26.03.1956
Efri deild: 95. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í C-deild Alþingistíðinda. (1472)

4. mál, fræðsla barna

Frsm. meiri hl. (Ingólfur Flygenring):

Herra forseti. Frv. til laga um fræðslu barna, 4. mál, er stjfrv. og var flutt í Nd. Var það samþykkt þar með litlum breytingum. Í grg. fyrir frv. er því lýst, hve einkaskólar eigi nú erfitt uppdráttar vegna dýrtíðar, og því lagt til í frv., að heimilt verði að greiða laun fastra kennara í slíkum skólum, séu þeir reknir með meðmælum eða samþykki hlutaðeigandi fræðsluráðs.

Menntmn. þessarar hv. d. tók frv. fyrir á fundi sínum, en eins og nál. ber með sér, leggur hún til, að frv. taki þessum breytingum:

Ríkissjóður greiði hálf laun fastra kennara í stað þess, að í frv. er gert ráð fyrir fullum launum, en iðgjöld til lífeyrissjóðs, 6% af fullum kennaralaunum, skulu greidd úr ríkissjóði.

Í frv. er viðurkennt, að einkaskólarnir spari ríkissjóði og sveitarsjóðum fé til framlaga vegna skólahúsnæðisbygginga og annars kostnaðar, en hingað til hefur ríkið lítið og oft ekki neitt lagt til einkaskóla. Einkaskólar fyrir börn, sem kaþólska trúboðið hefur rekið í Reykjavik um áratugi og alllengi í Hafnarfirði, eru dæmi um slíka skóla, svo og munu aðventistar í Vestmannaeyjum hafa nokkra barnafræðslu í einkaskóla sínum.

Brtt. meiri hl. menntmn. þessarar hv. d. er alveg samhljóða brtt. minni hl. n. í Nd. Ákvæði 2. málsgr. 1. gr. hefur verið sett inn við meðferð málsins í Nd., að þetta gilti aðeins um skóla, er starfað hafa í fimm ár hið skemmsta.

Eins og nál. ber með sér, er hv. 4. þm. Reykv. mótfallinn frv., en hv. 2. þm. Árn. var fjarstaddur.