23.02.1956
Efri deild: 74. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í C-deild Alþingistíðinda. (1528)

45. mál, skemmtanaskattur þjóðleikhús o. fl.

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég get því miður ekki þakkað sem skyldi hv. fjhn. fyrir afgreiðslu þessa máls. N. leggur til, að frv. verði vísað frá með rökstuddri dagskrá. Í þessari dagskrártillögu segir enn fremur, að fram skuli fara heildarendurskoðun laga nr. 77 1947, um félagsheimíli, og enn fremur, að séð verði um, að ekki verði örar ráðizt í byggingu félagsheimila en svo, að samsvari lögboðnu framlagi félagsheimílasjóðs hverju sinni. Loks segir orðrétt: „enda verði sjóðnum séð fyrir eðlilegum tekjum til þess að mæta útgjöldum“.

N. segir ekkert um það, hverjar hún telur eðlilegar tekjur í sambandi við nauðsyn þessa máls. En ég vona, að hv. n. sé mér sammála um það, að þær tekjur, sem félagsheimílasjóður hefur nú, 35% skemmtanaskattsins, séu ekki nægilegar og að þær þurfi því að auka verulega frá því, sem nú er. Hv. n. segir enn fremur, að frv. þetta, ef að lögum yrði, mundi rýra verulega tekjur þjóðleikhússins. Sízt vildi ég verða til þess að leggja stein í götu þessarar merku stofnunar, þjóðleikhússins. En ég held, að ekki verði með sanni sagt, að Alþingi hafi á neinn hátt viljað rýra þjóðleikhúsið eða ganga á hlut þess. Ég minnist þess t.d., að í heimildagrein fjárlaga hefur staðið og stendur enn veruleg fúlga, þar sem ríkisstj. er heimilað að greiða rekstrarhalla þjóðleikhússins. Ef ég man rétt, er hér ekki við neglur skorið. Árið sem leið minnir mig að þessi upphæð hafi verið allt að 250 þús. kr., en á yfirstandandi ári er upphæðin hækkuð upp í 450 þús. kr. Af þessu er ljóst, að Alþ. vill engan veginn ganga á hlut þjóðleikhússins og hefur aldrei sýnt það og aldrei reynt það, enda mundi ég ekki á neinn hátt vilja stuðla að því. En þrátt fyrir þetta, að þannig hefur verið unnið hér á Alþ. í garð þjóðleikhússins, þá kemur það fram í umsögn frá stjórn þjóðleikhússins, að það vill ekki aðeins halda þeim hluta skemmtanaskattsins, sem það hefur tekið af félagsheimilasjóði„ heldur jafnvel hirða hann allan, eins og segir í umsögninni á fskj. I. Ég get ekki neitað því, að mér finnst hér kenna fullmikillar eigingirni hjá þessari merku stofnun. Hvað væri unnið við það, þótt við hefðum glæsilegt og fullkomið þjóðleikhús hér í Reykjavík, ef sveitirnar og byggðin úti um land væri svipt öllum möguleikum til að halda uppi félagslífi hjá sér? Ég þarf ekki að svara þessu. Ég vísa því til hvers einstaks þingmanns, og hann getur svarað því fyrir sig. Ég sé ekki, að það yrði neitt unnið við þetta.

Ég þykist nú sjá, að afgreiðsla þessa máls sé ráðin og því verði vísað til hæstv. ríkisstj. En ég treysti því, að hæstv. ríkisstj., sem kemur til með að endurskoða lögin um félagsheimilin, rýri ekki á neinn hátt hlut þeirra. Og ég legg höfuðáherzlu á, að ekkert verði aðhafzt, sem geti dregið úr þeim áhuga, sem nú er um byggingu félagsheimíla. Ég vil í þessu sambandi aðeins lesa hér, með leyfi hæstv. forseta, tvær setningar úr umsögn íþróttafulltrúa, sem prentuð er hér sem fskj. III, en þessi maður er allra manna kunnugastur, að ég hygg, félagsheimilunum og þeirra byggingum og starfsemi. Hann segir svo:

„Við byggingu margra félagsheimilanna er lögð fram ótrúlega mikil gjafavinna — þegnskaparvinna — af konum sem körlum, ungum sem gömlum, og hugur til samvinnu ánægjulega góður. Bygging félagsheimilanna einkennist af ánægju og fórnfýsi.“

Ég legg áherzlu á, að ekki verði dregið úr þessum áhuga og þessari fórnfýsi.

En áður en ég skilst við þetta mál, vildi ég fá upplýst, hvernig gengur að greiða niður skuldir þjóðleikhússins. Í 6. gr. þeirra laga, sem nú gilda í þessu efni, þar sem þjóðleikhúsið fékk hluta af skemmtanaskatti, sem félagsheimilín höfðu, segir: „Lög þessi öðlast gildi 1. jan. 1952 og skulu gilda, unz skuldir þjóðleikhússins eru að fullu greiddar“ - en á meðan skuli fresta framkvæmd laga nr. 8 frá 1947. Ég spyr: Hvað liður þessum skuldum þjóðleikhússins? Eða er meiningin að fara inn á þá braut, sem þjóðleikhússtjórnin sýnilega ætlast til, að hirða allan skemmtanaskattinn og nota hann fyrir reksturinn, þrátt fyrir það að Alþingi bæti þann halla árlega með fjárlagaheimild, stórfelldum heimildargreiðslum? Vilja hv. þm. upplýsa þetta, því að það hefur áreiðanlega ekki verið vilji Alþingis að fara svona að, hvað sem verður?