17.11.1955
Efri deild: 19. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í C-deild Alþingistíðinda. (1430)

10. mál, stýrimannaskólinn í Reykjavík

Frsm. (Ingólfur Flygenring):

Herra forseti. Frv. til laga um breyt. á l. nr. 5 14. marz 1955, um stýrimannaskólann í Reykjavík, er sams konar og frv. um matsveina- og veitingaþjónaskóla, sem nýlega var samþykkt út úr þessari hv. deild, en eins og hv. þm. er kunnugt, er efni þess þannig, að báðir þessir skólar skuli framvegis heyra undir menntmrn. í stað samgmrn., eins og nú er ákveðið í lögum. Frá mínu sjónarmiði gilda hér nákvæmlega sömu rök og ég beitti við 2. umr. málsins um matsveina- og veitingaþjónaskólann, þ.e., að eðlilegast væri, að þeir, eins og flestir aðrir skólar, falli undir menntmrn. Mál þetta er svo kunnugt hv. þm. þessarar deildar, að ekki er þörf á að hafa þar um lengra mál.

Eins og nál. ber með sér, skrifa tveir af fjórum nm. undir það með fyrirvara. Munu þeir gera grein fyrir atkvæði sínu. Fimmti nm., 4. þm. Reykv., var ekki viðstaddur á fundinum, þegar frv. var rætt og nál. samið, og hefur hann því að sjálfsögðu óbundnar hendur um atkvæði sitt.