá. Ég hef ekki sagt eitt orð um, hvort ég tæki afstöðu með eða á móti þessu. Ég hef aðeins viljað vekja athygli hv. þm. á því, hvað við erum þarna að gera, og ég hélt, að það verðskuldaði frekar alvarlega íhugun þeirra manna, sem vilja ræða þessi mál alvarlega, heldur en þá frekju og framhleypni, sem hæstv. landbrh. hér hefur gert sig sekan um.