20.10.1955
Efri deild: 7. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í C-deild Alþingistíðinda. (1525)

45. mál, skemmtanaskattur þjóðleikhús o. fl.

Flm. (Jón Kjartansson):

Herra forseti. Frv. það á þskj. 45, sem ég flyt ásamt hv. þm. Barð. (GíslJ), felur það í sér að tryggja félagsheimilum aftur sama hluta í skemmtanaskatti og þau höfðu til 1. jan. 1952. Til þess tíma rann í félagsheimilasjóð 50% af skemmtanaskattinum, en með bráðabirgðabreyt. á l., sem gerð var 1951, var hlutur félagsheimila skertur í 35% skattsins.

Við flm. lítum svo á, að brýn nauðsyn sé á því að hraða svo sem unnt er byggingu félagsheimila í sveitum landsins, en bygging þeirra hefur gengið nokkuð hægt vegna fjárskorts. Félagsheimilin eru frumskilyrði þess, að unnt sé að halda uppi heilbrigðu félagslífi í sveitunum, en með hollu félagsstarfl er hins vegar beinlínis stefnt að því að fá unga fólkið til þess að una hag sínum í sveitunum. Allir hljóta að viðurkenna, að þessi þróun er þjóðarnauðsyn.

Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta frv., það liggur ákaflega ljóst fyrir, en vil að lokum leyfa mér að leggja til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.