24.10.1955
Neðri deild: 9. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í C-deild Alþingistíðinda. (1580)

18. mál, meðferð einkamála í héraði

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, voru á árinu 1936 sett heildarlög um meðferð einkamála í héraði, og voru þau mikil bót á sínum tíma frá því, sem verið hafði, því að þá hafði um nokkrar aldir verið hér mjög á reiki um setningu löggjafar um þessi efni, sumpart stuðzt við norsku lög Kristjáns 5. og þó vafi á um ýmis ákvæði þeirra, hver í gildi væru, og síðan tilskipanir gamlar ýmsar og viðbætur við þær frá síðari tímum, allt í brotum og orðið úrelt, eins og von var.

Það var því mikið og gott verk, þegar þáverandi ríkisstj. beitti sér fyrir því, að ný lög um meðferð einkamála væru sett, og var aðalhöfundur þeirrar löggjafar Einar Arnórsson dr. juris, þáverandi hæstaréttardómari.

Nú eru nærri liðin 20 ár síðan þessi réttarbót fékkst, og er það ekki nema að vonum, þar sem þarna var að víssu leyti um íslenzka frumsmíð að ræða, að upp hafi komið, að ýmsir gallar reyndust á og að leiðrétta hefur þurft eftir því; sem reynsla hefur sagt til um. Þess vegna var það, að á árinu 1952 skipaði ég þá Einar Arnórsson, Gizur Bergsteinsson og Jónatan Hallvarðsson í nefnd til þess að endurskoða þessa löggjöf, og síðan skipaði ég til viðbótar Theódór B. Líndal, þá hæstaréttarlögmann, einnig í þessa nefnd, og var það samkvæmt sérstökum óskum málflutningsmanna eða lögmanna, því að þeir töldu til bóta, að fulltrúi þeirra starfaði einnig að endurskoðuninni.

Þessir menn hafa síðan sinnt þessu starfi að meira eða minna leyti, en þó er þess að geta, að Einar Arnórsson hvarf skjótlega frá, því, hann tók þátt einungis í endurskoðun 1. kafla frv. eða fyrstu greinanna, en hirti síðan ekki um að gefa sig lengur að þessum störfum.

Á s.l. vetri fékk dómsmálaráðuneytið svo frv. frá þeim, sem eftir voru í n., þeim Gizuri Bergsteinssyni, Jónatan Hallvarðssyni og Theódór Líndal, sem nú er orðinn prófessor, eins og vitað er, og hefur málið verið allrækilega athugað í rn. og síðan rætt við nefndarmenn, og árangur þess starfs er sá mikli lagabálkur, sem hér liggur nú fyrir í 302 greinum.

Tel ég sízt ofmælt, þótt sagt sé, að þar sé um mjög mikið og gott verk að ræða, sem þakka ber öllum þessum nefndarmönnum að hafa unnið að, en þá ekki sízt Gizuri Bergsteinssyni, núverandi hæstaréttarforseta, sem þarna hefur haft forustuna, þó að hinir hafi vissulega unnið með honum að þessu mikla verki.

Í þessum mikla lagabálki, sem nú er lagður fyrir hv. Alþingi, felast mörg nýmæli, og er ekki hægt hér að gera grein fyrir öllum þeirra. Mörg þeirra eru algerlega lögfræðilegs eðlis og tekur því ekki að rekja öll þau atriði hér, þó að þau einnig hafi verulega þýðingu fyrir allan almenning, þar sem þau verka á úrlausn og meðferð mála, en eru þó svo sérfræðilegs eðlis, að ég tel þýðingarlaust að rekja þau hér í einstökum efnum.

Önnur atriði frv. eru frekar þess eðlis, að líklegt er, að almenningur láti þau til sín taka, og mun ég sérstaklega reyna að rekja þau í þeim orðum, sem ég segi.

Fyrsta meginbreyting frv. er sú, að lagt er til, að sáttanefndir séu lagðar niður og þær lögskipuðu sáttatilraunir, sem sáttanefndir og á síðari árum einnig dómarar hafa átt að gera. Sáttanefndir voru fyrst settar hér seint á 18. öld og hafa tíðkazt síðan og oft verið taldar vinna þarflegt verk. En það er sameiginlegt álit þeirra, sem þetta frv. hafa undirbúið, og dómsmrn., að eins og nú sé komið, séu sáttanefndirnar orðnar úreltar og þýðingarlaust að hafa þær.

Reynslan er sú, og fer í vöxt, að mál eru oft höfðuð án þess, að þau séu nægilega undirbúin, og það er ekki fyrr en langt er komið málsókninni, sem aðilar í raun og veru hafa gert sér fulla grein fyrir því, hvers eðlis málstaður þeirra er og hvort hann hefur verulegar líkur til þess að sigra, þegar til dóms kemur. En reglan hefur hins vegar verið sú, eins og ég segi, að áður en efnismeðferð málsins hefst, hefur átt að gera sáttatilraun, þ.e.a.s. á því stigi málsins, þegar hugurinn um málsókn er oft einna mestur í málsaðilum og áður en málið er búið að fá þá meðferð, að þeir hafi til hlítar gert sér grein fyrir öllum aðstæðum. Ef sáttatilraunin hefur ekki farið fram eða á hefur bjátað um hana, leiðir það aftur á móti til þess eftir gildandi lögum, að síðari málsmeðferð ónýtist, og veldur það aðilum oft kostnaði og töfum. Það hefur því verið talið vænlegra, bæði til raunverulegra sátta og til þess að draga úr óþörfum málsóknum, að breyta hér til, að gera miklu ríkari kröfur en áður til þess, að mál sé sæmilega undirbúið, áður en það er höfðað eða lagt fyrir dóminn, sem kemur fram í því, að stefnan á að vera mun ýtarlegri en hún hefur verið. Það á að rekja gang málsins í meginatriðum og stefnandi einnig að hafa gert sér grein fyrir helztu sönnunargögnum, sem hann ætlar að leggja fram. Og með tilsvarandi hætti er ætlazt til þess, að verjandi sé skjótlega við því búinn að leggja fram skýrslu um viðhorf málsins af sinni hálfu.

Með þessu er það von manna, að komið verði í veg fyrir málsóknir, nema því aðeins að aðill hafi gert sér raunverulega grein fyrir bæði, eins og ég sagði, hvers eðlis kröfur hans eru og hvaða líkur hann hefur til þess að færa sannanir fyrir sínu máli.

Ef aðili neyðist til þess að gera þetta strax í upphafi málsóknar, þá er óþarft um leið að láta hann leggja málið til sátta, vegna þess að hann á þá sjálfur að vera búinn að mynda sér skoðun, eftir atvikum með aðstoð lögmanns síns um það, hvort hann telji málið líklegt til framgangs eða ekki. Hins vegar er svo til ætlazt, að dómari geti, — honum sé það ekki skylt, en hann geti á hvaða stigi málsins sem er leitað sátta með aðilum og eftir atvikum skipað til þess sérstaka menn, og það er skoðun þeirra þrautreyndu manna, sem um þessi efni hafa fjallað við samningu frv., og er sérstök ástæða til að taka fram, að Einar Arnórsson átti einnig þátt í þeirri till., að þessi aðferð muni sízt gera sættir óvænlegri en áður, þó að sáttanefndirnar séu lagðar niður, heldur muni þetta horfa til þess, að málin öll verði betur undirbúin, og þar með líklegt. að dómara geti, annaðhvort einum eða með milligöngu þeirra, sem hann kveður til, fremur en áður tekizt að koma á sáttum, þegar hann gerir það á því stigi, er hann telur líklegast til verulegs árangurs.

Þessi breyting, sem ég hef nú nefnt, er ein af aðalbreytingum frv., að leggja sáttanefndirnar niður og hverfa frá skyldunni til sáttaumleitana, þó að heimild til dómara í þeim efnum eigi að haldast, en í stað þessa komi krafa um mun rækilegri málsundirbúning aðila strax frá upphafi en verið hefur. Því er ekki að leyna, að málsóknir hafa farið mjög í vöxt hér undanfarið, og sést af því, að sáttakerfið sem slíkt hefur ekki haft tilætluð áhrif til að draga úr málsóknum, og eins það, að málin hafa ekki verið nógu vel undirbúin. Það er meira að segja oft svo, að dómarar hafa orðið, um það bil sem átti að taka málið upp til dóms, að krefjast frekari upplýsinga, vegna þess að undirbúningur var allsendis ófullnægjandi og aðilar og málflytjendur viðast um of hafa byggt á því, að dómendur mundu af eigin hvötum krefjast upplýsinga um það, sem þeir töldu máli skipta.

Slíkt torveldar hins vegar mjög meðferð málsins og hlýtur að seinka henni, um leið og það ýtir undir óþarfar og vonlausar málsóknir, enda er komið svo, að t.d. hæstiréttur er nærri því keyrður í kaf af of miklum störfum, það er svo mörgum málum áfrýjað til hans, að vafasamt er, ef ekki verður að gert, að þeir menn, sem þar sitja, geti lengur annað öllum þeim málum, sem þeir eiga að dæma, og er slíkt vissulega ótrúlegt í ekki stærra þjóðfélagi en okkar, en það verður ekki um villzt, þegar litið er á þann mikla málafjölda, sem dómararnir þurfa nú að fjalla um. En frv. er ætlað ekki sízt að reyna að greiða fyrir því að draga úr og hindra þessar þýðingarlausu og vonlausu málsóknir.

Af einstökum atriðum umfram þetta er ef til vill sérstök ástæða til að geta þess, að ætlazt er til, að héraðsdómurum sé veitt heimild, rýmri en áður, til þess að kveðja samdómendur í vandasömum málum og málum, þar sem sérkunnáttu þykir sérstök þörf. Heimild nokkuð svipuð hefur verið veitt nú þegar um opinber mál, og sýnist ástæða til þess að veita ekki þrengri, heldur jafnvel rýmri heimild, einnig um einkamálin.

Þá er einnig dómara veitt heimild til að halda dómþing í máli, er undir hann ber, hvar sem er á landinu, enda þyki það nagkvæmt vegna öflunar gagna, málflutnings og dómsuppsögu. Er hér sem sagt um þá nýjung að ræða, að þá er hugsanlegt, að dómari geti farið út fyrir sitt lögsagnarumdæmi og haldið þar dómþing í máli, en þó því aðeins, að málið hafi upphaflega verið réttilega lagt fyrir hann, en ekki þann dómara; sem að venju hefur lögsögu í því þingi, sem dómþingið á að halda í. Þá er ætlazt til þess, að dómarafulltrúar hér í Rvík og raunar við hin stærri dómaraembætti fáí heimild til þess að vinna algerlega á sjálfs sín ábyrgð, og er það vegna þess, að yfirmönnum þeirra reynist með þeim málafjölda, sem hér er um að ræða, ómögulegt að fylgjast með þeim og þar af leiðandi óeðlilegt, að þeir eigi að bera ábyrgð á verkum þessara undirmanna sinna.

Þá eru sett sérstök fyrirmæli um það, að ef víkja á dómara úr starfi, þá megi ekki gera það nema með dómi, og um slíkt mál á að fjalla sérstakur starfsdómur, sem svo er nefndur, þ.e.a.s. dómur, sem á að vera skipaður einum kennara í lagadeildinni, þeim elzta, og tveimur dómurum tilnefndum af dómsmrh., tíu ár í senn, að því er ég hygg, en þeir eiga ekki að fá þóknun fyrir dómsetu nema miðað við hvert mál, sem þeir fjalla um. Það þykir eðlilegra, að slíkur fjölskipaður dómur fjalli um mál, þar sem um er að ræða hliðsetta embættisdómendur, enda eru fordæmi fyrir slíku annars staðar að.

Smávægileg breyting er það og mundi horfa til sparnaðar, að ætlazt er til, að héðan í frá dugi einn þingvottur í stað tveggja áður.

Þá er gerð sú breyting, að umdæmi hvers héraðsdómara á að verða ein og sama dómþinghá, í stað þess, að nú er þeim skipt í margar smærri þinghár, eins og kunnugt er, en þó á dómsmrh. að vera heimilt eftir till. héraðsdómara að skipta einni þinghá í fleiri.

Þú eru ákvæði um það, að heimilt á að vera að leita lögregluaðstoðar, ef því er að skipta, til þess að hafa upp á stefndum manni, sem m.a. kemur af því, að í fjölbýlinu verður erfiðara að finna þá, sem stefnt er, heldur en meðan flestir menn bjuggu úti um sveitir, þar sem tiltölulega fámennt var á hverjum stað.

Þá er tekið berum orðum fram í 8. kafla laganna, að dómari skeri úr því hverju sinni eftir mati á þeim gögnum, sem hafa komið í dómsmáli, hvaða atvik skuli sönnuð, enda bindi einstök lagafyrirmæli hann ekki um mat í þeim efnum, og eru sönnunarreglurnar mótaðar eftir þessari meginreglu, sem raunar hefur gilt áður, þó að ekki væri gætt fulls samræmis um að fella þá úr gildi eldri reglur, er kynnu að benda til frekari bindingar í þessu en tilætlunin var að gilti.

Þá á að reyna að eyða þeim sið, sem mjög hefur tíðkazt hér, að menn hafa verið fengnir til að skrifa undir vottorð utan réttar og síðan komið fyrir dóm og staðfest þar vottorðin. Þetta er ekki heppilegt, vegna þess að með því er í raun og veru búið að binda vitni nokkuð fyrir fram og síður líkur til þess, að hið sanna komi í ljós. Þess vegna er meiningin, að slík vottorð á yfirleitt ekki að taka gild, heldur eiga vitnin að vera spurð sjálfstætt um málið, þegar þau koma fyrir dóm.

Þá er mjög aukið á skyldu vitna til þess að mæta á fjarlægum stöðum frá því, sem verið hefur, þannig að jafnvel er heimilað að kveðja mann, sem háður er lögsögu íslenzka ríkisins og dvelur í útlöndum, hingað til lands til vitnisburðar, og er það algert nýmæli. Og eins eru mun lengri vegalengdir innanlands, sem vitni er skylt að fara til að bera vitni, heldur en áður hefur verið, en að vísu á að tryggja manninum greiðslu á þeim kostnaði, sem verður við þessi ferðalög. Þessi ákvæði eru eðlileg, bæði vegna þess að ferðalög eru nú mun auðveldari en áður hefur verið og eins hins, að menn gera sér æ betur ljóst, að æskilegt er, að dómari sjálfs aðalmálsins fjalli sem mest um það og yfirheyri þar með vitni, ef við verður komið, en þurfi ekki að hlíta skriflegri frásögn um vitnisburð, sem kann að vera rétt í öllum atriðum, en gefur þó aldrei eins lífandi mynd af því, sem gerzt hefur, eða skapar sömu skilyrði til þess að gera sér grein fyrir trúverðugleik vitnis og ef vitni er sjálft leitt fyrir sjálfan dómarann, sem að lokum á að dæma um þess trúverðugleika.

Þá hefur það tíðkazt hér á landi frá fornu fari, að mál væru látin vera komin undir aðildareiði, þ.e.a.s., að dómurinn er að því leyti ekki lokaorðið, að hann segir, að málið skuli annaðhvort falla á þennan veg eða hinn eftir því, hvort sá aðili, sem dómstóllinn tiltekur, fæst til þess að vinna eið fyrir dómi að einhverju tilteknu atriði, sem málið á að vera undir komið og tiltekið er í dómnum. Þetta þykir vera ótryggt, og hæstiréttur hefur nú um nokkuð langt árabil aldrei látið mál vera komið undir slíkum aðildareiði, nema einungis í barnsfaðernismálum, þar sem það getur verið bein lagaskylda eftir núgildandi ákvæðum. Og í samræmi við þann hátt, sem hæstiréttur hefur tekið upp og er aftur í samræmi við gildandi eða ríkjandi skoðanir í réttarfarsfræðum, er nú ráðgert að fella niður heimild til þess að láta mál velta á aðildareiði, þ.e.a.s. í þessu frv. er það fellt niður. Enn standa þrátt fyrir gildistöku þessa frv., þó að það nái fram að ganga, lögin um barnsfaðernismál, en þau þarf að endurskoða strax og sýnt er, hvort þetta frv, nær fram að ganga eða ekki, en þar koma einnig fleiri vafaatriði til, og okkur sýndist ekki tímabært að leggja frv. um það og nokkur önnur atriði fyrir hv. Alþ. fyrr en í ljós kæmi, hvaða byr þetta frv. fengi.

Hins vegar er svo ætlazt til þess, að aðili verði kvaddur fyrir rétt og gefi þar skýrslu að viðlögðum drengskap um málið, en þá fer það eftir mati dómara á þessu atriði eins og um önnur sönnunargögn, hversu mikils sú skýrsla verður metin, þannig að málið veltur aldrei formlega á henni einni, þó að dómara geti hins vegar virzt sú skýrsla svo sennileg, að hún ráði í hans huga úrslitum málsins.

Í 13. kafla frv. eru sett fyrirmæli um öflun sönnunargagna til tryggingar, þ.e.a.s., þó að ekki sé komið til málsóknar eða hún sé fyrirsjáanleg, þá getur stundum staðið þannig á, að aðil?. hafi beinna hagsmuna að gæta að afla vissra sönnunargagna, og er veitt heimild til þess samkv. þessum ákvæðum, og er það nýmæli hér á landi.

Ég minntist á það áður varðandi málsmeðferðina, að sáttatilraunin á að falla niður fyrir sáttanefnd og skylda dómara til að annast um sættir, en í þess stað á stefnan að verða miklu ýtarlegri en verið hefur. Síðan er ráðgert að eigi sér stað eins konar frumflutningur málsins, þar sem á að undirbúa sjálfan aðalflutninginn, sem er munnlegur, og greinist málflutningurinn með þessum hætti í þennan frumflutning og aðalflutning. Þar er þess einnig að geta, að dómara á að vera heimílt að krefjast skriflegrar skýrslu frá aðilum til undirbúnings hinum munnlega aðalflutningi málsins. Mér er það ljóst, að viss hætta kann að vera í því, að þessi skriflega skýrslugerð komi að mestu leyti í stað munnlega málflutningsins, þannig að horfið yrði aftur að skriflegum málflutningi, sem tíðkanlegur var áður en lögin frá 1936 gengu í gildi, og einn aðalvinningurinn við þá lagasetningu var talinn vera að eyða skriflega málflutningnum. Með því fyrirkomulagi, sem nú er stungið upp á, kann sem sagt, ef ekki verður vel að gætt, að skapast sú hætta, að um of verði aftur horfið til skriflegs málflutnings. En vonandi verða dómstólarnir hér á verði og hindra það, því að öllum ber saman um, að munnlegur málflutningur, þó að hann geri meiri kröfur til málflytjenda og dómara, sé miklu líklegri til réttra og skjótra málsúrslita en skriflegur málflutningur. En þessi krafa um skriflega skýrslu af hálfu aðila er gerð vegna þess, að komið hefur á daginn, eins og ég gat um fyrr, að málflytjendur hafa oft ekki undirbúið mál nógu vel, áður en til munnlegs málflutnings hefur komið, þannig að hinum munnlega málflutningi hefur orðið að fresta um langan tíma oft til þess að afla gagna, og þannig hefur mikill tími og erfiði farið til einskis, og það er til þess að tryggja það, að málið sé orðið hæft til munnlegs málflutnings, sem dómara er fenginn réttur til að áskilja slíka skriflega skýrslugerð. Um þetta eins og fleira fer auðvitað algerlega eftir því, hvernig á verður haldið, en ég játa, að þó að mér sé ljóst, að þetta atriði sé ef til vill, ef það heppnast, eitt af þýðingarmestu ákvæðum frv., þá kann líka svo að fara, að þetta atriði verði til misnotkunar, ef slöpp framkvæmd verður, og til að skapa óþarfan drátt og málalengingar frá því, sem til er ætlazt. Hér ríður því mikið á, að málflytjendur og dómarar undir yfirumsjá hæstaréttar haldi rétt á. Og ef illa fer, þá má búast við því, að þetta atriði kunni að gefa tilefni til endurskoðunar frv. eða laganna, áður en langt um líður, en við skulum vona, að til þess komi ekki, heldur reynist þeir hafa rétt fyrir sér, sem bjartsýnir eru um, að þetta ákvæði leiði til góðs, og ég játa, að svo getur vissulega farið.

Þá er þess að geta, að mjög hefur á því borið eftir setningu laganna 1936, að mál hafa verið tafin með því að kæra einstök atriði þeirra til hæstaréttar. Það er rúm heimíld að skjóta úrskurðum dómara um einstök atriði til hæstaréttar, t.d. því atriði, hvort veita elgi frest. Ef dómari synjar um frest, þá var 1936 sköpuð heimild til þess, að þann úrskurð mætti kæra til hæstaréttar, og það varð þá til þess, að málið frestaðist á meðan. Með þessu hefur í raun og veru verið farið í kringum synjunina á frestinum, málið verið dregið á langinn og mörg óþörf smáatriði verið lögð fyrir hæstarétt, sem hafa ekki aðeins orðið til tafar hinum einstöku málum, heldur um of tekið upp tíma hæstaréttar frá þarflegri störfum. Hér er því lagt blátt bann við því, svipað og áður var, að kæra úrskurð um synjun á fresti, auk þess sem takmörkuð er að öðru leyti heimildin til kæru á einstökum atriðum, þó að ekki sé hún alveg felld niður.

Þá er veitt ríkari heimild en áður til þess að fullnægja hér dómum og byggja á dómum, sem kveðnir eru upp í öðrum ríkjum. Svipuð heimild hefur nú um alllangt bil verið í gildi samkvæmt sérstökum samningum og lögum milli Norðurlandanna fimm, en eðlilegt sýnist að viðurkenna einnig dóma, sem kveðnir eru upp í öðrum ríkjum, er hafa tilsvarandi réttarfar og menningu, og er opnuð leið til þess samkvæmt 20. kafla frv.

Þá er einnig opnuð leið til þess að heimila endurupptöku mála, sem endanlegur dómur hefur verið kveðinn upp í í héraði. Slík heimild hefur verið til varðandi hæstarétt og hefur verið notuð með heimíld í lögjöfnun varðandi héraðsdóma í einstöku tilfellum, en bein lagaheimild hefur ekki verið fyrir hendi. en talin er þörf á því, að slík heimild fáist, og er hún veitt í 21. kafla frv.

Ég hef þá í stuttu máli reynt að gera grein fyrir þeim helztu breytingum, sem í þessum lagabálki felast og líklegt er að almenna þýðingu hafi. Hins vegar eru, eins og ég sagði, fjöldamargar breytingar um hrein lögfræðileg efni, sem ég tel þýðingarlaust að rekja hér, en hv. n. athugar eftir því, sem hún telur efni standa til.

Ef þetta frv. nær fram að ganga, þá þarf að setja lög um nokkur önnur efni. það sem kallað er afbrigðileg meðferð einkamála, breyta þeim sérlögum, sem í þeim efnum gilda, og þeim köflum, sem eru nú í almennu réttarfarslögunum um þau efni. Við töldum ekki rétt eða ástæðu til að leggja þau frv. fram samhliða þessu, heldur mundi það verða gert skjótlega eftir að þetta frv. næði fram að ganga eða þegar sýnt er, að það muni ná fram að ganga, eftir því sem tími vinnst til.

Þá er þess einnig að geta, að brýn nauðsyn er talin til þess, að réttarfarsreglurnar um hæstarétt, hæstaréttarlögin, verði einnig endurskoðuð. Þau eru nú búin að standa í gildi allt frá því hæstiréttur var fluttur inn í landið, sett 1919, og aukin reynsla og breyttir hættir hafa auðvitað gefið ríkt tilefni til endurskoðunar á þeim, og geri ég ráð fyrir og hefur dómsmrn. reyndar nú þegar hlutazt til um, að endurskoðun á þeim lögum verði hafin áður en langt um líður.

Að svo mæltu vonast ég til, að frv. verði vísað til 2. umr., og legg til, að það fari til athugunar hjá hv. allshn. deildarinnar.