28.03.1956
Efri deild: 107. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í C-deild Alþingistíðinda. (1559)

132. mál, fræðsla barna

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., lagði ég fram ekki seint í janúarmánuði í vetur, og þess vegna má segja um hv. menntmn., að því er málið snertir, að seint komi sælir, en komi þó. N. hefur rétt fyrir sér í því, að frv. getur ekki orðið að lögum héðan af á þessu þingi, og með tilliti til þeirrar staðreyndar get ég ekki verið á móti þeirri afgreiðslu, sem n. leggur til.

Nál. fylgja tvö fskj. frá aðilum, sem n. hefur leitað umsagnar hjá. Hið fyrra er frá fræðslumálastjóra ríkisins. Hann er anda frv. alveg samþykkur og mælir með því með lítils háttar breytingu. Hið síðara fskj. er frá stjórn Sambands íslenzkra barnakennara. Hún mælir á móti frv. af stéttarlegum ástæðum. Að mínu áliti eru rök hennar veik, af því að málið er fullkomið sanngirnismál og raunar meira en sanngirnismál, það er réttlætismál. Það er réttlætismál frá mínu sjónarmiði, að þeir kennarar, þótt próflausir séu, sem búnir eru að hlaupa í skörðin fyrir kennarastéttina í 15 ár eða lengur á þeim stöðum, þar sem mönnum með prófi hefur ekki getizt að því að taka sér bólfestu, fái full réttindi. Ég tel það réttlætismál, að þeir próflausu menn, sem þannig hafa bjargað málunum, þurfi ekki að víkja, eftír að þeir hafa starfað í 15 ár eða lengur. Enginn vafi er á því, að það er sjálfsagt, að stéttir hafi forréttindi, en þær hafa vitanlega skyldur, og þar sem kennarastéttin hefur ekki getað uppfyllt þá skyldu að annast kennslu í landinu, svo að lögum yrði fullnægt,

þá má hún vera þeim mönnum þakklát, sem hafa hlaupið í skörðin fyrir hana, og er skylt að þola, að þeir hljóti réttindi og laun að verðleikum.

Mér þykir vænt um, að n. hefur leitað þessara umsagna, svo að þær liggja nú fyrir og geta fylgt málinu til menntmrn. og verða landslýð kunnar. Ég er bjartsýnn á það, að góður málstaður sigri í þessum efnum sem öðrum, þótt það geti stundum tekið nokkurn tíma, og ég vænti þess, að d. fallist á tillögur hæstv. menntmn. og að menntmrn. geri málinu sanngjörn og góð skil hið fyrsta.