07.11.1955
Efri deild: 14. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í C-deild Alþingistíðinda. (1416)

9. mál, matsveina- og veitingaþjónaskóli

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er vegna fsp. hv. 4. þm. Reykv. Þá vil ég svara því, að ég hef ekki hugsað mér neitt varðandi framtíð búnaðarskólanna eða húsmæðraskóla í sveitum. Þeir skólar heyra ekki undir mig sem ráðherra, og ég tel það í verkefni þess ráðherra, sem um þau mál fjallar, að gera tillögu, ef hann telur ástæðu til að breyta því fyrirkomulagi, sem nú er, en það tilheyrir ekki mér sem ráðherra. Aftur á móti hafa stýrimannaskólinn og matsveinaskólinn verið lagðir undir mig með sérstökum forsetaúrskurði, ekki sem menntmrh., heldur sem verandi samgmrh. að því leyti. Ég hef hins vegar sannfærzt um það við að hafa þessa skóla undir minni umsjá, að það er í alla staði eðlilegra, að þeir heyri undir menntmrn. en samgmrn., því að þau efni, sem koma til úrskurðar rn. varðandi þessa skóla, fjalla öll um þau efni, sem menntmrn. hefur sérþekkingu á, en reynir alls ekki á sérþekkingu varðandi samgöngumál. Þannig hefur það a.m.k. verið þann tíma, sem ég hef gegnt þessum störfum. Það er að langmestu leyti um að ræða útvegun kennara og annað slíkt, sem rn. þarf að fjalla um þessi mál, og þeir starfsmenn stjórnarráðsins, sem hafa æfingu um meðferð slíkra mála og þekkingu á því, hvaða mönnum er til að dreifa, eru innan menntmrn., en ekki samgmrn. Ég er því alveg ókunnugur, hvort önnur atriði koma til greina varðandi búnaðarskólana og húsmæðraskóla í sveitum, og mun engar tillögur um þá gera.