05.12.1955
Neðri deild: 26. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í C-deild Alþingistíðinda. (1575)

16. mál, kjörskrá í Kópavogskaupstað

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir þá rökstuddu dagskrá, sem hv. 4. landsk. þm. (GJóh) sem minni hl. allshn. hefur flutt og ég er fyllilega samþykkur sem réttri afgreiðslu á þessu máli frá hv. deild.

Ég tók eftir því, að frsm. meiri hl., hv. 1. þm. Árn. (JörB), hugsaði auðsjáanlega sem svo með sinni ræðu, að fæst orð hefðu minnsta ábyrgð og það væri bezt að koma helzt hvergi nærri slíku máli sem þessu, þó svo að einhver yrði náttúrlega að taka þann kross á sig að vera flm. málsins úr nefndinni, fyrst hún á annað borð afgreiddi það. Mér sýnist það ætli að fara um meðferð þessa máls hér í d. svipað og með Kópavogsmálin í fyrra. Engir þingmenn nema þeir, sem einhverra formsatriða vegna, svo sem nefndarframsögu, neyðast til þess að tala með málinu, tala með því, og þegar þeir þannig neyðast til þess, þá tala þeir eins stutt og með nokkru móti verður af komizt. Það er rétt eins og þeim finnist, að hvert tungutak um þetta mál óhreinki menn, eins og ef menn hefðu þurft annars að snerta á því með fingrum. Og ráðherrarnir virðast ætla að hafa nokkurn veginn sama hátt af eðlilegum ástæðum, að reyna ekki að verja málið, forða sér burt, þegar farið verður að ræða það, og hæstv. forsrh., sá sem var potturinn og pannan í þessu máli í fyrra, hefur yfirleitt ekki enn þá haft sig til þess að vera viðstaddur eða taka til máls, þegar þetta mál hefur verið rætt. Það má þó hæstv. félmrh. eiga, að hann hefur haft hugrekki fram að þessu til þess að tala í málinu.

Nú verð ég að segja það eftir þá tilraun, sem hæstv. félmrh. gerði við 1. umr. þessa máls til að reyna að verja þetta mál og reyna að standa á því fastar en fótunum, að svona mundi hann haga sér aftur og það hefði verið rétt, sem hann gerði, að ég verð að undrast þá till., sem meiri hl. hérna leggur fyrir, og undrast þann skort á rökvísi og fyrirhyggju, sem stjórnarflokkarnir sýna í þessu máli.

Hver var afstaða hæstv. félmrh. um þetta mál? Jú, hann lýsti því yfir, að þetta, sem gert var með brbl., væri rétt og sjálfsagt og hann mundi gera þetta aftur, hvenær sem væri. Hvað sagði hann með þessum orðum? Hann sagði það, að svo framarlega sem fjölgaði í einhverju kjördæmi á Íslandi um allt að 20% á milli þess að kosningar færu fram, þá væri sjálfsagt, að í slíku kjördæmi færu kosningar fram eftir öðrum kosningalögum en þeim, sem almennt giltu. Ég skil ekki, að þetta hafi frá hálfu hæstv. félmrh. bara átt að gilda um Kópavog á þessu kjörtímabili, sem nú er að líða, og ekki neitt annað kjördæmi í landinu. Hann tók einmitt fram, að þetta ætti að gilda um önnur kjördæmi í landinu. Má ég þá spyrja: Hví leggur ekki stjórnarliðið í n. hér fyrir brtt. viðvíkjandi kosningalögunum um, að þeim skuli breytt þannig, að þar komi inn ákvæði, sem hljóði eitthvað á þessa leið: Nú fjölgar um a.m.k. 15% kjósendur í ákveðnu kjördæmi á ákveðnum tíma, og skal þá kosning í viðkomandi kjördæmi fara fram á þann hátt, að til grundvallar kjörskrá leggist manntal frá þessum og þessum degi og taki gildi þetta og þetta fyrr en í öðrum kjördæmum? Hvernig stendur á því, ef hæstv. félmrh. ætlar að standa á sinni yfirlýsingu, að hér er ekki lögð fram tillaga um að breyta kosningalögunum um þetta? Er kannske meiningin sú, að það eigi því aðelns að breyta kosningalögunum næst, að það „passi í kramið“ fyrir stjórnarflokkana? Á að haga kosningalögunum eftir því, hvað stjórnarflokkarnir á hverjum tíma telja sér vænlegra? Ég vil alvarlega skora á meiri hl. hér á Alþingi, ef hann hyggst fara að feta í fótspor þessara brbl., að breyta þá kosningalögunum í samræmi við það og sýna það hér á Alþingi til þess að skilja það ekki enn einu sinni eftir í höndum ríkisstj. að eiga með brbl. að breyta kosningalögum í einstökum kjördæmum eða kjördæmum almennt, hvenær sem henni þóknast. Og ég vil benda á, eins og hv. minni hl. tekur greinilega fram í sínu áliti, að nú er sú gamla kjörskrá í gildi í Kópavogi. Þessi brbl. snerta aðeins kosningar, sem fram fóru 2. okt. Ef nú af einhverjum ástæðum yrði þannig ósamkomulag í Kópavogi á morgun, að það ætti að kjósa núna strax aftur, þá mundi sú gamla kjörskrá gilda. Ef sú von stjórnarflokkanna, að það yrðu helzt alltaf tvísvar á ári kosningar í Kópavogi, ætti að rætast líka á þessu ári, þá þýddi það, að það yrði að kjósa núna. Og eftir hvaða kjörskrá ætti þá að kjósa? Væri þá meiningin hjá félmrh. að koma aftur með nýtt frv. hér á Alþingi, af því að nú væri ekki hægt að gefa út brbl., af því að þing situr, og setja það hér í gegn? Af hverju gengur hann þannig frá þessu máli, að það gildir ekki núna sú kjörskrá, sem gilti 2. okt. og honum fannst réttlát þá og meiri hluti Alþ. núna virðist ætla að leggja blessun sína á? Af hverju breytir þessi meiri hl. ekki þeim ákvörðunum, þannig að nú í dag, 5. des., og þá daga, sem í hönd fara, gildi þeirra réttláta kjörskrá í Kópavogi? Hvers konar skrípaleikur er þetta? Ef mennirnir álíta þetta réttlæti, sem þeir eru að samþykkja með þessu, hví láta þeir ekki þeirra réttlæti halda áfram? Eða er það af því, að þeir eru undir niðri öruggir um, að það var ranglæti og ofbeldi, sem þeir voru með, og vilja sem minnst þurfa um það að tala og sem fyrirhafnarminnst sleppa frá því að samþykkja það, að þeir vilja ekki ræða málið meir? Ég vil aðeins mínna á: Fyrst var því lýst yfir af forsrh. í fyrra, að opinber atkvgr., opinber, skrifleg atkvæðagreiðsla, væri heppilegasta aðferð fyrir kjósendur að láta í ljós sinn vilja. Það var boðskapur þess mikla lýðræðisflokks, Sjálfstæðisflokksins, um hans stefnu í stjórnarskrármálum Íslendinga, þó að það hafi láðst að flytja það sem brtt. í sambandi við endurskoðun stjórnarskrárinnar, að héðan af skyldu vera opinberar kosningar á Íslandi, þannig að hver maður væri yfirheyrður, um leið og hann kæmi inn, og látinn segja upphátt, hvernig hann ætlaði að kjósa, og að við hliðina á frambjóðendunum sætu fulltrúarnir í helmingaskiptanefndunum með húsnæðislánin, lóðaúthlutunina og önnur slík fríðindi reiðubúin, ef menn kysu rétt, og brott tekin frá mönnum, ef þeir kysu rangt.

Hæstv. forsrh. hefur ekki sýnt sig við umræðurnar um Kópavogsmálið nú á Alþ. eftir þá útreið, sem hans hugmyndir um opinbera atkvæðagreiðslu fengu hjá Kópavogsbúum. Hæstv. félmrh. hefur hins vegar ekki sýnt sig í því að láta meiri hl. sinn í allshn. ganga þannig frá kosningal., að hans réttlæti hlotnaðist nú einnig öðrum mönnum á Íslandi en Kópavogsbúum í framtíðinni. Það virðist eiga að hlaupa frá þessu öllu saman með sömu smáninni og allt þetta mál, Kópavogsmálið, varð fyrir Alþ. og ríkisstj. í fyrra.

En hitt vil ég að síðustu minna hv. þm. á, að þeir ættu að sjá sóma sinn í því að standa vörð um rétt kjósenda og rétt alþm. gagnvart ríkisstj.; það er réttur kjósendanna og réttur þingmanna, sem þarna er í veði, ef ein ríkisstj., hver svo sem hún er, getur með brbl. breytt kosningaaðferðum í einstökum kjördæmum eða jafnvel í kjördæmunum í heild, getur með brbl. milli kosninga svipt ákveðna kjósendur kosningarrétti. Ég vil minna á það, að með brbl. viðvíkjandi bæjarstjórnarkosningum í Kópavogi voru svo og svo margir kjósendur, sem verið höfðu á kjörskrá í Kópavogshreppi, sviptir kosningarrétti. Þeir, sem höfðu flutzt burt, en hefðu haldið sínum kosningarrétti samkv. almennum kosningalögum, voru sviptir þessum kosningarrétti. En mennirnir, sem fluttu burt fyrir mörgum mánuðum úr Kópavogi og fengu ekki að kjósa 2. okt., hafa kosningarrétt í Kópavogi í dag, af því að þessi lög eru fallin úr gildi, en þeir mundu ekki hafa fengið að kjósa neins staðar annars staðar, ef það hefðu verið kosningar annars staðar, um leið og kosningarnar voru í Kópavogi. Ef svona aðferðum væri beitt í sambandi við þingkosningar með sérstökum kosningalögum, eins og ég var að nefna dæmi um t.d. viðvíkjandi V.- Ísafjarðarsýslu eða einhverju þannig, þá væri hægt að svipta ákveðna menn, sem þar hefðu verið, kosningarrétti þar, hægt að fá öðrum mönnum, sem þangað væru nýfluttir, kosningarrétt þar og hafa þannig áhrif á, að samsetningur kjósendanna væri allt öðruvísi en ætlazt var til samkvæmt þeim almennu kosningalögum.

Kópavogsbúar veittu ríkisstj. alvarlega áminningu út af hennar framferði með kosningunum, sem fram fóru 2. okt. í Kópavogi. Ég held, að alþm. ættu að veita ríkisstj. alvarlega áminningu fyrir hennar framferði. Ríkisstj. bar vissulega að leggja þessi brbl. fyrir Alþ. En alþm. ber líka að sjá um, að sú ríkisstj., sem misnotar vald sitt til brbl. á þann hátt, sem þessi ríkisstj. hefur gert, fái áminningu fyrir. Þess vegna er það skylda Alþ. að veita þessum lögum þá meðferð eina, sem virðingu þess er samboðin, og það er að samþ. þá rökstuddu dagskrá, sem minni hl. allshn., hv. 4. landsk. þm., hefur lagt til að samþ. yrði.