07.11.1955
Efri deild: 14. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í C-deild Alþingistíðinda. (1414)

9. mál, matsveina- og veitingaþjónaskóli

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. menntmn. á þskj. 93 með fyrirvara. Þessi fyrirvari minn gildir þó ekki það, að ég hafi neitt á móti því, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, verði samþykkt. Matsveina- og veitingaþjónaskólinn er ekki hægt að segja að tilheyri neinum sérstökum aðalatvinnuvegi, og ég sé ekkert á móti því að færa yfirráð yfir honum frá samgmrn. til menntmrn., því að auðvitað starfa matsveinar og veitingaþjónar við fleira en það, sem getur talizt til samgöngumála. Fyrirvari minn gildir aftur á móti það, að ég vil ekki, að meðmæli mín með þessu frv. verði skilin svo, að ég sé búinn að taka ákvörðun um það að mæla yfirleitt með því, að allir skólar heyri undir menntmrn. Ég skal ekki ræða frekar um það í sambandi við þetta mál, en ég vildi aðeins fyrirbyggja þann misskilning.