23.03.1956
Neðri deild: 92. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í C-deild Alþingistíðinda. (1585)

18. mál, meðferð einkamála í héraði

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þetta frv. er, eins og öllum þm. er ljóst, mjög mikill lagabálkur og fjallar um mál, sem raunverulega er fyrst og fremst fyrir sérfræðinga að fjalla um, þar sem er meðferð einkamála í héraði. Það hefur verið vaninn hingað til á þingi, þegar svona stórir og miklir lagabálkar, sem varða eins mikið réttindi manna og réttarfar í landinu, hafa verið lagðir fram, að þeir hafa ekki verið afgreiddir á fyrsta þingi, sem þeir hafa legið fyrir, og um stóra lagabálka, sem núverandi hæstv. dómsmrh. hefur lagt fram, og hann hefur lagt fram allmarga lagabálka í sinni tíð, hefur hann venjulega getið þess, að hann óski ekki sérstaklega eftir því að fá það mál fram undirelns á því þingi, þannig að mönnum gæfist betri kostur til þess að athuga það.

Ég álít, að þessu máli sé þannig háttað, þar sem verið er að breyta að ýmsu leyti réttarvenjum, sem staðið hafa síðustu 20 ár, að ekki sé rétt að afgreiða þetta mál á þessu þingi, og ég vildi, ef hæstv. dómsmrh. hefði verið viðstaddur, beina þeirri ósk til hans, að þessu máli væri ekki fram haldið.

Ég sé það, að hv. n. hefur líka raunverulega verið á þeirri skoðun, að þetta mál þyrfti að fá nokkru lengri athugun, því að hún gerir þá brtt. við þessi lög, að þau skuli ekki öðlast gildi fyrr en 1. júlí 1957, m.ö.o., að þessi lög skuli ekki öðlast gildi fyrr en eftir að það Alþingi, sem á að koma saman í síðasta lagi í haust, í október, hafi starfað og lokið störfum. Ég sé ekki ástæðu til þess að taka þannig fram fyrir hendur þess komandi Alþingis um lög, sem eiga fyrst að öðlast gildi eftir að það hefur starfað.

Hv. n. gerir þessa brtt. sína út frá því sjónarmiði, að lögmenn og dómarar þurfi að kynna sér þennan nýja lagabálk, og það er alveg réttilega hugsað. En ef nú lögmenn og dómarar, sem hafa þó þægilegasta aðstöðu til þess að kynna sér þetta, þurfa meira en heilt ár til þess að kynna sér þetta, hvað þá um almenning, sem ekki hefur haft nein tækifæri til þess að kynna sér þetta eða leggja neinn dóm þarna á? Er ekki eðlilegt, að almenningur og hans fulltrúar á Alþingi fái tækifæri til þess til næsta þings að kynna sér þetta mál?

Það er alveg réttilega hugsað hjá hv. n., að þetta er það erfitt, það margbrotið og það flókið mál, að meira að segja lögmenn og dómarar þurfa að hafa eitt ár til þess að kynna sér þetta, áður en það komi til framkvæmda, og þeir mundu vissulega, þar sem vafalaust yrði þá Þessi lagabálkur í aðalatriðum samþykktur eins og hann er, hafa tækifæri til þess að kynna sér þetta frv., þó að það yrði ekki afgreitt nú. Ég álít þess vegna, að það væri mjög heppilegt, að almenningur fengi líka þetta sama tækifæri og málið væri ekki afgreitt nú.

Viðvíkjandi þeim einstöku breytingum, sem þarna eru gerðar, — og efast ég ekki um, að margar þeirra séu til bóta, — þá er þarna ein breyting, sem ég vil vekja athygli á, að almenningur og alþm. mættu gjarnan fá tækifæri til þess að íhuga betur. Það er sú breyting gerð með þessum lögum, að það er erfiðara að höfða mál, og hæstv. dómsmrh. sagði í sinni framsögu, að þetta væri gert til þess að hindra menn í því að ráðast illa undirbúið og máske að ófyrirsynju í málshöfðanir, sem kosta þá fé, og það er náttúrlega mjög vel hugsað gagnvart almenningi. En það er annað, sem leiðir um leið af þessu. Þetta þýðir aukin völd dómara, sem á að leiðbeina þarna um og segja til um og krefjast, að stefnuyfirlýsing sé mjög nákvæm, og aukin afskipti lögfræðinga.

Ég efast um, að þetta sé að öllu leyti rétt, a.m.k. mundi ég ákaflega gjarnan vilja hafa meiri tækifæri en við þegar höfum haft til að athuga þetta mál og ræða það við bæði ólögfróða menn og aðra, og spurningin, sem þarna liggur fyrir, er þessi: Hvernig hagar fyrir mönnum um að leita réttar síns? Það er vafalaust ekki tilgangurinn með þessu að gera mönnum erfiðara að leita réttar síns, en það er samt verið að gera mönnum erfiðara að fara í mál. Hins vegar hlýtur þjóðfélagið að miða við það að reyna að gera mönnum auðveldara að ná rétti sínum.

Ég verð að segja, að ef t.d. hefði verið sett upp sú stofnun í sambandi við þetta, að það fólk, sem þyrfti að fara í mál, gæti fengið ókeypis upplýsingar hjá lögfróðum mönnum um slíkt áður, þá mundi líta þó nokkuð öðruvísi út um að gera allríkar kröfur til manna um, að stefna væri vel undirbúin. Nú er það svo, að það er allstórt fjárhagslegt mál að leggja út í málshöfðanir, og satt að segja væri alveg jafnréttlátt af þjóðfélaginu að veita mönnum ókeypis undirbúning lögfróðra manna, sem segja þeim til um, hvort sé ráðlegt fyrir þá að fara í mál, og ráðleggja þeim af beztu samvizku um þetta, eins og ríkið nú lætur til sín taka um að ráðleggja mönnum á ýmsan hátt í sambandi við sjúkdóma og annað slíkt. Hins vegar hefur sú þróun orðið nú í þjóðfélaginu, að málshöfðanir, málsmeðferð, öll lögsókn er orðin að — ja, mér liggur við að segja verzlunarfyrirtæki. Þetta er gert að næstum því einkabraski og reynist oft mjög dýrt, og þrátt fyrir ágæti lögfræðingastéttarinnar er a.m.k. spursmál, hvort ekki þarf þar þó endurbóta við, þannig að almenningur eigi betri aðgang að því að ná til lögfróðra manna og geta náð rétti sínum án þess að stofna sér í stór fjárútlát í þessum efnum.

Ég tek eftir því, að hér hefur verið leitað umsagnar nokkurra aðila. Nokkrir þeirra aðila hafa svarað, þó ekki allir, og þó eru það bara þeir lögfróðu aðilar, sem spurðir hafa verið. Mér finnst almenningur ekki hafa þar með haft það tækifæri, sem hæstv. dómsmrh. einmitt venjulega hefur gefið, þegar lagðar eru fram svona miklir lagabálkar, sem þingmenn jafnvel sjálfir, þeir sem ekki eru beinlínis lögfræðingar, eru ef til vill ekki sérstaklega fróðir í.

Ég held, að það væri að öllu leyti heppilegast, að við fengjum tækifæri til þess að athuga þetta betur og að hv. nefnd vildi athuga það, hvort þetta mál mætti ekki fá að hvíla sig. Sérstaklega mundi ég vilja beina þeirri ósk til hæstv. dómsmrh. sökum þess, að hann hefur venjulega tekið mjög vel í það, þegar um þessa stóru lagabálka hefur verið að ræða, að láta slík mál bíða til næsta þings.

Þetta er það, sem ég vildi segja viðvíkjandi þessu máli.