15.12.1955
Neðri deild: 35. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram á þskj. 203 tvær litlar brtt. við það frv., sem hér er til umr. Eins og þessar brtt. mínar bera með sér, eru þær um að færa tvo starfsmenn í öryggiseftirlitinu upp um einn launaflokk. Öryggismálastjóri hefur ásamt meðmælum frá iðnmrh. lagt fyrir hv. félmn. óskir um, að þessi lagfæring yrði gerð, en n. hefur sýnilega ekki getað orðið við því, en ástæður til þess eru þó ekki kunnar. Ég verð t. d. að telja það ærið vafasamt, þar sem skylt er samkvæmt lögum að hafa verkfræðing við annan þennan starfa, þ. e. öryggiseftirlitsmanninn, þá skuli það vera einasti verkfræðingur launalaganna, sem er settur einum flokki lægra en allir aðrir verkfræðingar í lögunum. Ég verð að halda, a. m. k. þangað til undir lok umr., að hér sé um einhverja missýn að ræða eða galla, sem eigi eftir að leiðréttast. Ég trúi því ekki, fyrr en ég sé hilla undir lok umr., að þessi till. verði ekki samþ. eins og hún liggur nú fyrir frá mér og eins og hæstv. iðnmrh. hefur mælt með við n. samkvæmt ósk öryggismálastjóra.

Það hafa farið fram tvennar breyt. á lögunum um öryggisráðstafanir á vinnustöðum síðan þau voru sett, 1. febr. 1952. Báðar þessar breyt. hafa verið mjög til bóta. Hefur frv. mætt hér ágætum skilningi á Alþ. Hins vegar sýnir öryggismálastjóri fram á það í þessu bréfi sínu, þar sem hann óskar eftir þeim leiðréttingum, sem ég hef nú borið fram í mínum brtt., að framkvæmd laganna sjálfra hefur ekki orðið eins og menn óskuðu eftir, vegna þess að starfsmenn öryggiseftirlitsins eru þar samkvæmt launalögunum það lágt launaðir, að ekki fást hæfir menn til starfans. Þannig líta þessi ágætu lög því út í dag, að þau eru til á pappírnum, en í framkvæmd eru þau af þessum ástæðum lítils eða einskis virði.

Ég efast ekkert um, að hv. þd. muni hafa haft í huga, að lögin kæmust raunverulega í framkvæmd, ekki sízt með tilliti til þeirra tveggja breyt., sem á lögunum hafa verið gerðar, síðan þau voru sett, og held, að það sé þess vegna í fullu samræmi við áður yfirlýstan vilja Alþ. til þessara laga og þessara ráðstafana, sem þau fela í sér, að þessar breyt. verði á gerðar.

Það er ekki hægt að fara um skoðunarmennina í samanburð, eins og gert hefur verið hér á undan um aðrar brtt., sem hér liggja fyrir og að sjálfsögðu eru margar og flestar réttmætar, því að hér er um algerlega nýjan starfa að ræða, sem varla á sér hliðstæðu í öðrum lögum eða öðrum starfsgreinum. Verkalýðshreyfingin á mikið undir því, að þessi lög komist í raunhæfa framkvæmd, og það er áreiðanlega fulls stuðnings af henni að vænta um, að starfsmenn þessa eftirlits verði það vel launaðir, að það fáist fyrst og fremst hæfir menn til starfans, því að svo mikið á íslenzkur verkalýður undir því, að lögin séu framkvæmd á raunhæfan og réttlátan hátt, eins og lögin framast leyfa. Þess vegna ítreka ég það, að ég efast ekki um, að vilji Alþ. er nú sá sami og þegar lögin voru sett og að þessar réttlátu breyt. séu gerðar með tilliti til þess, að lögin verði raunverulega framkvæmd.

Ég ætla á þessu stigi málsins að láta þessi orð mín nægja með þessum litlu brtt. og óska eindregið eftir því, ef þess er nokkur kostur, að hv. fjhn. endurskoði afstöðu sína til þessara mála, svo mikið sem hér er í húfi. Ég get um aðrar brtt., sem hér liggja fyrir, verið fáorður, fyrir þeim hefur verið flutt ýtarleg framsaga, en vil þó í lok máls míns sérstaklega vekja athygli á till. hv. 1. landsk. varðandi bréfberana, þar sem hér hafa þeirra kröfur á mjög vafasaman hátt verið fyrir borð bornar. Ég tel, að það sé um slíkt starf að ræða, þar sem bréfburðurinn er, að þar geti ekki aðrir menn verið við en þeir, sem eru fullhraustir og þurfa þar af leiðandi a. m. k. að hafa fullhraustra manna laun.