23.03.1956
Neðri deild: 92. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í C-deild Alþingistíðinda. (1587)

18. mál, meðferð einkamála í héraði

Frsm. (Einar Ingimundarson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég taldi mig þurfa að segja hér í tilefni af því, sem þeir ræðumenn hafa sagt, sem hér hafa talað um þetta mál.

Hv. 4. landsk. þm. (GJóh) ræddi um það, að eðlilegra hefði verið að bíða eftir umsögn Lögmannafélags Íslands um mál þetta, en þetta frv. var, eins og ég tók fram í gær, sent til umsagnar þess aðila. Ég fellst alveg á það, að það hefði verið miklu æskilegra, að borizt hefði álit frá þessum aðila, en n. var búin að bíða svo lengi eftir umsögn þess félagsskapar, að ég a.m.k. fyrir mitt leyti taldi ekki hægt að gera það lengur. Ég man ekki betur en að málið hafi verið sent til umsagnar þess félags 3. nóv. s.l.

Þá hafa hér komið fram raddir um, hvort æskilegt væri að leggja með öllu niður sáttanefndir, þ.e.a.s. að vísa málum ekki fyrir sáttanefndir áður en stefna er gefin út í þeim. Ég vil nú ekki ræða þetta atriði mikið, en mitt álit er þó, að réttara sé að hafa þessa tilhögun á, en vil aðeins vísa til nokkurra setninga, sem þeir aðilar, sem samið hafa þetta frv., segja um þetta atriði í grg. með frv.:

„Eins og löggjöf vorri er háttað nú, getur sækjandi máls í bráðræði rokið til, gefið út sáttakæru og síðan dómstefnu, að lítt athuguðu máll. og eru málaferli, þrátt fyrir ákvæði laga um sáttir, allt of tíð um fánýt málsefni og smámuni til stórkostlegs tjóns bæði fyrir einstaklinga og þjóðfélag. Er nú svo komið, að dómstólar sjá eigi fram úr og fá eigi með viðhlítandi hraða afkastað öllum þeim aragrúa mála, sem til þeirra er stefnt, og er fjöldi dóma hér á landi orðinn eins mikill og hjá margfalt stærri þjóðum. Af þessu er auðsætt, að eigi verður ráðin bót á því ástandi, sem nú ríkir í þessum efnum, með lagningu mála til sátta fyrir sáttanefndir. Samkv. frv. er því horfið að því ráði að afnema sáttaumleitan fyrir sáttanefndum, en hins vegar er tilætlunin að reyna aðrar leiðir. Fyrsta leiðin er sú að setja hverjum þeim aðila, sem hyggst höfða mál, þau skilyrði fyrir málshöfðun, að hann rannsaki eða kynni sér rækilega málstað sjálfs sín og þau sönnunargögn, er hann getur teflt fram, áður en hann höfðar mál.“

Þetta leyfði ég mér hér að lesa upp og vil nú leita samþykkis hæstv. forseta eftir á fyrir því. Ég get engu bætt við það, sem þeir fróðu og færu menn hafa sagt um þetta atriði hér í grg. með frv., en geri mál þeirra að mínu máli hvað þetta snertir.

Bæði hv. 4. landsk. þm. og hv. 2. þm. Reykv. véku að því, hvort ekki mundi það felast í frv., að mönnum væri gert erfiðara fyrir að höfða mál. Ég held fyrir mitt leyti, að því sé alls ekki þannig farið. Að vísu er undirbúningur undir mál gerður nokkru flóknari en verið hefur fram að þessu og strangari kröfur gerðar til samningar stefnu og til þess að aðilar hafi yfirleitt gert mál sitt rækilega úr garði, en ég held, að hins vegar verði þær strangari reglur, sem gerðar eru til að byrja mál, aðeins til þess að fækka málum um fánýt efni, en alls ekki sé öllum almenningi gert erfiðara fyrir að ná rétti sínum með þeim.

Hv. 2. þm. Reykv. ræddi um það hér, hvort eðlilegt væri, að þetta mál yrði afgreitt hér á þessu þingi. Ég fyrir mitt leyti tel ekki neitt mæla gegn því, a.m.k. vil ég benda á, að það væri algerlega óstætt á því fyrir þá n., sem hafði málið til meðferðar, að afgreiða það ekki frá sér með nefndaráliti.