13.02.1956
Neðri deild: 69. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í C-deild Alþingistíðinda. (1449)

4. mál, fræðsla barna

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að gera stuttlega grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Enda þótt ég sé aðili að nál. hv. meiri hl. menntmn., sem leggur til, að frv. þetta verði samþ. með þeirri breytingu, sem í álitinu greinir, vil ég taka skýrt fram, að ég lít svo á, að meginstefna löggjafarvaldsins eigi að vera sú, að hin almenna barnafræðsla sé í höndum hins opinbera.

Í því getur vitanlega falizt nokkur hætta, ef einkaaðilum er gefið of mjög undir fótinn og auðveldað úr hófi fram að stofna og reka barnaskóla, sem þeir hafa þá að einhverju leyti tilhneigingu til að móta í samræmi við sérskoðanir sínar, hvort sem er í trúmálum, uppeldismálum eða öðrum efnum. Á þetta sjónarmið lagði ég áherzlu í n., og mér virtist, að allir hv. nm. væru á einu máli um þetta.

Hins vegar er því svo háttað víða, að skólahúsnæði vantar tilfinnanlega, og það svo mjög, að enda þótt allt kapp verði á það lagt í náinni framtíð að bæta úr því, svo sem sjálfsagt og nauðsynlegt er að gert verði, mun það eiga nokkuð langt í land, að það komist alls staðar í æskilegt horf.

Þá má og segja, að ekki stafi af því mikil hætta, þótt til séu fáeinir tiltölulega vel reknir einkaskólar, sem hlíta almennum reglum um barnafræðslu og starfa undir eftirliti fræðslumálastjórnarinnar. Enginn er að sjálfsögðu skyldugur til þess að láta börn sín í slíka skóla. Það fer eftir frjálsu vali.

Eins og sakir standa, tel ég því ekki mjög mikla hættu á því, að slíkir einkaskólar verði margir, a.m.k. ef nokkrar skorður eru við því reistar, eins og ætlunin er að gera, þar eð kostnaður við að koma slíkum skólum upp og reka þá er að sjálfsögðu mikill, jafnvel þótt laun fastra kennara yrðu greidd af opinberum aðila.

Hins vegar tel ég, eins og ég áðan sagði, alls ekki heppilegt að ýta undir þá þróun um skör fram, að stofnaðir verði nýir einkaskólar til þess að annast barnafræðslu. Þess vegna hreyfði ég þeirri till. í menntmn., að þau hlunnindi um greiðslu kennaralauna af opinberri hálfu, sem ráðgert er að veita með þessu frv., skyldu því skilyrði bundin, að skólarnir hefðu starfað a.m.k. í fimm ár með góðum árangri. Og bæði meiri hl. og minni hl. n. flytja brtt. um þetta atriði. Mér virðist, að með samþykkt þeirrar till. séu sæmilega öruggar skorður reistar við því og svo búið um hnúta, að samþykkt þessa frv. eigi ekki að geta ýtt undir óeðlilega fjölgun einkaskóla. Þessar skorður eru a.m.k. ferns konar. Í fyrsta lagi: rekstur slíkra skóla og greiðsla kennaralauna við þá af opinberri hálfu er háð samþykki fræðslumálastjórnar. Í öðru lagi þarf meðmæli hlutaðeigandi fræðslunefndar til þess, að slíkir skólar fái löggildingu. Í þriðja lagi fá einkaskólar ekki löggildingu, nema því aðeins að þeir fullnægi öllum settum lagafyrirmælum og reglugerðum um almenna barnaskóla. Og loks í fjórða lagi, ef till. meiri hl. menntmn. verður samþykkt, er það skilyrði fyrir greiðslu kennaralauna úr ríkissjóði, þegar einkaskólar eiga í hlut, að skólinn hafi starfað í fimm ár eða lengur, áður en hann verður aðnjótandi þessara hlunninda. Verði þessi till. samþ., tel ég mig geta fylgt því frv., sem hér liggur fyrir.