25.10.1955
Efri deild: 10. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í C-deild Alþingistíðinda. (1517)

59. mál, kaupþing í Reykjavík

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Fyrir nokkrum dögum flutti ég ásamt fleiri þm. till. til þál. í Sþ. um endurskoðun laga um nýbýli og bústofnslán. Aðaltilgangur með þessari till. var að gera ráðstafanir til þess, að ungir menn gætu fengið hagkvæm lán til þess að hefja búskap. Í lok framsöguræðu, sem ég hélt um þetta mál, komst ég að orði á þá leið, að til framkvæmda sem þessara þyrfti fjármagn og að flestir, sem teldu sig þurfa á fjármagni að halda, gerðu kröfu til ríkissjóðsins, en ríkissjóðurinn væri nú, eins og við vitum allir, ofhlaðinn gjöldum. Ég lét enn fremur það álit í ljós, að hægt mundi vera að beina fjármagni, sem nú er til, til þessara þarfa, ef Íslendingar gætu lært að ávaxta sparifé sitt meira en nú er í verðbréfum, þ. á m. bankavaxtabréfum, eins og t.d. veðdeildarbréfum.

Það eru auðvitað margar fleiri framkvæmdir en þær, sem um ræddi í þessari þáltill., sem fé vantar til og líkt má segja um. Það er alkunnugt, að almenningur er mjög tregur til þess að kaupa verðbréf, og það hindrar, að fjármagnið, sem þó er til í landinu, beinist á eðlilegan hátt til atvinnulífsins og til nauðsynlegrar lánastarfsemi. Menn, sem eiga peninga og eru sæmílega efnaðir, vilja kaupa hús, þó að þeir eigi hús fyrir, og allir vilja kaupa bíla, og yfirleitt virðast menn nú vilja allt annað gera með peninga sína en að hafa þá í bönkum og sparisjóðum og þaðan af síður í verðbréfum, hlutabréfum og bankavaxtabréfum. Þannig kemur mér þetta fyrir sjónir.

Þetta er áreiðanlega töluvert öðruvísi ástand hér á landi í þessu efni en meðal annarra þjóða, sem við þekkjum bezt til. Og hvað veldur þessu? Sjálfsagt er það ýmislegt. M.a. er það eðlilegt, að meðan atvinnuástandið er eins og það er í landinu, að flestir atvinnuvegir eru reknir með halla og með styrkjum af almannafé, séu menn ekki sérstaklega ginnkeyptir fyrir því að leggja t.d. fram hlutafé til atvinnurekstrar. Annað er það, að því er snertir peningasöfnun og peningainnstæður í bönkum eða þá eign í bankavaxtabréfum, að menn hafa ótrú á gjaldeyrinum. Menn virðast hafa almennt þá skoðun, að gjaldeyririnn haldi áfram að falla og verði síðast að engu. Það eru vitanlega ýmsar ástæður til þess, að mjög margir eru búnir að taka þessa trú, og þær ástæður hafa að sumu leyti við rök að styðjast. En ákaflega er það skaðlegt, eins og allir sjá, fyrir þjóðfélagið, að þessi trú haldist og verði viðvarandi.

Þetta eru þó ekki elnu ástæðurnar, að mínu áliti. Ég hygg, að ein af ástæðunum til þess, að svona gengur, sé sú, að alls konar verðbréf, þ. á m. bankavaxtabréf, eru lítið til sölu á opinberum markaði. Þess vegna eru litlir möguleikar fyrir eigendur slíkra bréfa að selja þau aftur. Og menn eru einu sinni þannig gerðir, að þeir vilja ógjarnan eiga það, sem þeir geta ekki selt aftur, ef þá vantar fé. Annað er það, að það er ekkert opinbert gengi verðbréfa hér á landi, og fer það því mjög undir atvikum, þó að möguleikar séu kannske á að selja slík bréf, fyrir hvaða verð hægt er að selja þau. Menn pukra með þetta hver fyrir sig, og fer það mjög eftir því, hvaða viðskiptamann þeir hitta fyrir, hvaða verð þeir geta fengið fyrir slík bréf. Ég þekki beinlínis dæmi þess, að söluverð sömu tegundar bréfa hefur verið frá 100% ofan í allt að því 60% af nafnverði. Til eru auðvitað þau bréf líka, a.m.k. hlutabréf eins fyrirtækis, sem eru seld langt yfir nafnverði, þ.e. hlutabréf í Eimskipafélagi Íslands, en þó hygg ég, að Það sé ekkert fast verð til á Þeim bréfum og það fari mjög eftir atvikum, hvað gefið er fyrir þau og hvað menn selja þau fyrir.

Þegar ég var að hugleiða þessi mál í sambandi við till. þá, sem ég minntist á í upphafi, þá rifjaðist það upp fyrir mér, sem ég hef að vísu munað eftir áður, að ég hafði fyrir 15 árum átt þátt í að semja frv. um opinn verðbréfamarkað, og það er það frv., sem hér liggur fyrir til umr. Það var samið á sínum tíma af mþn. í bankamálum, sem starfaði frá 193741 og samdi ýmis frv., sem hún afhenti hæstv. ríkisstj. þáverandi. Einstaka af þeim urðu síðan að lögum, en flest hafa þessi mál verið borin fram árangurslítið, þó að ég líti svo á, að það hefði verið betur ástatt nú að sumu leyti, ef frv. þessarar nefndar hefðu verið samþykkt. Mér fannst rétt, að þetta mál kæmi á ný fyrir Alþ., og mér fannst rétt að flytja frv. óbreytt eins og n. gekk frá því fyrir 15 árum, og það er sökum þess, að vitanlega var ég ekki einn höfundur þessa frv., heldur var það n. í heild sinni, og ég vildi þar af leiðandi ekki við fyrsta flutning þess í þinginu fara að breyta frá því, sem n. hafði gengið frá, heldur láta þingið fjalla um það, þó að mér sé ljóst, að breytingar þarf að gera á frv. eins og það er borið fram.

Það er auðvitað mál, að á breytingatímum eins og nú eru getur ekki frv., sem samið er fyrir 15 árum, átt við að öllu leyti nú, því að tímarnir hafa breytzt. Öll atriði frv. eiga því ekki við lengur. Ég nefni sem dæmi, þó að það sé ekkert aðalatriði, að þegar frv. var samið, voru bankar í landinu þrír, og það er gert ráð fyrir þátttöku þriggja banka í þessum verðbréfamarkaði í frv., nú eru bankarnir fleiri, og fleira hefur breytzt. Þetta var mér allt saman ljóst, þegar ég ákvað að flytja frv. Sömuleiðis er það um grg., að sum atriði eru þar, sem eiga ekki við lengur. Mér dettur í hug í því sambandi málsgr. í grg., þar sem fjallað er um þjóðareign Íslendinga og hvað mikið af henni sé í verðbréfum. Þær tölur, sem þar eru nefndar í grg., eiga vitanlega ekki við lengur, því að allar tölur eru orðnar aðrar en var fyrir 15 árum. — En hvað sem þessu líður, þá er frá mínu sjónarmiði eitt víst, og það er það, að þörfin á aðgerðum í þessa átt er meiri nú en hún var fyrir 15 árum, og aðalatriðin í þessu frv. eru þau sömu og þá var. Það má segja, að þá hafi verið þörf á aðgerðum, en nú sé það nauðsyn.

Í frv. eru tvö meginatriði, og þau halda gildi sínu enn í dag. Fyrra atriðið er það, að komið sé á opnum verðbréfamarkaði í landinu, og annað atriðið er það, að opinber skráning verðbréfa og gangverðs þeirra eigi sér stað, m.ö.o. að setja upp stofnun, sem aðrar þjóðir kalla „börs“, en við völdum nafnið kaupþing. Nágrannaþjóðir okkar, a.m.k. sumar, hafa haft slíka stofnun um aldir, og má það undarlegt heita, ef slík stofnun, sem aðrar þjóðir hafa haft um aldir, er ekki orðin tímabær á Íslandi. Við, sem vorum í þessari mþn., litum svo á, og ég lít svo á enn, að ef slíkt kaupþing kæmist á hér, þá mundi það mjög greiða fyrir kaupum og sölu verðbréfa og þar með greiða fyrir fjáröflun til ýmissa nauðsynlegra framkvæmda. Í öðru lagi mundi það auka öryggi almennings, sem fé vill leggja í verðbréfakaup, með því að hafa opinbera skráningu bréfanna, opinbert gengi á þeim, sem menn gætu þá haldið sig við og haft hliðsjón af, í staðinn fyrir að nú er það mjög tilviljanakennt, eins og ég hef áður vikið að, hvaða verð er gefið fyrir slík bréf.

Í fljótu bragði virðist mega vænta þess, að sparifé í bönkum og sparisjóðum, sem er ekki bundið til lengri tíma, mundi ef til vill minnka, ef farið væri að leggja meira fé í verðbréfakaup. Þetta kann að vera. Hins vegar er á það að líta, að það mundi þá létta á þeim kröfum, sem gerðar eru til lánveitinga sparifjár, því að það vita allir, að vegna þeirra örðugleika, sem verið hafa um útvegun lánsfjár til lengri tíma til eins eða annars, hefur það mjög komið á þá, sem hafa sparifé undir höndum, að neyðast til að lána fé, jafnvel til langs tíma, þó að laust sparifé sé vitanlega mjög illa til þess fallið, að það sé lánað um langan tíma. En í öðru lagi finnst mér ástæða til að vona, að ef raunverulegur verðbréfamarkaður kæmist upp í landinu og menn fengju einhverja trú á því að eiga fé sitt í slíkum bréfum, þá mundi beinlínis skapast nýtt fjármagn, þannig að það drægi úr fjárfestingu til ýmislegra miður þarfra hluta. Ég geri ráð fyrir, að með því móti dragi úr því, að menn, sem þurfa ekki sjálfir neitt á íbúðum að halda, vilji endilega byggja hús eða kaupa hús, og að það dragi úr því, eins og nú er, að hver maður vilji eiga einkabíl fyrir sig, og margt annað fleira mætti nefna. Það má að vísu segja, að það sé alltaf gagnlegt að byggja hús, þegar talað er um húsnæðisleysi í landinu, a.m.k. á sumum stöðum. En fyrst og fremst er það, að ég hygg, að það sé meira gert úr húsnæðisleysinu en ástæða er til, og í öðru lagi mundi sjálfsagt vera heppilegra, að fleiri byggðu hús til þess að búa í þeim sjálfir heldur en að „spekulera“ með þau og leigja þau út. Aukið fjármagn, t.d. í bankavaxtabréfum, veðdeildarbréfum og öðru slíku, mundi þá greiða fyrir því, að fleiri gætu byggt hús til eigin nota, en ef til vill verða á hinn bóginn til þess, að færri byggðu hús til að leigja út, svo að það er ekki þar með sagt, að þetta skapaði neina húsnæðiseklu.

Í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir því, að ríkissjóður leggi fram fé til að koma þessari stofnun á fót, eins og nú er yfirleitt með flest, að ekki þykir fært að ráðast í neitt, nema ríkissjóður leggi fram fé. En þó að þessari stofnun verði komið upp, er ekki ætlunin, að ríkissjóður leggi þar fram fé.

Ríkisstj., sem tók við frv. mþn. á sínum tíma, lagði það fyrir reglulegt Alþingi 1941 og lagði það fram hér í þessari hv. deild. Frv. var vísað til fjhn. deildarinnar. Fjhn. bað um umsögn Landsbankans um málið, og Landsbankinn svaraði n. með bréfi, dags. í Reykjavík 22. apríl 1941, sem hljóðar svo:

„Fjárhagsnefnd efri deildar Alþingis hefur með bréfi, dags. 7. þ. m., óskað eftir því, að Landsbankinn láti í té álit sitt á frv. til laga um kaupþing í Reykjavík, sem mþn. í bankamálum hefur samið og nú hefur verið lagt fyrir Alþingi.

Vér höfum athugað frv., og enda þótt vér teljum æskilegt, að meiri afskipti séu höfð af verðbréfamarkaðinum en verið hefur, og sennilegt, að rétt sé að stefna að því að koma upp verðbréfakaupþingi, þá er mjög vafasamt, að nú sé heppilegur tími til þessara framkvæmda. Til þess eru m.a. þessar ástæður:

1. Mjög er óvíst, hvort verðbréfaviðskipti eru enn það mikil, að nægur grundvöllur sé fyrir eiginleg kaupþingsviðskipti.

2. Ástandið er mjög óvanalegt í öllum fjárhagsmálum þjóðarinnar, og á það ekki sízt við verðbréfamarkaðinn. Ef mikið verðhrun yrði fljótlega eftir stofnun kaupþingsins, gæti það haft alvarleg áhrif á hina nýbyrjuðu starfsemi.

3. Engin reynsla er fengin hér á landi með skipulagða verðbréfasölu.

Landsbankinn hefur ákveðið að gera tilraun með að koma á fót verðbréfaviðskiptum með það fyrir augum, að fastari venjur skapist og grundvöllur fáist fyrir traustum framtíðarverðbréfamarkaði. Með slíkri starfsemi ætlast bankinn til að sú reynsla fáist, sem úr geti skorið um, hvaða lagasetningar sé þörf.

Þangað til aflað hefur verið þessarar reynslu og aðrar ástæður eru þannig, að ekki stafi hætta af að leggja út á þá braut, sem frv. gerir ráð fyrir, teljum vér óráðlegt, að frv. verði gert að lögum.

Vér leyfum oss því eindregið að leggja til, að hið háa Alþ. fresti að taka ákvörðun um frv. þetta að svo stöddu.

Virðingarfyllst,

Landsbanki Íslands,

Magnús Sigurðsson. Vilhjálmur Þór.“

Eins og menn hafa tekið eftir, eru andmæli Landsbankans þarna í þrem liðum:

Fyrst, að mjög sé óvíst, hvort verðbréfaviðskipti eru enn það mikil, að nægur grundvöllur sé fyrir eiginleg kaupþingsviðskipti. Hafi þetta verið óvíst fyrir 15 árum, þá held ég, að það hljóti að vera svo, að nú sé víst, að nægilegur grundvöllur sé fyrir kaupþingsviðskipti, þannig að nægilega mikið af verðbréfum sé í umferð og eigu manna til þess, að slík starfsemi sem hér er gert ráð fyrir gæti átt sér stað þeirra hluta vegna.

Önnur mótbáran er sú, að ástandið sé mjög óvanalegt í öllum fjárhagsmálum þjóðarinnar. Svo var þá, og svo er enn, og ég eygi ekki a.m.k., hvenær það mundi verða, að ekki sé hægt að segja, að ástandið sé óvanalegt, miðað við það ástand, sem var í gamla daga. Vitanlega er það ástand, sem nú er, að verða venjulegt, þannig að mér finnst ekki mikið gerandi úr þessari ástæðu bankans.

Þá segja þeir, að engin reynsla sé enn fengin hér á landi með skipulagða verðbréfasölu. Vitanlega var ekki reynsla fengin, vegna þess að skipuleg verðbréfasala hafði ekki verið reynd. En reynsla fæst vitanlega ekki, nema slíkt sé reynt.

Þá segir Landsbankinn, að hann ætli að gera tilraun með skipulagða verðbréfasölu, og þannig ætlar hann að fá reynslu og býst þá við, að það kunni að vera ástæða til þess eftir nokkur ár að setja löggjöf um þetta, þegar Landsbankinn sé búinn að fá reynslu í málinu af framkvæmdunum.

Ég held, að það hafi ekki orðið sérlega mikið um efndir þessa loforðs bankans. Það mun að vísu hafa verið byrjað á stofnun, sem kölluð var kaupþing, en ég held, að það hafi verið mjög lítið kunnugt landsmönnum, að slík stofnun væri til, og mjög lítið gert til þess að efla þá starfsemi og að hún muni annaðhvort að öllu eða a.m.k. að nokkru leyti hafa lagzt niður eftir mjög skamman tíma. Þegar ég var að því kominn að afhenda þetta frv., vildi ég þó grennslast um, hvort slík starfsemi yfirleitt ætti sér stað, og það er einkennilegt, að ég spurði eina tvo eða þrjá menn, sem sjálfir hafa töluvert með verðbréfaverzlun að gera, um þessa starfsemi. Þeir vissu ekki einu sinni, að þessi starfsemi væri til eða hefði nokkurn tíma verið til, svo að það er áreiðanlegt, að sú starfsemi hefur a.m.k. ekki verið auglýst mikið eða mikið gert til þess að efla hana. Ég er ekki heldur víss um, að það sé endilega Landsbankinn, sem eigi að þreifa sig áfram í þessu máli. Mér finnst alveg eins eðlilegt, að það sé prófað að setja svona starfsemi af stað af ýmsum aðilum á svipaðan hátt og gert er ráð fyrir í frv.

Eins og menn vita, er ein stofnun hér í Reykjavík a.m.k., sem hefur verzlun með verðbréf að mér skilst alveg sérstaklega sem starfssvið sitt; það er hin svokallaða Kauphöll. En mér skilst, að það fyrirtæki hafi ekki opinn markað fyrir verðbréf, heldur sé starfsemi þessa fyrirtækis svipuð og t.d. einstakra málflutningsmanna, sem gerast milligöngumenn um kaup og sölu slíkra bréfa, og ef þetta frv. yrði samþykkt í meginatriðum, þá gæti Kauphöllin að sjálfsögðu gerzt einn af kaupþingsfélögunum og haldið starfsemi sinni áfram, meira að segja haldið sínu nafni, því að sú stofnun, sem hér er gert ráð fyrir, á að heita kaupþing, en ekki kauphöll.

Mér er það alveg ljóst, þó að ég hafi flutt þetta frv., að það þarf breytinga við, sumpart vegna breyttra tíma, og ætti að vera auðvelt að breyta því í samræmi við þá tíma, sem nú eru. Og án þess að ég ætli að fara að hæla mér, treysti ég mér ósköp vel til þess að breyta frv. á þann veg, að mér fyndist tekið tillit til þeirra breytinga, sem orðið hafa.

En auk þess sem breyta þarf frv. lítils háttar vegna breyttra tíma, þá er vel athugandi að breyta því einnig í ýmsum öðrum atriðum.

Í frv. er gert ráð fyrir, að bankarnir hafi aðalráðin í kaupþinginu og aðalstjórn þess með höndum. Ég álít, að þetta atriði t.d. þurfi athugunar við, og ég er ekki sannfærður um það nú, að þetta sé sjálfsagt, að bankarnir hafi aðalvöldin eða réttara sagt einir völdin um stjórn kaupþingsins. Mér finnst sú reynsla, sem fengin er af þeirri fyrirætlun t.d. Landsbankans að setja slíka starfsemi á stofn, ekki benda á það, að bankarnir séu sérstaklega til þess fallnir. Þó virðist mér sjálfsagt, að a.m.k. þeir bankar, sem hafa starfandi veðdeildir, eigi þátt í stjórn þessarar stofnunar. Mér þykir það meiri vafi um aðra banka, þó að vitanlega allir bankar landsins hlytu að vera velkomnir sem þátttakendur í kaupþinginu.

Ef hv. þd. sýnir þessu frv. þá velvild, sem ég efast ekki um að hún geri, að láta það ganga til 2. umr. a.m.k. og nefndar, þá mundi það samkvæmt eðli málsins eiga að fara til nefndar, sem ég á sæti í, og ég mun þar verða fús til þess að taka allar till. um breytingar til vinsamlegrar athugunar. Þess vegna hygg ég, að menn geti verið rólegir, þó að þeim finnist sitt hvað athugavert við frv., að vísa því til nefndar.

Um skýringar á frv. að öðru leyti í einstökum atriðum og um einstakar greinar vil ég nú við 1. umr. málsins láta nægja að vísa til grg. þeirrar, sem frv. fylgir, þó að grg. sé miðuð við tíma, sem nú eru liðnir.

Í mþn. voru auk mín Ásgeir Ásgeirsson, sem þá var bankastjóri, núverandi forseti Íslands, Gunnar Viðar bankastjóri, Árni Jónsson frá Múla og Þórir Steinþórsson bóndi og skólastjóri í Reykholti. Skal ég taka það fram, að n. var algerlega óklofin um þetta mál og önnur mál, sem hún flutti.

Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjhn.