12.10.1955
Efri deild: 3. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (1411)

9. mál, matsveina- og veitingaþjónaskóli

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er þess efnis að breyta til um yfirstjórn matsveina- og veitingaþjónaskólans. Eins og nú er, heyrir hann undir samgmrn., en hefur hins vegar með forsetaúrskurði verið lagður undir mig, og þar með er ég að því leyti samgöngumálaráðherra. Ég hef komizt að raun um, að það muni vera mun hægara fyrir störf varðandi stjórn þess skóla, að skólinn heyri undir menntmrn. Mín skoðun er sú, að það fari betur á því, að sem flestir skólanna heyri undir sama rn.

Út af fyrir sig þarf þetta ekki að breyta því, að hægt er að skipta skólunum á mismunandi ráðherra, ef menn svo vilja. Á s.l. þingi var t.d. tekin sú ákvörðun, að iðnskólarnir voru teknir undan iðnmrn. og lagðir með lögum undir menntmrn. Þar sem núverandi iðnmrh. hafði átt þátt í undirbúningi þeirrar löggjafar, sem er allnýstárleg varðandi skólana, og áður farið með málefni þeirra, þótti okkur betur fara á því, að hann héldi áfram að hafa yfirstjórn skólanna, þó að menntmrn. færi með málin, og var hann þess vegna með sérstökum forsetaúrskurði gerður að menntmrh. að því leyti sem iðnskólana varðar. En eins og samþykkt Alþingis í fyrra, sú sem fyrst var gerð hér í hv. Ed., sýndi að var skoðun Alþingis, þá er enginn vafi á því, að það er heppilegra, að sem flestir skólanna heyri undir sama ráðuneyti. Það eru margs konar sams konar vandamál, sem koma upp varðandi þessa skóla, um kennara, námstilhögun og annað slíkt, og fróðleikur um þau efni er, ef vel á að vera, í menntmrn. Þess vegna er eðlilegast, að það búi málin í hendur ráðherra, hver sem hann er, og það fer eftir forsetaúrskurði á hverjum tíma, hvaða manni falið er að gegna ráðherraembætti í einstökum greinum.

Þessi breyting, sem hér er gerð, er því byggð á þeirri reynslu, sem ég hef fengið varðandi meðferð þessara mála, og er í fullu samræmi við þá ákvörðun, sem Alþingi tók um iðnskólana á s.l. þingi. Treysti ég því, að málið geti náð fram að ganga, og legg til, að því verði vísað til hv. menntmn. og fái að öðru leyti lögmæta meðferð í deildinni.