24.10.1955
Neðri deild: 9. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í C-deild Alþingistíðinda. (1593)

51. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Fyrir nokkru var skipuð nefnd til þess að íhuga lög nr. 60 1939, um gjald af innlendum tollvörutegundum. Í nefndinni var einn fulltrúi frá Félagi íslenzkra iðnrekenda, en hinir tveir voru frá fjármálaráðuneytinu. Nefndin skilaði áliti, en varð ekki sammála, þannig að fulltrúi Félags íslenzkra iðnrekenda skilaði minnihlutaáliti.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er aðallega byggt á áliti meiri hlutans með nokkrum viðbótartill., sem komið hafa frá tollstjóranum í Reykjavik. Efni þessa frv. er nokkur ákvæði til tryggingar eftirliti með þessari framleiðslu og eftirliti með því, að réttmæt gjöld séu af henni greidd, og svo á hinn bóginn ákvæði um að fella niður viðaukana, sem sífellt hafa verið framlengdir frá ári til árs á þessi gjöld, en gert ráð fyrir að setja í staðinn ákvæði um gjald jafnhátt stofngjaldinu eins og það er nú og viðaukunum.

Ég leyfi mér að leggja til, að málinu verði vísað til hv. fjhn. að lokinni 1. umr.