23.03.1956
Efri deild: 92. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í C-deild Alþingistíðinda. (1469)

4. mál, fræðsla barna

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta litla frv. var lagt fyrir hv. Nd. í upphafi þings, en hefur ekki hlotið þar afgreiðslu fyrr en nú. Efni þess er aðallega að greiða fyrir, að ekki þurfi að leggjast niður skóli, svipaður og sá skóli, sem kaþólskir menn hafa haldið hér uppi marga áratugi, en þeim er nú orðið erfitt að halda uppi, bæði vegna kostnaðar og vegna þess, að kennarar fást naumast, nema þeir njóti lífeyrishlunninda á við opinbera starfsmenn.

Þetta frv. hefur af sumum verið tekið og skoðað sem mikið stefnumál. Ég held, að það sé alger misskilningur, það sé engin hætta á því hér, að einkaskólar fari að risa upp svipað því, sem er úti um lönd. Skólakerfi okkar er miklu fastmótaðra en svo, að á slíku sé hætta. En telja verður, að það sé góð fjölbreytni, sem fáist með því, að einhverjir slíkir einkaskólar geti starfað. Ég vil lýsa því yfir, að ef menn vildu gera þessa heimild eitthvað takmarkaðri, þannig að ljóst væri, að það væru einungis þeir skólar, sem þegar hafa áunnið sér hefð í landinu, sem hennar nytu, þá mundi ég vera slíkri takmörkun meðmæltur, ef það yrði til þess að greiða fyrir framgangi málsins, til þess að undirstrika enn þá betur, að ekki væri um neitt stefnumál að ræða, sem færi í þá átt að rífa niður fræðslulöggjöfina í heild, sem mér hefur auðvitað aldrei komið til hugar.