24.02.1956
Neðri deild: 76. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í C-deild Alþingistíðinda. (1461)

4. mál, fræðsla barna

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég stend ekki upp til þess að endurtaka þau meginrök, sem ég taldi mig hafa flutt við fyrri hluta þessarar umr. gegn þessu frv., heldur til þess að svara með örfáum orðum nokkrar athugasemdum, sem komu fram, einkum í ræðu hv. 8. þm. Reykv. Ég á með ánægju orðaskipti við hann um þetta mál, auðvitað í fyllstu vinsemd. Mér finnst óþarfi af honum að taka það illa upp fyrir mér, þótt ég hafi látið nokkur orð um það falla í fyrri ræðu minni, að mér hefði þótt afstaða hans í þessu máli við hlið Sjálfstfl. ekki bera vitni um þá trúmennsku við vinstri sjónarmið, sem ég hefði óskað eftir, og ég rökstuddi það með því að vitna til afstöðu vinstri flokka í nágrannalöndum og annars staðar í Evrópu til mála líkra sem þessara. Að öðru leyti er það ekki mergurinn málsins, hvort menn þjóna vinstra sjónarmiði eða hægra sjónarmiði í afstöðu sinni til þessa frv., heldur hvort menn gera rétt eða rangt, eins og raunar alltaf er aðalatriði máls.

Mér fannst meginröksemd hv. 8. þm. Reykv. hníga að því, að einkaskólar væru eðlilegir og þá ætti að leyfa, ef þeir fullnægðu þeim almennu kröfum, sem fræðslulögin gera um menntun og siðgæði í slíkum skólum. Mér virtist öll röksemdafærslan hníga að því, að við einkaskóla væri í sjálfu sér ekkert að athuga, ef hið opinbera hefði eftirlit með því, að sú kennsla, sem þar færi fram, væri algerlega sambærileg við þá kennslu, sem fram færi í hinum almennu barnaskólum. En samt sem áður tók hv. þm. fram, að hann væri því mjög andvígur, að einkaskólum fjölgaði. Hann taldi það einmitt höfuðröksemd fyrir þessu frv., að hann teldi, að af því mundi ekki leiða neina verulega fjölgun á einkaskólunum. Þessu kem ég ekki almennilega heim og saman.

Ef meginrök hans eru rétt. að í sjálfu sér séu einkaskólar ágætir, ef þeir fullnægja sömu kröfum og gerðar eru til ríkisskólanna, þá sé ég ekki, hvað væri við það að athuga, þó að þeim fjölgaði, en samt sem áður virðist hv. þm. vera andstæðingur þess, og þar erum við alveg sammála. Það, sem við erum ekki sammála um í þessu efni, er, hvort líklegt sé, að þetta frv. muni leiða til fjölgunar einkaskóla eða ekki. Það er þar, sem ágreiningurinn kemur fyrst og fremst til skjalanna. Eins og ég undirstrikaði í fyrri ræðu minni, tel ég það vera meginágalla frv., að það mundi ýta undir fjölgun einkaskólanna, og það er þróun, sem við erum sem betur fer alveg sammála um að væri mjög óæskileg. Skal ég fara örfáum orðum um það, hvaða rök ég tel hníga áð því, að einkaskólunum muni fjölga, ef þetta frv. verður að lögum.

Langmestur hluti kostnaðarins við rekstur barnaskóla er kennaralaunin, og mér finnst, að ef á annað borð er tilhneiging til að koma á fót einkaskólum, þá sé auðséð, að þessi tilhneiging muni fá byr undir báða vængi, ef menn eiga kost á því að fá greidda allt að því 90% af kostnaðinum af opinberu fé. Spurningin er því fyrst og fremst um þetta: Er ástæða til að gera ráð fyrir því, að um slíka tilhneigingu til stofnunar einkaskóla sé að ræða? Hennar hefur þegar orðið vart, og sannleikurinn er sá, að ástæðurnar, sem til þess liggja, að þeir einkaskólar hafa verið stofnaðir, sem nú eru reknir, eru ekki nákvæmlega þær, sem látið hefur verið í veðri vaka af forsvarsmönnum þessa frv. Það kom fram í þeim tveim ræðum, sem fluttar voru áðan, að höfuðástæðan fyrir því, að þessir skólar hefðu verið starfræktir, væri sú, að kaþólskt fólk og það fólk, sem aðhyllist trúarkenningar sjöunda dags aðventista, gæti ekki sætt sig við þá kristindómskennslu, sem fram færi í ríkisskólunum. Ég hef leitað um þetta álits mér fróðari manna í þessum efnum, og þeir hafa verið sammála um, að þessi skoðun hafi ekki við rök að styðjast; í fyrsta lagi megi benda á það, að enginn sé skyldugur til að láta börn sín taka þátt í kristindómsfræðslu barnaskólanna. Hvaða foreldrar sem er geta fengið undanþágu frá því að láta börn sín njóta kristindómskennslunnar. Engum er þröngvað til þess að meðtaka þá kristindómskennslu, sem fer fram í barnaskólunum. Hitt er þó mikilvægara, að það er misskilningur, þegar lögð er áherzla á, að kristindómsfræðsla barnaskólanna hér sé sterklega mótuð af evangelísk-lútherskum sjónarmiðum. Mér er sagt af mér fróðari mönnum, að kristindómsfræðsla í barnaskólunum fjalli einvörðungu um slík grundvallaratriði kristindómsins almennt, að um þau sé enginn ágreiningur milli evangelísklútherskra manna, kaþólskra manna, sjöunda dags aðventista eða annarra kristinna manna.

Ég hef persónulega ekki aðstöðu til þess að dæma um þessar staðhæfingar, en hef þetta eftir mönnum, sem ég hef enga ástæðu til að vantreysta og tel eiga að vita þetta allra manna bezt. Mér var sagt, að hver einasti fullorðinn maður, sem geri sér þá fyrirhöfn að lesa þá kennslubók í kristnum fræðum, sem kennd er í barnaskólunum, muni sjá, að þar sé ekki fjallað um eitt einasta atriði, sem sé ágreiningsatriði milli t.d. lútherskra manna og kaþólskra, þess vegna sé það í raun og veru alger fyrirsláttur, að það sé afstaðan til kristindómskennslunnar, sem valdi því, að nauðsynlegt sé fyrir kaþólska menn og aðventista að hafa börn sín í sérstökum barnaskólum. Sérrök eru það í málinu, sem komu fram hjá hv. 9. landsk. þm., að samkvæmt trúarskoðunum sjöunda dags aðventista er laugardagurinn helgur dagur, en það er kennsludagur í hinum almennu barnaskólum. Það eru sérrök, sem menn síðan verða að gera upp við sig, hvort menn vilja taka tillit til eða ekki, en hitt segja mér fróðir menn að séu ekki rök, sem ástæða sé til að taka tillit til.

Það má náttúrlega spyrja, hvort ekki sé ástæða til þess að nema úr lögum heimildina til að starfrækja þá einkaskóla, sem þegar eru starfræktir. Ástæðan til þess, að ég er því ekki fylgjandi, er ofur einfaldlega sú, að ég tel þá hefð, sem komin er á starfsemi þeirra, og hana eina réttlæta það, að þeir haldi áfram. Kaþólski skólinn hér í Rvík er, að því er mér skilst, um 60 ára gamall, hinir skólarnir eru orðnir allgamlir, og þá hefð, sem myndazt hefur við slíkt skólahald, tel ég ekki ástæðu til að rjúfa, þótt ég telji jafnnauðsynlegt að sporna gegn því, að þessi háttur á skólahaldi breiðist út.

Þá kem ég aftur að spurningunni um það, hvort líklegt megi telja, að tilhneiging sé til þess í þjóðlífinu að koma á fót fleiri einkaskólum. Ég tel mjög lítinn vafa á því, að aðrir sértrúarflokkar, — ég vil gjarnan undirstrika það, að ég nota það orð ekki í lítilsvirðandi merkingu, síður en svo, ég kann bara ekki annað orð yfir Hvítasunnusöfnuð og Fíladelfíusöfnuð og fleiri slíka söfnuði en að nefna þá sértrúarflokka, ef mér væri bent á eitthvert annað orð, sem ekkert lítilsvirðingarbragð þætti að, þá mundi ég nota það, — ég sem sagt undirstrika sérstaklega: í þessu orði felst engin afstaða til þessara safnaða, siður en svo, — en ég tel mjög líklegt, að þeir mundu vilja nota sér þann rétt, sem þessi lög veittu, til þess að fá mestan hluta skólakostnaðar síns greiddan úr ríkissjóði. Ég vil enn fremur benda á hitt, að barnaskólarnir, t.d. hér í Rvík og víða annars staðar, hafa sætt allmikilli gagnrýni úr ýmsum áttum, og að því er ég tel yfirleitt órökstuddri gagnrýni, stundum út frá stjórnmálasjónarmiðum, stundum út frá því, að þeir þyki of stórir og þar sé um fjöldamennsku í fræðslunni að ræða. Menn hafa ekki viljað sætta sig við það, að þarna séu kennarar, sem hafa vissar stjórnmálaskoðanir. Á því hefur borið mjög mikið. Menn hafa jafnvel ekki viljað senda börn sín í skóla, þar sem skólastjórinn hefur tilheyrt ákveðnum stjórnmálaflokki. Ég tel ekki nokkurn minnsta vafa á því, að ef slíkt frv. sem þetta verður samþykkt, ef það verður hægt að fá allt að 90% af kostnaði við barnaskóla greiddan úr ríkissjóði, þá muni það fólk, sem allmikið hefur látið að sér kveða undanfarin ár með gagnrýni á barnaskólana út frá slíkum sjónarmiðum eins og þessum, þó að ég telji þau algerlega órökstudd, sækjast eftír því að koma upp eigin skólum, þar sem börnin væru losuð undan því að vera í stóru ríkisbákns-barnaskólunum með fjöldamennskuna og agaleysið, að því er það segir, þar sem kennararnir séu vont fólk, sem sál vondum erlendum kenningum í huga barnanna, og þar sem skólastjórarnir séu fólk, sem sé hættulegt og eigi ekki að fá að koma nálægt barnafræðslu. Þessar skoðanir eru því miður svo útbreiddar, þó að órökstuddar séu, að ég tel mikla hættu á, að það mynduðust samtök til framkvæmda, og þá sjá menn greinilega, í hvaða óefni mundi stefna. Það væri beinlínis hætta á því, að sumir stórir barnaskólar liðuðust í sundur, og þá má sjá, hvort það er ekki nokkur fótur fyrir því, sem hv. 8. þm. Reykv. vildi þó ekkert úr gera, að sjálft hið opinbera barnafræðslukerfi gæti verið í nokkurri hættu. Á það var bent, að það væri varnagli í þessum efnum, að einkaskólana mætti ekki löggilda eða fara að greiða kennaralaun, fyrr en þeir hefðu starfað í fimm ár. Í því sambandi vil ég benda á, að hér eru starfandi fjölmargir einkasmábarnaskólar, sem hafa starfað í miklu meira en fimm ár, og það, sem yrði ýtt undir með samþykkt þessa frv., er að breyta þessum einkasmábarnaskólum, sem hafa fimm ára tímann að baki sér, í barnaskóla, þ.e. einn smábarnaskóli, sem hefur þegar starfað í 10 ár, mundi sækja um það til fræðsluráðs og fræðslumálastjóra að fá að bæta einum bekk við, fá að taka sjö ára bekk til viðbótar og síðan átta ára bekk til viðbótar, og mér er sem ég sjái, eftir því sem ég þekki afstöðu fræðsluyfirvaldanna til þessa máls, að þessu yrði neitað. Ég er sannfærður um, að þetta yrði samþykkt, og ég verð náttúrlega að segja, að samkv. þeim rökum, sem flutt hafa verið fyrir þessu máli, þá væri engin ósamkvæmni, þó að þetta yrði leyft. Ef almennt á að leyfa einkaskóla, ef þeir einungis fullnægja hinum almennu kröfum, hví þá ekki að leyfa smábarnaskólum, sem starfað hafa mjög lengi, að verða barnaskólar? Þar er húsnæði fyrir hendi, þar er kennarareynslan fyrir hendi og þau rök til viðbótar, að börnin séu búin að vera þarna í eitt til tvö ár, og hví eiga þau þá ekki að halda áfram að vera í sama skólanum? Við þetta er ég mjög hræddur.

Í þessu sambandi vil ég minna á það, að fyrir fáeinum dögum var haldinn kennarafundur hér í Reykjavík, þar sem einmitt var rætt um þessa einkasmábarnaskóla, og það var samdóma álit kennaranna, sem til máls tóku á fundinum, og fræðimanna, uppeldisfræðinga, sem ræddu málið einnig, að starfsemi þessara einkasmábarnaskóla væri orðin svo víðtæk, sérstaklega hér í Reykjavík, að full ástæða væri til að taka það mál til athugunar og reisa skorður við þessari starfsemi. Höfuðrök þeirra gegn einkasmábarnaskólunum voru þau, að það væri byrjað óeðlilega snemma að kenna börnunum ýmislegt, sem þau réðu ekki við, foreldrarnir hefðu oft ekki nægilegan skilning á því, við hvað börnin réðu og við hvað þau réðu ekki, og ætluðust því til meira af þeim en þau raunverulega gætu. Þegar börnin kæmu svo í barnaskólana, eftir að þau hafa verið í einkasmábarnaskóla og fengið þar góðan vitnisburð í ýmsum greinum, og kæmu í samkeppni við aðra og fengju lægri einkunnir strax í barnaskólanum en þau höfðu haft í einkasmábarnaskólanum, þá hefði það í fyrsta lagi mjög vond áhrif á börnin sjálf og í öðru lagi væri það til þess fallið að sá tortryggni í garð barnaskólanna í hug foreldranna og spillti fyrir samvinnu foreldranna og barnaskólanna og sameiginlegu trausti barnanna og foreldranna á barnaskólunum, þegar sannleikurinn væri sá, að nokkur ástæða væri til þess að halda, að einkunnagjöfin í smábarnaskólunum ætti a.m.k. stundum rót sína að rekja til þess, að þar væri um að ræða kennslu fyrir peninga, þeir, sem kennsluna annast eða kennslunni stjórna, vildu gjarnan sýna, að kennslan hafi einhvern árangur borið, að hlutaðeigandi hafi þó fengið eitthvað í aðra hönd fyrir gjaldið, sem reynist svo minna, þegar á hólminn kemur í barnaskólunum. Mér finnst það vera athyglisvert, hver skoðun barnakennaranna og sérfræðinganna á þessum fundi virtist vera á smábarnaskólunum, og ég er alveg viss um, að afstaða mikils meiri hluta kennarastéttarinnar til einkaskóla á barnafræðslustiginu er alveg sú sama.

Mér finnst því margt benda til þess, að allmikil hreyfing mundi koma upp til stofnunar einkaskóla, ef þetta frv. næði fram að ganga, og ég undirstrika, að skoðanaágreiningurinn milli okkar, sem í þetta skipti höfum talað, er í raun og veru fyrst og fremst um það, hvort líklegt sé, að í kjölfar þessa frv. mundi sigla fjölgun einkaskólanna eða ekki. Það er um það, sem okkur greinir á, því að um hitt virðumst við vera sammála, að mikil fjölgun einkaskólanna væri mjög óæskileg. En ég tel ekki sanngjarnt að fara þá leið að greiða kennaralaunin í þeim einkaskólum, sem nú eru starfandi, en banna fjölgun þeirra, því að ef ríkið á annað borð viðurkennir fjóra einkaskóla með því að greiða meginhluta kostnaðarins við rekstur þeirra, þá er ekki með sanngirni hægt að neita öðrum, sem koma vilja upp einkaskólum líka, um sams konar fyrirgreiðslu. Það er höfuðannmarkinn, sem ég sé á þeirri leið að binda heimildina til greiðslu kennaralaunanna aðeins við starfandi skóla. Það væri ekki hægt að nema staðar á eftir. Hitt er aftur á móti vel framkvæmanlegt, að segja sem svo: Við látum þá einkaskóla, sem nú starfa, vera áfram, og gildandi heimild til að stofna nýja einkaskóla má líka vera áfram, en það skal kosta það, ef menn vilja reka þá og láta börn sín vera í þeim, að menn verða að greiða kostnaðinn, sem af því hlýzt. Ef ríkið er, eins og því ber skylda til, reiðubúið til að sjá öllum börnum á skólaskyldualdri fyrir ókeypis fræðslu, þá verður ekki sagt, að nokkur skattborgari sé órétti beittur. Hann á að njóta þess réttar, ef sérstök rök mæla með því, að geta haft börn sín í sérstökum skóla, en það verður að kosta það, að þá greiði hann kostnaðinn af því sjálfur. Með því einu móti er hægt að koma í veg fyrir, að einkaskólunum fjölgi svo mikið, að þeir verði að vandamáli í íslenzkum fræðslumálum.