18.01.1956
Neðri deild: 43. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í C-deild Alþingistíðinda. (1505)

73. mál, eftirlit með skipum

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vona, að hv. þm. Snæf. hafi ekki tekið orð mín þannig áðan, að ég væri að bera nefndinni það á brýn eða skipaskoðunarstjóra, að þeir hefðu ekki áhuga á því, að þessum málum væri svo vel skipað sem bezt væru möguleikar á. Það var ekki heldur meining mín með mínum orðum þá. Ég álít, að þær sannanir, sem fram hafa verið dregnar að undanförnu í þessum umræðum, hafi sýnt svo greinilega, hvað hér er um mikilvægt mál að ræða, að það sé nauðsyn á því, að til séu skýlaus lagaákvæði um öll meginatriði þeirra skyldna, sem þessi löggjöf fjallar um, en ekki reglugerðarákvæði, sem mögulegt væri að gefa undanþágur frá.

Ég viðurkenni fúslega, að það er reynslan, sem verður að skera úr um ýmsa þessa hluti, og þar af leiðandi verða þeir að vera reglugerðarákvæði. En t.d. það, hvað skipin ættu að vera stór, sem slíka björgunarbáta hefðu, tel ég vera skýlaust lagaákvæði, eins og ég hef margoft sagt hv. nefndarformanni. Um ýmis hin smærri atriði í sambandi við framkvæmd þessara laga verða að sjálfsögðu að vera hér eins og um önnur lög reglugerðarákvæði, en tonnafjölda skipanna ætti a.m.k. að binda í lögum.

Varðandi þá umsögn hv. frsm., að trillubátaeigendum, sem stunduðu fiskveiðar á trillum allt ofan í 6–8 rúmlestir, mundi þykja súrt í broti að vera skyldugir til að hafa slíka björgunarbáta, þá efast ég ekkert um, að sumum hverjum mundi þykja það. Og ég hef líka heyrt, þó að það sé sorgarsaga, úr munni sumra bátaútgerðarmanna, að þeim þyki súrt að vera skyldaðir til að hafa slíka björgunarbáta um borð, jafnvel þó að staðreyndir liggi fyrir um, að þeir hafi þegar bjargað mörgum mannslífum, svo að á þessu atriði eru engin rök reisandi.

Ég tel, að þeir menn, sem fjölluðu um þessi mál á farmanna- og fiskimannaþinginu, séu fyrst og fremst mörgum okkar fróðari um þessa hluti, og þeir mundu ekki hafa óskað eftir því, að lágmarkstonnatalan yrði færð niður, ef þeir hefðu ekki haft gild rök fyrir því og talið möguleika á því, að hægt væri að hafa gúmmíbáta á þessum skipum, ekkert síður en þeim, sem stærri eru.