15.12.1955
Neðri deild: 35. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Síðan 2. umr. um þetta frv. lauk hér í d., hefur fjhn. fjallað um það á mörgum fundum. Enn hafa n. borizt bréf um málið og margir rætt við einstaka nm. um það. Eins og áður hefur hv. fjhn. Ed. unnið með fjhn. þessarar d. að málinu og þær haft samráð við mþn., sem samdi frv. N. flytur brtt. við frv. á þskj. 201 og 205, og hafa þær brtt. verið samþ. á sameiginlegum fundum fjhn. beggja deilda þingsins. Ég vil taka fram, að brtt. eru ekki allar samþ. með samhljóða atkv. á fundum n., en óhætt mun að segja, að um meiri hl. þeirra hafi enginn ágreiningur verið.

Vil ég þá minnast nokkuð á einstakar brtt., fyrst á þskj. 201.

Fyrsta till. er við 5. gr. frv. og snertir starfsmenn Alþingis. Lagt er til að hækka þar um einn launaflokk skrifstofustjóra og fulltrúa og bæta inn í gr. fulltrúa 2. stigs, en aftur er ritari, sem er í frv. nú, felldur burt, og er það gert í samráði við skrifstofustjóra Alþ., þar sem ekki hefur verið undanfarið fastráðinn ritari á skrifstofunni.

Næst er brtt. við 9. gr. viðkomandi borgarfógetaembættinu í Reykjavík. Till. er um það, að féhirðir við það embætti hækki um einn launaflokk. Þótti óeðlilegt að hafa hann í XI. flokki, því að þar er töluverð fjármunameðferð.

Við þá grein er önnur brtt., og er þar endurflutt till., sem borin var fram við 2. umr. af n., en tekin aftur þá, og er um bifreiðaeftirlitsmann í Vesturlandsumdæmi, að hann verði í sama launaflokki og bifreiðaeftirlitsmaðurinn á Akureyri og fulltrúi í Reykjavík.

Við 10. gr. er þér brtt. um það, að arkitektar, sem svo eru nefndir nú í frv., nefnist húsameistarar, fyrsta og annars stigs. — í svigum: arkitektar, en engin breyting gerð á launum þeirra.

Þá er við 11. gr. lagt til, að í stað þess, að nú er samkv. frv. yfirtollvörður einn hér í Reykjavík, sem jafnframt er féhirðir í farangursafgreiðslu, komi yfirtollverðir, en í sama launaflokki, og þar sem nú eru nefndir í frv. yfirtollverðir í IX. launaflokki, verði varðstjórar, einnig í IX. flokki.

Næst eru tvær brtt. við 12. gr. frv. Sú fyrri er um það, að landlæknisritari, sem nú er í IX. flokki, verði í VII. launaflokki. Taldi n., að sá starfsmaður væri óeðlilega lágt settur í launaflokki, ef óbreytt væru ákvæði frv., borið saman við aðra starfsmenn, sem svipuðum störfum gegna við önnur embætti.

Hin brtt. snertir landsspítalann. Við 2. umr. þessa máls var gerð breyting á launum hjúkrunarkvenna, sem starfa á spítölunum, en hér er lagt til, að nuddkona, sem starfar á landsspítalanum og hefur verið þar lengi í starfi, færist úr XI. flokki í X. launaflokk. Þykir það eðlilegt vegna annarra breytinga, sem gerðar hafa verið á niðurskipan starfsfólks þar í launaflokka.

Næst eru tvær brtt. við 13. gr. Sú fyrri er um það, að féhirðir á vita- og hafnamálaskrifstofunni verði í VIII. launaflokki, en ekki í IX., til samræmis við það, sem er við aðrar stofnanir, og að í þeirri starfsgrein bætist við nýr liður, verkstjóri, sem verði í X. launaflokki.

Þá eru hér nokkrar brtt. við 14. gr. Sú fyrsta er um það, að íþróttakennari háskólans færist úr IX. launaflokki í þann VIII., og næsta er um það, að fræðslumálastjóri verði í III. launaflokki. Þá er lagt til, að í stað þess að námsstjórar eru nú taldir með starfsmönnum á fræðslumálaskrifstofunni, verði þeir hér í sérstökum lið, þar sem þeir eru óháðir þeirri skrifstofu, en engin breyt. er gerð á launum þeirra.

Næst er brtt. um íþróttakennaraskólann, að hækka skólastjórann um einn launaflokk og kennara sömuleiðis. Eins og ákvæðin eru um skólann í frv. núna, hefur kennari við íþróttakennaraskólann lægri laun en þeir, sem hann kennir og taka að kenna íþróttir við aðra skóla, og þykir það ekki eðlilegt.

Þá er við 15. gr. flutt aftur brtt. viðkomandi sérfræðingum á náttúrugripasafninu, sem nefndin bar fram við 2. umr., en var þá tekin aftur til nánari athugunar, og lagt er til, eftir tilmælum frá yfirmönnum þeirrar stofnunar, að þar bætist við ritari í ritaraflokki.

Þá er lagt til, að komi nýr undirliður við VII. lið í þeirri grein, það er atvinnudeild háskólans, að þar bætist við sérhæfir aðstoðarmenn í VIII. launaflokki.

Næst er till. um, að dýralæknir við tilraunastöðina á Keldum verði í V. flokki.

Enn eru nokkrar brtt., sem snerta starfsmenn veðurstofunnar, og eru þær fluttar eftir tilmælum veðurstofustjóra og einnig eins og aðrar till. hér í samráði við launamálanefndina. Talið var rétt og nauðsynlegt, einkum vegna þeirra breyt., sem gerðar voru við 2. umr. á launakjörum starfsmanna flugþjónustunnar, að hækka um einn launaflokk aðstoðarmenn veðurstofunnar á Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli og einnig svonefnda háloftaathugunarmenn á Keflavíkurflugvelli. Á það hefur verið bent, að það starf, sem þessir menn vinna, er ákaflega þýðingarmikið.

Í frv., eins og það er nú, er lagt til, að eigi taki aðrir laun sem fyrsta stigs veðurfræðingar en þeir, er lokið hafa háskólaprófi í veðurfræði, en þó megi eftir till. veðurstofustjóra flytja annars stigs veðurfræðinga í VI. launaflokk eftir 10 ára starf. Á þessu er gerð nokkur breyting og lagt til, að þessi aths. orðist nú eins og segir á þskj. 201, að eigi skuli aðrir taka laun sem fyrsta stigs veðurfræðingar en þeir, sem lokið hafa embættisprófi í veðurfræði við háskóla á Norðurlöndum eða sambærilegu prófi, og veðurfræðingar annars stigs flytjist á fyrsta stig eftir 5 ára starf, einnig sé heimilt að flytja þá veðurfræðinga, sem við gildistöku laga þessara starfa í veðurstofunni, á fyrsta stig, þegar þeir hafa starfað þar í 5 ár.

Við 16. gr. er ein brtt. um það, að læknir sauðfjárveikivarnanna verði í IV. launaflokki.

Við 18. gr. eru nokkrar brtt. Sú fyrsta er um það, að á póststofunni á Akureyri verði einn fulltrúi fyrsta stigs og síðan fulltrúar annars stigs, og taki þeir laun jafnhá þeim launum, sem slíkir fulltrúar taka hér í Reykjavík.

Við 2. umr. þessa frv. hafði verið gerð sú breyting á því, að bætt var hér við starfsmenn landssímans umsjónarmanni sjálfvirkra stöðva, en þannig hafði tekizt til, að hann var settur hér í símarekstrardeild, en átti að vera hjá bæjarsímanum í Reykjavík, og er lagt til, að hann verði færður á réttan stað í frv.

Þá er lagt til, að hjá símarekstrardeild komi deildarstjórar í VII. launaflokki.

Einnig er hér 26. brtt. um varðstjóra leiðrétting til samræmis við það, sem er í öðrum deildum landssímans, og að í stað þess, að í frv. er nefndur símstjóri í Vestmannaeyjum, komi heitið póst- og símstöðvarstjóri, vegna þess að þar er búið að sameina póst og síma, en engin till. er um breytingar á launum þess manns.

Þá er brtt. við 19. gr. varðandi ríkisútvarpið. Í frv. er gert ráð fyrir á skrifstofu dagskrár dagskrárstjóra, en talið er eðlilegra, að hann sé nefndur skrifstofustjóri útvarpsráðs, því að það heiti hefur hann borið áður. En jafnframt er lagt til, að þar verði einnig svonefndur dagskrárstjóri í VIII. launaflokki, en þar starfar nú og hefur starfað undanfarið maður, sem hefur tekið laun í samræmi við þetta, eða eftir VIII. launaflokki, og hefur, að því er sagt er, einkum unnið við dagskrána.

Þá er brtt. við 21. gr. frv. 1. mgr. hennar er þannig nú í frv., með leyfi hæstv. forseta: „Árslaun kennara og barnaskólastjóra samkvæmt 14. gr. eru miðuð við 9 mánaða kennslutíma minnst, en lækka um l/12 hluta heildarlauna fyrir hvern mánuð, sem kennslutíminn er skemmri.“ N. leggur til, að við þessa málsgr. bætist: „Vinni kennarar önnur störf í þágu skólans en þeim er ætlað samkvæmt stundaskrá, sem samin er í samræmi við kennsluskyldu þeirra, má taka tillit til þeirra aukastarfa, þegar árlegur kennslutími, sem launin eru miðuð við, er ákveðinn.“ N. hefur verið skýrt frá því, að það komi oft fyrir við ýmsa skóla, að kennarar vinni nokkuð að undirbúningi skólahaldsins, áður en kennsla hefst, og einnig stundum eftir að kennslu er lokið vinni þeir eitthvað í þágu skólans, og þykir þá sanngjarnt, að sá vinnutími sé tekinn með kennslutímanum, þegar hann er ákveðinn, en við hann eru launin miðuð samkvæmt því, sem ég áður sagði, með tilvitnun í greinina eins og hún nú er.

Þá er hér brtt. við 25. gr. um að hækka nokkuð gjald af innheimtum ríkissjóðstekjum, sem bæjarfógetar, sýslumenn og tollstjórinn í Reykjavík fá. Þessi hækkun er þó aðeins af innheimtum, sem eru samtals allt að 10 millj. kr., en engin breyting er á því, sem greitt er fyrir innheimtu á upphæðum, sem fara fram úr þeirri upphæð hjá einstökum innheimtumanni. Það hefur verið reiknað út, að viðbótin, sem þeir gætu fengið eftir þessari breytingu, væri, ef ég man rétt, mest eitthvað 5700 kr., en að sjálfsögðu minna hjá ýmsum, sem innheimta minni upphæðir samtals yfir árið en 10 millj.

Seinasta brtt. á þessu þskj. er um það, að aftan við 28. gr. komi ný málsgrein, svo hljóðandi:

„Heimilt er að færa yfirverkfræðing úr V. flokki í IV. flokk, ef verkfræðingurinn hefur gegnt starfinu í 15 ár eða lengur.“

Eins og nú er, munu verkfræðingarnir yfirleitt ekki taka laun samkvæmt launalögum, heldur eru laun þeirra ákveðin með sérstökum samningum við stéttarfélag þeirra. En þó munu vera til verkfræðingar við ríkisstofnanir, yfirverkfræðingar, sem enn taka og hafa undanfarið tekið laun samkvæmt launalögum, og taldi n. rétt, að þessi heimild væri veitt til þess að hækka þá um einn flokk, ef þeir hefðu starfað svo lengi við þá stofnun, þar sem þeir vinna.

Þá flytur n. einnig brtt. á þskj. 205, og vil ég gera grein fyrir þeim.

Um leið og þetta frv. var lagt fyrir þingið, var einnig lagt fram annað frv. um laun ráðh. Það var eins og þetta frv. samið af mþn. í launamálum. Hún taldi rétt, að ákvæði um laun ráðh. væru í sérstökum lögum, eins og var áður en núgildandi launalög voru sett. Frv. um laun ráðh. var einnig vísað til fjhn. Samkvæmt því frv. hafði mþn. lagt til, að laun ráðh. hækkuðu um það bil sem því svarar, að þeir færðust upp um einn launaflokk. Mun n. hafa talið þetta sanngjarnt, en hæstv. fjmrh. tilkynnti fjhn., að hann óskaði þess, að frv. um laun ráðh. yrði ekki afgr. frá n., ef þar væri ágreiningur um það. Þegar frv. var tekið fyrir á nefndarfundi, kom fram, að nm. voru ekki allir sammála um að mæla með samþykkt þess, og var það því ekki afgr. frá n. Í stað þess flytur fjhn. brtt. við þetta frv. um, að laun ráðh. verði ákveðin þar, og taki þeir laun í I. launaflokki, eins og er í gildandi launalögum.

Einnig flytur n. á sama þskj. till. um, að ákvæði um biðlaun og eftirlaun ráðh. verði tekin inn í frv. Till. um biðlaun og eftirlaun eru teknar úr frv. mþn. um ráðherralaun, með þeirri breyt. einni, að lífeyrir úr lífeyrissjóði alþm. skuli ekki dragast frá eftirlaunum ráðh. Er það í samræmi við fyrirmæli laganna um lífeyrissjóð alþm. Um þá skipan á launamálum ráðh., sem brtt. á þskj. 205 fela í sér, voru allir fjárhagsnefndarmenn sammála.