15.12.1955
Neðri deild: 35. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er nú orðið auðséð af þeim umræðum, sem hér hafa farið fram, að verði þessi lög afgreidd nú, þá verður það gert þannig, a. m. k. ef allar till. minni hlutans eru felldar, að það er gert með stórkostlegu óréttlæti gagnvart einstökum launaflokkum, svo að maður tali nú ekki um niðurstöðu launalaganna í heild. Og það er auðséð á afstöðunni, sem hér hefur verið tekin af meiri hlutanum, að það á, eins og vant er í þinginu, að berja það fram, sem stjórnarliðið álitur rétt eða heppilegt í þessum efnum, og taka ekki tillit til þeirra réttmætu krafna, sem koma fram, sérstaklega frá láglaunamönnunum. Og ég vil á þessu stigi aðeins vekja eftirtekt á því, að verði þannig áfram haldið með einstaka launaflokka, sem nú eru óréttlæti beittir og meira að segja minni hlutinn gengur einu sinni varla nógu langt með að leggja til að fái fullt réttlæti, þá geta menn alveg eins búizt við því, að nú á næstunni skelli yfir verkföll hjá ýmsum opinberum starfsmönnum í þessum greinum. Það er rétt, að þingið geri sér það ljóst, að ef það á að taka upp þann sið að hunza allar réttmætar kröfur manna, þá verða menn að grípa til þeirra aðferða að knýja fram verkföll, og það hefur verið gert áður af einstökum deildum opinberra starfsmanna, þegar ekki hefur átt að taka neitt tillit til hinna ýmsu láglaunamanna í þessum efnum. Það er alveg auðséð á öllu framferðinu í sambandi við þá launalaganefnd, sem hefur verið sett af ríkisstj. og hefur haft áhrif á, hvernig þetta frv. að öllu leyti er undirbúið, að þar hafa hálaunamennirnir getað otað sínum tota, ekki máske aðeins þeir, sem settir eru af ríkisstj. til þess að fjalla um þetta, heldur meira að segja líka þeir, sem settir eru af stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, og engu líkara en að sumir þeirra nefndarmanna séu stundum meira fulltrúar ríkisstj. en bandalagsins almennt. Það kemur líka út þannig með samþykkt þessa frv. og með þeirri baráttu, sem nú er háð hér af minni hlutanum til að reyna a. m. k. að einhverju ofur litlu leyti að rétta hlut láglaunamannanna, að það verður að berjast harðri baráttu fyrir því að fá hækkunina hjá þeim lægst launuðu, á sama tíma sem hver hækkunin er viðurkennd af stjórnarliðinu á fætur annarri og sífellt bætt við hjá hálaunamönnunum og auðsjáanlega alveg þýðingarlaust að ætla að spyrna þar nokkuð á móti.

Það er rétt, að menn geri sér þetta ljóst, og það er rétt líka, að Alþ. fari að taka af þessu þær eðlilegu afleiðingar að gefa þeim mönnum, sem starfa í þjónustu ríkisins, sama rétt og öðrum þegnum þjóðfélagsins til að berjast fyrir sínum hagsmunum og neita þeim ekki um þau mannréttindi, sem verkalýðurinn í landinu hefur á síðustu áratugum áunnið sér.

Það er auðséð einmitt sérstaklega á framkvæmd þessara launalaga, að hálaunamennirnir í þjóðfélaginu munu alltaf, á meðan einhver svipuð ríkisstj. er og þessi, hafa aðstöðu til þess að koma þar fram sínum málum. Þeir finna þar náð og það í ríkum mæli. Láglaunamennirnir hins vegar þurfa raunverulega ýmist að knýja þetta fram með verkfallshótunum eða jafnvel með verkföllum, og þess vegna er rétt, að við nú á þessu stigi, þegar við fjöllum um þessi lög, látum skera úr um það, hvort menn vilja veita starfsmönnum ríkisins sama rétt og aðrir þegnar þjóðfélagsins hafa, verkfallsrétt, og gera þannig láglaunamönnunum í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja kleift að berjast fyrir sínum hagsmunum eins og öðrum mönnum þjóðfélagsins. Ég mun þess vegna bera fram till. um, að 30. gr., greinin um, að þessi lög skuli þegar öðlast gildi, orðist þannig, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. er heimilt að undirrita launasamning við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja um laun samkv. lögum þessum og komi samningur sá til framkvæmda frá og með 1. jan. 1956 og gildi í eitt ár, en framlengist óbreyttur í eitt ár í senn, sé honum ekki sagt upp með mánaðar fyrirvara. Jafnframt öðlist Bandalag starfsmanna ríkis og bæja svo og einstök félög innan þess rétt til vinnustöðvunar samkv. lögum nr. 80 1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.“

Þetta er fyrri brtt. Síðari brtt. er um, að fyrirsögn frv. hljóði svo:

„Frv. til l. um heimild fyrir ríkisstjórnina til samninga um laun starfsmanna ríkisins.“

Með samþykkt á þessu mundi sem sé vera numið úr gildi það gamla ákvæði frá lögunum 1915, sem bannar starfsmönnum ríkisins að gera verkfall. Þessi launalög yrðu þá skoðuð sem launasamningur, og einstök félög innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hefðu eftir ákveðinn tíma rétt til þess að segja honum upp og taka upp samninga til þess eins og aðrir þegnar þjóðfélagsins að rétta sinn hlut. Hálaunamennirnir fengju þennan rétt líka, þeir gætu lagt niður vinnu og staðið verkfallsvörð. En það lítur ekki út fyrir, að þeir þyrftu þess sérstaklega með, þeir eiga það innangengt. Og ég get ekki komizt hjá því að fara nokkrum orðum, ekki sízt út af því, sem hv. síðasti ræðumaður, hv. 1. landsk. þm., sagði hér áðan, og þeirri till., sem hann flutti, um afstöðu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja til verkalýðssamtakanna og til vinnudeilnanna, þó að ég hafi gert það nokkrum sinnum hér áður.

Sannleikurinn er, að meginið af starfsmönnum ríkisins, sem sé lægst launuðu mennirnir, hefur sömu hagsmuna að gæta í þessum efnum og verkamenn. Þeir eiga samstöðu með verkamönnum, og þeir eiga að heyja sameiginlega baráttu með þeim. Það er ekki siðferðislega réttlátt annað en að þeir þurfi að taka á sig sömu baráttuna og verkamenn heyja, að þeir þurfi að leggja á sig sömu áhættuna og verkamenn leggja út í og að þeir þurfi að færa sömu fórnirnar og verkamenn færa, þegar þeir eru að berjast fyrir því að fá sín laun hækkuð. Það, eins og hv. 1. landsk. þm. lagði hér til í brtt., sem hann var að mæla fyrir áðan, að ætla að hengja Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og alla starfsmenn ríkisins aftan í alþýðusamtökin og láta þá fara að fá héðan af sjálfkrafa þær réttarbætur og hagsbætur, sem verkamenn knýja fram, væri óréttlátt og siðferðislega rangt gagnvart meðlimum bandalagsins, í fyrsta lagi vegna þess, að þeir hafa bezt af því að berjast fyrir þessum hagsbótum sjálfir, í öðru lagi vegna hins, að það er ekki rétt að láta það leggjast á herðar verkamannanna einna, sem verða að taka á sig stórkostlegar fórnir í hvert skipti, sem þeir knýja fram hagsbætur á kjörum hinna lægst launuðu. Það er ekki rétt að láta það hvíla á þeirra herðum einna saman. Starfsmenn ríkisins eiga að standa þarna með þeim og eiga að fá rétt til þess að standa þarna með þeim. Þar að auki var það rangt, sem hv. 1. landsk. hélt fram hér áðan, að sérstaklega þeir hálaunuðu á meðal starfsmanna ríkisins hefðu ekki átt öðruvísi og miklu betri aðstöðu en verkamenn. Þeir hafa sannarlega ekki reiknað með í þeim launastiga, sem nú er verið að samþykkja fyrir hálaunamennina, að þeir eigi ekki á hættu neitt atvinnuleysi. En við verðum að muna það, að atvinnuleysi er í dag staðreynd fyrir þorra verkamanna í þrem landsfjórðungum landsins. Þið skuluð ekki dæma eftir Reykjavík, þó að þið semjið þessi lög þar. Maður t. d. í Strandasýslu er hvað framfærslu snertir ekki hálfdrættingur á við mann hér suður í Reykjavík eða Keflavík að tekjum. Við skulum bara muna eftir því, að það er gífurlegt atvinnuleysi í þjóðfélaginu nú sem stendur, þannig að það er allt öðruvísi atvinnuöryggi, sem starfsmenn ríkisins búa við í þessum efnum og ekki sízt þeir hálaunuðu, heldur en verkamenn.

Svo er annað, sem verður líka að taka tillit til, en ekki er hægt að laga með þessum launalögum. Það er svo um ýmsa starfsmenn ríkisins og þá fyrst og fremst um þá hæst launuðu suma hverja, að þrátt fyrir ákvæði um, að þeir eigi ekki að stunda fleiri störf og að þeirra laun séu miðuð við það, að þeir helgi sína starfskrafta ríkinu, þá standa þeir í ótal fleiri störfum, hálaunuðum störfum, og einstökum starfsmönnum ríkisins er meira að segja látið haldast uppi að vera aðaleigendur eða stóreigendur í fyrirtækjum, sem verzla svo og svo mikið við ríkið, þannig að þeir hafa beinlínis aðstöðu eins og kapítalistar, auk þess að vera hálaunaðir embættismenn ríkisins. Og við allt þetta virðist ríkisstjórnin ekki hafa yfirleitt neitt að athuga.

Alveg sérstaklega mundi þó vera óréttlátt að hengja nú aftan í þessi launalög, ef þau yrðu samþ. eins og þau eru, þá till., sem hv. 1. landsk. var að flytja hér áðan, vegna þess að þessi launalög eru ekki samræming við þau kjör, sem verkamenn njóta, nema hvað láglaunamennina snertir. Hér er, eins og margsinnis er búið að sýna fram á, verulega mikil grunnkaupshækkun hjá hálaunamönnunum, grunnkaupshækkun, sem nemur jafnvel 30–40% raunverulega, þegar allt er lagt saman. Og það er vissulega grunnkaupshækkun, sem ekki er til samræmingar við það, sem verkamenn hafa með miklum fórnum áunnið sér. Það er grunnkaupshækkun langt fram yfir það, grunnkaupshækkun, sem ef til vill, fyrst ríkisstj. og hálaunamönnunum finnst rétt að knýja þetta nú fram, mun verða höfð í huga næst, þegar verkamenn þurfa að leggja til vinnudeilna, skoðuð sem eins konar uppörvun af hálfu þeirra, sem völdin hafa, og þeirra, sem öruggasta afkomuna hafa og hæst launin. Þess vegna álít ég rétt að leggja hér höfuðáherzluna á að veita starfsmönnum ríkisins þann rétt, sem aðrir þegnar hafa til verkfalla, til að semja um sín laun á sama hátt og verkamenn hafa almennt, og með því móti fá líka þeir einstöku starfshópar, sem auðsjáanlega á að bera fyrir borð nú, aðstöðu til þess að koma sínum réttindamálum fram. Þess vegna held ég, að það sé rétt að leggja höfuðáherzluna á að knýja fram verkfallsréttinn til handa starfsmönnum ríkisins. Það má vel vera, að margir þeirra taki sér hann og séu til þess nauðbeygðir, og þannig hafa menn nú oft orðið að vinna sér þennan rétt, því að hann hefur líka verið tekinn af verkamönnum og ekki langt síðan og þeir hafa orðið að gera verkföll í bága við öll lög og brjóta þau lög á bak aftur, þau gerðardómslög, þau þrælalög, sem sett voru, og knýja fram sín réttindi. Ég vil þess vegna eindregið mælast til þess, að þessi brtt., sem ég hér flyt, verði samþ. Ég skil ekki í öðru en að hinir einstöku þm. stjórnarfl. hafi sjálfir orðið greinilega varir við það, hver eldur verður víða hjá starfshópum ríkisins út af launalögunum, eins og þau nú eru, og það verður alltaf erfitt að ætla að lækna þessa hluti og gera þá réttláta bara með lagasetningu hér á Alþingi. Þetta mundi nást betur með því að veita starfsmönnum ríkisins verkfallsréttinn, gefa þeim sömu mannréttindi og verkamenn hafa með baráttu sinni áunnið sér.

Ég vil þess vegna leyfa mér á þessu stigi að leggja þessa till. fram og biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir henni, því að hún er skrifleg og of seint fram komin.