23.03.1956
Efri deild: 92. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í C-deild Alþingistíðinda. (1536)

149. mál, jarðhiti til virkjunar

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hefði auðvitað kosið, að frv. þetta hefði fengið þær undirtektir hér í n., að það hefði náð samþykki. Til þess var það fram lagt, og það er skoðun mín, að það ætti að samþ. það. Hins vegar get ég alls ekki sagt, að ég sé sérstaklega óánægður með till. þá, sem hv. iðnn. hefur lagt fram um rökstudda dagskrá, vegna þess að í till. þeirri er á jákvæðan hátt tekið undir við þær till., sem koma fram í frv., og sérstaklega er það einnig mikilsvert fyrir málið, tel ég, hvernig hv. frsm. iðnn. hefur lýst afstöðu sinni og nefndarinnar. Fallist þess vegna hv. d. á þessa till., mun ég vera sáttur með afgreiðsluna.

Þegar ég hlýddi á skýrslu hæstv. landbrh. í sambandi við fyrirspurn um, hvað gert hefði verið til að rannsaka jarðhita og undirbúa hagnýtingu hans, í Sþ. fyrir fáum dögum, virtist mér koma fram í þeirri skýrslu, að nefnd væri starfandi, sem ríkisstj. ætlaðist til að undirbyggi heildarlöggjöf um hitaveitumálin og legði frv. að þeirri löggjöf fram fyrir næsta reglulegt Alþ. Ég treysti því þess vegna, að þetta frv., sem ég hef lagt fram, og þær till., sem fram komu í því um hagnýtingu heita vatnsins og leit að heitu vatni, komi til greina, þegar þetta heildarfrumvarp verður samið, og ekki sízt treysti ég því vegna þess, að í skýrslu hæstv. ráðh. kom fram, að þeir, sem skýrsluna gera, líta svo á, að hitaveitur séu hagnýtustu not, sem hægt er að hafa af jarðhitanum í landi okkar.

Ég tel, að það hefði mátt afgr. frv., því að svo einboðið sé það, að ríkið verði að beita sér fyrir því, að leitað sé eftir heitu vatni, til þess að koma á þeim hitaveitum, þar sem skilyrði eru fyrir hendi, og sú leit geti ekki orðið framkvæmd, eins og nú er komið, nema ríkið kosti hana og taki á sig áhættuna. Hins vegar tel ég rétt, eins og frv. gerir ráð fyrir, að þeir, sem njóta hitaveitunnar, greiði fyrir það, sem unnið hefur verið, þegar árangurinn er kominn í ljós, þ.e.a.s. borgi hitavatnsleitina í hlutfalli við árangurinn, en ríkið taki á sig ómaksleitir, sem þó á ekki að stofna til samkv. frv. nema að mjög yfirveguðu mati og eftir meðmælum jarðboranadeildar raforkumála og rannsóknaráðs ríkisins.

Það er búið að taka í not það heita vatn. sem auðveldast er að kalla fram og leita uppi. Það er mikið órannsakað í þessum efnum. og sú rannsókn verður ekki leyst. nema ríkið taki á sig áhættuna, eins og ég áðan sagði. Og ég er víss um það, að þó að þetta frv. hefði verið samþ., þá bryti það ekki í bága við þær heildaraðgerðir, sem verður að gera um leit að jarðhita í þágu iðnaðar og með tilliti til þess að vinna verðmæt efni úr iðrum jarðar. Hitavatnsleitin er alveg sjálfsagt mál.

En nú mun ég, eins og ég er búinn að segja, fyrir mitt leyti telja afgreiðslu þessa eftir atvikum viðunandi og greiða atkv. með hinni rökstuddu dagskrá.