15.12.1955
Neðri deild: 35. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls vildi það til, að ég fylgdi brtt. frá hv. þm. A-Húnv. (JPálm), og urðu af því blaðaskrif. Eitt blaðið taldi, að ég hefði gert þetta bara af illmennsku við opinbera starfsmenn, og hitt auglýsti, að ég ætlaði að halda ræðu við 3. umr., svo að mér er nú eiginlega nauðugur einn kostur að stiga í ræðustólinn.

Ég held, að ég hafi sýnt það, að ég er á móti þeirri meginreglu, sem þessi launalög byggjast á, og það átti ekki að koma þeim mönnum, sem höfðu fylgzt með starfi verkalýðsfélaganna, sem ég tel að ég hafi dálítið tekið þátt í núna á undanförnum árum, neitt undarlega fyrir sjónir, þó að ég yrði á móti því, að hæstu laun í þjóðfélaginu væru hækkuð svona gífurlega. Og þó að aldrei nema hæstv. ríkisstj. hafi svo mikla peninga, að hún geti borgað þetta allt saman, þá er þetta röng stefna.

Það er ekki rétt, þegar jafnmikill mismunur er á kaupgjaldi í þjóðfélaginu eins og nú er og vaxandi dýrtíð, svo að menn eiga erfiðara með að lifa, að hækka þá í prósenttölu bæði grunnkaup og vísitölu. Þetta er ómögulegt, vegna þess að ef breytingin heldur áfram, þá verður mismunurinn svo mikill, að það er engin leið að ráða við þetta. Ef maður, sem er í lægsta launaflokki, fær 9% hækkun, — er kannske á svona 2000 kr. grunnlaunum, — en aftur sá, sem er á 5000 og 6000 kr. grunnlaunum, fær líka 9%, þá er þetta ófært, og þetta er órétt þjóðfélagslega séð, því að undirstaðan að hverju einu þjóðfélagi er sú, að mennirnir, sem lægst launaðir eru, hafi lífeyri. Á því byggist öll framför þjóðfélagsins, en ekki á hinu.

Menn hafa haldið því fram, að það sé minni launamunur núna en var. Þetta getur vel verið. Það eru ekki allir, sem eru svo ánægðir með þessa góðu, gömlu tíma. Ég er ekkert viss um, að við værum ánægðir með það ástand, sem var, þegar opinberir starfsmenn og embættismenn voru einu mennirnir, sem gátu lifað, en allur almenningur jaðraði víð hungur. Langar okkur til þess? Og ef reisn embættismannanna byggist á því, að almúginn sé beygður, af því að hann hafi ekki mannsæmandi laun, þá er það alveg rangt.

Til þess að undirstrika þetta ætla ég að benda á launamismuninn hjá verkamönnum tilheyrandi Dagsbrún, sem oftast hefur verið miðað við, frá því 1942, þegar farið var að flokka niður verkamannakaup. Fram að 1942 var ekki að tala um nema einn taxta fyrir alla verkamenn að undanteknum mönnum, sem voru í ketilhreinsun, en 1942 föllumst við á að flokka kaupið í tvo aðalflokka. Það var miðað við þá, sem kallaðir eru almennir verkamenn, til hafnarvinnu og fleira, og svo voru teknir í hærri flokkinn aðallega menn, sem höfðu verið hjálparmenn í fagvinnu, og ýmsir menn, sem voru að því er talið er á verkhæfara sviði, og mennirnir, sem unnu við erfiðustu vinnuna, sóðalegustu vinnuna, kol og salt. Og þegar gerður er samningur 1942 í ágúst, þá verða grunnlaunin hjá almennu verkamönnunum kr. 2.10, en hjá hinum kr. 2.75. Og munurinn verður þá á þessum launaflokkum 31%.

Nú fórum við út í hækkun aftur 1944. Þá hækkuðum við lægstu launin um 35 aura um tímann, upp í kr. 2.45, en létum hina flokkana standa kyrra í kr. 2.75 fram til 1946. Þá hækka grunnlaun í almennri vinnu í kr. 2.65, en hærri taxtinn í kr. 2.90. 1947 hækkum við úr kr. 2.65 upp í kr. 2.80 almennu vinnuna, en upp í kr. 3.05 hærri flokkinn, um sama krónutal, — þó að við megum ekki tala um krónutal, því að hjá verkamönnunum hefur aldrei verið nema um aura að ræða, — við hækkuðum um sama auratal. M. ö. o.: Það vakti fyrir okkur og hefur alltaf vakið fyrir okkur í verkalýðsfélögunum að reyna að hafa sem beztan lífsstandarð þeirra manna, sem lægst eru launaðir í þjóðfélaginu. Og í okkar félagi þurftum við ekki að hugsa um hina, sem höfðu hærri laun. Þeir höfðu þá aðstöðu, að þeir gátu gert það sjálfir.

Svona heldur þetta áfram. 1949 kemst almenna kaupið upp í 3.08 kr. grunnlaun og hitt í kr. 3.25. En 1950, þegar vísitalan er eiginlega lögð niður og það er búið til grunnkaup úr vísitölunni, sem var, þá verður grunnkaup almennra verkamanna kr. 10.17, en í hærri flokknum kr. 10.39.

Þetta hefur verið okkar stefna, og ég vil taka það fram út af því, sem sagt var hérna við 2. umr. um bæði mig og aðra, að við værum í þeim flokki í þjóðfélaginu, sem væri fjarstýrður, væri stjórnað einhvers staðar annars staðar frá en úr íslenzku þjóðfélagi, jafnvel austan frá Moskvu eða hvaðan sem er, að þá hefur þetta verið stefna verkalýðsfélaganna. Í samningunum í vor var þetta boðið fram af verkalýðsfélögunum, að láta vísitöluskerðinguna ná til grunnlauna yfir 12 kr. En þá sögðu valdhafarnir: Nei, það þýðir ekkert, við skulum bara hafa fulla vísitölu.

Mér er alveg sama, hvað mikil peningaráð ríkið hefur. Þetta er vitlaust að farið, og mér finnst, þegar Bandalag starfsmanna ríkis og bæja leggur fram sínar kröfur, að það sé alveg fráleitt að beita þessari aðferð.

Það er alveg víst, að þótt maður sé búinn að læra lengi og sé kominn upp í há laun, þegar dýrtíð vex, þá þarf hann ekki meira til að viðhalda líkamanum en verkamaðurinn, sem vinnur, þótt hann sé þjóðfélaginu ákaflega mikils virði og það sé búið að kosta mikið bæði hann sjálfan og þjóðfélagið að gera hann svona lærðan. Það verður þá að finna einhverja aðra leið. Fyrsta skilyrðið í einu þjóðfélagi er það, að verkamaðurinn, sem vinnur, og þeir, sem eru lágt launaðir, geti haldið líkamskröftunum við til að geta unnið. Þar á eftir verða að koma verðlaunin fyrir menntun og annað, sem menn leggja á sig. Þetta verður að vera fyrsta skilyrðið, og ef ekki eru til peningar til þess að láta vinnandi menn hafa nóg til að viðhalda líkamskröftum sínum, þá verða hinir að bíða. Það er þessi stefna, sem verður að vera í þjóðfélaginu, ef það á að vera menningarþjóðfélag, þrátt fyrir allan lærdóm. Þetta er undirstaðan, og þess vegna finnst mér, að það sé röng regla, sem þessi launalög byggjast á, þjóðfélagslega röng, efnahagslega röng.