24.10.1955
Neðri deild: 9. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í C-deild Alþingistíðinda. (1569)

16. mál, kjörskrá í Kópavogskaupstað

Skúli Guðmundsson:

Frv., sem hér er til umr., er flutt af hæstv. stjórn til staðfestingar á brbl., sem hún gaf út 23. júlí í sumar. Það hefur þegar komið fram í umr., hvert efni þessa frv. sé, og mönnum er það ljóst. Með þessum brbl. var ákveðið, að við bæjarstjórnarkosningar í Kópavogskaupstað, sem fram fóru nú í byrjun þessa mánaðar, skyldi farið eftir kjörskrá, sem samin var í febrúarmánuði s.l. og byggð mun hafa verið á manntali, sem fór fram þar seint á árinu 1954. En ef brbl. hefðu ekki verið gefin út, þá mundi hafa verið kosið eftir kjörskrá, sem samin var ári fyrr og byggð á manntali, sem fram fór seint á árinu 1953. Það er þessi breyting, sem brbl. valda.

Nú hafa tveir hv. þdm., hv. 2. þm. Reykv. og hv. 11. landsk. þm., flutt hér alllangar ræður um þetta mál, bæði á þessum fundi og á fundi áður í deildinni. og þeir telja, að það hafi verið rangt af stjórninni að gefa út þessi brbl. Þeir hafa talað um afglöp í því sambandi og fleira þess háttar, þannig að það hefur komið greinilega fram, að þeir telja, að það hefði ekki átt að gefa út brbl. Hins vegar hefur ekki þrátt fyrir þeirra löngu ræður komið, að því er mér finnst, nógu greinilega fram, hvað þeir vilja nú láta gera í þessu máli. Og það var þess vegna, sem ég bað um orðið, að ég vildi gjarnan fá frá þeim nánari skýringar á því. Vilja þeir, úr því að þeir eru svona mikið á móti þessum brbl., láta fella þetta frv. og gera svo ráðstafanir til þess, að Kópavogsbúar fái að kjósa aftur sem fyrst í bæjarstjórn og þá eftir kjörskránni, sem samin var í ársbyrjun 1954? Mér skilst, að þetta væri eini möguleikinn til þess að koma málinu á þann grundvöll, sem það hefði staðið á, ef þessi brbl. hefðu aldrei verið gefin út. Þetta fannst mér ekki koma nógu greinilega fram hjá hv. ræðumönnum og vildi því gjarnan fá að vita, hvað það er, sem þeir raunverulega vilja nú gera í þessu efni. Þingmenn hafa fyrr hlustað á raddir úr Kópavogi, og ef það kæmi nú fram t.d., að meiri hl. bæjarstjórnar þar óskaði eftir því, að úr þessum — ja, afglöpum, sem sumir telja að ríkisstj. hafi framið, yrði bætt á þennan hátt, að lofa þeim að kjósa aftur og þá eftir gömlu kjörskránni, þá álít ég, að þingmenn ættu að taka þetta mál til umhugsunar. En ég tel, að það sé nauðsynlegt fyrir þingmenn að fá að vita, hvað andmælendur frv. vilja í þessu gera, áður en við tökum afstöðu til málsins við atkvgr. hér.