17.11.1955
Efri deild: 19. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í C-deild Alþingistíðinda. (1431)

10. mál, stýrimannaskólinn í Reykjavík

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Eins og nál. menntmn. á þskj. 119 ber með sér, höfum við tveir nm. skrifað undir það með fyrirvara, ég og hv. þm. Mýr. Hvað mig snertir hef ég að nokkru leyti gert grein fyrir þessum fyrirvara áður í sambandi við annað skylt mál. Ég lít nefnilega svo á, að það sé mjög vafasamt, að allir skólar landsins eigi að heyra undir menntmrn., en ef þetta frv. verður samþ., þá eru þeir orðnir næsta fáir skólarnir, sem ekki heyra undir það.

Það er að sjálfsögðu eðlilegt, að allir almennir skólar heyri undir menntmrn. En um þá skóla, sem beinlínis eru í þágu ákveðins atvinnuvegar, einkum ef það er stór atvinnuvegur, finnst mér öðru máli að gegna, og væri í sjálfu sér eðlilegra, að þeir skólar heyrðu undir sama ráðuneyti og atvinnuvegurinn.

Ég hef þó skrifað undir nál., eins og ég gat um áðan, og ég mun ekki verða meinsmaður þess, að þetta frv. gangi fram, þrátt fyrir þetta álit mitt, og er það af tveimur ástæðum. Fyrri ástæðan er sú, að sá hæstv. ráðherra, sem þetta mál heyrir undir nú þegar, óskar eftir því, að frv. sé samþykkt og yfirstjórn stýrimannaskólans flutt úr samgmrn. í menntmrn., vegna þess að önnur skólamál, sem undir þennan hæstv. ráðh. heyra, tilheyra menntmrn. Að sjálfsögðu vil ég gjarnan taka nokkurt tillit til óska hæstv. ráðh. í þessu efni, einkum vegna þess, að hann er hér ekki að seilast persónulega til neinna aukinna valda, þar sem málið heyrir undir hann hvort sem er. Annars vil ég nú skjóta því inn í sambandi við þetta, að það er ákaflega einkennilegt, hvernig á síðari tímum ráðherrarnir skipta með sér störfum, að hver ráðh. hefur lítinn málaflokk í hinum og öðrum ráðuneytum. Áður var það svo, að hver ráðherra tók við einu ráðuneyti og hafði öll þau mál, sem undir það heyrðu. Ég held, að þetta hljóti að vera óþægilegt fyrir ráðherrana, og það er meðfram þess vegna, hve þetta er óþægilegt, að hæstv. ráðh. óskar nú breytinga að þessu leyti. Og það er áreiðanlega líka óþægilegt fyrir almenning, því að almenningur hefur ekki hugmynd um, undir hvaða ráðherra mál yfirleitt heyra; þetta er allt í þeim graut. Mér þætti gaman að sjá niðurstöðuna, ef við alþm. gengjum undir próf í þessu, hvort allir stæðust það með ágætiseinkunn, að segja um hvert mál, undir hvaða ráðherra það heyrði. Það kynni að vera, að svo færi. En hin ástæðan til þess, að ég vil ekki rísa gegn þessu frv., er sú, að mér finnst, að skólinn hafi ekki hingað til heyrt undir það ráðuneyti, sem hann ætti að heyra undir, þ.e.a.s. þá deild í atvmrn., sem hann ætti að heyra undir. Sjómannaskólinn er áreiðanlega miklu meira fyrir fiskimannastéttina og til undirbúnings skipsstjórnarmanna á fiskiskipum heldur en á farþega- og fragtskipum, og þar af leiðandi hefði mér fundizt eðlilegra, að stýrimannaskólinn hefði heyrt undir sjávarútvegsmál, en ekki undir samgöngumál. Þar af leiðandi get ég frekar látið það afskiptalítið, þó að þessi breyting verði gerð nú, þar sem ég tel, að þetta hafi ekki verið í réttu horfi áður.

Ástæðan til þess, að ég tel vafasamt, að skólar, sem tilheyra þannig sérstökum atvinnuvegi, heyri undir menntmrn., er sú, að mér finnst það megi vænta þess, að ráðuneytin hafi í sinni þjónustu sérfróða menn, og maður, sem er sérfróður um sjávarútveg og ef til vill siglingar og starfaði í atvmrn., fyndist mér vera færari að fjalla um mál, sem snerta stýrimannaskólann eða sjómannaskólann, heldur en almennt menntaðir menn í fræðslumálaskrifstofunni. Mér er ekki svo kunnugt um það; hvort sérmenntaðir menn í þeim greinum vinna í atvmrn., en hitt veit ég, að hvað landbúnaðinn snertir vinnur þar einmitt að landbúnaðarmálunum fulltrúi, sem er sérmenntaður í búvísindum og því áreiðanlega færari um það en fræðslumálaskrifstofan að leggja á ráð um búnaðarskólana, auk þess sem landbrh. er nú gamall skólastjóri við búnaðarskóla. Og ég mundi alls ekki vilja samþykkja og mundi algerlega vera á móti því að flytja yfirráð yfir búnaðarskólum undir menntmrn.