10.12.1955
Neðri deild: 30. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þó að maður tali nú ekki fyrir þingheim, heldur fyrir alþingistíðindin, þá taldi ég rétt að segja hér nokkur orð til að leiðrétta eitt eða tvö atriði, sem fram komu í umr., eftir að ég talaði hér síðast.

Hæstv. ráðh. vék eins og margir fleiri að verkfallinu s. l. vor og niðurstöðu þess og sagði, ég held nokkurn veginn orðrétt, að ógæfan hafi verið sú, að teknir hafi verið þeir hæst launuðu og lægst launuðu saman í þessa deilu, og því fór sem fór, sagði hann.

Þetta er á algerum misskilningi byggt og er rangt. Það voru að vísu samferða þarna í verkfallinu verkamenn með kr. 10.24 í grunn og iðnaðarmenn, sem voru með upp að 12 kr. í grunn, en það átti að gera sérstaka samninga fyrir hverja tegund þessara launamanna, og þess vegna reyndi á það, hvort atvinnurekendurnir veittu meira viðnám samningnum við hina almennu verkamenn eða við iðnaðarmennina. Og á hverju stóð allan tímann, sem verkfallið stóð? Allt til síðasta dags stóð á því, að Vinnuveitendasambandið vildi ekki semja um grunnkaupshækkunina til hinna almennu verkamanna, en atvinnurekendur voru miklu fúsari til að leysa samningana við múrarana og trésmiðina, sem síðan var í áróðrinum út á við sagt að allt strandaði á. Þessu var alveg snúið við. Það hefði verið dálagleg aðstaða, sem vinnuveitendasamtökin hefðu getað komið okkur í, ef það hefði verið eins og þeir sögðu, þau hefðu boðið strax í byrjun deilunnar sæmilega lausn á launakjörum hinna almennu verkamanna og svo hefðum við staðið með allt saman fast eingöngu vegna launadeilunnar út af múrurunum og trésmiðunum. Nei, það kom aldrei til þess, því að atvinnurekendurnir stimpuðust alltaf á móti hækkuninni til hinna almennu verkamanna. Nú segir hæstv. ráðh., að það, sem ógæfunni hafi valdið, hafi ekki verið 11% launahækkunin, sem fékkst til hins almenna verkalýðs í landinu og nú er komin á um allt land. Gott og vel, þá er ekki stór skaði skeður, því að það er á engan hátt hægt að rökstyðja það, að þjóðfélaginu hafi verið stofnað í háska með þeirri launahækkun, sem iðnaðarstéttirnar fengu, nokkur hundruð manna. En hver var launahækkun þeirra, þar að auki? Fengu þeir 11% hækkun á kaup sitt? Nei, þeir fengu það ekki. Það var rétt við það, að grunnkaup þeirra sumra mjakaðist nokkuð upp á við, og það var alls ekki um meiri grunnkaupshækkun að ræða en 3% hjá iðnaðarstéttunum, sem hæst voru launaðar, eins og hv. 11. landsk. gat hér um áðan.

Ef það ætti nú að leysa launalagafrv. á svipuðum réttlætisgrundvelli og í vor, þá ætti auðvitað breytingin að vera sú, að hlutfallslega fengi mesta hækkun fólkið, sem er í lægstu launaflokkunum, og að þeir, sem eru í I.-X. launafl., fengju launahækkanir á svipuðum grundvelli og múrarar og trésmiðir og aðrir slíkir fengu í vor, þ. e. a. s. að meðaltali 2–3% grunnkaupshækkun. Það væri hliðstæða nokkurn veginn í afgreiðslu þessara mála hér og þá.

Það er verið að halda því fram hérna, að rangfærslur hafi verið viðhafðar í meðferð talna að því er snertir athugun á launahækkun opinberra starfsmanna frá því í fyrrahaust. En það er búið að sýna ljóslega fram á það, að dæmið er rétt reiknað. Það er komið svo, að ýmsir hærra launaðir starfsmenn ríkisins fá með þessum breytingum öllum saman á einu ári milli 30 og 40% launahækkun, og það er margfalt á við það, sem verkalýðurinn í landinu hefur fengið.

Því var ekki mótmælt, sem ég vék að hér áðan, að launahækkunarskriðan fór af stað vegna þess þrýstings, sem stjórnarstefnan var búin að skapa strax á miðju árinu sem leið, fyrst hjá Reykjavíkurbæ og síðan hjá hæstv. ríkisstj., og hvorugur aðilinn fékk við neitt ráðið. Það er fyrst á s. l. vori frá 1. maí að telja, sem verkalýðurinn fær sína launahækkun. Og hæstv. ráðh. talaði um, að við þessu hefði ekki verið hægt að sporna, og það mun rétt vera. Það er líka fjarri því, að iðnaðarmennirnir, sem fengu sína litlu launahækkun í vor, verði ekki varir við sama þrýstinginn núna eftir launabreytingu þeirra eins og áður; þeir eru yfirkeyptir í mörgum tilfellum, þeir eru knúðir til að vinna miklu lengri vinnutíma en eðlilegt er, og þeim er borgað 50% álag á fyrstu eftirvinnuna og 100% álag á næturvinnuna, sem þeir eru beðnir að vinna, af því að svo fast er kallað eftir vinnuafli þeirra. Það er því síður en svo, að launahækkun iðnaðarmannanna í vor hafi sprengt þann ramma, sem lögmálið um framboð og eftirspurn skapar í þjóðfélaginu eins og stendur.

Nú langar mig til að spyrjast fyrir um það: Er það svo, að starfsmenn ríkisins, sem náðu sérsamningum við ríkisstofnanir á s. l. hausti, komi undir hin nýju væntanlegu launalög og ákvæði þeirra, eða verða þeir áfram á sínum sérsamningum, þrátt fyrir það að þeir séu opinberir starfsmenn? Ef það er svo, að þeir haldi áfram að vera á þeim samningum, sem þeir gerðu, af því að þeir séu ofan við ákvæði launalaganna, þá er nú strax komið gat á keraldið, áður en búið er að ganga frá smíði þess, og þá er hætt við, að sá leki ágerist.

Enn langar mig til að segja örfá orð um það sjónarmið, hvort launamismunur milli hæstu launaflokkanna og þeirra lægstu sé of mikill eða of lítill. Því hefur verið haldið fram af hv. 5. þm. Reykv. (JóhH), að þessi launamismunur sé allt of lítill, og það er hans sjónarmið. Ég vil hins vegar halda því fram, að launamunurinn, hvað sem öðrum löndum líður, sé orðinn hér verulegur, einkanlega þegar við tökum tillit til útkomunnar á útreiknuðu kaupi með vísitölunni 171 stig, eins og hún er í dag, kannske fer hún hækkandi. Hann er svo mikill, að þeir, sem eru í hæstu launaflokkunum, fá dálítið á annað hundrað þús. kr. í árslaun, fara yfir 100 þús. kr., og hinir, sem eru í lægstu launaflokkunum, fá milli 20 og 30 þús. kr., og af því lifir enginn maður hér á landi með því verðlagi, sem hér hefur skapazt. Þessi launamismunur er ranglátur og leiðir til þess, að fólk fæst ekki til margvíslegra nytsamlegra starfa, sem þó verður að vinna í þjóðfélagsins þágu, en eru skömmtuð laun samkvæmt hinum lægstu liðum launalagafrumvarpsins.

Ég tel því, að það þurfi þvert á móti að minnka mismuninn, sem er á milli þeirra hæst launuðu og lægst launuðu samkvæmt launalagafrv. Ég hef ekki enn þá séð þær tölur, sem koma til með að liggja fyrir í frv. um laun ráðh., sem sagt er að komi innan skamms. En ég get ekki ímyndað mér, að þeir hafi verið teknir út úr til annars en þess, að laun þeirra væru hærri en í I. launaflokknum hér, sem er þó dálítið á annað hundrað þús. kr. árslaun. Og þá get ég ekki ímyndað mér, að það sé gert fyrir minna en svona 20–30 þús. kr. launamismun, og þá eiga ráðh. að vera hér með um 120–130 þús. kr. kaup útreiknað, og það er ofan við það, sem menn þurfa til þess að lifa heilbrigðu lífi þrátt fyrir alla dýrtíð hér í landinu. Og ef það er svo, að þetta þjóðfélag sé í háska statt út af þeim launakjörum, sem verkalýðurinn býr við nú, sem samsvarar launum samkvæmt þriðja launaflokknum neðan frá, allir aðrir eru hærra launaðir en hinn almenni verkamaður, þá hefur þjóðfélag þetta ekki efni á því að borga mörgum langt fyrir ofan það, sem nauðsynlegt er til þess að gefa lifað sómasamlegu lífi. En ef ósamræmi er komið, sem mér er alls ekki grunlaust um, milli launa jafnvel hinna hæst launuðu embættismanna ríkisins og starfsmanna hjá einkaatvinnulífinu, þá er einhvers staðar tekinn biti frá atvinnulífinu, sem ætti ekki að takast frá því, til þess einmitt að koma öllu launakerfi hér úr skorðum, og þá væri ríkisstj. verðugt verkefni að snúa sér að því. Það er vitanlegt, að þessi milliliðaþjónusta hér á landi yfirtekur menn í sína þjónustu, af því að henni er gefinn svo laus taumur til þess að féfletta fyrst og fremst framleiðsluatvinnuvegina í landinu, og það er það, sem mun reynast þjóðfélaginu dýrast af öllu.