24.10.1955
Neðri deild: 9. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í C-deild Alþingistíðinda. (1567)

16. mál, kjörskrá í Kópavogskaupstað

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Eins og fram kom við umr. þessa máls, þegar það var hér síðast á dagskrá, mun frv. það, sem hér liggur fyrir, í sjálfu sér vera harla þýðingarlítið, því að hér er um staðfestingu á brbl. að ræða, en þau brbl. hafa þegar komið til framkvæmda, og áhrifum frá þessari lagasetningu verður ekki kippt til baka aftur, svo að það atriði út af fyrir sig, hvort þetta frv. nær fram að ganga eða ekki, getur í rauninni ekki, úr því sem nú er komið, haft nein veruleg áhrif. En það eru nokkur atriði í sambandi við þetta mál, sem eru þess eðlis, að ekki er óeðlilegt, að nokkuð sé um það rætt.

Það munu allir hv. alþm. minnast þess, að Kópavogsmálið, eða frv. til l. um bæjarstjórn í Kópavogi, sem lá fyrir Alþ. s.l. vor, gekk hér fram með nokkuð sérkennilegum hætti á sínum tíma, og hér urðu þá allmiklar umræður um málið, sem ég skal nú ekki fara að rifja upp. En á það má þó minnast í þessu sambandi, að þá var því haldið hér statt og stöðugt fram, að fyrir lægi ótvíræður vilji íbúanna í Kópavogi um það, að þeir óskuðu eftir þeirri breytingu, sem þá var lagt til að lögfesta. Og vitnað var þá m.a. í það, að fyrir hendi væru undirskriftir meiri hluta íbúanna í Kópavogi, sem sönnuðu, að þeir óskuðu eftir þessum breytingum. Þegar ég og aðrir alþm. vöktum athygli á því, að þessar undirskriftir voru ekki í samræmi við gildandi kjörskrá í hreppnum, þá var slíku ekki sinnt, og hæstv. ríkisstj. tók að sér að hamra það í gegn hér á Alþ., að ekki væri um að villast, að meiri hluti hreppsbúa óskaði eftir breytingunni. En síðan hafa farið fram kosningar í Kópavogshreppi, og hygg ég, að í þeim kosningum hafi eftirminnilega sannazt það, sem ég og fleiri héldum hér fram, að það væri síður en svo, að það lægi fyrir, að meiri hluti íbúanna í Kópavogi óskaði eftir þeim aðgerðum, sem hér var verið að lögfesta.

Í þeim umræðum, sem hér fóru fram um þetta mál s.l. vor, var m.a. minnzt á kjörskrármálið í sambandi við hinar væntanlegu kosningar. Það höfðu sem sagt komið fram raddir um það, að þeir minnihlutamenn í hreppnum. sem stóðu fyrir öllu þessu eindæma brölti, vildu ekki sætta sig við að hlíta almennum landslögum um samningu kjörskrár og vitnuðu iðulega í það, að miklu réttara væri að leggja nýjasta manntal til grundvallar, en víkja frá settum lagareglum um samningu kjörskrár. En það kom líka fram, að hæstv. ríkisstj., sem hafði tekið að sér að reka mál þessara aðila hér á Alþ. með þeim furðulega hætti, sem allir kannast við, treysti sér ekki til þess að flytja hér, um leið og ákveðið var, að hreppurinn í Kópavogi skyldi gerður að kaupstað, breytingar varðandi kjörskrárregluna. Þó að þetta væri orðið hér umræðuefni á hv. Alþ. og skiptar væru skoðanir í þessum efnum, þá treysti hæstv. ríkisstj. sér ekki til þess að taka upp ákvæði um þetta í það frv., sem þá lá hér fyrir, og lét það líða hjá, og var þá vitanlega ekki um annað að ræða en að fara eftir gildandi lögum um það efni. En svo gerist þetta furðulega atriði, sem hér liggur nú fyrir í frumvarpsformi. að ríkisstj. grípur til þess að breyta lögunum um kjörskrá í þessu tilfelli, þrátt fyrir það að hún lét hjá líða að setja slíkt í lög, þegar málið lá hér fyrir á Alþ. og þegar þessi mál einmitt um kjörskrána voru hér rædd. Þetta verður að teljast alveg furðulegt, en þó reyndar í fullu samræmi við öll vinnubrögð í þessu máli.

Nú hefur það einnig gerzt hér í sambandi við nokkrar umræður, sem fram hafa farið um þetta frv., að hæstv. félmrh., sem hér hafði orð fyrir frv., hefur reynt að réttlæta þessar einstöku aðgerðir og það á þann hátt, sem hlýtur að hafa vakið furðu allra þeirra, sem nokkuð hafa komið nærri sveitarstjórnarmálum. — Ég tek nú eftir því, að hæstv. félmrh. er ekki staddur hér, og hefði ég þó vænzt þess, að hann væri hér viðstaddur, þegar mál þetta er rætt, en ég vildi alveg sérstaklega beina orðum mínum til hans í sambandi við það, sem hann sagði hér í umræðunum um málið, er það var síðast á dagskrá.

Hæstv. félmrh. vildi rökstyðja aðgerðir sínar í þessu efni með því, að hann hefði ekki annað gert en að leggja til, að nýjasta kjörskrá, sem samin hefði verið í hreppnum, yrði lögð til grundvallar við kosninguna, og slíkt væri vitanlega ákaflega eðlilegt og mjög lýðræðislegt, eins og hann sagði, og hann mundi leggja slíkt til í hverju öðru tilfelli, þar sem eins stæði á um. Þetta er alveg furðuleg yfirlýsing frá hæstv. félmrh., þeim manni, sem hefur yfir sveitarstjórnum og bæjarstjórnum að segja í öllum þessum efnum. Það er engu líkara en að hæstv. ráðh. hafi ekki tekið með í reikninginn, að það eru til gildandi lög um þessi atriði, lög, sem ekki eingöngu varða Kópavog, heldur öll önnur sveitarfélög í landinu, lög, sem hafa staðið um árabil, og lög, sem eru enn í fullu gildi, þó að veitt séu afbrigði frá þeim í einstöku tilfelli, þar sem það þykir betur henta, eins og í þetta skipti.

Hér er ekki um það að ræða, að í þessu tilfelli hafi átt að kjósa eftir einhverri úreltri kjörskrá, gamalli kjörskrá, og að það hefði verið til önnur nýrri kjörskrá, sem eðlilegra hefði verið að leggja til grundvallar. Lögin um samningu kjörskrár eru alveg skýr, að þó að kjörskrá sé samin í febrúarmánuði, eins og lög standa til, þá er það mjög greinilega fram tekið, að sú kjörskrá, sem þá er samin, skuli ekki taka gildi fyrr en næsta ár á eftir, fyrr en seinni hluta janúarmánuðar árið á eftir. Það er miklu oftar, að það hefur komið fyrir, að efnt hefur verið til aukakosninga, heldur en í þetta skipti í Kópavogi. Aukakosningar hafa iðulega farið fram. Ég minnist þess t.d., að í mínu byggðarlagi fóru fram aukakosningar til bæjarstjórnar fyrir nokkrum árum, og þær fóru fram um mjög svipað leyti árs og þessar kosningar, sem nú fóru fram í Kópavogi. Þá var mikill hiti í bæjarmálunum hjá okkur, og menn deildu þar hart, en það datt engum í hug, að það þyrfti að fara að breyta lögunum um kjörskrá eða kosningafyrirkomulagi í sambandi við þessar aukakosningar, og það hefur sveitarstjórnarmönnum yfirleitt ekki komið tii hugar. Það var til þar gildandi kjörskrá samkvæmt landslögum, og hún var lögð til grundvallar í kosningunum, og það kom engum manni annað til hugar, og þeim ráðherra, sem þá fór með félagsmál, kom ekki heldur til hugar að fara að framkvæma þessa nýju aðferð, sem hæstv. félmrh. telur nú að sé lýðræðislegri en sú, sem er lögfest í landinu.

En það, sem mestu máli skiptir þó í þessum efnum, er, að auk þess sem það lágu frá öndverðu ákveðin rök fyrir því, af hverju þetta var ákveðið svona, að kjörskrá, sem samin er í febrúarmánuði, skuli ekki taka gildi fyrr en í byrjun næsta árs, að auk þess sem það lágu alveg ákveðin rök fyrir því, að þetta var lögfest á þennan hátt, sem sagt þau, að áður en réttmætt þótti, að maður fengi kosningarrétt í einu sveitarfélagi, átti hann að hafa búið þar tiltekinn tíma, og það var það, sem lá til grundvallar, — en auk þess er svo hitt, að það hefur þótt alveg óhjákvæmilegt að hafa ákveðið samræmi í þessum efnum um allt land, en ekki að eitt skyldi geta gilt á þessum stað og annað á hinum. Þeir menn, sem nú voru teknir inn á kjörskrá í Kópavogi og eftir hinum nýju ákvæðum voru látnir fá kosningarrétt þar, höfðu samkvæmt gildandi kjörskrám annars staðar, margir hverjir, rétt til þess og hafa hann enn til að kjósa þar. Breytingin, sem þarna var gerð, kemur m.a. þannig fram, að nokkrir aðilar fengu kosningarrétt við þessar sérstöku kosningar löngu fyrr en lög stóðu til að þeir fengju hann, en nú, þegar þær kosningar eru gengnar um garð, stendur aftur svo á, að þeir menn ýmsir, sem höfðu verið sviptir kosningarrétti með því, að önnur kjörskrá var lögð til grundvallar, eru nú aftur orðnir kosningabærir í Kópavogshreppi. Þeir voru settir út af gildandi kjörskrá á þennan hátt aðeins í þessum sérstöku kosningum, en færu nú t.d. fram kosningar aftur í Kópavogi af einhverjum ástæðum, þá eru þeir samkvæmt gildandi landslögum og gildandi kjörskrá þar í hreppnum aftur komnir þar á kjörskrá, sem sviptir voru atkvæðisrétti þar í kosningunum 2. okt. Þetta heitir vitanlega hið argasta hringl með kjörskrá, sem hæstv. félmrh. lýsti þó yfir hér að hann teldi mjög hættulegt alltaf. Hann mundi að sjálfsögðu aftur þurfa að setja brbl., ef efnt yrði til kosninga á nýjan hátt, áður en sú kjörskrá tekur raunverulega gildi, sem var kosið eftir síðast, því að hún var aðeins sett í gildi meðan á þessum kosningum stóð, en annars öðlast hún ekki gildi fyrr en í byrjun næsta árs.

Með því að setja slík brbl. sem þessi er því verið að koma hinum mesta glundroða á milli einstakra sveitarfélaga um það, hvar viðkomandi aðili hefur fullan kosningarrétt, og það er það atriði, sem er stórhættulegt. Ef hæstv. félmrh. er í raun og veru á þessari skoðun, sem hann reyndi hér að túlka, sem ég dreg nú mjög í efa, þá ætti hann að sjálfsögðu að leggja hér fram frv. um það, að gildandi lögum um kjörskrár yrði breytt, og þá ætti að ákveða, að í hvert skipti yfirleitt, sem kjósa á, ætti í snatri að semja kjörskrá, svo að hún væri sem allra nýjust, og á þá kjörskrá ætti að taka alla þá menn, sem þá væru búsettir í viðkomandi hreppi. Þetta er vitanlega grundvallarbreyting á því skipulagi, sem ríkt hefur hjá okkur í þessum efnum, og ef þetta væri tekið í lög, þá væri mjög auðvelt að hafa úrslitaáhrif með skyndiflutningi nokkurra manna á kosningar í einstökum sveitarfélögum. Með skyndiflutningi væri þá hægt að hafa úrslitaáhrif á atkvgr. með flutningi manna rétt um það leyti, sem kosning færi fram.

Ef hæstv. félmrh. er í rauninni á þessari skoðun, þá á hann vitanlega að flytja um þetta frv. og láta þetta gilda um allar sveitarstjórnarkosningar á landinu, því að þá fyrst kæmi eitthvert samræmi í þetta. En að hafa ákvæðin þannig, að í einu sveitarfélaginu beri að fara eftir gildandi lögum um samningu kjörskrár, semja hana í febrúarmánuði og hún tekur ekki gildi fyrr en í janúarmánuði næsta ár á eftir, og menn fá þar atkvæðisrétt eftir því, en í enn öðru sveitarfélagi séu sett skyndilög um það, að þessu skuli komið fyrir á allt annan veg, veldur vitanlega hinu argasta misrétti og hættulegum glundroða, sem ekki verður séð fyrir endann á.

Ég býst við, að hæstv. félmrh. hafi gert sér grein fyrir því, að nú að afstöðnum þessum kosningum í Kópavogi er gamla kjörskráin, sem hann kallar, í fullu gildi. Nú eru þeir menn, sem á þeirri kjörskrá eru, einir kosningabærir í Kópavogi, en ekki hinir, sem standa á þeirri kjörskrá, sem kosið var eftir nú síðast.

Það er alveg augljóst mál, að þetta tiltæki um breytingu á kjörskrá í sambandi við kosningarnar í Kópavogi er í rauninni sama eðlis og fyrri þættir þessa máls, sem ég minntist hér á, elns og sjálf lagasetningin um bæjarstjórnina í Kópavogi. Þetta er algert frávik frá venjulegum reglum og lögum, sem gripið hefur verið til í fáti af þeim, sem létu flækja sér út í þessi vandræði, og miklu réttara er vitanlega fyrir þá aðila, sem létu hafa sig út í þessi vandræði, sem sagt hæstv. ráðh., að játa hreinskilnislega, að þeir hafi verið gabbaðir af minni hl. í hreppsnefndinni í Kópavogi, að þeir hafi verið hafðir þarna að ginningarfíflum og þeir hafi því gert ýmislegt það, sem þeir vildu í rauninni ekki að þeir hefðu nokkurn tíma gert, og játa það hreinlega, að eitt af því, sem þeir hafa þarna ranglega gert, er einmitt það, sem nú á hér að staðfesta með þessu frv., breytingin á kjörskrárákvæðum.

Hitt er vitanlega fyrir neðan allar hellur, að sjálfur félmrh. landsins skuli reyna að túlka þessa breytingu á þann veg, sem hann gerði hér, að hún sé fyrst og fremst í anda stjórnarskrárinnar, eins og hann orðaði það hér, hún sé í anda hins sanna lýðræðis. Það er alveg furðulegt að reyna að halda því fram, en leggja þó ekki í að flytja breytingu á gildandi lögum til samræmis við þennan anda stjórnarskrárinnar og þetta sanna lýðræði, sem hæstv. ráðh. reynir að halda fram að hafi staðið að baki þessum gerðum. Það er víssulega rétt, sem hér hefur verið bent á, að það er alvarlegra en svo, að ráðherrar ættu að gera nokkurn leik að því að hringla til með lögin um kosningar og um samningu kjörskrár, og í einstökum tilfellum a.m.k. ætti ekki að gera það.

Ég held, eins og ég sagði í upphafi, að það skipti ekki verulegu máli, hvort þetta frv. verður samþ. hér eða ekki, því að það hefur eflaust náð sínum fulla tilgangi. En hitt er enn í fullu gildi í sambandi við þetta mál, að þeir, sem stýra sveitarstjórnarmálefnum landsins, viðurkenni, að slík tiltæki sem að hringja svona með kjörskrár eru ekki verjandi ráðstöfun, og hæstv. Alþ. ætti að taka fyrir það í eitt skipti fyrir öll með því að sýna það með samþykkt sinni á einn eða annan hátt, að það geti ekki fallizt á það, að með brbl. sé gripið á þennan hátt inn í kosningalög og kjörskrár, því að ekki er gott að segja, hvað af slíku kann að leiða síðar.