18.01.1956
Efri deild: 42. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í C-deild Alþingistíðinda. (1555)

132. mál, fræðsla barna

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. þetta á þskj. 239 flyt ég sem tillögu um réttarbót fyrir þá menn, sem unnið hafa að kennslu í barnaskólum landsins og kunna að halda áfram að vinna þar án þess að hafa tekið kennarapróf.

Fyrri mgr. 16. gr. laga frá 1946 um fræðslu barna hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Engan má setja eða skipa kennara við barnaskóla, nema hann hafi lokið viðurkenndu kennaraprófi, sé eigi haldinn næmum sjúkdómi og hafi óflekkað mannorð.“

Nú hefur reynslan orðið sú, að menn með kennaraprófi hafa alls ekki fengizt til þess að gegna kennslustörfum í öllum skólahéruðum landsins ár hvert, þótt auglýst hafi verið eftir þeim og önnur útispjót höfð til þess að fá þá til starfa. Hins vegar segir 3. gr. l. um fræðslu barna:

„Skylt er að halda barnaskóla í öllum skólahverfum.“

Til þess að fullnægja því ákvæði, sem auðvitað er grundvallarákvæði, hafa ekki önnur úrræði verið, þegar menn með réttindum hafa ekki verið fáanlegir til kennslu í einhverju skólahverfi, en að ráða einhvern mann sem hæfastan til þess að taka að sér kennsluna þar. Oft hafa þessir próflausu menn ekki verið kennarar nema eitt ár eða nokkur ár. Oft hafa þeir reynzt ágætir kennarar, en auðvitað ekki alltaf, en það má líka segja um þann, sem próf hefur tekið og útskrifazt úr kennaraskólanum, að ekki sé tryggt, að hann reynist ágætur kennari. Til þess að vera góður kennari þarf svo margt, sem ekki kemur í ljós, þegar gengið er undir próf, og lærist aðeins í kennarastarfinu, ef það þá er ekki náðargáfa, sem ekki fæst með námi. Annars vil ég alls ekki gera lítið úr því, að gott sé, að barnafræðarar hafi sérmenntazt og lokið fullnægjandi prófum. En hitt er staðreynd, að sérmenntaða kennara hefur vantað til þess að starfa í barnaskólum landsins. Um annað hefur ekki verið að gera fyrir forsjármenn ýmissa skólahverfa en að fá próflausa menn til að kenna, og margir þeirra kennara hafa unnið starf sitt ágætlega, svo að öllum lagaákvæðum hefur verið fullnægt að því er fræðslu barnanna snertir. Allir slíkir kennarar hafa auðvitað verið því háðir að verða að þoka fyrir prófmanni, hvaða ár sem hann hefur gefið kost á sér. Þeir hafa ekkert atvinnuöryggi haft nema ár í senn. Sumir hafa ekkert haft við þetta að athuga, af því að þeir hafa ekki viljað binda sig kennslustörfum til langframa, en sumir hafa aftur á móti fundið köllun hjá sér til þess að kenna og tekið ástfóstri við þau störf, en tryggingu hafa þeir enga hlotið, og að engu haldi hefur komið, þótt íbúar skólahverfisins hafi ekki viljað skipta um kennara. Sá verður jafnan að víkja, sem ekki hefur lokið viðurkenndu kennaraprófi, þegar prófmaður gefur sig fram og sækir um stöðuna. Þannig eru lögin.

Það segir sig sjálft, að þar sem mönnum, sem hafa full kennararéttindi, hefur sízt þótt eftirsóknarvert að setjast að, hefur mest kveðið að því, að leita hefur þurft til próflausra kennara. og þar hafa þeir verið fastastir í sessi. Þeir hafa vitanlega ekki gengið í valið, heldur hlotið það, sem hinir, prófmennirnir, vildu sízt. Og allt ber að sama brunni í þessum efnum. Þessir próflausu kennarar hafa verið varaskeifur. En þeir hafa gert þjóðinni fært að fullnægja löggjöfinni um barnaskólahald, og þess vegna ber að gjalda þeim þakkir og einnig veita þeim þann rétt, sem sanngjarnt er.

Í grg. með frv. á þskj. 239 get ég þess, að ég hafi leitað upplýsinga um það, hve margir próflausir kennarar séu að starfi á vegum fræðslumálastjórnarinnar og hafi verið það tvö s.l. ár. Fræðslumálaskrifstofan gaf mér upplýsingar um þetta, og þær eru þannig, að skólaárið 1953–1954 eru 12 próflausir kennarar í föstum skólum og 54 í farskólum, eða samtals 66 að verki. 1954 –1955 eru 13 í föstum skólum, 52 í farskólum, 65 við kennslustörfin alls. Og 1955–1956, eða á þessum vetri sem nú er að líða, eru 27 í föstum skólum og 55 í farskólum, þ.e. 82, sem hlaupið hafa í skörðin, þar sem vantað hefur menn með fullum prófréttindum. Vitanlega er þarna aðeins átt við þá, sem eru ráðnir eða settir, en ekki stundakennara.

Þegar athugaður er starfsárafjöldi þeirra 82 kennara, sem nú eru við kennslu, þá er hann þannig, að 44 kennararnir eru búnir að vera í 1–5 ár við kennslu á vegum fræðslumálastjórnarinnar, 11 í 6–9 ár, 15 í 10–14 ár og 12 í 15 ár eða fleiri. Og af þessum 12 síðast töldu kennurum, sem frv. snertir auðvitað sérstaklega, eru 4 við fasta skóla og 8 við farskóla. Enn fremur fékk ég það upplýst, að um 630 barnakennarar samtals mundu nú vera að störfum í skólum landsins, og þá má segja lauslega reiknað, að áttundi hver barnakennari sé án prófréttinda við störfin.

Fyrir nokkru var farið að greiða próflausum kennurum sömu laun og hinum. Þó fá farkennarar próflausir ekki sömu laun og farkennarar, sem hafa prófréttindi, fyrr en eftir að þeir hafa verið þrjú ár við starfið. Ekki veit ég, hvers vegna þetta er þannig með farkennarana, hvers farkennarinn á að gjalda. En sleppum því, frv. mitt snertir ekki launin. En ég tel óviðunandi og óréttmætt með öllu, að þeir menn, sem leyst hafa vanda þjóðfélagsins að því er snertir vöntun lærðra kennara, til þess að haldið verði uppi skylduskólum, öðlist ekki eftir hæfilegan starfstíma atvinnuréttindi sem barnakennarar og verði að þoka fyrir nýliðum, eftir að þeir þó hafa hlotið langa reynslu í starfi og mikla æfingu, sem telja má að þeir séu búnir að hljóta eftir 15 ára starf. Þess vegna legg ég til, að aftan við fyrri mgr. 16. gr., sem ég áðan las upp, komi svo hljóðandi viðbót:

„Þó má skipa próflausa kennara, þegar þeir hafa starfað sem ráðnir eða settir kennarar í 15 ár eða lengur, ef hlutaðeigandi námsstjóri og fræðslumálastjóri mæla með því.“

Ég get ekki skilið, að frá almennu sjónarmiði sé það ekki réttmætt, að hinir sjálflærðu kennarar, sem búnir eru að þreyta lífsreynsluprófið í kennslu barna í 15 ár eða lengur með refsivönd réttindaleysis yfir höfði sér, fái þá réttindi til jafns við unglinginn, sem kemur frá prófborði kennaraskólans, þó með þeim fyrirvara, að þeir þurfi, þessir próflausu kennarar, meðmæli hlutaðeigandi námsstjóra og fræðslumálastjóra.

En ef þetta er svona frá almennu sjónarmiði, eins og ég gizka á, hvað segir þá kennarastéttin? spyrja máske sumir. Telja þeir, sem hafa lokið kennaraprófi, á hlut sinn gengið, ef frv. verður að lögum? Mér finnst fjarri lagi að gera ráð fyrir því. Hinir próflausu kennarar hafa verið og eru í raun og veru liðsmenn kennarastéttarinnar við að anna hlutverki hennar. Þeir hafa ekki setið í sæti neins kennara, ekki verið fyrir neinum prófmanni. Nei, ég vil ekki ætla kennarastéttinni, hinum réttindafullu kennurum, slíka þröngsýni.

Ég leyfi mér að vænta þess, að Alþ. taki frv. þessu vel, og ég óska, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.