10.12.1955
Neðri deild: 30. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Jón Pálmason:

Herra forseti. Í ræðu minni hér í dag gerði ég það glögglega grein fyrir afstöðu minni til þessa máls og minni brtt., að ég þarf ekki að fara mjög mörgum orðum um það til viðbótar því, sem ég sagði þá. En nokkur atriði eru það samt, sem gera að verkum, að mér þykir rétt að segja fáein orð til viðbótar, og í fyrsta lagi ætla ég þá að minnast á tvö atriði, sem fram komu í ræðu hv. 3. landsk. þm. (HV).

Hann sagði á þá leið, fór nú út í pólitíska hluti, að það væri mjög undarlegt, að Sjálfstfl. sendi hér fram tvo fulltrúa, sem töluðu hvor á móti öðrum. Nú er það svo, að Sjálfstfl. hefur engan fulltrúa sent hér fram. Við erum nm., ég og hv. 5. þm. Reykv. (JóhH). Við höfum ekki fengið neina fyrirskipun frá flokknum og förum eftir okkar eigin sannfæringu, hvor í sínu lagi. Hluturinn er sá, að Sjálfstfl. er ekki svo þröngsýnn flokkur, að hann fari að gefa fulltrúum sínum fyrirskipun í einstökum atriðum, og hann mundi líka vita það, að við hv. 5. þm. Reykv. erum þannig menn, að við tækjum ekki neinni fyrirskipun, heldur förum eftir því, sem eigin sannfæring segir til um.

Hv. sami þm. sagðist hafa orðið fyrir vonbrigðum af því, að ég legði ekki til í minni till. að hækka við lægst launaða fólkið á launalistanum. Ég gerði grein fyrir því hér í dag, á hvaða forsendum mín till. er byggð, því að hún er byggð á þeim forsendum að raska ekki neitt þeim hlutföllum, sem nú eru í framkvæmd, halda þeim, og till. er byggð á því einu að sleppa úr í öllum launaflokkum jafnt þeirri 9.5% launahækkun, almennri launahækkun, sem í frv. er.

Nú er það svo, að ég skal upplýsa þennan hv. þm. og aðra um það, að í XV. flokki, síðasta launaflokki, held ég að sé ekki eftir nokkur starfshópur, nema eitthvert aðstoðarfólk í tóbakseinkasölunni. Ég held, að það væri vel hægt að skaðlausu að strika XV. flokkinn út. XVI. fl. hefur þegar verið felldur úr. Í XIV. launaflokki er tiltölulega mjög fátt fólk, og það er satt, að það, sem er í XIV. launafl., er heldur lægra en óbreyttur verkamaður. En ég álít það sanngjarnt. Ég get sagt bæði hv. 3. landsk. þm. og öllum öðrum, að ég álít sanngjarnt, að þeir, sem eru að byrja á skrifstofum og vinna þar í 6 eða 6½ tíma á dag og hafa 130 frídaga á ári, séu lægra launaðir en verkamenn, sem vinna erfiðisvinnu 8 tíma á hverjum degi. Ég skal ekki draga neina dul á það, að ég álit þetta sanngjarnt.

Að öðru leyti skal ég ekki svara þessum hv. þm. því, sem hann vék að, en aðeins víkja að fáeinum atriðum, sem fram komu í fyrstu ræðu hæstv. fjmrh., eftir að ég hafði talað.

Hæstv. fjmrh. hélt því fram, að þetta frv. væri byggt á því að færa starfsmenn ríkisins í sömu launaaðstöðu og aðra menn, sem hefði verið hækkað hjá, og talaði á þá leið eins og ekkert hefði verið breytt kjörum opinberra starfsmanna frá því að launalögin voru sett 1945. Mér þykir undarlegt að heyra svona röksemdir, ef röksemdir geta kallazt, því að þetta er alger blekking.

Ég upplýsti það hér í dag og get endurtekið það, að ef við tökum t. d. efsta launaflokkinn, hæst launaða flokkinn, hafði hann samkvæmt launalögum 1945 15 þús. kr. Samkvæmt þessu frv., ef það er samþykkt óbreytt, hafa þessir menn að viðbættri vísitölu á næsta ári 104 þús. Það hefur alltaf verið að hækka við þessa menn, og hvort það er kallað verðlagsuppbót eða grunnlaunauppbót, skiptir ekki miklu máli. Það hefur alltaf verið hækkun, og sú hækkun hefur átt sinn stóra þátt í allri þeirri verðskrúfu, sem hér er.

Það er þess vegna frá mínu sjónarmiði alls ekki rétt röksemd, hver sem heldur því fram, að þetta frv., eins og það er útbúið, sé algerlega afleiðing af einhverju öðru, sem búið sé að gera.

Þá hélt hæstv. ráðh. því fram, að það væri ekki líklegt, að það kæmu aðrar stéttir, aðrir starfshópar á eftir, eins og ég sýndi fram á í dag, til að heimta hækkun á sínum launum, og nefndi hann þar til sérstaklega verzlunarfólk, sem er bæði hjá samvinnufélögum og öðrum verzlunarhlutafélögum. Ég get náttúrlega ekki staðhæft þetta og hann ekki heldur, en hæstv. ráðh. mun sanna það og aðrir, hvort ekki kemur sú krafa fram, og hún er ósköp eðlileg, að hjá öllu þessu fólki verði heimtuð sama viðbótarprósentan, og við erum búnir að sjá fyrsta skrefið í afleiðingunum með því, að bæjarstjórn Reykjavíkur, sem er nú að starfi, að gera sína áætlun, hefur ekki séð sér annað fært en að gera ráð fyrir sömu uppbót og reikna með því, að þetta frv. verði samþykkt óbreytt, og það þýðir það, að öll bæjar- og sveitarfélög taka upp sama háttinn og svo aðrir á eftir.

Þá hélt hæstv. ráðh. því fram, og einhver annar vék að svipuðu atriði, að það gagnaði opinberum starfsmönnum ákaflega lítið, jafnvel ekkert, að lækka tekjuskattinn. Ég er alveg á annarri skoðun í þessu efni. Ég álít, að það sé einmitt rétta leiðin, að í stað þess að hækka launin á að lækka tekjuskattinn, því að það hefði ekki neinar hættulegar afleiðingar í okkar fjármálalífi. Tekju- og eignarskatturinn hefur nú hækkað frá 1946, þegar Pétur heitinn Magnússon lét af embætti sem fjármálaráðherra. Þá var tekju- og eignarskatturinn 35.8 millj., nú er hann milli 95 og 96 millj., sem sagt hefur hann hækkað um 60 millj., og það hefur ekki þurft að breyta neitt grunninum. Tekjuskatturinn hefur hækkað sjálfkrafa, eftir því sem dýrtíðin hefur vaxið, og gerir það alltaf, og eins er með tollana og annað. Ég held þess vegna, að það sé ekki síður fyrir launafólk ríkisins en aðra menn í þjóðfélaginu, að það sé heppilegri leið að lækka þennan skatt en áð hækka launin, því að það mundi ekki hafa neinar alvarlegar afleiðingar.

Hv. 8. landsk. þm. benti á, að það væri miklu eðlilegra frá mínu sjónarmiði og fleiri manna að lækka söluskattinn en tekjuskattinn. Það er náttúrlega mjög mikið álitamál, hvort það er. En tekjuskatturinn er orðinn þannig, að það er reynt á allan hátt að fara í kringum hann, vegna þess að hann er orðinn svo gífurlega hár sem hann er, og meira að segja gengið svo langt í því og sýnir spillinguna, sem þau lög hafa haft í för með sér, að það eru sumir starfshópar, sem eru farnir að gera það að skilyrði fyrir að vinna, t. d. við byggingar, að ekki sé talið fram til skatts nema hluti af kaupinu. Og þetta gengur svo langt, að það hefur meira að segja opinber ríkisstofnun sýnt.

Ég vænti þess, að menn hugsi sig vel um hér í hv. d., áður en þeir fella mína till. Ef þeir vilja gera það, þá bera þeir ábyrgðina. En ég skal ekki meira um þetta fjölyrða nú.