23.01.1956
Efri deild: 46. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í C-deild Alþingistíðinda. (1521)

59. mál, kaupþing í Reykjavík

Bernharð Stefánsson:

Eins og kunnugt er, er ég flm. þessa frv. Ég hef samt sem áður fallizt á, að málið væri afgreitt með þeirri rökstuddu dagskrá, sem prentuð er á þskj. 245, og vil ég með fáum orðum gera grein fyrir því, hvers vegna ég hef á þetta fallizt.

Að sjálfsögðu hefði ég helzt kosið, að frv. hefði verið afgreitt á þessu þingi og samþykkt, og ég tel, að til þess hefði verið nægur tími, a.m.k. ef vissir aðilar, sem n. leitaði til um málið, eins og hv. frsm. n. gat um, hefðu skilað áliti sínu og viljað vera n. til ráðuneytis um málið. Tel ég, að það sé lítt forsvaranlegt, að aðilar eins og sjálfur þjóðbankinn svari ekki þingnefnd, þegar hún biður um álit hans á máli elns og þessu. Vil ég, að það komi fram, að ég fyrir mitt leyti álít, að með þessu sé Alþ. sýnd nokkur lítilsvirðing. Hér er ekki um flm. málsins að ræða, því að það er nefndin, sem bað um álit þjóðbankans og fleiri aðila. En ástæður til þess, að ég þó féllst á, að frv. væri afgreitt með rökstuddri dagskrá, eru þær, að í fyrsta lagi var ég orðinn vonlaus um framgang málsins á þessu þingi, bæði vegna þess, að þó að málið hefði ekki verið mikið rætt í n., þá var mér þó ljóst, að verða mundi ágreiningur um afgreiðslu þess innan nefndarinnar, og í öðru lagi vegna þess, að ég sé það bæði á þessu þingi og hef séð það á undanförnum þingum, að það er alger undantekning, að þingmannafrv. gangi fram, nema það sé borið fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Þess vegna er það, að nú á síðustu þingum er það orðin venja, að þingmenn bera fram margar þáltill., þar sem skorað er á ríkisstj. að undirbúa löggjöf um eitt og annað, en bera ekki fram frumvörp um málin. Það virðist vera að færast í það horf, að frumkvæði einstakra þingmanna að löggjöf kemur einna helzt fram í því að beina áskorun til ríkisstj. um að undirbúa löggjöf í því efni, sem þingmennirnir hafa áhuga á.

Önnur ástæðan til þess, að ég get fallizt á þessa afgreiðslu málsins, er sú, að sú dagskrártill., sem hv. n. hefur lagt hér fram, er jákvæð, og ég lít svo á, að hún þoki þessu máli áfram. Hún er um það, að deildin treysti því, að ríkisstj. láti athuga nauðsyn á stofnun kaupþings í Reykjavík og hvernig löggjöf um það verði hagfelldust og leggi niðurstöður þeirrar athugunar fyrir næsta reglulegt Alþingi. Í trausti þess tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.

Þess vegna er það, að þessi rökstudda dagskrá hefur raunverulega sama gildi og þáltill. Það má því segja, að samþykkt þessarar dagskrár sé meðmæli með málinu. Þótt það sé ef til vill ekki með frv. í öllum atriðum, þá er það meðmæli með málinu, og því má segja, að það sé hálfur sigur fyrir mig sem flm. þessa frv.

Það eru liðin nokkur ár síðan þetta frv. var fyrst samið, eins og ég gat um í framsöguræðu við 1. umr., og bar ég það þó fram óbreytt frá því, sem þá hafði verið gengið frá því, og eins og ég gerði grein fyrir, var það af þeirri ástæðu, að ég var ekki einn höfundur þessa frv., heldur var það samið af n., sem ég átti sæti í, og vildi ég ekki á fyrsta stigi breyta frv. frá því, sem n. hafði gengið frá, heldur láta þingnefnd um það og yfirleitt Alþingi. Ég vildi ekki fara að gera mig að eina höfundi þessa máls, þar sem þeir voru fimm. Samt sem áður lít ég svo á, þó að það séu nokkur ár liðin síðan frv. var samið, að það hafi ekki verið mjög úrelt orðið. Þó eru úrelt ákvæðin um bankana í frv., vegna þess að það eru fleiri bankar í landinu nú en þá voru, og kannske einstaka atriði. En ég hygg, að það hefði verið auðvelt að breyta frv. þannig, að það ætti á allan hátt við okkar tíma.

Þrátt fyrir vissa frávísun málsins, sem hv. fjhn. leggur til, vil ég þó þakka hv. n. fyrir þau meðmæli með málinu, sem felast í dagskrártillögunni.